Sýnir færslur með efnisorðinu cafesigrun. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu cafesigrun. Sýna allar færslur

sunnudagur, 25. nóvember 2018

Gulróta- og kókossúpa frá Zanzibar

Gulróta- og kókossúpa frá Zanzibar · Lísa Stefan


Þessi ljúffenga gulróta- og kókossúpa frá Zanzibar er bragðgóð og rjómakennd. Líkaminn bókstaflega öskrar á hana á haustin þegar ný gulrótauppskera kemur í verslanir. Sigrún vinkona á uppskriftina sem birtist í bók hennar, Café Sigrún: Hollustan hefst heima (við skemmtum okkur vel þegar ég var að aðstoða hana með handritið). Sigrún hefur ferðast mikið um Austur-Afríku og súpan er innblásin af undursamlegum dögum á eyjunni Zanzibar: Þar sem hún sat og gæddi sér á gulrótasúpu naut hún útsýnis yfir Indlandshafið og í loftinu var ilmurinn sem barst frá matarbásunum á Forodhani-markaðnum, í hinni sögulegu borg Stone Town. Súpan er vegan, auðvelt er að matreiða hana (þið þurfið töfrasprota eða matvinnsluvél) og hún gefur ykkur nauðsynleg vítamín og trefjar. Þetta er ein vinsælasta uppskriftin á CafeSigrun-vefsíðunni: Ég hef engar breytingar gert á innihaldinu, bara örlitlar á aðferðinni.

GULRÓTA- OG KÓKOSSÚPA FRÁ ZANZIBAR

2 matskeiðar kókosolía
1 stór laukur
4 hvítlauksrif
lítill bútur ferskt engifer
300 g lífrænar gulrætur
150 g sætar kartöflur
1 teskeið karrí
2 lífrænir grænmetisteningar
750 ml vatn
150 ml kókosmjólk
½-1 teskeið sjávar/Himalayasalt
má sleppa: pipar eftir smekk
má sleppa: 7-10 saffranþræðir

Skolið gulræturnar (burstið ef þarf) og afhýðið annað grænmeti. Saxið allt gróft. (Afhýðið eða skafið gulræturnar ef þið notið ekki lífrænar.)

Hitið kókosolíuna í potti við meðalhita og steikið laukinn þar til hann fer að mýkjast. Bætið hvítlauk og engifer út í, steikið áfram í nokkrar mínútur og hrærið svo karrí saman við (ég nota kraftmikið karrí).

Bætið gulrótum og sætum kartöflum út í og veltið upp úr karríblöndunni. Hellið vatninu í pottinn ásamt grænmetisteningunum, aukið hitann og hrærið vel. Hitið upp að suðu, hrærið ½ teskeið af salti saman við, setjið svo lok á pottinn og leyfið súpunni að malla við vægan hita í 25-30 mínútur.

Fjarlægið pottinn af hellunni og blandið kókosmjólkinni ásamt saffranþráðunum saman við. Maukið súpuna með töfrasprota þar til áferðin er silkimjúk. Farið varlega því súpan er sjóðandi heit: Haldið töfrasprotanum alveg beinum og ýtið á takkann þegar neðsti hluti sprotans er ofan í súpunni (ef maukuð í matvinnsluvél/blandara er betra að leyfa súpunni að kólna aðeins áður hún er maukuð í smá skömmtum).

Hitið súpuna upp og smakkið til með salti og pipar án þess að láta hana sjóða. Berið súpuna fram með nýbökuðu brauði eða bollum.




