föstudagur, 9. maí 2014

Línvörur í Merci í París


Í stað þess að óska ykkur góðrar helgar með föstudagsblómum birti ég færslu í náttúruleg efni seríunni. Síðasta föstudag vorum við að dást að kirsuberjatrjám í París og því er eðal að halda þangað aftur. Ég vildi stundum að ég byggi í París bara svo ég gæti verslað borðbúnað hvenær sem mér hentaði í Merci, yndislegu concept-búðinni á Boulevard Beaumarchais í 3. hverfi, (muniði eftir þessari færslu?). Þau eru með netverslun en það er allt önnur stemning að rölta um búðina og snerta efnin. Ég er svo hrifin af línvörunum þeirra og hef sett margar á óskalistann. Ef þið eruð að leita að náttúrlegum efnum fyrir heimilið þá er Merci rétta verslunin.

Tauservíettur, 100% lín, blá (French blue) + fölbleik (blush pink)

Ég á nokkrar tauservíettur frá Merci í hlutlausum tónum. Þær eru framleiddar úr þvegnu líni og eru náttúrulega krumpaðar í útliti. Fyrir sumarið langar mig í liti eins og bláan (French blue), mjög ljósbláan tón (blue lagoon), fölbleikan (blush pink), og jafnvel skærbleikan (bright pink), sem lítur út fyrir að vera kóralrauður.


Síðasta sumar eyðilagðist því miður uppáhaldsborðdúkurinn minn, bómull-lín blanda í blá-gráum lit, þegar vax frá flugnafælukerti helltist niður á hann. Ég keypti hann þegar við bjuggum í Antwerpen og hef ekki fundið þennan sama lit hér í Englandi. Ég man þegar ég skoðaði dúkana í Merci hvað ég varð hrifin af gráa litnum (graphite grey) og beinhvíta (off-white). Ég er líka svolítið skotin í fjólubláa (violet) dúknum.

Svuntur með rönd, 100% lín, kóralrauð (light coral) + dökkblá (dark navy blue)

Önnur vara frá Merci sem mig langar í er svunta með rönd í svo til hvaða lit sem er. Þær eru einnig úr þvegnu líni sem er náttúrlega krumpað. Svunturnar eru fáanlegar í einni stærð og maður getur notað hálsbandið eða brotið þær saman og bundið um mittið.


myndir:
Merci

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.