Sýnir færslur með efnisorðinu stílisering. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu stílisering. Sýna allar færslur

laugardagur, 1. apríl 2017

Litrík efni frá Lisa Fine Textiles

Litrík efni frá Lisa Fine Textiles · Lísa Stefan


Mótíf, mynstur, textíll, litir. Nýverið barst mér dágóður skammtur af prufum frá Lisa Fine Textiles og hef því eytt latte-stundum mínum með handprentuð, litrík efni breidd yfir skrifborðið mitt ásamt textílbókum, eins og myndirnar mínar sýna. Hérna höfum við þrjú mynstur sem Lisa Fine kynnti í fyrra, Kalindi, Cochin og Ayesha Paisley, sem eru falleg viðbót í safn hennar af framandi efnum, sem öll eru innblásin af ferðalögum hennar. Bráðum hyggst ég deila með ykkur stuttum samræðum sem ég átti við Lisa Fine sjálfa í gegnum tölvupóst, um bækur, list og hvaðan hún sækir innblástur.

Litrík efni frá Lisa Fine Textiles · Lísa Stefan
Litrík efni frá Lisa Fine Textiles · Lísa Stefan
Litrík efni frá Lisa Fine Textiles · Lísa Stefan
Cochin frá Lisa Fine Textiles, litur í forgrunni: rose

Af þessum þremur efnum er Cochin með blómamynstrinu sú hönnun sem nú þegar á hjarta mitt og sál, einkum í litnum rose sem hefur saffrangulan bakgrunn. Mynstrið er handprentað á 90% náttúrulegt lín með 10% næloni, fáanlegt í fjórum litum: rose, cinnabar (þetta rauða og bláa, sjá mynd að ofan, efst til hægri), burnt sugar og saffron (með bleikum blómum). Hönnun Lisa Fine ber gjarnan indversk nöfn. Cochin er nýlenduheiti indversku borgarinnar Kochi, á suðvesturströndinni í Kerala-héraði.

Litrík efni frá Lisa Fine Textiles · Lísa Stefan
Ayesha Paisley, litur í forgrunni: ruby

Mynstrið Ayesha Paisley er handprentað á 100% náttúrulegt lín, fáanlegt í fjórum litum: ruby, sapphire, coral og spinel (ég á ekki prufu af þessu síðastnefnda).

Ayesha Paisley, í forgrunni: sapphire

Litrík efni frá Lisa Fine Textiles · Lísa Stefan
Í forgrunni: Kalindi í öllum fáanlegum litum (undir bollanum mínum
eru tvær prufur af mynstrinu Luxor)

Efnið Kalindi er með blómamynstri ásamt doppum, handprentað á 90% náttúrulegt lín með 10% næloni. Það er fáanlegt í fimm ríkum litum: monsoon (þetta ljósbláa), indigo, saffron, dusty rose og lipstick. Ég geri ráð fyrir að mynstrið sé nefnt eftir ánni Kalindi í West Bengal héraði í austurhluta Indlands.

Til að skoða öll efnin kíkið þá á heimasíðu Lisa Fine Textiles.
Litrík efni frá Lisa Fine Textiles · Lísa Stefan


Kannski eru einhverjir lesendur í þeim hugleiðingum að gefa einu rými upplyftingu eða jafnvel að hugsa um að endurhanna heimilið. Í viðtali sem birtist í tímaritinu Lonny, þegar gestaíbúð hennar á Vinstri bakka Parísar var til umfjöllunar, gaf Lisa Fine eitt mjög gott ráð: „Never be a victim of trends. If modern is in style and you love Victorian, go Victorian. Style is an expression of yourself and not what fashion dictates“ (Inspiration India, des/jan 2010). Forðist sem sagt tískusveiflur og látið ykkar eigin persónulega stíl ráða för. Í sömu umfjöllun deildi hún nokkrum hugmyndum um hönnun og hér er ein sem gæti komið ykkur á byrjunarreit: „Similar to how many designers will start with a rug and then build a room, choose a fabric to inspire the space and work from there.“ Val mitt á efni væri augljóst.



föstudagur, 23. desember 2016

Gleðilega hátíð



Við fjölskyldan höfum það notalegt í stofunni með arineld og þriðju Hringadróttinssögu-myndina í spilaranum á meðan vindurinn blæs úti. Hér norðar blæs stormurinn Barbara en við erum á svæði með gulri viðvörun og fáum bara hressilegan vind og rigningu. Veðrið skiptir annars litlu máli fyrir okkur því nú eru jólin að ganga í garð og við erum ekki að fara neitt. Næstu daga verður það bara góður matur, lestur og svefn. Ég byrja aðfangadagsmorgun á góðu kaffi áður en ég undirbý eftirrétt kvöldins, risalamande, eða möndlugraut, sem ég ber fram með heimagerðri kirsuberjasósu ... algjört lostæti! Um hádegisbilið fáum við okkur sænskt fléttubrauð og heitt súkkulaði á meðan hangikjötið er í pottinum. Ekta julehygge.

