miðvikudagur, 24. ágúst 2016

Decorative Textiles from Arab & Islamic Cultures

Bók: Decorative Textiles from Arab & Islamic Cultures · Lísa Hjalt


Fyrr í sumar fékk ég senda bókina Decorative Textiles from Arab & Islamic Cultures: Selections from the Al Lulwa Collection til umfjöllunar á ensku útgáfu bloggsins. Bókin er virkilega falleg og ég naut lestursins; mæli með henni fyrir alla sem hafa áhuga á framandi textíl og íslamskri menningu. Jennifer Wearden er höfundur texta og Jennifer Scarce skrifar inngang. Það var Altaf S. Al Sabah sem kom safninu upp til minningar um ömmu sína. Á undan formála sínum segir hún í stuttu máli að al lulwa þýði perla, sem var nafn ömmu hennar heitinnar. Forlagið Paul Holberton publishing annaðist útgáfu bókarinnar. Í fréttatilkynningu er komið inn á mikilvægi safnseignarinnar og arfleifðar hennar, en þar segir: „The Al Lulwa Collection has a heritage that reaches back well over a thousand years, and is significant both for its quality and as an illustration of the survival and adaptation of a major industry.“


Decorative Textiles from Arab & Islamic Cultures er í kiljubroti, 200 blaðsíður með 140 litmyndum. Hún skiptist í fjóra kafla: 1) Blómamynstur, 2) Geómetrísk mynstur, 3) Hið skrifaða orð, og 4) Ásaumað skraut. Textíllinn kemur frá Miðausturlöndum, Arabíuskaganum, Íran, Indlandi og Norður-Afríku. Wearden hefur skrifað flæðandi og skemmtilegar lýsingar við alla munina í bókinni. Textinn er fræðandi án þess að verða of fræðilegur og er auðgaður með sögulegum og menningarlegum smáatriðum.

Öllum lýsingum á textíl í bókinni fylgir mynd og stundum eru myndir af smáatriðum á sér síðu. Fyrir ólærða í textílhönnun, eins og mig, er það mjög áhugavert að geta skoðað nánar mótífin og mynstrin með texta Wearden til hliðsjónar. Stundum gerir hún samanburð á textílnum í bókinni og bendir á það sem er líkt og ólíkt, sem mér finnst ómetanlegt. Einstaka sinnum bendur hún á mistök í mynstrum, sem gera þau enn áhugaverðari að skoða. Bókin inniheldur einnig orðalista með teikningum af ýmsum saumum.

Smáatriði: Hluti af ábreiðu á gröf, Íran, snemma á 18. öld, bls. 140-3

Þar sem bókin barst mér til umfjöllunar á ensku útgáfu bloggsins hef ég ritdóminn ekki lengri hér. Í texta mínum í ensku bloggfærslunni er nokkuð um arabísk heiti og tilvísanir í bókina sem ég hefði hvort eð er ekki þýtt yfir á íslensku. Fyrir ykkur sem viljið lesa ritdóminn í heild sinni og sjá fleiri myndir bendi ég á færsluna á Lunch & Latte.


Decorative Textiles from Arab & Islamic Cultures:
Selections from the Al Lulwa Collection
Höf. Jennifer Wearden
Paul Holberton publishing
Kilja, 200 blaðsíður, myndskreytt
Kaupa


Khayamiya, veggteppi, Egyptaland, seint á 19. öld, bls. 174

myndir mínar | heimildir: allar ljósmyndir í bókinni eru eftir Stephanie McGehee
- til að sjá allan ritdóminn á ensku útgáfu bloggsins fylgið tenglinum hér að ofan



miðvikudagur, 17. ágúst 2016

Store Street Espresso, Bloomsbury, London

Kaffihúsið Store Street Espresso í Bloomsbury-hverfinu, London · Lísa Hjalt


Í síðustu viku brugðum við okkur til London og ég komst á sýninguna á verkum listakonunnar Georgia O'Keeffe í Tate Modern-safninu - ekki að ræða það að ég ætlaði að missa af henni! Ég þurfti á borgarferð að halda fyrir haustið. Við borðuðum á Wild Food Cafe í Neal's Yard, gengum um Covent Garden, Westminster og St. James's Park, og fórum í Whole Foods Market á Kensington High Street, sem má kalla matarheimilið okkar í London. Börnin spurðu meira að segja áður en við lögðum í hann, Við förum í WFM, er það ekki? Og við drukkum kaffi. Í hjarta Bloomsbury fékk ég besta lattebollann. Ég hafði lofað einum kaffinörd að fara á Store Street Espresso á 40 Store St (í raun í Fitzrovia-hverfinu). Þetta var loforð sem ég uppfyllti með glöðu geði á rölti okkar um Bloomsbury/Fitzrovia og kaffihúsið stóð undir væntingum mínum.



Ég var undir áhrifum Bloomsbury-hópsins þegar ég steig inn í Store St Espresso. Við höfðum gengið frá Bloomsbury St inn í Gower St og á húsi nr. 10 sá ég bláa plattann hennar lafði Ottoline Morrell. Ég vissi af honum þarna en samt tók hjartað kipp. Hún var ekki beint hluti af hópnum en hún studdi við listamenn og ef þið hafið t.d. lesið dagbækur og bréf Virginiu Woolf þekkið þið nafn Ottoline. Þetta var hugarástandið þegar ég pantaði mér latte.

Þetta var mjög hlýr og sólríkur dagur í borginni og við höfðum labbað ansi mikið þegar ég settist niður og tók fyrsta sopann, sem var himneskur. Store St Espresso er kaffihús mér að skapi. Stíllinn er mínimalískur, hrár og örlítið iðnaðarlegur. Andrúmsloftið er gott; afslappað. Gestirnir virðast vera í sínum heimi, í tölvunni, símanum eða lesandi. Sumir myndu örugglega kalla þetta stað fyrir hipstera en á meðan ég sat þarna sá ég allar týpur af fólki sem áttu það eitt sameiginlegt að njóta góðs kaffis.


Staðsetning Store St Espresso er frábær. Gatan er róleg, nálægt görðum og The British Museum. Ég hvet ykkur til að grípa kaffibolla ef þið eruð í hverfinu. Enn betra ef þið setjist niður. Það er notalegur gluggakrókur fyrir þá sem vilja fylgjast með götulífinu og í góðu veðri má sitja utandyra.
Kaffihúsið Store Street Espresso í Bloomsbury-hverfinu, London · Lísa Hjalt


Ég er ekki alveg búin með ferðina hér á blogginu en ég fékk svo sannarlega London-skammtinn minn. Hugurinn ráfar enn um götur Bloomsbury og mér er hugsað til Virginiu Woolf og vinahóps hennar. Hann ráfar líka um Tate, að dást að málverkum O'Keeffe. Til allrar lukku fór skoska sumarið í sparifötin þegar við komum heim þannig að ég gat byrjað að skrifa þetta á veröndinni með kaffibolla og klárað fyrir framan húsið, við hliðina á hortensíunum þar sem ég naut sólsetursins.

Það sem ég elska svona ágústdaga!