Sýnir færslur með efnisorðinu richard diebenkorn. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu richard diebenkorn. Sýna allar færslur

þriðjudagur, 22. mars 2022

№ 30 bókalisti: Proust að vori

№ 30 bókalisti: bókabunki; Marcel Proust, Lydia Davis, Siri Hustvedt · Lísa Stefan


Vorið er komið og því löngu tímabært að uppfæra bloggið með nýjum bókalista. Ég deildi þeim síðasta í janúar en mér til varnar þá er ég virkari á Instagramsíðunni minni sem snýst um bækur. Í góðan áratug hef ég ætlað að lesa hinn franska Marcel Proust, meistaraverkið À la recherche du temps perdu (Í leit að týndum tíma; In Search of Lost Time), og lét verða af því nýverið að kaupa enska þýðingu, fyrsta bindið af fjórum frá bókaútgáfunni Everyman’s Library. Skáldverkið samanstendur af sjö bókum og bindið inniheldur Swann’s Way (fr. Du côté de chez Swann), sem flestir þekkja, og fyrri partinn af Within a Budding Grove (fr. À l'ombre des jeunes filles en fleurs). Eftir að hafa lesið nokkrar síður finn ég strax að sögumaðurinn heillar mig og ríkur prósinn líka. Proust að vori verður ánægjuleg afþreying.

№ 30 bókalisti:

1  Essays Two  · Lydia Davis
2  Swann's Way  · Marcel Proust
3  What I Loved  · Siri Hustvedt
4  Der Untergeher  · Thomas Bernhard [þýsk]
5  The Makioka Sisters  · Jun'ichirō Tanizaki [endurlestur]

Ensk þýðing: 1) Swann's Way: C. K. Scott Moncrieff and Terence Kilmartin;
5) The Makioka Sisters: Edward G. Seidensticker

Það má segja að Essays Two eftir Lydiu Davis hafi ýtt við mér að lesa Proust því hún er höfundur nýjustu ensku þýðingarinnar á Swann's Way og fjallar um það verkefni í nokkrum esseyjum. (Þýðingin sem ég er að lesa er mun eldri en hefur verið uppfærð.) Þetta safn ritgerða er það fyrsta sem ég les eftir Davis og einnig er ég að lesa skáldverk eftir Siri Hustvedt í fyrsta sinn. Það vill svo skemmtilega til að Hustvedt hefur verið gift rithöfundinum Paul Auster (4 3 2 1, New York þríleikurinn) í fjörutíu ár, en Davis er fyrrverandi eiginkona hans.

Ég hef minnst á það áður að í hvert sinn sem bók veldur mér það miklum vonbrigðum að ég klára hana ekki að þá endurles ég einhverja uppáhaldsbók. Á síðasta lista var My Brilliant Friend eftir Elenu Ferrante, fyrsta bókin í Napólí-fjórleik hennar, í enskri þýðingu. Ég virkilega reyndi en gafst endanlega upp á 20. kafla. Hvorki söguþráðurinn né persónurnar höfðuðu til mín og mér fannst stíllinn einkennast af endurtekningum. Til að bæta mér þetta upp ákvað ég að endurlesa The Makioka Sisters, klassískt verk eftir hinn japanska Tanizaki. Það er notalegt að verja tíma með Systrunum fyrir svefninn.

Listaverk: Richard Diebenkorn, Untitled, 1981
Richard Diebenkorn, Untitled, 1981

Richard Diebenkorn listaverk af @diebenkornfoundation



föstudagur, 7. janúar 2022

№ 29 bókalisti: nýja árið byrjar með Woolf

№ 29 bókalisti: Póetík í Reykjavík, Woolf og Murdoch · Lísa Stefan


Gleðilegt ár! Ég áttaði mig á því í vikunni að ég steingleymdi nýárshefðinni minni, að lesa bókina Little Women inn í nýja árið. Þessi hefð byrjaði í Skotlandi; ég las nokkrar síður eða kafla um áramót á meðan aðrir fögnuðu með flugeldum eða hverju sem er. Í ár horfði ég á flugeldana með syninum en Austurríkismenn eru ansi sprengjuglaðir. Ég bætti upp fyrir gleymskuna með því að horfa á mynd Gretu Gerwig (2019) eftir bókinni, með þeim Saoirse Ronan, Florence Pugh og Timothée Chalamet í aðalhlutverkum. Stórfín mynd. Nýársmorgun byrjaði ég slök á legubekknum í náttbuxum og kimono, með kaffi og fjórða bindi af dagbók Virginiu Woolf, sem hefst árið 1931. Þið finnið hana á nýjum bókalista.

