Sýnir færslur með efnisorðinu patti smith. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu patti smith. Sýna allar færslur

fimmtudagur, 19. desember 2019

№ 22 bókalisti: jólin 2019

№ 22 bókalisti: jólin 2019 · Lísa Stefan


Hérna er hann, bókalistinn sem ég lofaði fyrir löngu. Þessi er næstum tveir-fyrir-einn því ég ætlaði að deila einum í október og öðrum fyrir jól, en það varð bara of mikið að gera. Á einhverjum tímapunkti á þessari önn þegar ég var að reyna að skapa jafnvægi á milli náms og fjölskyldulífs komu mér í hug línur úr bók Joan Didion, The Year of Magical Thinking, sem urðu mantran mín: „In time of trouble, I had been trained since childhood, read, learn, work it up, go to the literature. Information was control.“ Um leið og ég fletti þeim upp var ekkert annað í stöðunni en að endurlesa bókina, aftur. Ég notaði þessa bók Didion um sorg og allt sem lífið kastar í átt til þín sem verðlaun í lestrarpásum. Didion hélt mér á jörðinni. Hún hélt mér við námsefnið. Information was control. Ég þarf að þakka tveimur forlögum fyrir bækur á listanum: Eland Books fyrir So It Goes og Fitzcarraldo Editions fyrir I Remain in Darkness. Báðar eru enskar þýðingar sem ég mun skrifa ritdóma um á nýja árinu.

№ 22 bókalisti:
1  Year of the Monkey  eftir Patti Smith
2  So It Goes  eftir Nicolas Bouvier
3  I Remain in Darkness  eftir Annie Ernaux
4  Genius and Ink: Virginia Woolf on How to Read
5  Life with Picasso  eftir Françoise Gilot og Carlton Lake
6  Look Homeward, Angel  eftir Thomas Wolfe
7  Essays in Disguise  eftir Wilfrid Sheed
8  Literary Theory: A Very Short Introduction  eftir Jonathan Culler
9  The Year of Magical Thinking  eftir Joan Didion [endurlestur]

Enskar þýðingar: 2) So It Goes: Robyn Marsack; 3) I Remain in Darkness: Tanya Leslie

Þessa síðustu mánuði hef ég verið að lesa nokkrar bækur á listanum þegar stund leyfir og hef þegar klárað Life with Picasso og I Remain in Darkness. Það var kominn tími til að setja Wilfrid Sheed á bókalista. Fyrir löngu síðan keypti ég notað eintak af þessu ritgerðasafni hans eftir að hafa heyrt John Williams hjá New York Times Book Review hrósa því á hlaðvarpinu þeirra. Aðra hverja viku spjalla starfsmennirnir um bækur sem þau eru að lesa í sínum frítíma og mér finnst bókasmekkur Williams komast næst mínum eigin og ég er yfirleitt sammála gagnrýni hans.

Í ár ákvað ég að brjóta út af hefðinni og endurlesa ekki klassískt verk um jólin. En ég mun lesa Little Women eftir Louisu May Alcott inn í nýja árið, hefð sem skapaðist hjá mér í Skotlandi. Síðasta föstudag hlustaði ég á viðtal ritstjórans David Remnick við Gretu Gerwig á hlaðvarpinu The New Yorker Radio Hour og dauðlangar núna að sjá kvikmyndina sem hún gerði eftir bókinni.



fimmtudagur, 28. júlí 2016

№ 3 bókalisti: síðsumar

№ 3 bókalisti: Patti Smith, Simone de Beauvoir, Gabriel García Márquez ... · Lísa Stefan


