laugardagur, 28. maí 2016

Sveitablússan mín frá Irving & Fine

Sveitablússa frá Irving & Fine · Lísa Hjalt


Kannist þið við þá tilfinningu að halda á nýrri og sérstakri flík, hönnuð á þann máta að hún ristir dýpra; hefur merkingu? Fataskápurinn varð ríkari þegar ég eignaðist eina slíka, bróderaða sveitablússu, klassískan Tangier-kyrtil frá Irving & Fine. Þetta var óvænt gjöf frá textílhönnuðinum Lisa Fine (fyrr í mánuðinum skrifaði ég færslu um hönnun hennar), þó ég að vísu hefði hugmynd um hvað hún væri að senda mér þegar hún sagðist vilja gefa mér mest selda sveitatoppinn þeirra. Blússan barst fyrir viku og efnið er svo mjúkt viðkomu; tvöfalt létt bómullarefni, kremað með blárri bróderingu, framleitt á Indlandi. Merkið Irving & Fine er samstarf tveggja virtra textílhönnuða og vinkvenna, Lisa Fine og Carolina Irving (sjá innlit til hennar á ensku útg. bloggsins), sem hanna bróderaðar sveitablússur og kyrtla, kaftana, kápur og aukahluti. Hönnunin er innblásin af ferðalögum þeirra til framandi landa.

Þetta er óður minn til sveitablússunnar þeirra og þakklætisvottur.


Þegar ég opnaði pakkann og dáðist að blússunni í fyrsta sinn komu upp í huga mér málverk Henri Matisse af rúmenskum blússum, með mjög púffuðum ermum - sjá t.d. verkin Rúmenska blússan, 1940, og Græna rúmenska blússan, 1939. Hann ferðaðist til Morokkó og heillaðist af borginni Tangier, sem var viðfangsefni nokkurra verka hans. Frá Matisse í Tangier, hugfangin af blússunni, reikaði hugurinn til tískuhönnuðarins Yves Saint Laurent, sem átti hús í Morokkó; eitt í Tangier. Hátískulína YSL haustsins/vetursins 1980-81 var innblásin af verkum Matisse og ein flíkin var rúmenska blússan (sjá mynd nr. 3), nákvæm eftirmynd þeirrar í málverki Matisse frá 1940.

Við undirbúning þessarar færslu fann ég stutt viðtal við Lisa Fine. Þegar hún var spurð út í innblásturinn að flíkum Irving & Fine svaraði hún: „Austur-Evrópskir þjóðbúningar og frá tímum Ottóman-veldisins og gömul hönnun Yves Saint Laurent“ (Cannon Lewis). Þessi samantekt smellpassar við mína fyrstu upplifun.Myndirnar mínar ættu að gefa ykkur glögga mynd af hönnuninni en hér eru grunnatriði hinnar klassísku sveitablússu frá Irving & Fine: Efnið er tvöföld létt bómull, kremuð með bláum bróderingum á hálsmáli, ermalíningum og hliðarsaumum, með bróderuðum medalíum að framan og aftan. Hún er mjaðmasíð, rykkt um hálsinn með bandi og ermalíningarnar hvíla eins og armbönd. Blússan er framleidd á Indlandi og er einnig fáanleg í indígó með kremuðum bróderingum.
Sveitablússa frá Irving & Fine · Lísa Hjalt


Er það óeðlilegt að vera ástfangin af ermum? Ég get ekki hætt að dást að hinu fallega framandi mynstri. Það sama á við um bróderuðu hliðarsaumana. Dásamleg smáatriði í hönnuninni!

Blússan hefur bóhemískan blæ. Það er auðvelt að nota blússuna til að klæða sig fínt eða hversdags, veltur bara á tilefninu. Hún er víð og þægileg og bómullarefnið er einstaklega mjúkt viðkomu.

Sveitablússa frá Irving & Fine · Lísa Hjalt


Þegar ég er ekki í blússunni þá læt ég hana hanga á fataskápnum svo ég geti horft á hana og dreymt um aðrar flíkur frá Irving & Fine sem mig langar í. Í augnablikinu eiga þær bróderaða kápu sem er held ég að ná tökum á undirmeðvitund minni.

