Sýnir færslur með efnisorðinu verönd. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu verönd. Sýna allar færslur

miðvikudagur, 11. maí 2016

Vor á veröndinni

Vor á veröndinni, kirsuberjatré í blóma · Lísa Stefan


Skoska vorið lét bíða eftir sér en mætti svo fyrir tveimur dögum síðan í allri sinni dýrð, sólríkt og hlýtt. Veröndin var sópuð, garðborðið skrúbbað og baststólarnir settir út. Það var kominn tími á fyrstu máltíð þessa vors undir berum himni. Síðustu dagar hafa verið himneskir, með notalegum stundum úti á verönd þar sem setið er undir kirsuberjatré í fullum blóma. Ég sit þar einmitt núna, með kaffibolla, bækur og tímarit. Í nýlegri bloggfærslu var tréð að undirbúa að blómstra og einn morguninn sá ég það í gegnum herbergisglugga sonarins og það var sem það hefði hreinlega sprungið. Stórfenglegt!


Þessa dagana er ég að lesa The Great Railway Bazaar: By Train Through Asia eftir bandaríska rithöfundinn Paul Theroux, sem er þekktur fyrir ferðaskrif og skáldsögur. Þetta er fyrsta ferðasagan hans, sem kom fyrst út árið 1975. Ég ætlaði að lesa Dark Star Safari: Overland from Cairo to Cape Town en hugsaði svo með mér að það væri best að lesa ferðsögur hans í tímaröð - sennilega óviturleg ákvörðun þar sem hin síðarnefnda er tólfta í röðinni! Í The Great Railway Bazaar ferðumst við með Theroux í lestum yfir Asíu, en ferðalagið hefst með Austurlandahraðlestinni frá París til Istanbúl. Ritstíll hans er dásamlegur og hnyttinn. Ég var alltaf að skella upp úr og að nóta hjá mér tilvísanir í minnisbókina. Áður en ég komst í gegnum annan kafla hafði ég gert mér grein fyrir því að ég yrði að ýta minnisbókinni til hliðar ef ég ætlaði að ljúka bókinni fyrir jól.
[Uppfærsla: Kláraði ekki bókina og get því miður
ekki mælt með henni - sjá lestrarkompu.]


Talandi um Istanbúl. Í gegnum netið er ég að ferðast þangað frá Kína með aðstoð sagnfræðingsins Sam Willis og BBC-spilarans. Á BBC Four-sjónvarpsstöðinni er verið að sýna þáttaröðina Silkileiðin (The Silk Road), þar sem Willis fer með okkur yfir Mið-Asíu til Istanbúl og Feneyja. Á heimasíðu þáttarins má skoða myndræna ferðadagbók. Í síðasta þætti var hann á Registan-torginu í fornu borginni Samarkand, í Úsbekistan, þar sem hann hitti handverksmenn sem voru að búa til mynsturflísar sem eru notaðar til viðgerðar á Bibi Khanum-moskunni. Þetta var heillandi. Í borginni Khiva, sem er vestar, settist hann að snæðingi með leiðsögumanni sínum og borðbúnaðurinn var fallega mynsturmálaður. Meira að segja flatbrauðið var mynstrað!


Ég nota ekki Instagram-myndirnar mínar í bloggfærslur en í dag varð ég að gera undantekningu, til þess að varðveita ljúfa minningu. Myndina hér að neðan tók ég í gær með spjaldtölvunni þegar ég og dóttir mín vorum að setjast niður til að njóta hádegisverðar - langur lönsj á veröndinni (hún er að læra heima þessa dagana; er í lokaprófum). Myndin fangaði augnablikið fullkomlega. Ég elska hvernig myndin er yfirlýst og hvernig það sýnist vera autt svæði handan verandarinnar í stað steinveggjar sem er þakinn bergfléttu.

Njótið dagsins!

Hádegisverður undir berum himni (af @lisastefanat frá því í gær)



fimmtudagur, 20. ágúst 2015

Innbyggðir setkrókar

Innbyggðir setkrókar · Lísa Hjalt


Í sumar hefur aðdáun mín á innbyggðum setkrókum færst upp á alveg nýtt stig. Ég held að það hafi byrjað með innliti á heimili í Ibiza sem birtist í Elle Decoration UK  og ég deildi í bloggfærslu í júní. Síðan þá hafa slíkir setkrókar verið að fanga athygli mína úr öllum áttum; einnig textíllinn, ábreiðurnar og púðarnir sem gera þá þægilegri. Ég á eintak af franska Elle Decoration frá síðasta sumri sem er stútfullt af innbyggðum setkrókum. Það hefur legið á borðinu mínu í sumar og ég varð að taka nokkar myndir fyrir bloggið. Sjáið til, ég lít á bloggið sem dagbók. Ég held ekki dagbók í kæra dagbók-stíl en er alltaf með skrifblokk innan handar. Myndræni þátturinn er mér líka mikilvægur; mér líkar að geta haldið til haga myndum á blogginu sem aðrir geta notið og sem ég get flett upp síðar meir.

