miðvikudagur, 13. apríl 2016

Textiles of the Islamic World eftir John Gillow

Ritdómur: Textiles of the Islamic World eftir John Gillow · Lísa Hjalt


Á jólunum fékk ég bókina Textiles of the Islamic World eftir John Gillow, sem er þekktur höfundur, fyrirlesari og safnari í textílheiminum. Fyrst fletti ég henni fram og til baka með helst til miklum ákafa, aðallega til þess að dást að myndum af glæsilegum mótífum og mynstrum, en smám saman hægði ég á mér og leyfði yfirgripsmiklu upplýsingunum að síast inn. Fyrir allt áhugafólk um textílhönnun er bókin fjársjóður, sérstaklega ef viðkomandi hefur áhuga á íslamskri menningu og dreifingu trúarinnar til ýmissa heimshorna. Textinn er ríkur af smáatriðum, til dæmis um útsaum og tækni í vefnaði, en Gillow kemst ágætlega frá of miklu upplýsingaflóði. Fyrir ólærða á sviði textílhönnunar, eins og mig, er bókin skemmtileg aflestrar og ég vona að mér takist að gefa henni sanngjarnan dóm í einni bloggfærslu. Myndirnar mínar sýna bara lítið brot þeirra efna og mynstra sem ég var sífellt að skoða á meðan lestrinum stóð. Bara lítið brot.

[Kápumynd: 17. aldar bróderaður textíll frá Ottóman-tímabilinu. Úr einkasafni. New York]

Hægri: Brúðarteppi ofið af Fulani-fólkinu fyrir Tuareg-fólkið, Vestur-Afríka, bls. 302

Textiles of the Islamic World, gefin út af Thames & Hudson árið 2013, hefur að geyma 638 myndir og skiptist í 8 hluta, eða landsvæði: 1) Ottóman-veldið, 2) Íslam á Spáni og í Norður-Afríku, 3) Arabaheimurinn, 4) Persnesku svæðin, 5) Mið-Asía, 6) Mógúlsvæðin, 7) Austur og Suðaustur-Asía, og 8) Afríka sunnan Sahara. Löndin innan hvers mynda kafla sem Gillow byrjar með stuttri kynningu áður en hann ræðir landsvæði, búninga, tækni o.s.frv. Hverjum kafla lýkur hann með stöðu textílframleiðslunnar á okkar dögum. Það bæði vekur mann til umhugsunar og gerir sorgmæddan að lesa um þá verðmætu þekkingu í vissum löndum sem er að falla í gleymsku. Áhrifanna gætir einna helst á stríðshjáðum svæðum.

Bróderaður pottahanski úr leðri og bróderað rúmteppi, Kyrgyzstan, bls. 216-7

Fyrir utan söguleg atriði í bók Gillow hef ég mestan áhuga á því að skoða mótíf og fræðast um merkingu þeirra. Það er viðfangsefni sem heillar mig. Persónulega hefði mér fundist mega vera meira um slíkar upplýsingar í bókinni; um táknræna merkingu mótífa.

Í múslimaheiminum er póst-íslamskur textíll ríkulega skreyttur og hönnunin er gjarnan abstrakt. Mynstrin eru geómetrísk, blóm eða jurtir, og á sumum textíl má sjá skrautskrifaðar áletranir, einkum í Egyptalandi. Hinn póst-íslamski textíliðnaður forðaðist hvers kyns notkun á mannlegum og guðlegum formum. Einnig dýraformum, þó með undantekningum. Í Írak má til dæmis finna úlfalda-, hana- og ljónamótíf, þar sem úlfaldinn táknar auð og hamingju, ljónið styrk og haninn sigur og dýrð (bls. 120). Svo eru það klútar fyrir afganska veiðimenn í Herat sem voru skreyttir dýrum og veiðimönnum.

Tjaldbútur með ásaumi (e. appliqué) frá Khiyammiya - Götu tjaldgerðarmannanna -
í elsta hluta Kaíró í Egyptalandi, bls. 93

Í Sádi-Arabíu hafa hinar tvær heilögu borgir Mekka og Medína mikla þýðingu fyrir múslima. Mekka var fæðingarborg Múhameðs spámanns (ca. 570-622 e.Kr.), föður íslamstrúar, sem lést í Medína. Í bókinni bendir Gillow á mikilvægi klæða í tengslum við Ka'bah-steininn, heilagasta hlutann í Mekka:
Ka'bah, betur þekkt sem ,Bait Allah' („Hús Guðs“), kallast risastór kubbur af svörtu grjóti. Á sögulegum tímum hefur steinninn fengið nýja ábreiðu á hverju ári sem nefnist „Kiswa“ („sloppur“ í bókstaflegri merkingu), sem er úr ofnu efni prýddu skrautrituðum áletrunum á arabísku og með nafni guðs bróderuðu með silfurþráðum. Sú var venjan að hún væri gjöf frá kalífanum, og á tímum Ottóman-veldsins var hún gerð í Kaíró eða Damaskus og send með mikilli viðhöfn með hinni árlegu fylkingu úlfalda sem flutti hóp pílagríma frá þessum stöðum yfir eyðimörkina til Mekka og Medína. (bls. 122)

