Sýnir færslur með efnisorðinu klassísk rit. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu klassísk rit. Sýna allar færslur

föstudagur, 7. janúar 2022

№ 29 bókalisti: nýja árið byrjar með Woolf

№ 29 bókalisti: Póetík í Reykjavík, Woolf og Murdoch · Lísa Stefan


Gleðilegt ár! Ég áttaði mig á því í vikunni að ég steingleymdi nýárshefðinni minni, að lesa bókina Little Women inn í nýja árið. Þessi hefð byrjaði í Skotlandi; ég las nokkrar síður eða kafla um áramót á meðan aðrir fögnuðu með flugeldum eða hverju sem er. Í ár horfði ég á flugeldana með syninum en Austurríkismenn eru ansi sprengjuglaðir. Ég bætti upp fyrir gleymskuna með því að horfa á mynd Gretu Gerwig (2019) eftir bókinni, með þeim Saoirse Ronan, Florence Pugh og Timothée Chalamet í aðalhlutverkum. Stórfín mynd. Nýársmorgun byrjaði ég slök á legubekknum í náttbuxum og kimono, með kaffi og fjórða bindi af dagbók Virginiu Woolf, sem hefst árið 1931. Þið finnið hana á nýjum bókalista.

№ 29 bókalisti:

1  My Brilliant Friend  · Elena Ferrante
2  The Diary Of Virginia Woolf, Volume 4 1931-35 
3  Mrs Dalloway  · Virginia Woolf [endurlestur]
4  Mythos: The Greek Myths Retold  · Stephen Fry
5  Wittgensteins Neffe: Eine Freundschaft  · Thomas Bernhard [þýsk]
6  Póetík í Reykjavík: Erindi 14 höfunda 
7  Living on Paper: Letters from Iris Murdoch 1934-1995  · ritstj. Avril
Horner og Anne Rowe

Ensk þýðing: 1) My Brilliant Friend: Ann Goldstein

Listinn hefur tekið mörgum breytingum. Stephen Fry og íslensku erindin fjórtán eru einu verkin sem voru á þeim upprunalega sem átti að birtast í haust. Ég veit ekki ástæðuna, líklega blanda af önnum í skólanum og eirðarleysi, en ég var sífellt að breyta honum; las nokkrar síður í bók, jafnvel nokkra kafla, sem mig langaði að setja á listann en hafði svo lagt hana til hliðar stuttu síðar. Það að langa að lesa bók nægir mér stundum ekki, fyrir lestur sumra bóka þarf staður og stund að vera hárrétt.

Bókin Póetík í Reykjavík: Erindi 14 höfunda · Lestur & Latte blogg
Í haust fann ég óvænt í póstinum eintak af Póetík í Reykjavík: Erindi 14 höfunda (ritstj. Kjartan Már Ómarsson), sem einn þeirra, Margrét Bjarnadóttir, var svo væn að gefa mér. Hún er að fikra sig áfram í ritlist og á fínt erindi í bókinni. Hún er systir vinkonu minnar og höfundur Orðsins á götunni (№ 14), sem er ein sú skemmtilegasta bók sem ég hef lesið. Það er alltaf gaman að lesa íslenskar bækur, tala nú ekki um að finna þær í póstkassanum. Af þessum 14 esseyjum fannst mér sú eftir Steinunni Sigurðardóttur, Orðin, orðin, orðin, bera af. Ég væri til í að lesa meira í þessum anda eftir Steinunni. Hún byrjar á að vísa í Samuel Beckett - „Orð eru allt sem við eigum“ - og síðar í uppáhaldið mitt Virginiu Woolf og Irisi Murdoch, sem hún tók viðtal við árið 1985 fyrir sjónvarpið. Stöllurnar Woolf og Murdoch eru á bókalistanum þannig að kannski ætti það ekki að koma á óvart að efniviður Steinunnar höfðaði mest til mín. Sumt í þessu safni fannst mér annars langdregið og hreint út sagt leiðinlegt.
№ 29 bókalisti: bækur og kaffi · Lísa Hjalt


Ég fékk dásamlegar bækur í jólagjöf sem rata á næstu lista og gaf sjálfri mér nokkrar, m.a. notaðar sem líta út eins og nýjar. Meðal þeirra voru fyrstu tvær bækurnar í Napólí-fjórleik hinnar ítölsku Elenu Ferrante, sem er höfundarnafn eins og flestir ættu að vita. Ég keypti líka Everyman's Library útgáfu bókarinnar The Makioka Sisters eftir hinn japanska Jun'ichirō Tanizaki (№ 6). Hún er ein af mínum uppáhaldsbókum.

