Sýnir færslur með efnisorðinu lagt á borð. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu lagt á borð. Sýna allar færslur

þriðjudagur, 30. september 2014

Ný keramiklína: POME-POME



Eruð þið að leita að fallegum og stílhreinum munum til að prýða borðið ykkar, einhverju nýju til að safna? Nú í haust er væntanleg á markað ný keramiklína, POME-POME, frá hinni dönsku Malene Helbak, sem hún hannaði í samstarfi við sænska grafíska hönnuðinn Nygårds Maria. Þær stöllur sóttu innblástur í jurtaríkið og allir munirnir eru hvítir með sæbláum og petról-bláum (er til íslenskt heiti yfir svona lit?), mintugrænum og appelsínugulum tónum. Er það klisja að segja að það gerist varla skandinavískara? Ég veit ekki með ykkur en ég gæti vel hugsað mér að dekka mitt borð með þessum munum.

mynd:
af vefsíðu Bo Bedre

föstudagur, 9. maí 2014

Línvörur í Merci í París


Í stað þess að óska ykkur góðrar helgar með föstudagsblómum birti ég færslu í náttúruleg efni seríunni. Síðasta föstudag vorum við að dást að kirsuberjatrjám í París og því er eðal að halda þangað aftur. Ég vildi stundum að ég byggi í París bara svo ég gæti verslað borðbúnað hvenær sem mér hentaði í Merci, yndislegu concept-búðinni á Boulevard Beaumarchais í 3. hverfi, (muniði eftir þessari færslu?). Þau eru með netverslun en það er allt önnur stemning að rölta um búðina og snerta efnin. Ég er svo hrifin af línvörunum þeirra og hef sett margar á óskalistann. Ef þið eruð að leita að náttúrlegum efnum fyrir heimilið þá er Merci rétta verslunin.

Tauservíettur, 100% lín, blá (French blue) + fölbleik (blush pink)

Ég á nokkrar tauservíettur frá Merci í hlutlausum tónum. Þær eru framleiddar úr þvegnu líni og eru náttúrulega krumpaðar í útliti. Fyrir sumarið langar mig í liti eins og bláan (French blue), mjög ljósbláan tón (blue lagoon), fölbleikan (blush pink), og jafnvel skærbleikan (bright pink), sem lítur út fyrir að vera kóralrauður.


Síðasta sumar eyðilagðist því miður uppáhaldsborðdúkurinn minn, bómull-lín blanda í blá-gráum lit, þegar vax frá flugnafælukerti helltist niður á hann. Ég keypti hann þegar við bjuggum í Antwerpen og hef ekki fundið þennan sama lit hér í Englandi. Ég man þegar ég skoðaði dúkana í Merci hvað ég varð hrifin af gráa litnum (graphite grey) og beinhvíta (off-white). Ég er líka svolítið skotin í fjólubláa (violet) dúknum.

Svuntur með rönd, 100% lín, kóralrauð (light coral) + dökkblá (dark navy blue)

Önnur vara frá Merci sem mig langar í er svunta með rönd í svo til hvaða lit sem er. Þær eru einnig úr þvegnu líni sem er náttúrlega krumpað. Svunturnar eru fáanlegar í einni stærð og maður getur notað hálsbandið eða brotið þær saman og bundið um mittið.


myndir:
Merci

fimmtudagur, 3. apríl 2014

Perluliljur til vorskreytinga



Það er kominn fimmtudagur sem merkir að á blogginu fögnum við vori (ég þarf virkilega á svona innblæstri að halda í dag því hér á West Midlands svæðinu er sólarlaus, kaldur og grár dagur). Næstar í röðinni eru tvær hæfileikaríkar konur sem mynda öflugt teymi, ljósmyndarinn Lisa Warninger og stílistinn Chelsea Fuss af Frolic! blogginu. Þær hafa sett saman fjöldann allan af ljósmyndaþáttum fyrir þekkta viðskiptavini eins og HGTV, Kinfolk, Once Wed og Rue, til að nefna nokkra. Í þessum tiltekna fyrir Project Wedding (ég fékk bara nokkrar myndir lánaðar) voru það perluliljurnar sem fönguðu athygli mína. Einnig skærin sem sjást á efstu myndinni; mig langar svo í svona skæri.