Við skulum byrja á nokkrum setkrókum sem birtust í grein um gististaðinn Scorcialupi í Puglia-héraði á Ítalíu. Mér finnst svæðið utandyra hér að ofan glæsilegt og krókarnir tveir innandyra eru líka snotrir.


1-3: Scorcialupi, Elle Decoration (franska), júlí/ágúst 2014, bls. 108-117/Christian Schaulin

Eins og mér líkar setkrókurinn hér að neðan - það er jafnvægi í mildri litapalettunni - þá er ég ekki viss um að ég myndi vilja hafa svona borðkrók á veröndinni, sérstaklega ef ég væri með gesti. Ef einn þarf að standa upp þá þurfa fleiri að færa sig eða hliðra til fyrir viðkomandi. En svona hrár stíll er mér að skapi og mér finnst smart hvernig iðnaðarstíll Tolix-stólanna skapar mótvægi (þessi mynd sínir bara einn). Krókurinn tilheyrir fallegu og stílhreinu húsi á grísku eyjunni Mykonos.

4: Mykonos innlit, Elle Decoration (franska), júlí/ágúst 2014, bls. 130-141/Giorgio Baroni

mánudagur, 1. júní 2015

Stílhreinn bóhemískur blær á Ibiza

Bóhemískur stíll á Ibiza · Lísa Stefan


Á laugardaginn barst nýjasta tölublað Elle Decoration UK í hús og innlitið sem ég féll kylliflöt fyrir var 300 ára gamalt stílhreint hús með bóhemískum blæ á afskekktu svæði á Ibiza. Það gerist ekki oft að mér líki svo til öll rými í innlitum tímarita en ég hef verið kannski full heltekin af þessu (efsta myndin skreytir núna tölvuskjáinn), sem kallast ,Where the cicadas sing' (ljósmyndarar Sunna og Marc Van Praag). Ég varð að smella af nokkrum myndum og deila með ykkur, af þeim rýmum í húsinu sem fá hjartað til að syngja.



Það er hrái stíllinn í húsinu sem sérstaklega höfðar til mín, eins þessir innbyggðu setkrókar næst eldhúsinu (ekki sýnt í tímaritinu) sem virka svo kósí og notalegir. Borðstofan tengist setustofunni og er einnig með innbyggðum setkrók. Í báðum setkrókunum má sjá fallegan textíl, púða og sessur í einlit eða með mynstri. Skrautmunir eru flestir eitthvað sem eigendurnir hafa keypt á ferðalögum um heiminn. Ég er einstaklega hrifin af þessum mynstraða lampa á milli setkrókanna en það kemur ekki fram í greininni hvaðan hann kemur.

Setustofa í hráum stíl með arni og innbyggðum setkrók

Aðrir munir á heimilinu sem fönguðu athygli mína voru skreyttu vasarnir á borðinu hér að neðan og í stiganum, og einnig fallegar mottur sem er að finna í öllum rýmum.


Á baðherberginu eru bogadregnu veggirnir upprunalegir og flísarnar eru spænskar. Þessi motta á gólfinu er alveg í mínum stíl! Ég varð að láta fylgja með svæðið utandyra með sundlauginni, en til að sjá meira þá verðið þið bara að næla ykkur í eintak af tímaritinu!



Ég held að flestir Íslendingar kannist við Ibiza, sem er hluti af balerísku eyjunum í Miðjarðarhafinu. Eyjan hefur alltaf verið tengd við fjörugt næturlíf, sem er ekki aðdráttarafl fyrir mig á ferðalögum. En ég hef alltaf verið hrifin af smáþorpum eyjunnar, afskekktum stöðum og ólíkum menningarstraumum, sem er ástæða þess að Ibiza komst á langar-að-heimsækja listann minn. Það er gömul bloggfærsla sem kallast Colours of Ibiza eftir Maríu bloggvinkonu mína á EclecChic sem sýnir akkúrat hvað það er sem laðar mig að eyjunni.


Það er ein önnur grein í júlíhefti Elle Decoration UK í ár sem mig langar að nefna. Hún er um arkitektinn og hönnuðinn Alexander Girard (1907-1993). Vitra Design Museum í Weil am Rhein verður með heilmikla sýningu á verkum hans árið 2016 (staðsetning safnsins er í horninu þar sem Þýskaland, Sviss og Frakkland mætast.) Hér er hlekkur á hönnun Alexanders Girard fyrir Vitra - eldspýtustokkarnir finnst mér æðislegir.


myndir af tölublaði Elle Decoration UK, júlí 2015, Where the cicadas sing, bls. 98-107 · Sunna og Mark Van Praag

þriðjudagur, 25. júní 2013

Rýmið 34



- sumardvalarstaður á Paros, Grikklandi

mynd:
White Key Villa/Louisa Nikolaidou af vefsíðu Architectural Digest