Sýnir færslur með efnisorðinu austurríki. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu austurríki. Sýna allar færslur

sunnudagur, 21. nóvember 2021

Bóklestur í útgöngubanni

Kápan af Living on Paper: Letters from Iris Murdoch 1934-1995 · Lísa Stefan


Á föstudaginn trítlaði ég út á pósthús og fann um sjöhundruð síðna doðrant með bréfum Irisar Murdoch í hólfinu, Living on Paper: Letters from Iris Murdoch 1934-1995. Upphaflega keypti ég bókina til að setja undir jólatréð, gjöf frá mér til mín, en í staðinn verður hún útgöngubannsbókin mín. Bók með hlutverk.

Það hefur varla farið fram hjá neinum að á morgun verður öllu skellt í lás í Austurríki vegna hárrar tíðni COVID-smita. Það er óhætt að segja að stemningin sé sérkennileg þessa dagana og ég held að ég sé ekki ein um að glíma við lokanaleiða. Ég hafði hlakkað til að klára skólaönnina og njóta þess í desember að rölta um jólaskreyttar götur Linz, kíkja í bókabúðir og setjast niður á notalegum kaffihúsum. Að vísu er gert er ráð fyrir afléttingum fyrir jól en þá má búast við mannmergð í miðborginni, sem ég kæri mig lítið um þó að ég sé bólusett. Kosturinn við útgöngubann er sá að nægur tími gefst fyrir bóklestur og kósíheit heima fyrir. Mín bíður góður bunki þannig að ég get ekki kvartað.
Lestur um menningu og menningararf · Lísa Stefan


Það verður enginn bókaskortur í þessu banni því í hillunum leynist margt ólesið. Nýverið var ég stödd í bókabúð og keypti tvær þýskar, meðal annars Medea. Stimmen eftir Christu Wolf (1929-2011). Ég hef aldrei lesið verk eftir hana. Ég var í skapi fyrir gríska goðafræði því í kaffipásum á þessu hausti hef ég teygt mig í Mythos eftir Stephen Fry. Þvílík skemmtilesning, hann er svo orðheppinn. Ég hef líka verið að lesa íslenskar esseyjur í bókinni Póetík í Reykavík: Erindi 14 höfunda (ritstj. Kjartan Már Ómarsson). Einn höfundanna, Margrét Bjarnadóttir, sendi mér óvænt eintak en hún gaf út bókina Orðið á götunni, sem ég fletti reglulega mér til skemmtunar (sjá № 14 bókalista). Bækurnar þrjár verða á næsta bókalista sem ég hef ekki enn deilt á blogginu sökum anna.

Pasta og lærdómur · Lísa Stefan
Klassík lærdómspása með grænmetispasta

Bókabúð á Linz Hauptplatz: Alex Buchhandlung · Lísa Stefan
Anddyri bókabúðarinnar Alex Buchhandlung

Ein bókabúðin í Linz heitir Alex Buchhandlung og er staðsett á Der Linzer Hauptplatz, aðaltorgi sem er rétt við meginbrúna yfir Dóná. Þetta er lítil verslun með gríðarlegt magn þýskra bóka. Ég var næstum því búin að kaupa þar Fischer-útgáfu af dagbókum Franz Kafka en hugsaði með mér að þýskan mín væri kannski ekki nógu góð til að virkilega njóta lesturins. Ég lét hana því bíða og ákvað að fyrst skyldi ég lesa eina ólesna í hillunum mínum sem inniheldur sögurnar Málsóknin og Umskiptin. Ég hef lesið þá síðari í íslenskri þýðingu en aldrei lesið Kafka á þýsku.
Kápan af sögum Kafka í þýskri útgáfu (Fischer) · Lísa Stefan




fimmtudagur, 29. júlí 2021

№ 28 bókalisti | Oh, Vienna ...