Richard Diebenkorn, Untitled, 1949
Richard Diebenkorn, Untitled, 1949

Diebenkorn listaverk af aðdáendasíðu



laugardagur, 29. ágúst 2020

№ 24 bókalisti: endurlestur klassískra bóka

№ 24 bókalistinn minn; klassísk verk endurlesin · Lísa Stefan


Jæja, þá er haustönnin að byrja og best að deila þessum bókalista áður en verkefnaskil hefjast. Endurlestur klassískra verka einkennir listann en í byrjun sumars, þegar lítið var hægt að gera sökum heimsfaraldurs, fann ég löngun til að lesa ákveðnar bækur aftur. Ég er búin að lesa sjálfsævisögu Ednu O'Brien, Country Girl, og mæli með henni. Hún segir svo skemmtilega frá. Frásögnin kemst á flug þegar hún yfirgefur Írland og segir frá lífinu í London á 7. áratugnum; þegar hún ræðir bókmenntir og ritstörf. Ég átti oft erfitt með að leggja bókina frá mér.

№ 24 bókalisti:

1  Country Girl · Edna O'Brien
2  Lee Krasner: A Biography · Gail Levin
3  Museum Activism · ritstj. Robert R. Janes og Richard Sandell
4  The Varieties of Religious Experience · William James
5  One Hundred Years of Solitude · Gabriel García Márquez *
6  Crime and Punishment · Fyodor Dostoevsky * [hljóðbók]
7  War and Peace · Leo Tolstoy *
8  Sense and Sensibility · Jane Austen *
9  Sjálfstætt fólk · Halldór Kiljan Laxness * [RÚV]

* Endurlestur

Þessa dagana er Stríð og friður á náttborðinu. Ég skil ekki fólk sem kvartar yfir lengd bókarinnar, kaflarnir eru stuttir og mig langar alltaf að lesa „bara einn til viðbótar“. Tvímælalaust ein af mínum uppáhalds. Fyrir þennan endurlestur á Glæp og refsingu valdi ég hljóðbók, mína fyrstu. Ég virkilega naut þess að rifja upp þessa sögu með svona líka vönduðum upplestri. Þessi ánægjulega reynsla af hljóðbók varð til þess að ég hlustaði á Arnar Jónsson leikara lesa Sjálfstætt fólk eftir Nóbelsskáldið á vef RÚV og þá varð ekki aftur snúið. Laxness fór á listann.

Að öðru Nóbelsskáldi: Í sumar gaf elsta dóttirin mér í afmælisgjöf þessa fallegu innbundnu útgáfu af bók Márquez. Fyrir nokkrum árum ákvað ég að endurlesa verk hans Ástin á tímum kólerunnar og fékk strax góða tilfinningu. En eftir um 150 blaðsíður missti ég áhugann. Ég hafði greinilega breyst sem lesandi og sagan höfðaði ekki lengur til mín. Ég hafði smá áhyggjur af því að það yrði eins með Hundrað ára einsemd en svo var sem betur fer ekki.

Mig langar að minnast á bókina eftir William James (eldri bróðir Henrys). Ég vissi ekkert um hana fyrr en ég hlustaði á skemmtilegan þátt á bókahlaðvarpinu The Backlisted Podcast. John Williams hjá The New York Times Book Review var í spjalli hjá þeim um þessa bók, sem er röð fyrirlestra sem James hélt í Edinborgarháskóla árin 1901 og 1902. Þetta er áhugaverð bók, kannski eilítið þurr í byrjun sem lagast í þriðja kafla.