Mér fannst vera kominn tími á annan bókalista, einn síðsumars. Ég á að vísu eftir að klára bækur Virginiu Woolf á þeim síðasta; ég les ekki bréf hennar eða dagbókafærslur í einni lotu. Á nýja listanum mínum eru tvær bækur sem mig langaði að lesa aftur, Love in the Time of Cholera, sem ég hafði bara lesið í íslenskri þýðingu (Ástin á tímum kólerunnar) og The Sheltering Sky (fyrr í sumar sá ég kvikmynd Bertolucci aftur og varð því að lesa bókina aftur). Ævisöga Patti Smith, Just Kids er yndisleg. Það er hrein unun að lesa ritstíl hennar. Hér er síðsumars listinn:

1  Just Kids  · Patti Smith
2  Love in the Time of Cholera  · Gabriel García Márquez
3  My Life on the Road  · Gloria Steinem
4  Memoirs of a Dutiful Daughter  · Simone de Beauvoir
5  The Sheltering Sky  · Paul Bowles
6  Prayers for the Stolen  · Jennifer Clement

Ég var að klára að lesa æviminningar Gloriu Steinem, My Life on the Road, og æ, æ, þvílík vonbrigði. Ég hafði ekki lesið neina ritdóma og hélt að ég væri að fara að lesa meistaraverk sem vekti mann til umhugsunar, svona miðað við manneskju af hennar „kaliber“ og markaðssetningu bókarinnar, sem komst á metsölulista New York Times. Ekki misskilja mig, hún hefur margt fram að færa en stór hluti textans er kaótískur og illa skrifaður sem kom á óvart. Ég bjóst við meira frá eins reynslumiklum höfundi og ritstýru og Steinem. (Yfirlesturinn hefur farið verulega úrskeiðis; líklega of mikið af já-fólki komið þar að.)

Það er engin tímaröð (í góðu lagi mín vegna) en slíkar æviminningar kalla á vel uppsettan texta sem hjálpar manni að tengja. Stundum er bókin eins og ævisaga, stundum eins og blaðagrein og stundum eins og PowerPoint-skjal með áherslulistum. Örsögur eru fjölmargar, handahófskenndar minningar úr lífi hennar, sem eru illa skipulagðar. Mig langaði oft að hætta lestri en ég held að ég hafi haldið áfram í þeirri von að bókin batnaði. Fyrir ykkur sem hafið lesið hana þá verð ég að minnast á kaflann um leigubílstjórana: Fyrir utan það að kenna manni mikilvægi þess að virkilega hlusta á fólk þá var lestur hans hrein kvöl. Það eru lítil gullkorn inn á milli, t.d. virkilega fallegur texti um vinkonu sem hún missti úr krabbameini, en því miður get ég ekki mælt með þessari bók. Horfið frekar á viðtöl og fyrirlestra með Steinem á netinu ef þið viljið kynna ykkur mikilvægt hlutverk hennar. Það er af nógu er að taka og það efni mun veita ykkur meiri innblástur.

Persinn minn laumaði sér inn á myndina

Mér finnst dásamlegt að snúa mér aftur að Gabriel García Márquez, en bækur hans hef ég aldrei lesið á ensku áður. Ég ákvað að byrja á Love in the Time of Cholera og lesa svo næst One Hundred Years of Solitude (kom líka út í íslenskri þýðingu).

Og að lokum, áfram Hillary Clinton!



þriðjudagur, 22. mars 2016

№ 1 bókalisti: M Train eftir Patti Smith

№ 1 bókalisti: M Train eftir Patti Smith · Lísa Stefan


Ég sit hérna með kaffibollann minn í örygginu á mínu eigin heimili. Mér er brugðið og ég finn fyrir dofa og sorg yfir atburðum í Brussel. Innra með mér er líka einhver tilfinning sem ég á ekki orð yfir. Eins og flest ykkar vita bjuggum við í Belgíu í tvö ár og fyrstu hugsanirnar voru, Er í lagi með vini okkar? Flestir þeirra búa í Antwerpen og sem betur fer höfum við ekki fengið neinar slæmar fréttir. Þegar ég horfi á fréttirnar þá get ég ekki annað en hugsað um það að íslenska sendiráðið er bara rétt hjá Maelbeek-stöðinni. Þegar maður hefur rölt um þessar götur þá er þessi óhugnaður á einhvern hátt of nálægt manni.