№ 28 bókalistinn: Bókabunki með Matisse í baksýn · Lísa Stefan


Þá er komið að nýjum bókalista. Mér finnst eitthvað afskaplega hrífandi við þennan bókabunka. Ég vissi ekki hvaða bók ég ætti að byrja á (er að að venja mig af því að lesa margar í einu) en valdi endanlega Max Perkins eftir A. Scott Berg, sem hlaut National Book Award verðlaunin árið 1980. Þetta er ævisaga eins mikilvægasta ritstjóra 20. aldar, bók um bækur og listina að skrifa. Perkins ritstýrði m.a. þeim F. Scott Fitzgerald, Ernest Hemingway, Thomas Wolfe og Marjorie Kinnan Rawlings. Vitandi að The Great Gatsby varð klassík er það allt að því með ólíkindum að lesa bréfin sem Perkins bárust frá Fitzgerald fyrir útgáfu hennar árið 1925, full efasemda, einkum um titilinn. Áhyggjur hans reyndust því miður sannar því bókin seldist illa í samanburði við hans fyrstu, This Side of Paradise (1920). Ef elsku karlinn - old sport - hefði nú bara vitað hver örlög hennar yrðu.

№ 28 bókalisti:

1  Essayism  · Brian Dillon
2  This Little Art  · Kate Briggs
3  Forty-one False Starts: Essays on Artists and Writers  · Janet Malcolm
4  Shuggie Bain  · Douglas Stuart
5  Unquiet  · Linn Ullmann
6  Max Perkins: Editor of Genius  · A. Scott Berg
7  The Lost: A Search for Six of Six Million  · Daniel Mendelsohn

Ensk þýðing: 5) Unquiet: Thilo Reinhard

Bókabúðin Shakespeare & Company í Vínarborg · Lísa Stefan
Bókabúðin Shakespeare & Company í Vínarborg

Í síðustu bókalistafærslu sagði ég ykkur frá þeim takmörkunum sem við búum við í Austurríki vegna kófsins. Sumarið væri öðruvísi og líklega meira um lestarhopp ef hægt væri að skella sér á kaffihús eða út að borða hvenær sem er. En hvergi er hægt að setjast niður án vottorðs um neikvæða skimun og því þarf að plana allt með fyrirvara. Nýverið kom elsta dóttirin ásamt hollenskum kærasta í heimsókn og við eyddum m.a. degi í Vínarborg. Við fórum á Belvedere-safnið, heilsuðum Napóleon, eða Napí eins og við kölluðum hann, og störðum hvað lengst á Kossinn hans Klimts. Þrömmuðum svo um borgina, nutum hádegisverðar í almenningsgarði og enduðum í gyðingahverfinu þar sem enska bókabúðin Shakespeare & Company er til húsa, nánar tiltekið á Sterngasse. Ég elska þetta hverfi í Vín þannig að ég leyfi félögunum í Ultravox að eiga síðasta orðið, Oh, Vienna ...



föstudagur, 26. mars 2021

Leikskáldið Thomas Bernhard og hvíta Austurríki

Kápan af „Heldenplatz“ eftir leikskáldið Thomas Bernhard · Lísa Stefan


Þið sem fylgist með bókauppfærslum mínum á Instagram (@lisastefanat) vitið að í flestum tilfellum skrifa ég ekki langan texta, auk þess sem ég hvorki afrita hann né deili á bloggunum. Stundum nota ég sömu myndir og búið. En í gær skrifaði ég smá hugleiðingar um upplifun mína af Austurríki sem mig langar að halda til haga hér. Um leið fáið þið að kíkja á næsta bókalista en á honum verður leikritið Heldenplatz eftir austurríska rithöfundinn Thomas Bernhard, sem ég mun líklega fjalla um í Lestrarkompufærslu síðar meir. (Ég nefni heimsfaraldurinn og til útskýringar vil ég benda á að reglurnar hér hafa verið strangari en á Íslandi. Í langan tíma ríkti hér útgöngubann og varla nokkuð opið nema matvörubúðir og apótek.) Þar sem ég nota ensku á Instagram þá snaraði ég þessu yfir á íslensku og bætti einnig við nokkrum hornklofum og tenglum:

Thomas Bernhard (1931-1989) er austurrískt leikskáld og rithöfundur sem ég hef enn ekki lesið. Ég keypti hjá Suhrkamp leikrit hans Heldenplatz (1988) fyrir næsta bókalista en það skrifaði hann þegar fimmtíu ár voru liðin frá því að Austurríki var innlimað í Þýskaland Hitlers [á þýsku kallað Anschluss og átti sér stað 12. mars 1938]. Meginþema verksins er gyðingahatur.

