Sýnir færslur með efnisorðinu borðskreytingar. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu borðskreytingar. Sýna allar færslur

fimmtudagur, 3. apríl 2014

Perluliljur til vorskreytinga



Það er kominn fimmtudagur sem merkir að á blogginu fögnum við vori (ég þarf virkilega á svona innblæstri að halda í dag því hér á West Midlands svæðinu er sólarlaus, kaldur og grár dagur). Næstar í röðinni eru tvær hæfileikaríkar konur sem mynda öflugt teymi, ljósmyndarinn Lisa Warninger og stílistinn Chelsea Fuss af Frolic! blogginu. Þær hafa sett saman fjöldann allan af ljósmyndaþáttum fyrir þekkta viðskiptavini eins og HGTV, Kinfolk, Once Wed og Rue, til að nefna nokkra. Í þessum tiltekna fyrir Project Wedding (ég fékk bara nokkrar myndir lánaðar) voru það perluliljurnar sem fönguðu athygli mína. Einnig skærin sem sjást á efstu myndinni; mig langar svo í svona skæri.


Fyrir okkur sem erum alin upp á Íslandi þá eru perluliljur (Muscari armeniacum) kannski ekki týpískur vorboði þó að margir gróðursetji laukana í görðum sínum og noti blómin til skreytinga. En eftir að hafa verið búsett erlendis í nokkur ár þá eru þessi fagurbláu blóm, sem virðast skjóta upp kollinum svo til út um allt, einn af þessum dásamlegu vorboðum. Perluliljur uxu einmitt villtar í garðinum okkar í Luxembourg. Fyrir ykkur sem búið erlendis er óþarfi að skunda út í næstu blómabúð eða á blómamarkað til að verða ykkur út um perluliljur, ef þið búið nálægt skóglendi þá er nóg að grípa bastkörfuna og fara í góðan göngutúr í náttúrunni. Þið getið fyllt körfuna áður en heim er haldið.

Fill a glass full of these beauties to enjoy their clusters of tiny, urn-shaped flowers in finely drawn hues of blue at home. Though they bloom in April, their spicy-grape fragrance has been described as "the perfume of clove and sun-warmed Concord grapes of late September."
úr bókinni Bringing Nature Home eftir Ngoc Minh Ngo


myndir:
Lisa Warninger fyrir Project Wedding | stílisering: Chelsea Fuss af Frolic!
(birt með leyfi)

fimmtudagur, 6. mars 2014

Stílisering: írskt brúðkaup í náttúrulegum stíl



Ég held að það sé óþarfi að hafa mörg orð um þennan myndaþátt, best að leyfa bara myndunum að tala. Ég rakst á þá efstu á Pinterest og hrár og náttúrulegur stíllinn minnti mig svolítið á myndaþátt sem ég deildi á ensku útgáfunni um daginn. Ég pósta ekki oft einhverju brúðkaupstengdu á bloggin en ég hef alltaf gaman af fallegri, náttúrulegri stíliseringu. Það er einhver einfaldleiki og friður í þessum myndum sem heillar mig, umhverfið er líka svo skemmtilegt og maturinn virkilega girnilegur. Stílisti var Alise Taggart og Paula O'Hara tók myndirnar, einhvers staðar á Írlandi.


myndir:
Paula O'Hara af síðunni 100 Layer Cake | stílisering: Alise Taggart

fimmtudagur, 6. febrúar 2014

Georgia O'Keeffe innblásið borðhald



Fyrir ykkur sem lesið ensku útgáfu bloggsins þá ætti þessi póstur ekki að koma á óvart. Í fyrradag deildi ég tískuþætti innblásnum af Georgia O'Keeffe og í dag innliti í hús listakonunnar í Abiquiu í New Mexico, en því hefur verið haldið við síðan hún lést árið 1986. Mig langaði til að vera með eitthvað tengt Georgia O'Keeffe á íslenska blogginu líka og mundi þá eftir myndaþættinum „South by Southwest“ sem birtist í tímaritinu Gourmet fyrir nokkrum árum síðan. Stílisering var í höndum Ruth Cousineau og ljósmyndarinn Mikkel Vang festi herlegheitin á filmu. Hrái stíllinn og hlutlausu tónarnir í bland við þá bláu eru mér að skapi. Hauskúpur dýrana gætu ekki verið meira O'Keeffe. Þær voru innblástur að mörgum verka hennar, en hún safnaði þeim ásamt beinum og steinum í göngutúrum sínum í stórbrotinni náttúru New Mexico.


myndir:
Mikkel Vang fyrir Gourmet | stílisering: Ruth Cousineau af blogginu One Part Gypsy

þriðjudagur, 24. desember 2013

Gleðileg jól



Ég er byrjuð að sjóða möndlugrautinn fyrir kvöldið og vanillulyktin berst um allt hús. Dásamlegt! Mér finnst gaman að sjá að möndlugrauturinn er sú uppskrift sem flestir eru að skoða á matarblogginu þessa dagana, einnig sætkartöflumúsin með pekanhnetunum og rósakálið góða sem Nigella Lawson heillaði mig með hér um árið. Allt þetta verður að sjálfsögðu á jólaborðinu okkar í kvöld með kalkúninum. Það sem ég hlakka til að setjast niður og borða veislumat!

Ég keypti mér nýjan hvítan dúk í John Lewis og tauservíettur líka (kíkið endilega á krúttlegu jólaauglýsinguna þeirra í ár, um dýrið sem hafði aldrei séð jólin). Ég tók nokkrar myndir í gær þegar ég var að undirbúa borðið. Ég keypti greinarnar með berjunum á Íslandi fyrir mörgum árum og þær voru eitt af því fáa sem ég tók með þegar við fluttum út.


Ég gæti varla hugsað mér jól án bókapakka frá Amazon. Í ár fékk ég nokkrar sem voru á óskalistanum: tvær á borðið í setustofunni, Ralph Lauren (risastór og full af myndum) og The Natural Home eftir stílistann Hans Blomquist. Ég verð að fá bókmenntir líka og núna fékk ég fallega innbundna útgáfu af Persuasion eftir Jane Austen frá Penguin útgáfunni. Það var svo líka smá Downton Abbey í einum pakkanum (hlakka til að sjá jólaþáttinn sem verður sýndur í sjónvarpinu hér á morgun). Pósturinn færði mér svo þrjá pakka í gær frá vinum á Íslandi með bókum þannig að það verður enginn skortur á lesefni þessi jól.


*Vantar þig hugmyndir fyrir jólin? Kíktu á jólaborðið mitt á Pinterest.

Ég óska ykkur öllum gleðilegrar og friðsælar hátíðar!

fimmtudagur, 17. janúar 2013

falleg borðskreyting


Ég fann þessa mynd á flakki mínu um netið í gær og þó að þetta sé haustþema þá fannst mér hún of falleg til að bíða fram á haust með það að pósta henni. Þið getið skoðað fleiri myndir á síðunni Sunday Suppers en tilefnið var að Aran Goyoaga, þekktur matarbloggari sem heldur úti síðunni Cannelle et Vanille, var gestakokkur hjá þeim stöllum. Aran er nýbúin að gefa út sýna fyrstu bók Small Plates and Sweet Treats: My Family's Journey to Gluten-Free Cooking.

mynd:
Karen Mordechai af síðunni Sunday Suppers