Sýnir færslur með efnisorðinu thomas bernhard. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu thomas bernhard. Sýna allar færslur

þriðjudagur, 22. mars 2022

№ 30 bókalisti: Proust að vori

№ 30 bókalisti: bókabunki; Marcel Proust, Lydia Davis, Siri Hustvedt · Lísa Stefan


Vorið er komið og því löngu tímabært að uppfæra bloggið með nýjum bókalista. Ég deildi þeim síðasta í janúar en mér til varnar þá er ég virkari á Instagramsíðunni minni sem snýst um bækur. Í góðan áratug hef ég ætlað að lesa hinn franska Marcel Proust, meistaraverkið À la recherche du temps perdu (Í leit að týndum tíma; In Search of Lost Time), og lét verða af því nýverið að kaupa enska þýðingu, fyrsta bindið af fjórum frá bókaútgáfunni Everyman’s Library. Skáldverkið samanstendur af sjö bókum og bindið inniheldur Swann’s Way (fr. Du côté de chez Swann), sem flestir þekkja, og fyrri partinn af Within a Budding Grove (fr. À l'ombre des jeunes filles en fleurs). Eftir að hafa lesið nokkrar síður finn ég strax að sögumaðurinn heillar mig og ríkur prósinn líka. Proust að vori verður ánægjuleg afþreying.

№ 30 bókalisti:

1  Essays Two  · Lydia Davis
2  Swann's Way  · Marcel Proust
3  What I Loved  · Siri Hustvedt
4  Der Untergeher  · Thomas Bernhard [þýsk]
5  The Makioka Sisters  · Jun'ichirō Tanizaki [endurlestur]

Ensk þýðing: 1) Swann's Way: C. K. Scott Moncrieff and Terence Kilmartin;
5) The Makioka Sisters: Edward G. Seidensticker

Það má segja að Essays Two eftir Lydiu Davis hafi ýtt við mér að lesa Proust því hún er höfundur nýjustu ensku þýðingarinnar á Swann's Way og fjallar um það verkefni í nokkrum esseyjum. (Þýðingin sem ég er að lesa er mun eldri en hefur verið uppfærð.) Þetta safn ritgerða er það fyrsta sem ég les eftir Davis og einnig er ég að lesa skáldverk eftir Siri Hustvedt í fyrsta sinn. Það vill svo skemmtilega til að Hustvedt hefur verið gift rithöfundinum Paul Auster (4 3 2 1, New York þríleikurinn) í fjörutíu ár, en Davis er fyrrverandi eiginkona hans.

Ég hef minnst á það áður að í hvert sinn sem bók veldur mér það miklum vonbrigðum að ég klára hana ekki að þá endurles ég einhverja uppáhaldsbók. Á síðasta lista var My Brilliant Friend eftir Elenu Ferrante, fyrsta bókin í Napólí-fjórleik hennar, í enskri þýðingu. Ég virkilega reyndi en gafst endanlega upp á 20. kafla. Hvorki söguþráðurinn né persónurnar höfðuðu til mín og mér fannst stíllinn einkennast af endurtekningum. Til að bæta mér þetta upp ákvað ég að endurlesa The Makioka Sisters, klassískt verk eftir hinn japanska Tanizaki. Það er notalegt að verja tíma með Systrunum fyrir svefninn.

Listaverk: Richard Diebenkorn, Untitled, 1981
Richard Diebenkorn, Untitled, 1981

Richard Diebenkorn listaverk af @diebenkornfoundation



föstudagur, 7. janúar 2022

№ 29 bókalisti: nýja árið byrjar með Woolf

№ 29 bókalisti: Póetík í Reykjavík, Woolf og Murdoch · Lísa Stefan


Gleðilegt ár! Ég áttaði mig á því í vikunni að ég steingleymdi nýárshefðinni minni, að lesa bókina Little Women inn í nýja árið. Þessi hefð byrjaði í Skotlandi; ég las nokkrar síður eða kafla um áramót á meðan aðrir fögnuðu með flugeldum eða hverju sem er. Í ár horfði ég á flugeldana með syninum en Austurríkismenn eru ansi sprengjuglaðir. Ég bætti upp fyrir gleymskuna með því að horfa á mynd Gretu Gerwig (2019) eftir bókinni, með þeim Saoirse Ronan, Florence Pugh og Timothée Chalamet í aðalhlutverkum. Stórfín mynd. Nýársmorgun byrjaði ég slök á legubekknum í náttbuxum og kimono, með kaffi og fjórða bindi af dagbók Virginiu Woolf, sem hefst árið 1931. Þið finnið hana á nýjum bókalista.