Ég hef valið að setjast að í Austurríki og er þeirrar skoðunar að bókmenntir séu ein besta leiðin til að læra um sögu og menningu þjóðar. Þá á ég við það sem ekki finnst í sögubókum. Sá tími sem ég hef búið hér hefur einkennst af heimsfaraldri sem takmarkað hefur þann möguleika að vera á ferðinni og innan um fólk.

Þeir Austurríkismenn sem ég hef hitt eru mjög vinalegir [íslenskan á bara þetta karllæga orð yfir þjóðina, þetta á að sjálfsögðu við konur líka]. En það hefur ekki farið fram hjá mér að í tímaritum birtist Hvít þjóð [með stórum staf til áherslu]. Hvort það er með ráðum gert get ég ekki sagt til um. Ég er hvít á hörund og hef enga reynslu af kynþáttafordómum, en hef setið á biðstofum og flett austurrískum tímaritum sem sýna hina fullkomnu mynd af ríkri þjóð, fallegu landslagi og hvítu fólki. Mikið af hvítu fólki. Ég hef leitað og talið: Í einu tímariti fann ég hópmynd með einni asískri konu og litla mynd af svörtum manni í öðru. Ég velti því fyrir mér hvort fólk af austurrískum uppruna taki yfir höfuð eftir þessu.

Hvað um það, leikrit Bernhards, sem margir Austurríkismenn áttu erfitt með að kyngja, er ein leið fyrir mig að æfa þýskuna í heimsfaraldrinum. (Bloomsbury gaf það út í enskri þýðingu eftir Meredith Oakes.)

Til að bæta við hugrenningar gærdagsins þá geri ég mér grein fyrir því að Austurríkismenn að uppruna eru í meirihluta, um 80%, en ég hefði haldið að vitundarvakning hefði átt sér stað í ljósi sögunnar og með aukningu innflytjenda. Nú hef ég búið í nokkrum Evrópulöndum og kannski fór þessi hvíta ímynd fram hjá mér í tímaritum þar. Ég held samt ekki. Ég man ekki til þess að svona hvítur veruleiki hafi blasað við mér. Ég fann annars áhugaverða grein á vefsíðu The Irish Times frá árinu 2018 sem kallast Vienna is ranked world’s ‘most liveable city’, but for whom? (með undirfyrirsögninni: For some of my immigrant friends here, the welcome has been far from warm). Ástandið í Vínarborg er í brennidepli og greinarhöfundur dregur upp allt aðra mynd en hvíta, af fjölþjóðasamfélagi sem tímaritin sem ég hef flett virðast ekki reyna að höfða til.

Vorið er annars komið með sól og sautján gráðum þannig að ekki skal kvarta yfir austurrísku veðurfari.



þriðjudagur, 31. desember 2019

Gleðilegt ár

Traunsee, Gmunden, Austurríki - ljósmyndari Margret Asmund


Megi nýja árið færa ykkur gleði og frið, kæru blogglesendur!

mynd eftir elstu dótturina
- tekin 29/12/2019 við Traunsee, Gmunden, Austurríki



fimmtudagur, 26. september 2019

Gæðastundir í Austurríki

Landslag við vatnið Traunsee, Austurríki · Lísa Stefan


Ég hef ég ekki lagt það í vana minn að blogga myndum sem ég deili á Instagram, fyrir utan eina og eina, en síðustu mánuði hefur tíminn til að blogga verið takmarkaður og mikið hefur gerst: Við fluttum nýverið til Austurríkis, báðar dæturnar hófu háskólanám erlendis á þessari haustönn og ég sjálf ákvað að skipta um gír: ég byrjaði í meistaranámi í safnafræði sem Háskóli Íslands býður upp á í fjarnámi. Kennslubækur, fyrirlestrar og verkefni halda mér upptekinni en mér fannst bloggið þurfa á uppfærslu að halda og ákvað að nota myndir úr safninu, af Traunsee-svæðinu og bókabúð í Vín ásamt námstengdum kyrralífsmyndum.