Ég óska ykkur, kæru blogglesendur, gleðilegrar hátíðar og gæfu á árinu 2017. Ég þakka fyrir heimsóknirnar á árinu sem er að líða, athugasemdirnar og að hafa líkað við myndir á öðrum samfélagsmiðlum.



þriðjudagur, 29. nóvember 2016

Kaffistund í kyrrð

Kaffistund · Lísa Stefan


Í dag þurfti ég á kaffistund í kyrrð að halda með bókum og minnisbókum. Um leið og ég hafði tekið ljósmyndina kom persneski prinsinn minn niður og sofnaði á borðinu, upp við bókabunkann. Hann hrýtur núna. Líður einhverjum öðrum þannig að síðustu daga hafi þeir orðið fyrir auglýsingavæddri sprengjuárás? Ég er að tala um endalaust magn af „Black Friday“ og „Cyber Monday“ tölvupóstum í pósthólfinu, oft fleiri en einn frá sama fyrirtækinu á innan við sólarhring. Nú er nóg komið! Í morgun smellti ég miskunnarlaust á „segja upp áskrift“-hnappinn og hélt bara inni fréttabréfum sem tengjast bókum og textíl.

Sáuð þið Little Women teikninguna á Google í dag? Rithöfundurinn Louisa May Alcott fæddist á þessum degi, einnig C.S. Lewis. Ég hef hugsað um kvikmyndina (1994) í allan dag. Winona Ryder smellpassaði í hlutverk Jo March og ég hef alltaf verið svolítið skotin í Gabriel Byrne sem lék prófessor Bhaer. Það eru mörg ár síðan ég las bókina. Ef ég eignaðist innbundna Penguin-útgáfu myndi ég lesa hana aftur. Talandi um bækur. Fljótlega ætla ég að birta ritdóm minn um Avid Reader: A Life eftir ritstjórann Robert Gottlieb. Bókin var sú síðasta á „Booktober“ bókalistanum (№ 5) en sú fyrsta á honum sem ég kláraði að lesa því ég virkilega naut lestursins.



þriðjudagur, 22. nóvember 2016

Pizzasnúðar (gerlausir)

Pizzasnúðar (gerlausir) · Lísa Stefan


Eruð þið tilbúin fyrir veturinn eða viljið þið leggjast í vetrardvala eins og birnir? Vetrardagarnir eru mun dimmari á Fróni og ég þekki nokkra sem glíma við skammdegisþunglyndi, sem betur fer ekki alvarlegt, ekkert sem má ekki tækla með D-vítamíni og enn þá meiri kósíheitum heima fyrir. Kertaljós, heitt súkkulaði og hlýir sokkar ná oft að fleyta manni langt. Hýasintur líka! Þetta er tíminn til að dreifa vösum með hýasintulaukum um heimilið. Veðrið hér á vesturströnd Skotlands er orðið kaldara en við erum ekki alveg komin yfir þröskuldinn og inn í veturinn. Ég tækla kuldann með hlýrri peysu og comfort food, sérstaklega baunaréttum eða nýbökuðu brauði eða bollum. Hlý eldhús með himneskum ilmi eru best á veturna, sem er ástæða þess að ég tók á móti börnunum eftir skóla í gær með heimabökuðum pizzasnúðum. Uppskriftin kemur úr Antwerpenflokknum mínum og kallar fram góðar minningar.

Pizzasnúðar á leið í ofninn · Lísa Stefan
Pizzasnúðar á leiðinni í ofninn

Áður en við bökum pizzasnúðana langar mig að minnast aðeins á (vínsteins)lyftiduft: Enginn á okkar heimili er með ofnæmi en í allar mínar uppskriftir nota ég glútenlaust lyftiduft frá Doves Farm. Þau borga mér ekki fyrir að auglýsa það, það er einfaldlega í uppáhaldi. Nýlega prófaði ég annað merki, einnig glútenlaust, en það gaf pizzasnúðunum smá eftirbragð sem mér líkaði ekki. Ástæða þess að ég nota aldrei hefðbundið lyftiduft er að mér finnst það alltaf gefa truflandi eftirbragð (notið a.m.k. helmingi minna í uppskriftina ef þið notið hefðbundið).