þriðjudagur, 19. janúar 2016

Tómatsúpa með grænmeti og karrí

Tómatsúpa með grænmeti og karrí · Lísa Stefan


Ég skrifaði þetta í gær þegar við vorum öll saman í stofunni að drekka heitt súkkulaði með eld logandi í arninum. Síðustu daga hefur ekki bara verið kalt úti heldur bilaði miðstöðvarketillinn á sunnudaginn og viðgerðarmaðurinn ekki væntanlegur fyrr en í dag. Ég ætla ekki að reyna að lýsa því hversu þakklát ég er fyrir þennan arinn! Í hádeginu í gær urðum við að fá eitthvað til að verma kroppinn og það eina sem við gátum hugsað okkur var skál af kalt-úti súpu. Það er nafnið sem við gáfum minni útgáfu af tómatsúpu Höddu, matarmikilli súpu sem við fundum á CafeSigrun-vefsíðunni fyrir mörgum árum síðan þegar við bjuggum enn á Íslandi. Hún er kjörin á köldum vetrardögum.
Tómatsúpa með grænmeti og karrí · Lísa Stefan


Við erum öll hrifin af upprunalegu uppskriftinni að tómatsúpunni. Sú inniheldur léttan rjómaost, sem ég kaupi afar sjaldan, en of mikið af rósmaríni fyrir minn smekk. Þess vegna ákvað ég að breyta henni örlítið og ég bætti við baunum til að gera hana enn matarmeiri. Ég ber súpuna fram með brauði, nýbökuðu úr ofninum eða brauðvélinni. Til þess að ná ákveðinni áferð þá þarf töfrasprota eða matvinnsluvél/blandara til að gera súpuna. Ekki örvænta ef þið eigið ekki þessar græjur heldur skerið bara grænmetið fínt; áferðin verður ekki sú sama en bragðið breytist ekki. Þetta er stór skammtur af súpu sem ég ber á borð fyrir fimm manns. Þið getið breytt hlutföllunum ef þið eruð að elda fyrir 1-2, eða geymt restina í kæli og hitað upp daginn eftir.

TÓMATSÚPA MEÐ GRÆNMETI OG KARRÍ

1 matskeið kókosolía
1 laukur
2 hvítlauksrif
2 gulrætur
2 sellerístilkar
4 kartöflur
2 x 400 g dósir tómatar
500-700 ml vatn
2 lífrænir grænmetisteningar (eða 1 og 1 kjúklingateningur)
2-3 matskeiðar lífræn tómatsósa
- eða 1 matskeið mólassi (blackstrap molasses) eða hrásykur
½ matskeið karrí (sterkt eða milt)
½ matskeið mulinn kóríander
½ matskeið paprika
1 teskeið basilíka
¼ teskeið rósmarín
má sleppa: klípa af saffranþráðum
1 dós (400 g) nýrnabaunir eða svartar baunir
100-125 ml kókosmjólk
fínt sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar eftir smekk

Afhýðið laukinn og saxið gróft. Hitið kókosolíuna í stórum potti og steikið laukinn á lágum hita þar til hann mýkist. Afhýðið hvítlauksrifin, pressið og bætið út í pottinn.

Flysjið kartöflurnar. Skerið gulrætur, sellerí og kartöflur gróft, setjið í pottinn og steikið áfram á lágum hita í nokkrar mínútur þar til grænmetið mýkist.

Bætið tómötum úr dós, vatni, grænmetisteningum og tómatsósu saman við. Hækkið hitann og látið suðuna koma upp. Blandið þá kryddum og kryddjurtum saman við, setjið lok á pottinn og látið malla á lágum eða meðalhita í 15 mínútur.

Fjarlægið pottinn af hellunni. Maukið súpuna með töfrasprota þannig að áferðin haldist eilítið gróf (maukið lengur ef þið kjósið að hafa súpuna alveg silkimjúka) en farið varlega: Súpan er mjög heit og þið getið brennt ykkur ef hún slettist upp og úr pottinum! Það má láta hana kólna áður en hún er maukuð, en best er að halda töfrasprotanum alveg beinum og ýta bara á takkann þegar neðsti hluti sprotans er ofan í súpunni. Ég kýs að hafa svolítið af grófum bitum í súpunni og mauka því aðallega kartöflurnar og stærstu grænmetisbitana. Það má líka láta súpuna kólna og mauka í skömmtum í matvinnsluvél/blandara.