···

Horfandi á bunkann sem ég kom með heim af bókasafninu fannst mér það skrýtið að fara beint frá því að lesa dagbækur og verk eftir Virginiu Woolf yfir í M Train eftir Patti Smith. Það allavega hljómaði skrýtið. Skyndilega kom upp í kollinn á mér, Bíddu nú við, sá ég ekki viðtal við Patti sem var tekið í Charleston-húsinu? Listamennirnir Vanessa Bell (systir Woolf) og Duncan Grant áttu þar heimili. Ég leitaði og fann viðtalið á YouTube og þarna var hún, að dást að húsinu og listrænu lífi Bloomsbury-hópsins. Ég fann meira að segja upptöku af því þegar Smith les verk eftir Woolf fyrir sal fullan af fólki.

Að fara frá Woolf yfir í Patti Smith virkaði núna ósköp eðlilegt.

Patti Smith byrjar M Train á orðunum: "Það er ekki svo auðvelt að skrifa um ekkert" (It's not so easy writing about nothing). Ef hún er að skrifa um ekkert þá gerir hún það svo sannarlega vel. Ég gat varla slitið mig frá lestrinum og áður en ég kláraði bókina var ég ákveðin í að kaupa mér eintak. Til að gefa ykkur hugmynd um þetta „ekkert“ þá drekkur lesandinn kaffi með Patti í Greenwich Village-hverfinu í New York (og syrgir líklega Café 'Ino á Bedford Street), heimsækir grafir rithöfunda í ýmsum heimshornum og horfir á glæpaþáttaseríur. Muniði eftir Linden og Holden úr The Killing, amerísku útgáfunni af dönsku seríunni Forbrydelsen? Þau eru þarna. Haruki Murakami er þarna; eftir að Patti las bók hans The Wind-Up Bird Chronicle varð ekki aftur snúið. Það mikilvægasta á síðunum er nærvera eiginmanns hennar Fred Sonic Smith sem féll frá 1994. Á einum punkti kemur hjartnæmt ákall: „Þú hefur verið nógu lengi í burtu. Komdu bara aftur“ (You've been gone long enough. Just come back - bls. 171). Að vissu leyti fjallar M Train um ekki neitt, eftir lesturinn situr samt svo mikið eftir. Einu vonbrigðin voru að bókin tók enda. Ég get ekki beðið eftir því að redda mér eintaki af Just Kids, æviminningunum sem færðu henni verðlaunin National Book Awards árið 2010. Skömmustuleg verð ég að viðurkenna að þá bók hef ég ekki lesið.


Kannski undir áhrifum Virginiu Woolf, sem stundum skrifaði bókalista í dagbókina sína, deili ég mínum bókalista fyrir þetta vor:

1  M Train  · Patti Smith
2  Among the Bohemians  · Virginia Nicholson
3  The Shadow of the Sun  · Ryszard Kapuscinski
4  Timebends: A Life  · Arthur Miller
5  The Great Railway Bazaar: By Train Through Asia  · Paul Theroux
6  African Textiles  · John Gillow
7  Japanese Textiles: In the Victoria and Albert Museum  · Anna Jackson
8  Art: A New History  · Paul Johnson

Fyrstu bókina er ég jú búin með. Ég er byrjuð á næstu tveimur á listanum og verð að segja að bók Nicholson kom mér skemmtilega á óvart. Þegar ég byrjaði á sjálfsævisögu Miller þá fangaði hún mig strax og ég held að eitt af leikritum hans rati á næsta bókalista. Það eru nefnilega mörg ár síðan ég las verk eftir hann.

№ 1 bókalisti: sjálfsævisaga Arthurs Miller, Timebends: A Life · Lísa Stefan