Pizzasnúðar (gerlausir) · Lísa Stefan
Pizzasnúðar (gerlausir) · Lísa Hjalt
Pizzasnúðar (gerlausir) · Lísa Hjalt


Við bjuggum í Antwerpen þegar ég setti saman þessa uppskrift að mjúkum pizzasnúðum og fyrir einhverja ástæðu hef ég aldrei deilt henni hér. Persónulega er ég ekki mikið fyrir pizzasnúða (ég og sonurinn viljum bara pizzu) en dæturnar elska þessa heimagerðu. Snúðarnir eru frábært snakk eftir skóla, sérstaklega á köldum dögum, nýbakaðir úr ofninum. Í deigið nota ég fínt spelti en það má aðlaga uppskriftina að grófu (lífrænt hveiti er líka í góðu lagi). Saltmagnið veltur á því hversu söltuð pizzasósan ykkar er: Mín er það ekki, inniheldur bara ¼ teskeið. Ef sósan ykkar er vel söltuð þá myndi ég nota minna salt í deigið. Þið getið líka bætt út í sósuna ykkar smá hrásykri, eða sett smá í deigið. Stundum skipti ég út 2-3 matskeiðum af spelti fyrir semólína eða pólenta (gróft maísmjöl). Snúðana má gera vegan með sojajógúrt og vegan osti.

PIZZASNÚÐAR (GERLAUSIR)

gerir 20
435 g fínt spelti
1½ matskeið vínsteinslyftiduft
1 teskeið (eða minna) fínt sjávar/Himalayasalt
75 ml hrein jógúrt (5 matskeiðar)
1 matskeið létt ólífuolía
150-175 ml volgt vatn
3½-4 matskeiðar pizzasósa
100 g ostur, rifinn
má sleppa: parmesanostur og þurrt óreganó/ítölsk kryddblanda

Útbúið pizzasósu ef þið eigið ekki afgang í kæli. Hér er mín uppskrift að pizzasósu.

Blandið þurrefnunum saman í stórri skál (sjá punkta um lyftiduft hér að ofan). Myndið holu í miðjuna og hellið jógúrt, olíu og vatni ofan í (byrjið með 150 ml). Blandið saman með sleif og hnoðið svo deigið í höndunum á meðan það er enn í skálinni bara til að fá tilfinningu fyrir áferðinni. Deigið á ekki að vera klístrað þannig að ef það er of blautt þá sigtið þið smá mjöli yfir og hnoðið áfram.

Stráið spelti á borðplötu og hnoðið deigið aðeins í höndunum. Takið því næst kökukefli og fletjið deigið út. Leitist við að mynda ferning sem er ca. 37 cm (ég vil hafa snúðana þykka þannig að ég mynda ferning í stað ílangs ferhyrnings).

Dreifið pizzasósunni jafnt yfir útflatt deigið og stráið svo ostinum jafnt yfir. Því næst parmesanosti og kryddjurtum, ef notað. Rúllið upp deiginu nokkuð þétt. Skerið lengjuna í tvennt og svo hvora lengju í 10 sneiðar. Klæðið ca. 35 x 25 cm form/eldfast mót með bökunarpappír. Raðið snúðunum í fimm raðir með fjórum snúðum í hverri.

Bakið pizzasnúðana við 220°C (200°C á blæstri) í 13-15 mínútur. Kælið á grind í smá stund áður en þið berið þá fram.




miðvikudagur, 22. júní 2016

Bækur um hönnun | Að ganga úr eða vera áfram?

Bækur um hönnun · Lísa Stefan


Já, ég er að vísa til „Brexit“ í titlinum. Á morgun gengur breskur almenningur til þjóðaratkvæðagreislu um veruna í ESB og loksins lýkur þá þessari umræðu! Það er ekki hægt að kveikja á fréttum eða fara eitt né neitt án þess að á manni dynji „ganga úr eða vera áfram“, og þannig hefur þetta verið í margar vikur. Ég efast um að ég höndlaði einn dag til viðbótar af þessu (það hefur rignt í nokkra daga sem gæti líka skýrt takmarkaða þolinmæði mína). Einn tiltekinn pólitíkus kvartaði í ræðu yfir evrópskum vegabréfum og að „við værum að drekka franskt vín“. Ég hugsaði með mér, Já, þarna er komin góð og gild ástæða til að segja sig úr, þá loks fara Bretar að velja breskt vín með fisknum & frönskunum og Yorkshire-búðingnum! Ég er annars í áfram-liðinu (hér í Skotlandi er fólk yfirleitt Evrópusinnað) en tek ekki þátt í þessari umræðu þar sem ég hef ekki kosningarétt. Ég má samt vera smá kaldhæðin.