Í færslu minni um Lisa Fine Textiles talaði ég um hana sem hönnuð með skilning á sögu. Ég myndi lýsa samstarfskonu hennar Carolina Irving á sama hátt. Undir fatamerki Irving & Fine hanna þær ekki bara fallegar flíkur til að klæðast; flíkurnar veita einnig innblástur. Þær eru auk þess ekki tískubóla heldur hjálpa manni að skapa sinn einstaka og persónulega fatastíl.


~ · ~

[Litirnir í eftirfarandi myndum sýna ekki hinn rétta bláa tón bróderingarinnar.
Dóttir mín tók myndirnar af mér í blússunni í garðinum.]


Þar sem Irving & Fine lýsa flíkinni sem klassískri Tangier-blússu þá langar mig að kinka kolli í átt að Tangier, þrátt fyrir að hafa aldrei komið þangað. Ég held að ég hafi gert hana rómantískari í mínum huga; er sennilega föst á gullaldarskeiði hennar. Tangier er lifandi borg nyrst í Morokkó og frá Spáni er ferjuferðin yfir Gíbraltarsund stutt. Muniði eftir í The Living Daylights (1987) þegar James Bond eltir uppi rússneska hershöfðingjann Pushkin í Tangier til að drepa hann? Það var allt sem þurfti til að fanga mig og ég hugsa um Tangier í hvert sinn sem ég heyri norrænu bræður okkar í A-ha flytja lagið. (Ég á eftir að sjá Spectre (2015), sem gerist þar líka.) Ég get auðveldlega séð fyrir mér blandaða menningu borgarinnar, þröng strætin og markaðsbásana þar sem kaupmenn selja mottur og krydd.Að tala um Tangier og minnast ekki á frægasta erlenda borgarann, ameríska rithöfundinn, þýðandann og tónskáldið Paul Bowles, er eins og að ræða Nýja Testamentið án þess að minnast á Jesúm, eða Kóraninn og ekki Spámanninn. Árið 1958 í ferðagreininni ,The Worlds of Tangier,' skrifaði hann:
I am now convinced that Tangier is a place where the past and the present exist simultaneously in proportionate degree, where a very much alive today is given an added depth of reality by the presence of an equally alive yesterday. ... In Tangier the past is a physical reality as perceptible as the sunlight. (Paul Bowles.org).
Það var Gertrude Stein sem stakk upp á því við Bowles að reyna að lifa og vinna í Tangier. Hann kom þangað í annað sinn árið 1947, sendi frá sér The Sheltering Sky tveimur árum síðar (muniði eftir honum í hlutverki sögumannsins í kvikmynd Bertolucci?), og bjó þar í 52 ár, allt til dauðadags árið 1999. (Patti Smith skrifaði um hann og ferðir sínar til Morokkó í M Train, bók sem ég naut þess að lesa.)


Mig langar að skilja við ykkur með sjónrænum skammti af borginni, stuttu myndskeiði þar sem aðrir erlendir borgarar lýsa Tangier fyrir lesendum T-Magazine (Umberto Pasti og Christopher Gibbs, til að nefna einhverja). Það má lesa greinina, „The Aesthetes“, í fullri lengd með ljósmyndum á vefsíðu NYT (þetta er ein af þessum greinum sem ég hef geymt í möppunum). Höfundur hennar Andrew O'Hagan kynnir Tangier sem „high meeting place of the Mediterranean and the Atlantic, Europe and Africa, sanctity and sin, where men and women have long set out to find themselves between the devil and the deep blue sea.“

Einn daginn mun ég koma þangað. En þangað til á ég mína Tangier-blússu frá Irving & Fine.
Sveitablússa frá Irving & Fine · Lísa Hjalt
föstudagur, 20. maí 2016

Modigliani í morgunbirtunni

Modigliani í morgunbirtunni · Lísa Hjalt


Í morgun þegar ég var að gera heimilið huggulegt fyrir helgina gekk ég inn í stofuna og sá Modigliani baðaðan í sólarljósi. Augljóslega ekki Modigliani sjálfan heldur innrammaða endurprentun af málverki hans, Kona með blá augu (1918, olía á striga). Ég tók hana af veggnum og setti á arinhilluna hjá nellikunum og döðluskálinni. Ef það vill svo til að þið séuð að rölta um stræti Parísar, og stemmd fyrir myndlist, þá finnið þið upprunalega verkið á safninu Musée d'Art Moderne de la Ville de Paris.

