mánudagur, 23. mars 2015

Kort og kjúklingaleggir

Kort og latte · Lísa Hjalt


Ég hélt að á þessum tímapunkti gæti ég sýnt ykkur vorið í allri sinni dýrð en sú myndataka verður aðeins að bíða því þetta vor virðist vera með smá hiksta. Það vantar ekki páskaliljur og krókusa í blóma en ég er að bíða eftir að ákveðið magnólíutré í bænum taki að blómstra. Þegar sá dagur kemur að ég labba fyrir hornið og sé tréð í fullum blóma þá verður vorið komið hjá mér. Og hvað hefur þetta að gera með kort og kjúklingaleggi? Nákvæmlega ekkert.
Kort úr bókunum The Food of France, myndskreyting eftir Russell Bryant,
og The Food of India, eftir Rosanna Vecchio

Nýverið var sonurinn að vinna að verkefni í skólanum sem snerist um mat, sem leiddi til enn meiri matarumræðu en gengur og gerist á heimilinu. Þar sem pizza er uppáhaldsmaturinn hans rataði Ítalía í verkefnið og þá kom nú kortið mitt að góðum notum. Síðan þá hefur kortið legið hérna á borðinu mínu og stuðlað að þó nokkru korta-oflæti (mér finnst myndskreytt kort líka svo flott) og ferðahugmyndum: Einn vill fara til Japans, annar til Fiji eða Hawaii og svo fékk ég líka spurninguna, Mamma, hvernig er í Norður-Kóreu?, sem varð til þess að ég fór að hugsa um hvort þar væri hægt að fá latte. Ég get nú ekki sagt að latte-drykkja í Norður-Kóreu hafi ratað á listann minn góða en hver veit hvað framtíðin ber í skauti sér?



Ég veit ekki hvar ég væri án Google-kortanna en ég verð að segja að það jafnast nú ekkert á við að dreifa úr stóru landakorti á borð og gera ferðaplön eða bara að láta sig dreyma.

Þar sem páskarnir eru á næsta leiti er ég aðeins farin að huga að því hvað ég eigi að bralla í eldhúsinu. Allar páskaminningar úr barnæsku snúast um páskaegg, veisluborð og fermingar. Ég veit ekki með ykkur en hjá okkur eru engar páskaveislur og við höfum þetta eins einfalt og hugsast getur. Hérna megin við Atlantshafið er líka veðrið yfirleitt orðið það gott að ég nenni ekki að vera inni að stússast í eldhúsinu þegar ég get verið úti í sólinni. Ég fór því að hugsa um kjúklingaleggi.
Kjúklingaleggir, maríneraðir · Lísa Hjalt


Mér líkar einfaldleikinn sem fylgir því að elda og bera fram maríneraða kjúklingaleggi. Maríneraður kjúklingur finnst mér mjög góður en ég vil ekki að maríneringin steli of miklu bragði frá kjúklingakjötinu. Kannski má segja að sú heimspeki eigi við alla mína matargerð því ég er lítið hrifin af því þegar eitthvað eitt tiltekið bragð verður einkennandi. Ég mæli með því að marínera leggina yfir nótt. Þegar ég ber þá fram með grjónum þá rista ég yfirleitt sesamfræ á pönnu og strái yfir grjónin áður en ég ber þau fram.

MARÍNERAÐIR KJÚKLINGALEGGIR

9-10 kjúklingaleggir (helst velferðar-/free-range)
1 matskeið jurtaolía
1 matskeið tamarisósa
1 matskeið appelsínusafi, nýkreistur
1 rautt chilli aldin
lítill bútur ferskt engifer
má sleppa: nokkrir dropar Tabasco-sósa

Fræhreinsið og fínsaxið chilli aldinið. Afhýðið og fínsaxið engiferið.

Setjið kjúklingaleggina ásamt öðru hráefni í góðan frystipoka. Lokið pokanum vel og veltið leggjunum í pokanum til að dreifa vel úr maríneringunni. Setjið pokann í skál og látið leggina marínerast í alla vega 2-4 klukkustundir í kæliskáp, helst yfir nótt og snúið þá pokanum nokkrum sinnum.

Þegar kjúklingaleggirnir hafa marínerast skuluð þið dreifa þeim í ofnskúffu með grind. Eldið við 200°C (180° ef blástursofn) í 35 mínútur (þar til safinn er orðinn glær).

Berið fram með, til dæmis, hvítum eða brúnum basmati hrísgrjónum og tamarisósu, og jafnvel með sneiðum af avókadó og rauðri papriku.

Recipe in English
Kjúklingaleggir · Lísa Hjalt