Eigum við ekki bara að tala um bækur?
Bækur um hönnun · Lísa Stefan


Mig langaði að deila með ykkur nokkrum hönnunarbókum sem ég hafa vakið athygli mína; annaðhvort nýkomnar út eða koma út síðar á árinu.


· Casa Mexico: At Home in Merida and the Yuctan eftir Annie Kelly. Þessi bók er næst á innkaupalistanum; á vefsíðu Rizzoli má skoða nokkrar síður.
· Past Perfect: Richard Shapiro Houses and Gardens eftir Richard Shapiro og Mayer Rus.
· Beautiful: All-American Decorating and Timeless Style eftir Mark D. Sikes. Við höfum kíkt inn í stofuna hans og á ensku síðunni deildi ég innliti á heimili hans í Hollywood Hills.
· Would You Like to See the House: Unapologetic Interiors eftir Lorraine Kirke. Bóheminn hið innra vill eignast þessa.
· Alberto Pinto: Signature Interiors eftir Anne Bony. Á ensku síðunni sáum við málverk eftir Valdés í vinnustofu Pinto.
· Decorative Textiles from Arab and Islamic Cultures: Selections from the Al Lulwa Collection. Fylgist með hér á blogginu því ég mun birta ritdóm minn um þessa bók innan tíðar.

Bækur um hönnun · Lísa Hjalt


Ég hef takmarkaðan áhuga á fótbolta og fylgist aðeins með Heimsmeistaramótinu á fjögurra ára fresti og búið. En ég get nú ekki annað en glaðst yfir fréttum dagsins, að íslenska liðið sé komið áfram í 16-liða úrslit á Evrópumótinu. Hver hefði trúað þessu?!



föstudagur, 17. júní 2016

№ 2 bókalisti: flottar bókahillur

№ 2 bókalisti: bókahillur · Lísa Stefan


Ég er ástfangin af bókahillum. Ekki í fyrsta sinn. Með kaffibollanum hef ég verið að fletta fram og til baka innliti í hús í LA sem er með svo mörg smáatriði á hreinu (júlítölublað Elle Decoration UK, „House on the Hills“, ljósmyndari Stephanie Bjelkstam). Í opnum hillum í stofunni er bókum og skrautmunum raðað smekklega án þess að hillurnar virki yfirhlaðnar; bókum er raðað lóðrétt og lárétt sem gerir stíliseringuna enn áhugaverðari. Það er sem hillurnar andi og þær kallast á við gólfmottuna. Virkilega vel gert. Þessa dagana er ég að lesa nokkrar bækur og fljótlega mun ég gagnrýna eina hér á blogginu: Decorative Textiles from Arab and Islamic Cultures. Egypska bómullarábreiðan með ásauminum út til vinstri er smá sýnishorn.

Bókalisti sumarsins er tilbúinn (kannski ætti ég að segja sá fyrri þessa sumars) og samanstendur af leikritum og ævisögulegu efni. Nýverið skilaði ég á bókasafnið æviminningum Arthurs Millers Timebends (virkilega vel skrifuð bók sem ég mæli með) og fékk að láni tvö leikrit eftir hann. Á sama degi var ég að fletta uppi verkum eftir Virginiu Woolf á netinu og var svo heppin að finna tvær notaðar bækur (3. bindi dagbókar hennar er komið í hús og lítur út eins og nýtt - elska svoleiðis fund). Hér er listinn minn:

1  All My Sons  · Arthur Miller
2  Death of a Salesman  · Arthur Miller
3  Off the Road: Twenty Years with Cassady, Kerouac and Ginsberg  ·
Carolyn Cassady
4  The Diary of Virginia Woolf - Volume 3: 1925-1930  ritstj. Anne
Olivier Bell
5  The Letters of Virginia Woolf - Volume II: 1912-1922  ritstj. Nigel
Nicolson og Joanne Trautmann
6  Testament of Youth: An Autobiographical Study of the Years 1900-1925  ·
Vera Brittain

Sumir myndu kalla þetta frekar þungan sumarlestur en ég er bara ekki sú tegund lesanda sem nælir sér í stafla af léttefni í næstu bókabúð. Börnin voru að gera grín af mér um daginn og sögðu að ég læsi skrýtnar bækur. Ég er að reyna að muna rétt orðalag sem eitt þeirra notaði, „enskar yfirstéttarsnobbbókmenntir“ (English upper-class snob literature) eða eitthvað í þá áttina. Ég skellti upp úr.