Hvar sem ég enda í framtíðinni þá mun ég alltaf tengja listamanninn Amedeo Modigliani við þetta hús. Eigandinn skildi eftir tvær innrammaðar endurprentanir í stofunni sem voru fyrstu kynni mín af húsinu. Góð fyrstu kynni.

Í dag er föstudagur sem í okkar tilveru þýðir heimagerð pizza og rauðvín í kvöldmatinn; hefð sem skapaðist fyrir 6 árum síðan þegar við bjuggum á miðju Sjálandi í Danmörku. En nú er það kaffi og lesefni sem nærir andann í hreinu húsi. Góða helgi!þriðjudagur, 17. maí 2016

Vorgjöf: Ely-viðarúr frá JORDÞegar mér bauðst að taka þátt í markaðsátaki JORD Wood Watches þessa vors ákvað ég að leyfa yngri dóttur minni að velja sér úr - vorgjöf fyrir það eitt að vera hún sjálf og frábær. Viðarúrið sem hún valdi er úr Ely-seríunni, Ely Maple, sem er gert úr hlyni og sýnir líka dagsetningu. (Ertu í gjafaleit? Hér að neðan geturðu nælt þér í gjafabréf á netinu.) Við þekkjum þegar til JORD og vitum hverju er að búast við úr þeirri átt, sem dregur ekki úr spennunni að fá viðarkassa frá þeim sem inniheldur fallegt úr. Nú eru liðnar 8 vikur síðan úrið barst og dóttirin er ánægður viðskiptavinur.

Það gladdi mig að sjá hana velja Ely-úr því hönnun þess er einföld og tímalaus. Nýverið vorum við að ræða eiginleika úrsins og ég benti henni á tímaleysið. Við notum alla jafna íslensku á þessu heimili en hún svaraði mér á ensku: „But that's just stupid, it's a watch, it tells the time!“ Ég skellti upp úr. Hún hefur rétt fyrir sér! Ég útskýrði fyrir henni hvernig hlutur getur verið klassískur, tímalaus í þeim skilningi að hann fer ekki úr tísku. Unglingurinn var sammála mér að það átti við Ely Maple-úrið.


Í sannleika sagt hefur dóttir mín ekki gefið mér útlistaða gagnrýni á úrinu. Hennar orð eru einhvern veginn svona: Þetta er úr, það virkar, það sýnir tímann, henni finnst það flott, hún er ánægð með það. Hvað meira er hægt að segja?

Nákvæmlega! Það gerir allt sem úr á að gera. Auk þess er stíll yfir því og það er handunnið, af fyrirtæki sem hefur sjálfbærni að leiðarljósi. Eins og þið takið væntanlega eftir hefur hún úrið á hægri hendinni, þeirri sem hún skrifar með, sem mér finnst áhugavert (ég gæti það ekki).


Sem foreldri hef ég einu við að bæta sem hefur að gera með gæði umfram magn. Í gegnum tíðina höfum við keypt úr handa krökkunum, ekki þau ódýrustu, sem eru yfirleitt litrík með plastól. Ég veit ekki hversu oft ég hef fundið svona plastúr í botninum á dótakassa, sennilega löngu gleymt. Eftir því sem börn vaxa fara þau að sjálfsögðu betur með eigur sínar en ég trúi því að við foreldrarnir getum kennt þeim snemma að meta gæði. Ég tek eftir því að þegar dóttir mín er ekki með JORD-úrið á sér þá er það í kassanum á skrifborðinu hennar eða á náttborðinu. Hún veit að það er dýrara en önnur úr sem hún hefur átt og kann greinilega að meta það og hugsar vel um það, án þess að ég þurfi að segja henni það.Ég tók myndir af henni með úrið þegar hún var að teikna manga. (Hún hefur áhuga á svo til öllu japönsku og er meira að segja að læra japönsku sjálf.) Ég er ekki mikið fyrir teiknimyndasögur en ég elska að fletta í gegnum manga-teikningarnar hennar í listamöppunum og rafræna teikniborðinu hennar. Þegar ég horfði á ungu listakonuna að störfum í gegnum linsuna þá var ég allt að því dáleidd af uppsetningunni. Mér finnst einföld hönnun úrsins vera áhugavert mótvægi við list dótturinnar.