Setjið baunirnar í sigti og skolið af þeim. Bætið þeim í pottinn ásamt kókosmjólkinni. Hitið súpuna (ekki láta hana sjóða) í nokkrar mínútur og smakkið til með salti og svörtum pipar áður en þið berið hana fram.



mánudagur, 26. október 2015

Kryddbrauð

Kryddbrauð (CafeSigrun uppskrift) · Lísa Stefan


Kannski ætti ég ekki að viðurkenna það en jólaskapið kom snemma í ár. Ég skrifa það á börnin. Nýverið við kvöldverðarborðið byrjuðu þau að tala um jólahefðirnar okkar, um matinn sem við berum fram, og ég hef ekki jafnað mig. Ég er alvarlega að hugsa um að þykjast vera amerísk og halda upp á Þakkargjörðardaginn í ár bara til þess að fá kalkún og graskersböku í nóvember. Aftur að jólaskapinu mínu, sem er svo alvarlegt að ég bakaði kryddbrauð tvo daga í röð í síðustu viku, aðallega til þess að finna jólakryddilminn úr ofninum. Og í gær byrjaði ég að gera tilraunir fyrir jólabrönsj (afsakið slettuna en brönsj er bara svo gott orð) sem einhverjir hafa kannski þegar séð á Instagram.
Kryddbrauð (CafeSigrun uppskrift) · Lísa Stefan


Ég hef verið frekar upptekin þennan októbermánuð en einn af hápunktunum var án efa að fá bókina hennar (Cafe)Sigrúnar vinkonu í póstinum (það glittir í hana á tveimur myndum). Þið hafið kannski tekið eftir því að bókin kom út í byrjun október og er stútfull af uppskriftum með myndum af þeim öllum. Þetta er bókin sem ég hjálpaði henni með eins og ég sagði ykkur í þessari færslu. Ég hélt að hjartað myndi springa þegar ég opnaði umslagið. Það var ansi furðuleg tilfinning að halda á bókinni og fletta síðunum: þarna voru á prenti öll skjölin sem höfðu verið á tölvuskjánum mánuðum saman! Ég ætla að deila nokkrum uppskriftum síðar og leyfa ykkur að kíkja í bókina en hana getið þið keypt á netinu og í bókaverslunum.


Uppskriftin að kryddbrauðinu, sem inniheldur kanil, engifer, múskat, negul og kakó, er ein af þessum sem ég deildi á gamla matarblogginu. Þetta er eilítið breytt útgáfa af uppskriftinni hennar (Cafe)Sigrúnar, en hún setti sína saman eftir ferð um kryddskógana á Zanzibar. Hún hefur ferðast um Afríku og verið fararstjóri og maðurinn hennar á það til að „trítla“ með fólk upp á Kilimanjaro. Sigrún notar meira magn af kryddum í sína uppskrift og eina útgáfu af hennar er einmitt að finna í bókinni góðu. Ég hef bakað kryddbrauðið í mörg ár og það er okkar þægindamatur. Stundum þegar kalt er í veðri, og bara ég og börnin erum heima, þá borðum við það í kvöldmat ásamt heitu súkkulaði. Brauðið er eitt af því fáa sem ég borða með smjöri en mér finnst það líka gott án þess. Ég baka það með spelti og blanda fín- og grófmöluðu saman. Ef það er afgangur af brauðinu þá frysti ég það í sneiðum og svo fer það bara beint í brauðristina.

KRYDDBRAUÐ

3½ dl spelti (175 g)
2½ dl haframjöl (100 g)
1¼ dl lífrænn hrásykur (110 g)
2-3 matskeiðar kakó
2½ teskeið vínsteinslyftiduft
1 teskeið kanill
½ teskeið engifer
¼ teskeið múskat
¼ teskeið negull
250 ml mjólk/sojamjólk
2 matskeiðar hreint hlynsíróp

Blandið þurrefnunum saman í stórri skál.