№ 29 bókalisti:

1  My Brilliant Friend  · Elena Ferrante
2  The Diary Of Virginia Woolf, Volume 4 1931-35 
3  Mrs Dalloway  · Virginia Woolf [endurlestur]
4  Mythos: The Greek Myths Retold  · Stephen Fry
5  Wittgensteins Neffe: Eine Freundschaft  · Thomas Bernhard [þýsk]
6  Póetík í Reykjavík: Erindi 14 höfunda 
7  Living on Paper: Letters from Iris Murdoch 1934-1995  · ritstj. Avril
Horner og Anne Rowe

Ensk þýðing: 1) My Brilliant Friend: Ann Goldstein

Listinn hefur tekið mörgum breytingum. Stephen Fry og íslensku erindin fjórtán eru einu verkin sem voru á þeim upprunalega sem átti að birtast í haust. Ég veit ekki ástæðuna, líklega blanda af önnum í skólanum og eirðarleysi, en ég var sífellt að breyta honum; las nokkrar síður í bók, jafnvel nokkra kafla, sem mig langaði að setja á listann en hafði svo lagt hana til hliðar stuttu síðar. Það að langa að lesa bók nægir mér stundum ekki, fyrir lestur sumra bóka þarf staður og stund að vera hárrétt.

Bókin Póetík í Reykjavík: Erindi 14 höfunda · Lestur & Latte blogg
Í haust fann ég óvænt í póstinum eintak af Póetík í Reykjavík: Erindi 14 höfunda (ritstj. Kjartan Már Ómarsson), sem einn þeirra, Margrét Bjarnadóttir, var svo væn að gefa mér. Hún er að fikra sig áfram í ritlist og á fínt erindi í bókinni. Hún er systir vinkonu minnar og höfundur Orðsins á götunni (№ 14), sem er ein sú skemmtilegasta bók sem ég hef lesið. Það er alltaf gaman að lesa íslenskar bækur, tala nú ekki um að finna þær í póstkassanum. Af þessum 14 esseyjum fannst mér sú eftir Steinunni Sigurðardóttur, Orðin, orðin, orðin, bera af. Ég væri til í að lesa meira í þessum anda eftir Steinunni. Hún byrjar á að vísa í Samuel Beckett - „Orð eru allt sem við eigum“ - og síðar í uppáhaldið mitt Virginiu Woolf og Irisi Murdoch, sem hún tók viðtal við árið 1985 fyrir sjónvarpið. Stöllurnar Woolf og Murdoch eru á bókalistanum þannig að kannski ætti það ekki að koma á óvart að efniviður Steinunnar höfðaði mest til mín. Sumt í þessu safni fannst mér annars langdregið og hreint út sagt leiðinlegt.
№ 29 bókalisti: bækur og kaffi · Lísa Hjalt


Ég fékk dásamlegar bækur í jólagjöf sem rata á næstu lista og gaf sjálfri mér nokkrar, m.a. notaðar sem líta út eins og nýjar. Meðal þeirra voru fyrstu tvær bækurnar í Napólí-fjórleik hinnar ítölsku Elenu Ferrante, sem er höfundarnafn eins og flestir ættu að vita. Ég keypti líka Everyman's Library útgáfu bókarinnar The Makioka Sisters eftir hinn japanska Jun'ichirō Tanizaki (№ 6). Hún er ein af mínum uppáhaldsbókum.

Richard Diebenkorn, Untitled, 1949
Richard Diebenkorn, Untitled, 1949

Diebenkorn listaverk af aðdáendasíðu



sunnudagur, 20. júní 2021

№ 27 bókalisti: Erpenbeck, Stepanova og Roth

Á № 27 bókalistanum mínum eru verk eftir Erpenbeck og Stepanova ásamt ævisögu Philips Roth · Lísa Stefan


Í bloggfærslu í apríl lofaði ég nýjum bókalista að loknum lestri á þriðja sjálfsævisögubindi Simone de Beauvoir. Það loforð sveik ég með stæl því stuttu síðar fékk ég óvænt verkefni í hendurnar. Þrátt fyrir annir hef ég haldið uppi góðri lestrarrútínu sem hefst eldsnemma á morgnana með kaffibollanum: er búin með bók Jenny Erpenbeck, vel hálfnuð með bæði Mariu Stepanovu og ævisögu Philips Roth og byrjuð að lesa allar hinar. Hvort sem þið trúið því eða ekki þá er ég að lesa Jón Kalman í fyrsta sinn. Fyrir tveimur árum setti ég The Years eftir Annie Ernaux í uppáhaldsflokkinn en nýverið gaf ég vinkonu eintak og hreinlega varð að lesa hana aftur.

