þriðjudagur, 31. desember 2013

Gleðilegt ár



Kæru lesendur og bloggvinir, ég þakka ykkur fyrir heimsóknirnar á árinu sem er að líða og óska ykkur gæfu og friðsældar á nýju ári!

Ég kveð ykkur í bili með Auld Lang Syne. Sjáumst aftur árið 2014!

myndir:
1: Trouvé Magazine af síðu Erin Kate Gouveia á Pinterest / 2-3: Aristocrat Kids vor 2014

mánudagur, 30. desember 2013

Uppskrift: Skonsur, bakstur og handgerð jólagjöf



Jæja, hvernig hefur ykkur liðið um jólin? Ég fann jólaskapið þegar við settumst niður til að borða kalkúnamáltíð á aðfangadagskvöld, en ég viðurkenni að þessi desembermánuður var ólíkur öllum öðrum sem ég hef upplifað hingað til. Ég kenni flutningunum um og kannski rauðum jólum líka.

Ég hef verið nokkuð dugleg að baka í fríinu og í gær bauð ég fjölskyldunni upp á skonsur í morgunmat og setti auk þess uppskriftina á matarbloggið. Í fríinu bakaði ég líka bananabrauðið með valhnetunum og notaði tækifærið til þess að uppfæra uppskriftina eilítið. Í dag lofaði ég kryddbrauði, sem er klassík á þessu heimili.


Ég fékk margar fallegar bækur í jólagjöf en verð að segja að þessi litla minnisbók sem yngri dóttir mín bjó til handa mér var sú gjöf sem mér þótti einna vænst um. Stærðin á henni er á við þumalfingur og hún inniheldur 20 rúðustrikaðar síður. Hvað er betra en kaffi og hjörtu?


myndir:
Lísa Hjalt

þriðjudagur, 24. desember 2013

Gleðileg jól



Ég er byrjuð að sjóða möndlugrautinn fyrir kvöldið og vanillulyktin berst um allt hús. Dásamlegt! Mér finnst gaman að sjá að möndlugrauturinn er sú uppskrift sem flestir eru að skoða á matarblogginu þessa dagana, einnig sætkartöflumúsin með pekanhnetunum og rósakálið góða sem Nigella Lawson heillaði mig með hér um árið. Allt þetta verður að sjálfsögðu á jólaborðinu okkar í kvöld með kalkúninum. Það sem ég hlakka til að setjast niður og borða veislumat!

Ég keypti mér nýjan hvítan dúk í John Lewis og tauservíettur líka (kíkið endilega á krúttlegu jólaauglýsinguna þeirra í ár, um dýrið sem hafði aldrei séð jólin). Ég tók nokkrar myndir í gær þegar ég var að undirbúa borðið. Ég keypti greinarnar með berjunum á Íslandi fyrir mörgum árum og þær voru eitt af því fáa sem ég tók með þegar við fluttum út.


Ég gæti varla hugsað mér jól án bókapakka frá Amazon. Í ár fékk ég nokkrar sem voru á óskalistanum: tvær á borðið í setustofunni, Ralph Lauren (risastór og full af myndum) og The Natural Home eftir stílistann Hans Blomquist. Ég verð að fá bókmenntir líka og núna fékk ég fallega innbundna útgáfu af Persuasion eftir Jane Austen frá Penguin útgáfunni. Það var svo líka smá Downton Abbey í einum pakkanum (hlakka til að sjá jólaþáttinn sem verður sýndur í sjónvarpinu hér á morgun). Pósturinn færði mér svo þrjá pakka í gær frá vinum á Íslandi með bókum þannig að það verður enginn skortur á lesefni þessi jól.


*Vantar þig hugmyndir fyrir jólin? Kíktu á jólaborðið mitt á Pinterest.

Ég óska ykkur öllum gleðilegrar og friðsælar hátíðar!

mánudagur, 23. desember 2013

Dagdraumar um fannhvít jól



Ég var að fá mér smá kaffi þegar veslings póstmaðurinn mætti niðurrigndur með jólapakka. Það er víst lítið annað í boði en rigning og smá vindur hérna á West Midlands svæðinu í dag og yfir jólin. Ég væri alveg til í hvít jól; það jafnast ekkert á við að sjá snjókorn falla hægt og þekja jörðina á aðfangadag. En ég verð víst að láta mig dreyma um fannhvít jól með hjálp auglýsingaherferðar Fresh fyrir jólin 2013. Það er einhver gleði í þessum myndum hennar Laurie Frankel sem fangar mig og bætir upp fyrir rigninguna.

Ég vona að jólaundirbúningurinn gangi vel og að þið njótið Þorláksmessunnar án nokkurs stress!
*Vantar þig hugmyndir fyrir jólin? Kíktu á jólaborðið mitt á Pinterest.

myndir:
Laurie Frankel fyrir Fresh jól 2013 auglýsingaherferð

föstudagur, 20. desember 2013

miðvikudagur, 18. desember 2013

þriðjudagur, 17. desember 2013

Rýmið 47



Því miður veit ég engin nánari deili á þessari borðstofu en myndin er hluti af innliti á bloggi finnska ljósmyndarans Krista Keltanen. Ég væri alveg til í að eiga skápinn.

mynd:
Krista Keltanen af Pinterest/Krista Keltanen

föstudagur, 13. desember 2013

föstudagur, 6. desember 2013

fimmtudagur, 5. desember 2013

Rýmið 46



- hvítt, bjart svefnherbergi í íbúð í Stokkhólmi sem er til sölu
- í eigu sænska tískubloggarans Elin Kling (ég pinnaði mynd af henni fyrir stuttu þar sem hún er smart í svörtu eingöngu)

mynd:
Per Jansson af blogginu My Scandinavian Home

miðvikudagur, 4. desember 2013

Nivôse eftir Romme



Ég varð að fá jólalegan tískuskammt á bloggið í dag því ég hef áhyggjur af því að finna hreinlega ekki jólaandann í ár, sem er mjög óvenjulegt ástand fyrir mig. Ég er ein af þeim sem bókstaflega elska desember; elska komu jólanna. Ég þóttist viss um að þegar Last Christmas með Wham hljómaði í útvarpinu í dag að þá myndi þetta koma. En nei, það gerðist ekki neitt.

Kannski ef ég horfi nógu lengi á þessa fallegu tískuteikningu frá árinu 1919, Nivôse eftir Marthe Romme, fer eitthvað að bærast hið innra. Vonandi! Verð annars að fá að benda á eitt í teikningunni fyrst ég er að birta hana. Nú er kápan í öndvegi en takið eftir hvernig glittir í rendur þarna vinstra megin.

*Vantar þig hugmyndir fyrir jólin? Kíktu á jólaborðið mitt á Pinterest.

mynd:
Marthe Romme af Pinterest (uppgötvað í gegnum bloggið Classiq)