mánudagur, 19. maí 2014

Breytingar



Ég lofaði fréttum á föstudaginn. Fyrir ykkur sem hafið fylgst með blogginu síðan við bjuggum í Antwerpen (var bara með ensku útgáfuna þar) þá eru svona fréttir ekki beint óvæntar: við erum að flytja aftur! Í þetta sinn eru þetta ekki flutningar á milli landa (værum á leið til Ástralíu ef yngri dóttirin mætti ráða) heldur erum við að færa okkur til South Yorkshire (ætli það kallist ekki hinu skelfilega nafni Suður-Jórvíkurskíri á íslensku. Börnin fengu kast þegar ég sagði þeim frá íslenskum þýðingum á hinum og þessum „shires“ í Englandi). Ástæðan fyrir flutningunum er löng eiginmaðurinn-óvænt-að-skipta-um-vinnu saga. Við ætluðum að flytja síðar á árinu eða því næsta en svo fundum við rétta húsið núna um páskana.

Eftir það gerðust hlutirnar frekar hratt því krakkarnir vildu byrja í nýjum skólum fyrir sumarfrí til þess að vera búnir að kynnast skólastarfinu áður en skólinn byrjar aftur í haust. Ég tala yfirleitt ekki um börnin mín á blogginu en verð að segja að aðlögunarhæfni þeirra er hreint með ólíkindum. Svona breytingar virðast varla hagga þeim. Ég sjálf er óhrædd við breytingar og hef ekki tamið mér það að halda í hluti en stundum velti ég því fyrir mér hvort ég hafi alið börnin þannig upp að þau eigi hreinlega of auðvelt með að sleppa taki á hlutum!


Á laugardaginn sá ég húsið í fyrsta sinn og um leið og ég gekk inn í það þá var ég komin heim. Það er nýtt og nútímalega innréttað en samt hlýlegt. Veggir, gólfefni og innréttingar eru í hlutlausum tónum þannig að það verður auðvelt að koma okkar dóti fyrir og skapa fallegt heimili. Ég er skotin í eldhúsinu og get ekki beðið að elda fyrstu máltíðina og skella böku eða köku í ofninn. Garðurinn sem við erum með núna er mjög fallegur og fullur af blómum en á nýja staðnum er bara gras og engin blómabeð. En við lóðarmörkin standa tignarleg síprustré og svo kaupum við bara rósir, lavender og fleiri plöntur í pottum og gerum huggulegt hjá okkur.

Á morgun mætir hér hópur af starfsmönnum flutningsfélags sem sér um að pakka öllu dótinu okkar í kassa og á miðvikudaginn flytjum við í nýja húsið. Við erum orðin ansi spennt og ég get ekki beðið eftir að taka upp úr kössunum og koma dótinu fyrir.

Takk fyrir innlitið og njótið dagsins!


myndir:
1: Sean Fennessy fyrir The Design Files / 2: El Mueble / 3: Jodi af Practising Simplicity af síðu Jacquelyn/lark & linen á Pinterest

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.