Á aðeins persónulegri nótum: Ég óska ykkur gleðilegs þjóðhátíðardags en í dag eigum við hjónin 18 ára brúðkaupsafmæli. Í dag er einnig föstudagspizzudagur en eiginmaðurinn er staddur erlendis vegna vinnu. Við börnin ætlum bara að fá okkur franska osta, snittubrauð og vínber . . . og súkkulaði. Eigið góða helgi!

Bókhillumynd á minni mynd: Elle Decoration UK, júlí 2016, bls. 116 · Stephanie Bjelkstam



laugardagur, 28. maí 2016

Sveitablússan mín frá Irving & Fine

Sveitablússa frá Irving & Fine · Lísa Stefan


Kannist þið við þá tilfinningu að halda á nýrri og sérstakri flík, hönnuð á þann máta að hún ristir dýpra; hefur merkingu? Fataskápurinn varð ríkari þegar ég eignaðist eina slíka, bróderaða sveitablússu, klassískan Tangier-kyrtil frá Irving & Fine. Þetta var óvænt gjöf frá textílhönnuðinum Lisa Fine (fyrr í mánuðinum skrifaði ég færslu um hönnun hennar), þó ég að vísu hefði hugmynd um hvað hún væri að senda mér þegar hún sagðist vilja gefa mér mest selda sveitatoppinn þeirra. Blússan barst fyrir viku og efnið er svo mjúkt viðkomu; tvöfalt létt bómullarefni, kremað með blárri bróderingu, framleitt á Indlandi. Merkið Irving & Fine er samstarf tveggja virtra textílhönnuða og vinkvenna, Lisa Fine og Carolina Irving (sjá innlit til hennar á ensku útg. bloggsins), sem hanna bróderaðar sveitablússur og kyrtla, kaftana, kápur og aukahluti. Hönnunin er innblásin af ferðalögum þeirra til framandi landa.

Þetta er óður minn til sveitablússunnar þeirra og þakklætisvottur.


Þegar ég opnaði pakkann og dáðist að blússunni í fyrsta sinn komu upp í huga mér málverk Henri Matisse af rúmenskum blússum, með mjög púffuðum ermum - sjá t.d. verkin Rúmenska blússan, 1940, og Græna rúmenska blússan, 1939. Hann ferðaðist til Morokkó og heillaðist af borginni Tangier, sem var viðfangsefni nokkurra verka hans. Frá Matisse í Tangier, hugfangin af blússunni, reikaði hugurinn til tískuhönnuðarins Yves Saint Laurent, sem átti hús í Morokkó; eitt í Tangier. Hátískulína YSL haustsins/vetursins 1980-81 var innblásin af verkum Matisse og ein flíkin var rúmenska blússan (sjá mynd nr. 3), nákvæm eftirmynd þeirrar í málverki Matisse frá 1940.

Við undirbúning þessarar færslu fann ég stutt viðtal við Lisa Fine. Þegar hún var spurð út í innblásturinn að flíkum Irving & Fine svaraði hún: „Austur-Evrópskir þjóðbúningar og frá tímum Ottóman-veldisins og gömul hönnun Yves Saint Laurent“ (Cannon Lewis). Þessi samantekt smellpassar við mína fyrstu upplifun.



Myndirnar mínar ættu að gefa ykkur glögga mynd af hönnuninni en hér eru grunnatriði hinnar klassísku sveitablússu frá Irving & Fine: Efnið er tvöföld létt bómull, kremuð með bláum bróderingum á hálsmáli, ermalíningum og hliðarsaumum, með bróderuðum medalíum að framan og aftan. Hún er mjaðmasíð, rykkt um hálsinn með bandi og ermalíningarnar hvíla eins og armbönd. Blússan er framleidd á Indlandi og er einnig fáanleg í indígó með kremuðum bróderingum.
Sveitablússa frá Irving & Fine · Lísa Stefan


Er það óeðlilegt að vera ástfangin af ermum? Ég get ekki hætt að dást að hinu fallega framandi mynstri. Það sama á við um bróderuðu hliðarsaumana. Dásamleg smáatriði í hönnuninni!