Hellið mjólkinni og hlynsírópinu út í og blandið rólega saman þar til ekkert þurrt mjöl er eftir á botninum. Bætið 1-3 matskeiðum af mjólk ef þið þurfið.

Klæðið brauðform með bökunarpappír og hellið deiginu ofan í.

Bakið við 190°C (175°C á blæstri) í 35-40 mínútur. Það er ágætt að stinga gaffli eða prjóni í miðjuna til að sjá hvort brauðið sé nokkuð of blautt. Sigrún segir að það megi alveg vera pínu blautt og klesst og mín börn eru alveg sammála henni. Ég baka því brauðið aldrei lengur en í 35 mínútur í mínum ofni.



föstudagur, 22. ágúst 2014

Sýnishorn: CafeSigrun uppskriftabókin

CafeSigrun uppskriftabókin


Fyrr í vikunni sagði ég ykkur að uppskriftir væru mér hugleiknar þessa dagana, meira en venjulega, og nú langar mig að segja ykkur út af hverju (enginn föstudagsblómapóstur í dag). Ég tók að mér að ritstýra handritinu að bók Sigrúnar vinkonu minnar sem heldur úti CafeSigrun vefsíðunni, þar sem má heldur betur finna úrval af frábærum uppskriftum sem eru lausar við hvítan sykur, hvítt hveiti, ger og fleira. Sigrún hefur haldið úti vefsíðunni í fjölmörg ár, með mjög svo óeigingjörnu starfi, og núna er hún að koma með sína fyrstu uppskriftabók. Hún vann allar uppskriftirnar sjálf í eldhúsinu sínu (fyrst í London, þar sem hún bjó áður, og svo heima á Íslandi) og tók einnig allar myndirnar sjálf. Þess má geta að hún er í fullu námi í klínískri barnasálfræði og á auk þess tvö lítil kríli þannig að þetta hefur verið mikil vinna, en vel þess virði því bókin verður virkilega falleg.
CafeSigrun uppskriftabókin


Þessa dagana hugsa ég eiginlega í uppskriftum og á skrifborðinu eru ekkert nema útprentuð drög að köflum frá Sigrúnu. Ég gæti allt eins svarað með orðinu múskat eða grasker ef einhver spyrði mig hvernig ég hefði það. Eins gaman og þetta er þá verð ég að viðurkenna að um leið er þetta eins konar sjálfspynting því þegar ég samþykkti að aðstoða Sigrúnu þá gleymdi ég einu atriði: Öllum myndunum sem verða í bókinni sem ég fæ í tölvupósti! Ég sit hér í sakleysi mínu að lesa yfir kafla þegar tölvupóstur berst með ekki einni heldur kannski fimm myndum af guðdómlegustu súkkulaðisneið sem fyrir finnst (þessar sem innihalda alvöru súkkulaði sem glampar á!) og svo spyr Sigrún eins og ekkert sé: „Hver er best?“ Og þegar ég hef rétt jafnað mig á þessari sendingu þá berst annar póstur með kannski svakalega girnilegum grænmetisrétti, fiskrétti, salati, súpu, brauði, ís, konfekti og ég veit ekki hvað. Og svona er þetta alla daga. Alla! Bara nú í dag hef ég fengið um 10 myndir eða svo.

Myndirnar í þessari bloggfærslu eru bara örlítið brot af kræsingunum í bókinni (og fyrrnefndri sjálfspyntingu!).
CafeSigrun uppskriftabókin


Það er enn ekki kominn útgáfudagur á bókina, sem Forlagið gefur út, en ég segi ykkur að sjálfsögðu hvenær það gerist. Handritinu skilar Sigrún inn núna í byrjun september og við erum auðvitað voðalega spenntar yfir þessu öllu. Næstu viku ætlum við að nota til þess að fínpússa handritið fyrir skil og því ætla ég að taka frí frá bloggskrifum.

Ég óska ykkur góðrar helgar og vona að þessir síðustu dagar ágústmánaðar leiki við ykkur!

Sigrún Þorsteinsdóttir - CafeSigrun