Fyrir okkur sem erum alin upp á Íslandi þá eru perluliljur (Muscari armeniacum) kannski ekki týpískur vorboði þó að margir gróðursetji laukana í görðum sínum og noti blómin til skreytinga. En eftir að hafa verið búsett erlendis í nokkur ár þá eru þessi fagurbláu blóm, sem virðast skjóta upp kollinum svo til út um allt, einn af þessum dásamlegu vorboðum. Perluliljur uxu einmitt villtar í garðinum okkar í Luxembourg. Fyrir ykkur sem búið erlendis er óþarfi að skunda út í næstu blómabúð eða á blómamarkað til að verða ykkur út um perluliljur, ef þið búið nálægt skóglendi þá er nóg að grípa bastkörfuna og fara í góðan göngutúr í náttúrunni. Þið getið fyllt körfuna áður en heim er haldið.

Fill a glass full of these beauties to enjoy their clusters of tiny, urn-shaped flowers in finely drawn hues of blue at home. Though they bloom in April, their spicy-grape fragrance has been described as "the perfume of clove and sun-warmed Concord grapes of late September."
úr bókinni Bringing Nature Home eftir Ngoc Minh Ngo


myndir:
Lisa Warninger fyrir Project Wedding | stílisering: Chelsea Fuss af Frolic!
(birt með leyfi)

fimmtudagur, 6. mars 2014

Stílisering: írskt brúðkaup í náttúrulegum stíl



Ég held að það sé óþarfi að hafa mörg orð um þennan myndaþátt, best að leyfa bara myndunum að tala. Ég rakst á þá efstu á Pinterest og hrár og náttúrulegur stíllinn minnti mig svolítið á myndaþátt sem ég deildi á ensku útgáfunni um daginn. Ég pósta ekki oft einhverju brúðkaupstengdu á bloggin en ég hef alltaf gaman af fallegri, náttúrulegri stíliseringu. Það er einhver einfaldleiki og friður í þessum myndum sem heillar mig, umhverfið er líka svo skemmtilegt og maturinn virkilega girnilegur. Stílisti var Alise Taggart og Paula O'Hara tók myndirnar, einhvers staðar á Írlandi.


myndir:
Paula O'Hara af síðunni 100 Layer Cake | stílisering: Alise Taggart

þriðjudagur, 24. desember 2013

Gleðileg jól



Ég er byrjuð að sjóða möndlugrautinn fyrir kvöldið og vanillulyktin berst um allt hús. Dásamlegt! Mér finnst gaman að sjá að möndlugrauturinn er sú uppskrift sem flestir eru að skoða á matarblogginu þessa dagana, einnig sætkartöflumúsin með pekanhnetunum og rósakálið góða sem Nigella Lawson heillaði mig með hér um árið. Allt þetta verður að sjálfsögðu á jólaborðinu okkar í kvöld með kalkúninum. Það sem ég hlakka til að setjast niður og borða veislumat!

Ég keypti mér nýjan hvítan dúk í John Lewis og tauservíettur líka (kíkið endilega á krúttlegu jólaauglýsinguna þeirra í ár, um dýrið sem hafði aldrei séð jólin). Ég tók nokkrar myndir í gær þegar ég var að undirbúa borðið. Ég keypti greinarnar með berjunum á Íslandi fyrir mörgum árum og þær voru eitt af því fáa sem ég tók með þegar við fluttum út.


Ég gæti varla hugsað mér jól án bókapakka frá Amazon. Í ár fékk ég nokkrar sem voru á óskalistanum: tvær á borðið í setustofunni, Ralph Lauren (risastór og full af myndum) og The Natural Home eftir stílistann Hans Blomquist. Ég verð að fá bókmenntir líka og núna fékk ég fallega innbundna útgáfu af Persuasion eftir Jane Austen frá Penguin útgáfunni. Það var svo líka smá Downton Abbey í einum pakkanum (hlakka til að sjá jólaþáttinn sem verður sýndur í sjónvarpinu hér á morgun). Pósturinn færði mér svo þrjá pakka í gær frá vinum á Íslandi með bókum þannig að það verður enginn skortur á lesefni þessi jól.


*Vantar þig hugmyndir fyrir jólin? Kíktu á jólaborðið mitt á Pinterest.

Ég óska ykkur öllum gleðilegrar og friðsælar hátíðar!