Sýnir færslur með efnisorðinu arthur miller. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu arthur miller. Sýna allar færslur

föstudagur, 17. júní 2016

№ 2 bókalisti: flottar bókahillur

№ 2 bókalisti: bókahillur · Lísa Stefan


Ég er ástfangin af bókahillum. Ekki í fyrsta sinn. Með kaffibollanum hef ég verið að fletta fram og til baka innliti í hús í LA sem er með svo mörg smáatriði á hreinu (júlítölublað Elle Decoration UK, „House on the Hills“, ljósmyndari Stephanie Bjelkstam). Í opnum hillum í stofunni er bókum og skrautmunum raðað smekklega án þess að hillurnar virki yfirhlaðnar; bókum er raðað lóðrétt og lárétt sem gerir stíliseringuna enn áhugaverðari. Það er sem hillurnar andi og þær kallast á við gólfmottuna. Virkilega vel gert. Þessa dagana er ég að lesa nokkrar bækur og fljótlega mun ég gagnrýna eina hér á blogginu: Decorative Textiles from Arab and Islamic Cultures. Egypska bómullarábreiðan með ásauminum út til vinstri er smá sýnishorn.

Bókalisti sumarsins er tilbúinn (kannski ætti ég að segja sá fyrri þessa sumars) og samanstendur af leikritum og ævisögulegu efni. Nýverið skilaði ég á bókasafnið æviminningum Arthurs Millers Timebends (virkilega vel skrifuð bók sem ég mæli með) og fékk að láni tvö leikrit eftir hann. Á sama degi var ég að fletta uppi verkum eftir Virginiu Woolf á netinu og var svo heppin að finna tvær notaðar bækur (3. bindi dagbókar hennar er komið í hús og lítur út eins og nýtt - elska svoleiðis fund). Hér er listinn minn:

1  All My Sons  · Arthur Miller
2  Death of a Salesman  · Arthur Miller
3  Off the Road: Twenty Years with Cassady, Kerouac and Ginsberg  ·
Carolyn Cassady
4  The Diary of Virginia Woolf - Volume 3: 1925-1930  ritstj. Anne
Olivier Bell
5  The Letters of Virginia Woolf - Volume II: 1912-1922  ritstj. Nigel
Nicolson og Joanne Trautmann
6  Testament of Youth: An Autobiographical Study of the Years 1900-1925  ·
Vera Brittain

Sumir myndu kalla þetta frekar þungan sumarlestur en ég er bara ekki sú tegund lesanda sem nælir sér í stafla af léttefni í næstu bókabúð. Börnin voru að gera grín af mér um daginn og sögðu að ég læsi skrýtnar bækur. Ég er að reyna að muna rétt orðalag sem eitt þeirra notaði, „enskar yfirstéttarsnobbbókmenntir“ (English upper-class snob literature) eða eitthvað í þá áttina. Ég skellti upp úr.


Á aðeins persónulegri nótum: Ég óska ykkur gleðilegs þjóðhátíðardags en í dag eigum við hjónin 18 ára brúðkaupsafmæli. Í dag er einnig föstudagspizzudagur en eiginmaðurinn er staddur erlendis vegna vinnu. Við börnin ætlum bara að fá okkur franska osta, snittubrauð og vínber . . . og súkkulaði. Eigið góða helgi!

Bókhillumynd á minni mynd: Elle Decoration UK, júlí 2016, bls. 116 · Stephanie Bjelkstam



þriðjudagur, 22. mars 2016

№ 1 bókalisti: M Train eftir Patti Smith

№ 1 bókalisti: M Train eftir Patti Smith · Lísa Stefan


Ég sit hérna með kaffibollann minn í örygginu á mínu eigin heimili. Mér er brugðið og ég finn fyrir dofa og sorg yfir atburðum í Brussel. Innra með mér er líka einhver tilfinning sem ég á ekki orð yfir. Eins og flest ykkar vita bjuggum við í Belgíu í tvö ár og fyrstu hugsanirnar voru, Er í lagi með vini okkar? Flestir þeirra búa í Antwerpen og sem betur fer höfum við ekki fengið neinar slæmar fréttir. Þegar ég horfi á fréttirnar þá get ég ekki annað en hugsað um það að íslenska sendiráðið er bara rétt hjá Maelbeek-stöðinni. Þegar maður hefur rölt um þessar götur þá er þessi óhugnaður á einhvern hátt of nálægt manni.

