föstudagur, 22. ágúst 2014

Sýnishorn: CafeSigrun uppskriftabókinFyrr í vikunni sagði ég ykkur að uppskriftir væru mér hugleiknar þessa dagana, meira en venjulega, og nú langar mig að segja ykkur út af hverju (enginn föstudagsblómapóstur í dag). Ég tók að mér að ritstýra bókinni hennar Sigrúnar vinkonu minnar sem heldur úti CafeSigrun vefsíðunni, þar sem má heldur betur finna úrval af frábærum uppskriftum sem eru lausar við hvítan sykur, hvítt hveiti, ger og fleira. Sigrún hefur haldið úti vefsíðunni í fjölmörg ár, með mjög svo óeigingjörnu starfi, og núna er hún að koma með sína fyrstu uppskriftabók. Hún vann allar uppskriftirnar sjálf í eldhúsinu sínu (fyrst í London, þar sem hún bjó áður, og svo heima á Íslandi) og tók einnig allar myndirnar sjálf. Þess má geta að hún er í fullu námi í klínískri barnasálfræði og á auk þess tvö lítil kríli þannig að þetta hefur verið mikil vinna, en vel þess virði því bókin verður virkilega falleg.


Þessa dagana hugsa ég eiginlega í uppskriftum og á skrifborðinu eru ekkert nema útprentaðir kaflar frá Sigrúnu. Ég gæti allt eins svarað með orðinu múskat eða grasker ef einhver spyrði mig hvernig ég hefði það. Eins gaman og þetta er þá verð ég að viðurkenna að um leið er þetta eins konar sjálfspynting því þegar ég samþykkti að aðstoða Sigrúnu þá gleymdi ég einu atriði: Öllum myndunum sem verða í bókinni sem ég fæ í tölvupósti! Ég sit hér í sakleysi mínu að lesa yfir kafla þegar tölvupóstur berst með ekki einni heldur kannski fimm myndum af guðdómlegustu súkkulaðisneið sem fyrir finnst (þessar sem innihalda alvöru súkkulaði sem glampar á!) og svo spyr Sigrún eins og ekkert sé: „Hver er best?“ Og þegar ég hef rétt jafnað mig á þessari sendingu þá berst annar póstur með kannski svakalega girnilegum grænmetisrétti, fiskrétti, salati, súpu, brauði, ís, konfekti og ég veit ekki hvað. Og svona er þetta alla daga. Alla! Bara nú í dag hef ég fengið um 10 myndir eða svo.

Myndirnar í þessari bloggfærslu eru bara örlítið brot af kræsingunum í bókinni (og fyrrnefndri sjálfspyntingu!).


Það er enn ekki kominn útgáfudagur á bókina, sem Forlagið gefur út, en ég segi ykkur að sjálfsögðu hvenær það gerist. Handritinu skilar Sigrún inn núna í byrjun september og við erum auðvitað voðalega spenntar yfir þessu öllu. Næstu viku ætlum við að nota til þess að fínpússa handritið fyrir skil og því ætla ég að taka frí frá bloggskrifum.

Ég óska ykkur góðrar helgar og vona að þessir síðustu dagar ágústmánaðar leiki við ykkur!

myndir:
Sigrun Þorsteinsdóttir - CafeSigrun