sunnudagur, 25. nóvember 2018

Gulróta- og kókossúpa frá Zanzibar

Gulróta- og kókossúpa frá Zanzibar · Lísa Hjalt


Þessi ljúffenga gulróta- og kókossúpa frá Zanzibar er bragðgóð og rjómakennd. Líkaminn bókstaflega öskrar á hana á haustin þegar ný gulrótauppskera kemur í verslanir. Sigrún vinkona á uppskriftina sem birtist í bók hennar, Café Sigrún: Hollustan hefst heima (við skemmtum okkur vel þegar ég var að aðstoða hana með handritið). Sigrún hefur ferðast mikið um Austur-Afríku og súpan er innblásin af undursamlegum dögum á eyjunni Zanzibar: Þar sem hún sat og gæddi sér á gulrótasúpu naut hún útsýnis yfir Indlandshafið og í loftinu var ilmurinn sem barst frá matarbásunum á Forodhani-markaðnum, í hinni sögulegu borg Stone Town. Súpan er vegan, auðvelt er að matreiða hana (þið þurfið töfrasprota eða matvinnsluvél) og hún gefur ykkur nauðsynleg vítamín og trefjar. Þetta er ein vinsælasta uppskriftin á CafeSigrun-vefsíðunni: Ég hef engar breytingar gert á innihaldinu, bara örlitlar á aðferðinni.

GULRÓTA- OG KÓKOSSÚPA FRÁ ZANZIBAR

2 matskeiðar kókosolía
1 stór laukur
4 hvítlauksrif
lítill bútur ferskt engifer
300 g lífrænar gulrætur
150 g sætar kartöflur
1 teskeið karrí
2 lífrænir grænmetisteningar
750 ml vatn
150 ml kókosmjólk
½-1 teskeið sjávar/Himalayasalt
má sleppa: pipar eftir smekk
má sleppa: 7-10 saffranþræðir

Skolið gulræturnar (burstið ef þarf) og afhýðið annað grænmeti. Saxið allt gróft. (Afhýðið eða skafið gulræturnar ef þið notið ekki lífrænar.)

Hitið kókosolíuna í potti við meðalhita og steikið laukinn þar til hann fer að mýkjast. Bætið hvítlauk og engifer út í, steikið áfram í nokkrar mínútur og hrærið svo karrí saman við (ég nota kraftmikið karrí).

Bætið gulrótum og sætum kartöflum út í og veltið upp úr karríblöndunni. Hellið vatninu í pottinn ásamt grænmetisteningunum, aukið hitann og hrærið vel. Hitið upp að suðu, hrærið ½ teskeið af salti saman við, setjið svo lok á pottinn og leyfið súpunni að malla við vægan hita í 25-30 mínútur.

Fjarlægið pottinn af hellunni og blandið kókosmjólkinni ásamt saffranþráðunum saman við. Maukið súpuna með töfrasprota þar til áferðin er silkimjúk. Farið varlega því súpan er sjóðandi heit: Haldið töfrasprotanum alveg beinum og ýtið á takkann þegar neðsti hluti sprotans er ofan í súpunni (ef maukuð í matvinnsluvél/blandara er betra að leyfa súpunni að kólna aðeins áður hún er maukuð í smá skömmtum).

Hitið súpuna upp og smakkið til með salti og pipar án þess að láta hana sjóða. Berið súpuna fram með nýbökuðu brauði eða bollum.

Recipe in English




föstudagur, 16. nóvember 2018

№ 17 bókalisti: rithöfundatryggð

№ 17 bókalisti: rithöfundatryggð · Lísa Hjalt


Árið 1971 skrifaði Joan Didion ritgerð um Doris Lessing sem byrjaði á orðunum: „To read a great deal of Doris Lessing over a short span of time is to feel that the original hound of heaven has commandeered the attic. She holds the mind's other guests in ardent contempt“ (The White Album, bls. 119). Áhugavert. Ég hef orð hennar í huga þegar ég les Martha Quest, fyrstu bókina af fimm í Children of Violence seríunni. Þessi bókalisti minn er að nokkru leyti byggður á rithöfundatryggð: skáldsögurnar The Grass Is Singing og The Golden Notebook eftir Lessing voru á lista № 7 og á síðasta voru bækur eftir Didion, Johnson og Baldwin.

№ 17 bókalisti:
1  Martha Quest  eftir Doris Lessing
2  Two Lives  eftir William Trevor
3  Housekeeping  eftir Marilynne Robinson
4  Where I Was From  eftir Joan Didion *
5  Play It as It Lays  eftir Joan Didion
6  The Uncommon Reader  eftir Alan Bennett
7  Jesus' Son  eftir Denis Johnson
8  Nobody Knows My Name  eftir James Baldwin
9  Will You Please Be Quiet, Please?  eftir Raymond Carver **

* Úr We Tell Ourselves Stories in Order to Live, útg. Everyman's Library.
** Úr Collected Stories, útg. The Library of America.

Í fyrsta sinn er ég að lesa verk eftir þá William Trevor og Raymond Carver, og Play It as It Lays er fyrsta skáldsagan eftir Didion sem ég les. Á næsta bókalista verða japanskar bókmenntir eingöngu. Ég lofaði öðrum slíkum lista fyrir löngu og ætla að uppfylla það loforð sem fyrst.