Ely-úrið er úr 100% náttúrulegum viði, í þessu tilfelli hlyni, og glerskífan er með vörn gegn rispum. Úrið gengur fyrir rafhlöðu, sýnir klukkutíma, mínútur og sekúndur, og er með dagsetningarglugga. Smellutakkar eru á viðarólinni sem auðveldar manni að setja úrið á sig og taka það af. Ely-úrið er einnig fáanlegt úr rauðum sandelviði, dökkum, og grænum sandelviði og hlyni. Þið getið lesið meira um eiginleika úrsins á heimasíðu JORD.


Ely-úrið dregur nafn sitt af byggingu í borginni St. Louis, í Missouri í Bandaríkjunum, sem heitir Ely Walker Lofts - áður Warehouse - sem var byggð árið 1907. JORD hefur aðsetur í St. Louis og býður upp á alþjóðlegar póstsendingar.


Langar þig að gefa einhverjum úr eða gjafabréf? JORD býður lesendum bloggsins gjafabréf á netinu. Það eina sem þarf að gera er að opna tengilinn og skrá netfangið sitt, eða netfang vinar, og þá berst tölvupóstur með kóða sem veitir 25-dollara afslátt. Það er takmörkun á fjölda gjafabréfanna og þau virka þannig að fyrstur kemur fyrstur fær. Hafið þetta í huga þannig að gjafabréfið sé ekki fallið úr gildi þegar þið viljið nýta það.


[Þessi færsla er hluti af markaðsátaki JORD þessa vors. Úrið til umfjöllunar er Ely Maple, viðarúr úr hlyni sem ég gaf listrænni dóttur minni í vorgjöf. Orð, ljósmyndir og álit eru mín eigin.]

miðvikudagur, 11. maí 2016

Vor á veröndinni

Vor á veröndinni, kirsuberjatré í blóma · Lísa Hjalt


Skoska vorið lét bíða eftir sér en mætti svo fyrir tveimur dögum síðan í allri sinni dýrð, sólríkt og hlýtt. Veröndin var sópuð, garðborðið skrúbbað og baststólarnir settir út. Það var kominn tími á fyrstu máltíð þessa vors undir berum himni. Síðustu dagar hafa verið himneskir, með notalegum stundum úti á verönd þar sem setið er undir kirsuberjatré í fullum blóma. Ég sit þar einmitt núna, með kaffibolla, bækur og tímarit. Í nýlegri bloggfærslu var tréð að undirbúa að blómstra og einn morguninn sá ég það í gegnum herbergisglugga sonarins og það var sem það hefði hreinlega sprungið. Stórfenglegt!


Þessa dagana er ég að lesa The Great Railway Bazaar: By Train Through Asia eftir bandaríska rithöfundinn Paul Theroux, sem er þekktur fyrir ferðaskrif og skáldsögur. Þetta er fyrsta ferðasagan hans, sem kom fyrst út árið 1975. Ég ætlaði að lesa Dark Star Safari: Overland from Cairo to Cape Town en hugsaði svo með mér að það væri best að lesa ferðsögur hans í tímaröð - sennilega óviturleg ákvörðun þar sem hin síðarnefnda er tólfta í röðinni! Í The Great Railway Bazaar ferðumst við með Theroux í lestum yfir Asíu, en ferðalagið hefst með Austurlandahraðlestinni frá París til Istanbúl. Ritstíll hans er dásamlegur og hnyttinn. Ég var alltaf að skella upp úr og að nóta hjá mér tilvísanir í minnisbókina. Áður en ég komst í gegnum annan kafla hafði ég gert mér grein fyrir því að ég yrði að ýta minnisbókinni til hliðar ef ég ætlaði að ljúka bókinni fyrir jól.