№ 29 bókalisti:

1  My Brilliant Friend  · Elena Ferrante
2  The Diary Of Virginia Woolf, Volume 4 1931-35 
3  Mrs Dalloway  · Virginia Woolf [endurlestur]
4  Mythos: The Greek Myths Retold  · Stephen Fry
5  Wittgensteins Neffe: Eine Freundschaft  · Thomas Bernhard [þýsk]
6  Póetík í Reykjavík: Erindi 14 höfunda 
7  Living on Paper: Letters from Iris Murdoch 1934-1995  · ritstj. Avril
Horner og Anne Rowe

Ensk þýðing: 1) My Brilliant Friend: Ann Goldstein

Listinn hefur tekið mörgum breytingum. Stephen Fry og íslensku erindin fjórtán eru einu verkin sem voru á þeim upprunalega sem átti að birtast í haust. Ég veit ekki ástæðuna, líklega blanda af önnum í skólanum og eirðarleysi, en ég var sífellt að breyta honum; las nokkrar síður í bók, jafnvel nokkra kafla, sem mig langaði að setja á listann en hafði svo lagt hana til hliðar stuttu síðar. Það að langa að lesa bók nægir mér stundum ekki, fyrir lestur sumra bóka þarf staður og stund að vera hárrétt.

Bókin Póetík í Reykjavík: Erindi 14 höfunda · Lestur & Latte blogg
Í haust fann ég óvænt í póstinum eintak af Póetík í Reykjavík: Erindi 14 höfunda (ritstj. Kjartan Már Ómarsson), sem einn þeirra, Margrét Bjarnadóttir, var svo væn að gefa mér. Hún er að fikra sig áfram í ritlist og á fínt erindi í bókinni. Hún er systir vinkonu minnar og höfundur Orðsins á götunni (№ 14), sem er ein sú skemmtilegasta bók sem ég hef lesið. Það er alltaf gaman að lesa íslenskar bækur, tala nú ekki um að finna þær í póstkassanum. Af þessum 14 esseyjum fannst mér sú eftir Steinunni Sigurðardóttur, Orðin, orðin, orðin, bera af. Ég væri til í að lesa meira í þessum anda eftir Steinunni. Hún byrjar á að vísa í Samuel Beckett - „Orð eru allt sem við eigum“ - og síðar í uppáhaldið mitt Virginiu Woolf og Irisi Murdoch, sem hún tók viðtal við árið 1985 fyrir sjónvarpið. Stöllurnar Woolf og Murdoch eru á bókalistanum þannig að kannski ætti það ekki að koma á óvart að efniviður Steinunnar höfðaði mest til mín. Sumt í þessu safni fannst mér annars langdregið og hreint út sagt leiðinlegt.
№ 29 bókalisti: bækur og kaffi · Lísa Hjalt


Ég fékk dásamlegar bækur í jólagjöf sem rata á næstu lista og gaf sjálfri mér nokkrar, m.a. notaðar sem líta út eins og nýjar. Meðal þeirra voru fyrstu tvær bækurnar í Napólí-fjórleik hinnar ítölsku Elenu Ferrante, sem er höfundarnafn eins og flestir ættu að vita. Ég keypti líka Everyman's Library útgáfu bókarinnar The Makioka Sisters eftir hinn japanska Jun'ichirō Tanizaki (№ 6). Hún er ein af mínum uppáhaldsbókum.

Richard Diebenkorn, Untitled, 1949
Richard Diebenkorn, Untitled, 1949

Diebenkorn listaverk af aðdáendasíðu