Ég vil þakka bókaútgáfunni Routledge fyrir safnafræðibókina á listanum, sem snýst um þá hugmynd að aðgerðastefna geti verið hluti af safnastarfi. Í bókinni eru 33 greinar eftir fleiri en 50 sérfræðinga á sviði safnafræðinnar. Ritstjórarnir tveir skrifa inngang en ég hef kynnst rannsóknum þeirra beggja í gegnum námið mitt; í einum kúrsi lásum við einmitt fræðigrein úr þessari tilteknu bók.

Museum Activism, gefin út af Routledge · Lísa Stefan
Museum Activism, published by Routledge / @lisastefanat

Þessa dagana nýt ég þess annars að fylgjast með Edinburgh International Book Festival. Þessi árlega, alþjóðlega bókmenntahátíð fer fram á netinu í ár sökum faraldursins og er öllum aðgengileg. Þvílík veisla fyrir bókaunnendur! Margar bækur hafa bæst á langar-að-lesa listann góða og ég er einkum spennt fyrir Shuggie Bain eftir hinn skoska Douglas Stuart. Þessi fyrsta skáldsaga hans komst á forvalslista Booker-verðlaunanna í ár. Það kemur í ljós um miðjan september hvort hún komist á lokalistann. Í upphafi hátíðarinnar spjallaði áðurnefndur John Williams við Stuart og aðra höfunda fyrir The New York Times Book Review og nú í vikunni var annar viðburður þar sem Stuart sat einn fyrir svörum. Virkilega einlægur rithöfundur sem gaman verður að fylgjast með í framtíðinni.



sunnudagur, 24. desember 2017

№ 13 bókalisti | Gleðilega hátíð

№ 13 bókalisti | Gleðilega hátíð · Lísa Stefan


Fyrr í vikunni lofaði ég að deila stuttum bókalista - þessi er № 13 - fyrir jólin (myndina tók ég fyrir tveimur dögum þegar ég var að pakka inn gjöfum; það sem hýasinturnar hafa vaxið síðan þá!). Á þessu augnabliki er ég í kaffipásu og fletti nýjasta tölublaði, janúar 2018, The World of Interiors, sem okkar elsta kom með frá Skotlandi. Jólaeftirréttirnir eru tilbúnir og bráðum byrjum við að undirbúa máltíð kvöldsins. Það sem ég hlakka til að setjast til borðs og borða veislumat.

№ 13 bókalisti:
1  The Underground Railroad  eftir Colson Whitehead
2  Giovanni's Room  eftir James Baldwin
3  Der Gute Mensch von Sezuan  eftir Bertolt Brecht
4  Jane Eyre  eftir Charlotte Brontë

Síðasta sumar keypti ég eintak af Giovanni's Room eftir James Baldwin og hef beðið eftir rólegri stund til að hefja lesturinn. Ef síðasta bloggfærsla fór fram hjá ykkur þá er hann nýi uppáhaldshöfundurinn minn. Það er orðinn siður hjá mér á jólunum að endurlesa eitt klassískt verk og í ár valdi ég Jane Eyre. Það eru mörg ár síðan ég las hana og á jólunum í fyrra fékk ég þessa fallegu innbundnu útgáfu frá Penguin. Hún hefur starað á mig í eitt ár og ég sver það ég heyri hana stundum hvísla, Lestu mig!  Hinar tvær bækurnar hafið þið kannski þegar séð á Instagram; Whitehead var hluti af bókagjöf frá kærri vinkonu á Íslandi og leikritið eftir Brecht var fyrsta bókin sem ég keypti á þýsku eftir flutningana (ég veit ekki hvort það hafi verið þýtt á íslenku en hér er ensk útgáfa frá Bloomsbury, The Good Person of Szechwan, í þýðingu John Willett). Ég er þegar byrjuð að lesa hana, en rólega. Mjög rólega. Þetta er mín leið til að endurheimta þýska orðaforðann minn.

Ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla og friðar á komandi ári!