Talandi um Istanbúl. Í gegnum netið er ég að ferðast þangað frá Kína með aðstoð sagnfræðingsins Sam Willis og BBC-spilarans. Á BBC Four-sjónvarpsstöðinni er verið að sýna þáttaröðina Silkileiðin (The Silk Road), þar sem Willis fer með okkur yfir Mið-Asíu til Istanbúl og Feneyja. Á heimasíðu þáttarins má skoða myndræna ferðadagbók. Í síðasta þætti var hann á Registan-torginu í fornu borginni Samarkand, í Úsbekistan, þar sem hann hitti handverksmenn sem voru að búa til mynsturflísar sem eru notaðar til viðgerðar á Bibi Khanum-moskunni. Þetta var heillandi. Í borginni Khiva, sem er vestar, settist hann að snæðingi með leiðsögumanni sínum og borðbúnaðurinn var fallega mynsturmálaður. Meira að segja flatbrauðið var mynstrað!


Ég nota ekki Instagram-myndirnar mínar í bloggfærslur en í dag varð ég að gera undantekningu, til þess að varðveita ljúfa minningu. Myndina hér að neðan tók ég í gær með spjaldtölvunni þegar ég og dóttir mín vorum að setjast niður til að njóta hádegisverðar - langur lönsj á veröndinni (hún er að læra heima þessa dagana; er í lokaprófum). Myndin fangaði augnablikið fullkomlega. Ég elska hvernig myndin er yfirlýst og hvernig það sýnist vera autt svæði handan verandarinnar í stað steinveggjar sem er þakinn bergfléttu.

Njótið dagsins!

Hádegisverður undir berum himni (af Instagram-síðunni minni, frá því í gær)miðvikudagur, 4. maí 2016

Textílhönnuðurinn Lisa Fine

Textílhönnuðurinn Lisa Fine · Lísa Hjalt


Í heimildarmynd eftir Albert heitinn Maysles um hönnuðinn og tískufrömuðinn Iris Apfel, sem ber hið einfalda heiti Iris (2014), á hún samræður við ljósmyndarann Bruce Weber. Þegar talið berst að tískuhönnuðum sem kunna ekki að sauma - hún kallar þá fjölmiðlafrík - nefnir hún unga hönnuði sem hafa „engan skilning á sögu“ („no sense of history“ - á ca. 46. mínútu). Kannski finnst ykkur þetta furðulegur inngangur að textílhönnuðinum Lisa Fine, konunni á bak við Lisa Fine Textiles, en ég held að það sé einmitt þessi skilningur á sögu sem dró mig að verkum Fine. Hönnun hennar hefur dýpt og mynstruðu efnin hennar eru bæði framandi og dulræn.
Textílhönnuðurinn Lisa Fine · Lísa Hjalt


Með því bara að skoða nöfnin á þeim fallegu efnum sem Lisa Fine hefur hannað gæti hugurinn reikað á framandi slóðir, og ekki ólíklegt að þið teygðuð ykkur í söguatlasinn (tenglarnir fara með ykkur á mynstrið á vefsíðunni hennar): Þarna er Aswan, borg á austurbakka Nílar í Egyptalandi; Luxor, önnur egypsk borg þar sem þið finnið rústir fornu borgarinnar Þebu; Lahore, borg í Punjab-héraði í Pakistan; Kashgar, hin sögulega vinjarborg í vestasta hluta Kína, áfangastaður á Silkileiðinni; Bagan, forn borg í Myanmar (Búrma); Baroda, gamla nafnið yfir Vadodara í indverska héraðinu Gujarat; Malabar, hérað á vesturströnd Indlands, alveg syðst á milli Arabíuhafsins og Western Ghats fjallanna.

Ég gæti haldið áfram.