№ 27 bókalisti:

1  Philip Roth: The Biography  · Blake Bailey
2  In Memory of Memory  · Maria Stepanova
3  Not a Novel: Collected Writings and Reflections  · Jenny Erpenbeck
4  The Radetzky March  · Joseph Roth
5  Heldenplatz  · Thomas Bernhard [þýsk]
6  Himnaríki og helvíti  · Jón Kalman Stefánsson
7  The Years  · Annie Ernaux [endurlestur]

Ensk þýðing: 2) In Memory of Memory: Sasha Dugdale; 3) Not a Novel: Kurt Beals;
4) The Radetzky March: Joachim Neugroschel; 7) The Years: Alison L. Strayer

Ef þið fylgist með bókafréttum þá hafa örlög ævisögunnar um Philip Roth varla farið fram hjá ykkur, bók sem margir biðu spenntir eftir. Í kjölfar ásakana um kynferðislega misnotkun gegn höfundinum Bailey, stöðvaði útgefandinn, W. W Norton & Company, dreifingu bókarinnar og tók hana endanlega af markaði (Bailey, sem hefur ekki verið fundinn sekur fyrir dómstólum, hefur þegar fundið nýjan útgefanda). Ég pantaði bókina fyrirfram, löngu áður en þessar fréttir bárust, og held að ég hefði keypt hana þrátt fyrir allt þar sem ég get alveg aðskilið listina frá listamanninum. Heimildaöflun er viðamikil og bókin vel skrifuð (Roth valdi Bailey sérstaklega til verksins) en ég viðurkenni að stundum kemur upp í hugann Af hverju þarf ég að vita þetta? þegar fjallað er um kynlíf Roths í smáatriðum.

Not a Novel var mín fyrsta bók eftir Erpenbeck, sem er einn af stóru rithöfundunum í Þýskalandi í dag. Þetta er ensk þýðing á óskálduðu efni eftir hana en gallinn er sá að þýðingin inniheldur einungis brot af upprunalega verkinu, Kein Roman, sem er helmingi lengra. Ég naut lestursins en stundum fannst mér efni endurtekið og í lokin upplifði ég eins konar gjá; þessi styttri útgáfa náði ekki að koma heilsteyptu verki til skila. Ég hef ég ekki lesið bókina á frummálinu en bæti úr því þegar þýskan er orðin betri.

Kápan á Philip Roth: The Biography eftir Blake Bailey (W. W. Norton) · Lísa Stefan
Kápa bókarinnar Philip Roth: The Biography eftir hinn núna-alræmda Blake Bailey

Rúm fimm ár eru liðin síðan ég deildi fyrsta bókalistanum og þar sem ég vel bækurnar vandlega þá hafa bara nokkrar valdið vonbrigðum. Á síðasta lista var safn stuttra ritgerða eftir Vivian Gornick sem ég get ekki mælt með: Unfinished Business: Notes of a Chronic Re-reader. Inngangurinn höfðaði vel til mín, og jók líklega væntingar mínar, en þegar ég las áfram þá varð það deginum ljósara að ég og Gornick erum mjög ólíkir lesendur: hún einblínir mjög á persónusköpun og virðist mjög upptekin af misheppnuðum ástarsamböndum í skáldskap. Þessi nálgun reyndi á þolinmæði mína. Í ritgerðunum opinberaðist ákveðin þversögn því Gornick er virkur femínisti og tónn skrifanna gaf mér ekki mynd af sterkri konu. Mér líkaði ein ritgerð um ítölsku skáldkonuna Nataliu Ginzburg, sem er enn á langar-að-lesa listanum mínum. Á þeim lista eru enn nokkur verk eftir Gornick en í sannleika sagt finn ég núna litla löngun til að forgangsraða þeim.