Blússan hefur bóhemískan blæ. Það er auðvelt að nota blússuna til að klæða sig fínt eða hversdags, veltur bara á tilefninu. Hún er víð og þægileg og bómullarefnið er einstaklega mjúkt viðkomu.

Sveitablússa frá Irving & Fine · Lísa Stefan


Þegar ég er ekki í blússunni þá læt ég hana hanga á fataskápnum svo ég geti horft á hana og dreymt um aðrar flíkur frá Irving & Fine sem mig langar í. Í augnablikinu eiga þær bróderaða kápu sem er held ég að ná tökum á undirmeðvitund minni.

Í færslu minni um Lisa Fine Textiles talaði ég um hana sem hönnuð með skilning á sögu. Ég myndi lýsa samstarfskonu hennar Carolina Irving á sama hátt. Undir fatamerki Irving & Fine hanna þær ekki bara fallegar flíkur til að klæðast; flíkurnar veita einnig innblástur. Þær eru auk þess ekki tískubóla heldur hjálpa manni að skapa sinn einstaka og persónulega fatastíl.


~ · ~

[Litirnir í eftirfarandi myndum sýna ekki hinn rétta bláa tón bróderingarinnar.
Dóttir mín tók myndirnar af mér í blússunni í garðinum.]


Þar sem Irving & Fine lýsa flíkinni sem klassískri Tangier-blússu þá langar mig að kinka kolli í átt að Tangier, þrátt fyrir að hafa aldrei komið þangað. Ég held að ég hafi gert hana rómantískari í mínum huga; er sennilega föst á gullaldarskeiði hennar. Tangier er lifandi borg nyrst í Morokkó og frá Spáni er ferjuferðin yfir Gíbraltarsund stutt. Muniði eftir í The Living Daylights (1987) þegar James Bond eltir uppi rússneska hershöfðingjann Pushkin í Tangier til að drepa hann? Það var allt sem þurfti til að fanga mig og ég hugsa um Tangier í hvert sinn sem ég heyri norrænu bræður okkar í A-ha flytja lagið. (Ég á eftir að sjá Spectre (2015), sem gerist þar líka.) Ég get auðveldlega séð fyrir mér blandaða menningu borgarinnar, þröng strætin og markaðsbásana þar sem kaupmenn selja mottur og krydd.



Að tala um Tangier og minnast ekki á frægasta erlenda borgarann, ameríska rithöfundinn, þýðandann og tónskáldið Paul Bowles, er eins og að ræða Nýja Testamentið án þess að minnast á Jesúm, eða Kóraninn og ekki Spámanninn. Árið 1958 í ferðagreininni ,The Worlds of Tangier,' skrifaði hann:
I am now convinced that Tangier is a place where the past and the present exist simultaneously in proportionate degree, where a very much alive today is given an added depth of reality by the presence of an equally alive yesterday. ... In Tangier the past is a physical reality as perceptible as the sunlight. (Paul Bowles.org).
Það var Gertrude Stein sem stakk upp á því við Bowles að reyna að lifa og vinna í Tangier. Hann kom þangað í annað sinn árið 1947, sendi frá sér The Sheltering Sky tveimur árum síðar (muniði eftir honum í hlutverki sögumannsins í kvikmynd Bertolucci?), og bjó þar í 52 ár, allt til dauðadags árið 1999. (Patti Smith skrifaði um hann og ferðir sínar til Morokkó í M Train, bók sem ég naut þess að lesa.)


Mig langar að skilja við ykkur með sjónrænum skammti af borginni, stuttu myndskeiði þar sem aðrir erlendir borgarar lýsa Tangier fyrir lesendum T-Magazine (Umberto Pasti og Christopher Gibbs, til að nefna einhverja). Það má lesa greinina, „The Aesthetes“, í fullri lengd með ljósmyndum á vefsíðu NYT (þetta er ein af þessum greinum sem ég hef geymt í möppunum). Höfundur hennar Andrew O'Hagan kynnir Tangier sem „high meeting place of the Mediterranean and the Atlantic, Europe and Africa, sanctity and sin, where men and women have long set out to find themselves between the devil and the deep blue sea.“

Einn daginn mun ég koma þangað. En þangað til á ég mína Tangier-blússu frá Irving & Fine.
Sveitablússa frá Irving & Fine · Lísa Stefan