Ég var að koma í fyrsta sinn til Traunsee-svæðisins og gleymi ekki augnablikinu þegar vatnið blasti við mér. Landslagið er svo fallegt að mann verkjar í hjartað. Við keyrðum í gegnum lítil þorp á sólríkum sunnudegi, snæddum hádegisverð við vatnið í Altmünster og þar á eftir fórum við til Gmunden. Eilítið síðar var okkur boðið í garðveislu í Gmunden þar sem við sátum í hlíð undir berum himni með vatnið í augnsýn, og Traunstein-fjallið svo nálægt að það var sem við gætum teygt út höndina og snert það.
Bókin „I Remain in Darkness“ eftir Annie Ernaux (Fitzcarraldo) · Lísa Stefan


Ég elska að finna bækur frá útgefendum í póstkassanum. Starfsfólk Fitzcarraldo Editions var svo elskulegt að senda mér I Remain in Darkness eftir Annie Ernaux sem kom út í Bretlandi í síðustu viku (ensk þýðing úr frönsku eftir Tanya Leslie). Ég lýsti bókinni með þessum hætti á Instagram: „Þetta er frásögn höfundar um þá reynslu að missa móður sína úr Alzheimer. Þessi stutta bók er kröftug, full af hráum, sársaukafullum tilfinningum. Stundum þarf ég að taka mér hlé frá lestrinum til að meðtaka eina setningu, eða aðeins eitt orð.“ Bókin verður á næsta bókalista.
Bókabúðin Shakespeare & Co., Sterngasse, Vín · Lísa Stefan


Eftir að hafa fylgt elstu dótturinni á flugvöllinn í Vín einn morgun nýtti ég restina af deginum í borginni. Það var orðið ansi langt síðan ég kom til Vínar og mitt fyrsta verk var að skella mér í neðanjarðarlestina. Ég fór út á Schwedenplatz og rölti í áttina að Sterngasse í Gyðingahverfinu, þar sem má finna bókabúð sem selur enskar bækur, Shakespeare & Co. (ekki útibú frá þeirri í París). Búðin er gamaldags í útliti og lítil en úrval bóka er merkilega gott.

Bókabúðin Shakespeare & Co., Sterngasse, Vín · Lísa Stefan
Ensk bókabúðin Shakespeare & Co. á Sterngasse í Vín

Ég rölti aðeins um hverfið, síðar eftir götunum Fleischmarkt og Postgasse í austurátt. Allt iðaði af lífi, alls staðar sat fólk úti í sólinni á litlum kaffi- og veitingahúsum. Yndisleg stemning, einkar evrópsk, hvernig svo sem það kann að hljóma. Ég greip sushi og settist á bekk í Stadtpark undir skugga trés og fylgdist með mannlífinu. Ég tók svo stefnuna í suðurátt að Belvedere-höllinni, spókaði mig aðeins um og naut fegurðarinnar. Í þetta sinn fór ég ekki á Belvedere-safnið; ég hef komið þangað áður og hafði lofað eldri dótturinni að fara með henni einn daginn að kíkja á Kossinn eftir Gustav Klimt og fleiri verk.
Námsmannalíf · Lísa Stefan


Þar sem námið mun halda mér upptekinni gefst minni tími fyrir annan lestur og bókamyndatökur. Bráðum ætla ég þó að deila nýjum bókalista. Ég er með nokkrar hugmyndir um hvernig ég get haldið blogginu meira lifandi á meðan ég er í námi og ein er að byrja með nýjan flokk með bókarkápum. Mig langar að gefa sumum kápum varanlegan sess á blogginu, einkum til að hrósa fallegri bókahönnun. Svo eru nokkrar færslur sem mér finnst ég skulda, þá aðallega lestrarkompufærslur. Ef ykkur finnst lítið gerast á blogginu þá getið þið alltaf kíkt á @lisastefanat en þar deili ég aðallega bókamyndum af og til.