Blokkprentað sjal frá 19. öld, Deccan-sléttan, Indland, bls. 244

Fyrir manneskju eins og mig sem er heilluð af blokkprentun (útkoman verður svo fullkomlega ófullkomin) voru kaflarnir um Indland og Bangladesh mjög áhugaverðir. Að ofan minntist ég á stríðshjáð svæði. Sýrland er eitt þeirra og ég held að sú eyðilegging sem hefur átt sér stað í fornu borginni Palmýra hafi ekki farið fram hjá neinum sem fylgist með fréttum þessa dagana. Það sem ég vissi ekki, og fannst merkilegt, er að notkun blokkprentaðra klæða í Sýrlandi megi rekja til tíma Rómaveldisins hins forna. Í Palmýra hafa fundist blokkprentuð klæði frá Indlandi sem eru frá tímum Zenóbíu drottningar. „Mynstrin á þessum forngripum eru nákvæmlega eins og mynstrin á samtíma blokkprentuðum klæðum frá Rajasthan-héraði“ (bls. 106). Hugsið ykkur, mynstrin sem notuð voru í rómversku nýlendunni Palmýra á 3. öld eru enn í notkun á Indlandi ca. 1750 árum síðar!

Vinstri: Gluggatjöld unnin úr ofnum silkiræmum, Djerba, Túnis, Norður-Afríka, bls. 73.
Hægri: Ábreiða ofin úr ræmum, Mende-fólkið, Sierra Leone og slá,
Hausa-fólkið, Nígería, bls. 295

Austur-Afríka hefur lengi verið á lista mínum yfir áfangastaði (Kenya, Tansanía, Rwanda og Úganda eru lönd sem mig langar að heimsækja) og augljóslega las ég þann kafla af miklum áhuga. Mér fannst líka gaman að bera saman textílinn í Afríku sunnan Sahara-eyðimerkurinnar við hönnunina í löndum Norður-Afríku (myndirnar tvær hér að ofan ættu að gefa ykkur mynd af þeim samanburði). Óman, á suðausturströnd Arabíuskagans, er einnig á listanum mínum. Ómanar höfðu heilmikil áhrif á menningu og klæðaburð í Austur-Afríku. Kryddeyjan Zanzibar var „um aldir útvörður Óman-veldisins“ (bls. 299) og „þegar á 10. öld e.Kr. mikilvæg miðstöð múslima“ (bls. 296). Á sjóleið viðskiptaveldis Ómana voru einnig borgin Mombasa í Kenya og eyjan Pemba (Tansanía). (Ég tók ekki myndir af textílnum (aðallega fatnaður) í kaflanum um Austur-Afríku; mér fannst textíllinn í þeim um Vestur-Afríku höfða betur til mín.)

Suzani með endurteknu bróderuðu mynstri af blómum innan um höfuð ungra hana,
Urgut, Úsbekistan, bls. 185

Suzani, Lakhai-fólkið, snemma á 19. öld, suðurhluti Úsbekistan, Mið-Asía, bls. 191

Kafli Gillow um Úsbekistan í Mið-Asíu var annar sem höfðaði til mín, sérstaklega myndirnar af suzani-veggtjöldunum, sem eru bróderuð með blómum og vínviði. Ég hefði getað ljósmyndað allan kaflann! Ég verð að bæta því við að það getur verið kúnst að taka myndir af mynstrum; stundum er svo mikil hreyfing í mynstrinu að það reynist erfitt að finna punkt sem hægt er að fókusa á. Eitt mynstranna sem allt að því dáleiddi mig var suzani frá 19. öld eftir Lakhai-fólkið, sem sést á myndinni hér að ofan (það er líka á mynd sem ég deildi einu sinni á Instagram). Lakhai-fólkið býr í Surxondaryo-héraði (einnig ritað Surkhandarya), í suðausturhluta landsins, og það „segist vera komið af Karamysh, eina bróður Ghenghis Khan sem komst lífs af" (bls. 190). Lakhai var yngsti sonur Karamysh og þaðan kemur nafnið. (Þið getið séð annað dæmi um Lakhai-suzani á Tumblr-síðunni minni.)

Hægri: Hvít chyrpy (bróderuð kápa/slá) fyrir gamla konu, Tekke-fólkið, Túrkmenistan
og málaður „veiðiklútur“, Herat, Afganistan, bls. 183

Ég hefði getað skrifað bloggfærslu um hvern hluta í bók Gillow en kaus að halda öllu í einni og hafa hana ekki of langa. Sjónræni hluti færslunnar gæti gefið ykkur ranga mynd af bókinni. Þar sem ég er hrifnari af mynstrum og mótífum í, til dæmis, mottum og veggtjöldum þá tók ég svo til engar myndir af flíkum. Í bókinni er að finna fjölmargar myndir af flíkum og aukahlutum, bæði fyrir menn og konur, sem ættu að fullnægja þeim sem hafa áhuga á íslamskri tísku og stíl.

Næstar á textílbókalistanum mínum eru tvær eftir Gillow, African Textiles: Colour and Creativity Across a Continent (hún er á vorbókalistanum mínum) og Indian Textiles (meðhöfundur Nicholas Barnard), einnig gefnar út af Thames and Hudson. Í ljósi þess hversu mikið ég naut þess að lesa þessa bók hef ég það á tilfinningunni að hinar komi til með að rata á bloggið síðar meir.

Brot af ásaumi, Molesalaam-fólkið, Kathiawar, Indland, bls. 242

myndir mínar | heimild: myndir úr bókinni sem birtast hér eru eftir Luke Gillow og Tamsin Beedle, fyrir utan: kápumynd · Clive Loveless, London | suzani bls. 191 · Longevity Studio , London | V-Afríka teppi bls. 302 · James AustinEngin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.