Peoníur og bókabunki á skrifborðinu mínu · Lísa Stefan


Lokunum í Austurríki vegna COVID-19 hefur loksins verið aflétt eftir stöðugar framlenginar frá síðasta hausti. Við erum enn skyldug til að nota FFP2-grímur og búum enn við takmarkanir, t.d. þarf vottorð um neikvæða skimun eða bólusetningu til að fara á kaffihús og veitingastaði. Nýverið fór ég í fyrstu bólusetninguna og fer í þá næstu eftir nokkrar vikur og mun þá loksins geta fengið mér latte hvenær sem er. Ég bið ekki um meira. Þangað til heldur lífið áfram að vera frekar lokunarlegt, eða lockdowny eins og ég kalla það á ensku.



föstudagur, 26. mars 2021

Leikskáldið Thomas Bernhard og hvíta Austurríki

Kápan af „Heldenplatz“ eftir leikskáldið Thomas Bernhard · Lísa Stefan


Þið sem fylgist með bókauppfærslum mínum á Instagram (@lisastefanat) vitið að í flestum tilfellum skrifa ég ekki langan texta, auk þess sem ég hvorki afrita hann né deili á bloggunum. Stundum nota ég sömu myndir og búið. En í gær skrifaði ég smá hugleiðingar um upplifun mína af Austurríki sem mig langar að halda til haga hér. Um leið fáið þið að kíkja á næsta bókalista en á honum verður leikritið Heldenplatz eftir austurríska rithöfundinn Thomas Bernhard, sem ég mun líklega fjalla um í Lestrarkompufærslu síðar meir. (Ég nefni heimsfaraldurinn og til útskýringar vil ég benda á að reglurnar hér hafa verið strangari en á Íslandi. Í langan tíma ríkti hér útgöngubann og varla nokkuð opið nema matvörubúðir og apótek.) Þar sem ég nota ensku á Instagram þá snaraði ég þessu yfir á íslensku og bætti einnig við nokkrum hornklofum og tenglum:

Thomas Bernhard (1931-1989) er austurrískt leikskáld og rithöfundur sem ég hef enn ekki lesið. Ég keypti hjá Suhrkamp leikrit hans Heldenplatz (1988) fyrir næsta bókalista en það skrifaði hann þegar fimmtíu ár voru liðin frá því að Austurríki var innlimað í Þýskaland Hitlers [á þýsku kallað Anschluss og átti sér stað 12. mars 1938]. Meginþema verksins er gyðingahatur.

Ég hef valið að setjast að í Austurríki og er þeirrar skoðunar að bókmenntir séu ein besta leiðin til að læra um sögu og menningu þjóðar. Þá á ég við það sem ekki finnst í sögubókum. Sá tími sem ég hef búið hér hefur einkennst af heimsfaraldri sem takmarkað hefur þann möguleika að vera á ferðinni og innan um fólk.

Þeir Austurríkismenn sem ég hef hitt eru mjög vinalegir [íslenskan á bara þetta karllæga orð yfir þjóðina, þetta á að sjálfsögðu við konur líka]. En það hefur ekki farið fram hjá mér að í tímaritum birtist Hvít þjóð [með stórum staf til áherslu]. Hvort það er með ráðum gert get ég ekki sagt til um. Ég er hvít á hörund og hef enga reynslu af kynþáttafordómum, en hef setið á biðstofum og flett austurrískum tímaritum sem sýna hina fullkomnu mynd af ríkri þjóð, fallegu landslagi og hvítu fólki. Mikið af hvítu fólki. Ég hef leitað og talið: Í einu tímariti fann ég hópmynd með einni asískri konu og litla mynd af svörtum manni í öðru. Ég velti því fyrir mér hvort fólk af austurrískum uppruna taki yfir höfuð eftir þessu.

Hvað um það, leikrit Bernhards, sem margir Austurríkismenn áttu erfitt með að kyngja, er ein leið fyrir mig að æfa þýskuna í heimsfaraldrinum. (Bloomsbury gaf það út í enskri þýðingu eftir Meredith Oakes.)

Til að bæta við hugrenningar gærdagsins þá geri ég mér grein fyrir því að Austurríkismenn að uppruna eru í meirihluta, um 80%, en ég hefði haldið að vitundarvakning hefði átt sér stað í ljósi sögunnar og með aukningu innflytjenda. Nú hef ég búið í nokkrum Evrópulöndum og kannski fór þessi hvíta ímynd fram hjá mér í tímaritum þar. Ég held samt ekki. Ég man ekki til þess að svona hvítur veruleiki hafi blasað við mér. Ég fann annars áhugaverða grein á vefsíðu The Irish Times frá árinu 2018 sem kallast Vienna is ranked world’s ‘most liveable city’, but for whom? (með undirfyrirsögninni: For some of my immigrant friends here, the welcome has been far from warm). Ástandið í Vínarborg er í brennidepli og greinarhöfundur dregur upp allt aðra mynd en hvíta, af fjölþjóðasamfélagi sem tímaritin sem ég hef flett virðast ekki reyna að höfða til.

Vorið er annars komið með sól og sautján gráðum þannig að ekki skal kvarta yfir austurrísku veðurfari.