Zoraya-mynstrið í litunum rose og monsoon

Það eru ár síðan textílhönnun Lisa Fine töfraði mig en ég hafði aldrei meðhöndlað efnin (100% lín) þar til ég fékk safn af prufum í póstinum. Þau stóðust miklar væntingar mínar. Eitt efnið kallast Zoraya (sjá mynd að ofan). Ég var forvitin um uppruna orðsins þannig að í gær, áður en ég deildi bloggfærslunni, ákvað ég að senda fyrirspurn á skrifstofuna, sem var svarað fljótt með útskýringum Fine á því hvernig nafnið á mynstrinu varð til. Soraya var ein eiginkvenna síðasta Íranskeisarans, sem ríkti frá 1941 til 1979. Fine var stödd í Andalúsíu á Spáni og var að lesa sögu Norður-Afríkubúa og Persa á Spáni þegar hún kom auga á nafnið ritað með Z, Zoraya. „Mér fannst mynstrið hafa mjög geómetrískan blæ, allt að því fornpersneskan, og mér líkað nafnið Zoraya.“

Hönnuður með skilning á sögu fyrir víst.

Textílhönnuðurinn Lisa Fine · Lísa Hjalt
Í forgrunni: Malabar Reverse mynstrið í litnum Nordic blue

Í heimi textíls og innanhússhönnunar er ólíklegt að þið hafið ekki rekist á nafn Lisa Fine. Frekar nýlega í amerísku útgáfu House Beautiful var til umfjöllunar íbúð móður hennar í Dallas, hönnuð af dótturinni, hvað annað. (Það er bók sem kallast Iznik á stofuborði móðurinnar sem mig langar í!) Móðirin gaf dóttur sinni frjálsar hendur til að hanna rýmið og ánægði kúnninn „kvartaði“ bara yfir einu: „Eina vandamálið er að þegar ég fæ gesti þá vilja þeir ekki fara.“

Lisa Fine á litríka íbúð í París sem hefur birst með innliti í útgáfum eins og Lonny (sjá hér pdf-skjal með innlitinu sjálfu og stærri myndum) og The New York Times (sjá fleiri myndir úr NYT á Apartment Therapy). Samstarf hennar og hönnuðarins Richard Keith Langham hefur skilað af sér glæsilegum indverskum gólfmottum (dhurries). Svo er það samstarf hennar og textílhönnuðarins Carolina Irving, Irving & Fine, þar sem má versla mynstraða og bróderaða kyrtla þeirra og kaftana (framandi blússur og kjólar).

Textílhönnuðurinn Lisa Fine · Lísa Hjalt

Vinstri: Samode í litnum indigo/natural (einnig glittir í desert sand); Lahore í apricot.
Hægri (í ramma): Baroda II í pomegranate (mynstur með fugli); Zoraya í monsoon;
Luxor í pompeii on ivory (þetta appelsínugula)

Í hvert sinn sem ég rekst á umfjöllun um Lisa Fine tengi ég auðveldlega við bækurnar sem hún les, því eins og ég hefur hún áhuga á ævisögum og ferðaskrifum. Hún hefur ferðast mjög mikið, t.d. víðsvegar um Indland, og hönnun hennar er innblásin af ferðalögunum. Ég man alltaf eftir einni tiltekinni umfjöllun, með nokkrum litlum myndum þar sem hún var spurð stuttra spurninga. Sú síðasta snerist um hvert hana langaði að fara og hún svaraði Isfahan í Íran, en bætti við að hún héldi að það væri ekki mögulegt (þegar ég var að sækja efnivið í þessa færslu fann ég umfjöllunina á heimasíðu hennar: Material Connection, Ultra Travel, sumar 2012). Núna þegar alþjóðlegu viðskiptabanni á Íran hefur verið aflétt, og samskipti Bandaríkjanna og Írans eru að batna, þá virðist Isfahan (Eṣfahān) vera möguleiki í framtíðinni. Ég get rétt ímyndað mér þann innblástur sem hún gæti sótt í hinn sögulega íslamska arkitektúr, mikilfengleika hans og glæsilegra veggflísa. Sérstaklega með skilningi hennar á sögu.

Textílhönnuðurinn Lisa Fine · Lísa Hjalt
Í forgrunni: Kashgar-mynstrið í spice. Í bakgrunni: Chiara í sky blue/oyster.
Einnig glittir í: Bagan í indigo