···

Horfandi á bunkann sem ég kom með heim af bókasafninu fannst mér það skrýtið að fara beint frá því að lesa dagbækur og verk eftir Virginiu Woolf yfir í M Train eftir Patti Smith. Það allavega hljómaði skrýtið. Skyndilega kom upp í kollinn á mér, Bíddu nú við, sá ég ekki viðtal við Patti sem var tekið í Charleston-húsinu? Listamennirnir Vanessa Bell (systir Woolf) og Duncan Grant áttu þar heimili. Ég leitaði og fann viðtalið á YouTube og þarna var hún, að dást að húsinu og listrænu lífi Bloomsbury-hópsins. Ég fann meira að segja upptöku af því þegar Smith les verk eftir Woolf fyrir sal fullan af fólki.

Að fara frá Woolf yfir í Patti Smith virkaði núna ósköp eðlilegt.

Patti Smith byrjar M Train á orðunum: "Það er ekki svo auðvelt að skrifa um ekkert" (It's not so easy writing about nothing). Ef hún er að skrifa um ekkert þá gerir hún það svo sannarlega vel. Ég gat varla slitið mig frá lestrinum og áður en ég kláraði bókina var ég ákveðin í að kaupa mér eintak. Til að gefa ykkur hugmynd um þetta „ekkert“ þá drekkur lesandinn kaffi með Patti í Greenwich Village-hverfinu í New York (og syrgir líklega Café 'Ino á Bedford Street), heimsækir grafir rithöfunda í ýmsum heimshornum og horfir á glæpaþáttaseríur. Muniði eftir Linden og Holden úr The Killing, amerísku útgáfunni af dönsku seríunni Forbrydelsen? Þau eru þarna. Haruki Murakami er þarna; eftir að Patti las bók hans The Wind-Up Bird Chronicle varð ekki aftur snúið. Það mikilvægasta á síðunum er nærvera eiginmanns hennar Fred Sonic Smith sem féll frá 1994. Á einum punkti kemur hjartnæmt ákall: „Þú hefur verið nógu lengi í burtu. Komdu bara aftur“ (You've been gone long enough. Just come back - bls. 171). Að vissu leyti fjallar M Train um ekki neitt, eftir lesturinn situr samt svo mikið eftir. Einu vonbrigðin voru að bókin tók enda. Ég get ekki beðið eftir því að redda mér eintaki af Just Kids, æviminningunum sem færðu henni verðlaunin National Book Awards árið 2010. Skömmustuleg verð ég að viðurkenna að þá bók hef ég ekki lesið.


Kannski undir áhrifum Virginiu Woolf, sem stundum skrifaði bókalista í dagbókina sína, deili ég mínum bókalista fyrir þetta vor:

1  M Train  · Patti Smith
2  Among the Bohemians  · Virginia Nicholson
3  The Shadow of the Sun  · Ryszard Kapuscinski
4  Timebends: A Life  · Arthur Miller
5  The Great Railway Bazaar: By Train Through Asia  · Paul Theroux
6  African Textiles  · John Gillow
7  Japanese Textiles: In the Victoria and Albert Museum  · Anna Jackson
8  Art: A New History  · Paul Johnson

Fyrstu bókina er ég jú búin með. Ég er byrjuð á næstu tveimur á listanum og verð að segja að bók Nicholson kom mér skemmtilega á óvart. Þegar ég byrjaði á sjálfsævisögu Miller þá fangaði hún mig strax og ég held að eitt af leikritum hans rati á næsta bókalista. Það eru nefnilega mörg ár síðan ég las verk eftir hann.

№ 1 bókalisti: sjálfsævisaga Arthurs Miller, Timebends: A Life · Lísa Stefan