Sýnir færslur með efnisorðinu gulrætur. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu gulrætur. Sýna allar færslur

sunnudagur, 25. nóvember 2018

Gulróta- og kókossúpa frá Zanzibar

Gulróta- og kókossúpa frá Zanzibar · Lísa Stefan


Þessi ljúffenga gulróta- og kókossúpa frá Zanzibar er bragðgóð og rjómakennd. Líkaminn bókstaflega öskrar á hana á haustin þegar ný gulrótauppskera kemur í verslanir. Sigrún vinkona á uppskriftina sem birtist í bók hennar, Café Sigrún: Hollustan hefst heima (við skemmtum okkur vel þegar ég var að aðstoða hana með handritið). Sigrún hefur ferðast mikið um Austur-Afríku og súpan er innblásin af undursamlegum dögum á eyjunni Zanzibar: Þar sem hún sat og gæddi sér á gulrótasúpu naut hún útsýnis yfir Indlandshafið og í loftinu var ilmurinn sem barst frá matarbásunum á Forodhani-markaðnum, í hinni sögulegu borg Stone Town. Súpan er vegan, auðvelt er að matreiða hana (þið þurfið töfrasprota eða matvinnsluvél) og hún gefur ykkur nauðsynleg vítamín og trefjar. Þetta er ein vinsælasta uppskriftin á CafeSigrun-vefsíðunni: Ég hef engar breytingar gert á innihaldinu, bara örlitlar á aðferðinni.

GULRÓTA- OG KÓKOSSÚPA FRÁ ZANZIBAR

2 matskeiðar kókosolía
1 stór laukur
4 hvítlauksrif
lítill bútur ferskt engifer
300 g lífrænar gulrætur
150 g sætar kartöflur
1 teskeið karrí
2 lífrænir grænmetisteningar
750 ml vatn
150 ml kókosmjólk
½-1 teskeið sjávar/Himalayasalt
má sleppa: pipar eftir smekk
má sleppa: 7-10 saffranþræðir

Skolið gulræturnar (burstið ef þarf) og afhýðið annað grænmeti. Saxið allt gróft. (Afhýðið eða skafið gulræturnar ef þið notið ekki lífrænar.)

Hitið kókosolíuna í potti við meðalhita og steikið laukinn þar til hann fer að mýkjast. Bætið hvítlauk og engifer út í, steikið áfram í nokkrar mínútur og hrærið svo karrí saman við (ég nota kraftmikið karrí).

Bætið gulrótum og sætum kartöflum út í og veltið upp úr karríblöndunni. Hellið vatninu í pottinn ásamt grænmetisteningunum, aukið hitann og hrærið vel. Hitið upp að suðu, hrærið ½ teskeið af salti saman við, setjið svo lok á pottinn og leyfið súpunni að malla við vægan hita í 25-30 mínútur.

Fjarlægið pottinn af hellunni og blandið kókosmjólkinni ásamt saffranþráðunum saman við. Maukið súpuna með töfrasprota þar til áferðin er silkimjúk. Farið varlega því súpan er sjóðandi heit: Haldið töfrasprotanum alveg beinum og ýtið á takkann þegar neðsti hluti sprotans er ofan í súpunni (ef maukuð í matvinnsluvél/blandara er betra að leyfa súpunni að kólna aðeins áður hún er maukuð í smá skömmtum).

Hitið súpuna upp og smakkið til með salti og pipar án þess að láta hana sjóða. Berið súpuna fram með nýbökuðu brauði eða bollum.




mánudagur, 25. apríl 2016

Linsubaunasúpa | Vegan í húsinu

Linsubaunasúpa (vegan) · Lísa Hjalt


Matarmiklar súpur eru ekki það fyrsta sem mér dettur í hug að setja á vormatseðilinn en hér á miðri vesturströnd Skotlands steig vorið á bremsuna; skyndilega komu kaldari dagar með rigningu. Í síðustu viku lét sólin loksins sjá sig að nýju þannig að nú virðist vorið framundan og brumin kætast. Mig langaði að deila þessari uppskrift að linsubaunasúpu áður en það verður of seint. Þá meina ég úr takt við árstíðina, sérstaklega fyrir þá sem búa sunnar á hnettinum og njóta veðurblíðu og blómstrandi trjáa. Í garðinum okkar er risastórt kirsuberjatré sem er alveg að springa út. Greinar þess teygja sig yfir veröndina og sumar snerta meginþak hússins. Ef ég hefði gluggann í svefnherbergi sonarins opinn myndu þær finna sér leið inn. Mér stæði á sama en líklega ekki honum. Ég bíð spennt eftir því að sjá kirsuberjatréð í allri sinni dýrð.


Aftur að súpunni. Í janúar ákvað yngri dóttirin, 14 ára unglingur, að gerast vegan. Við hjónin ræddum það okkar á milli að þetta væri bara einhver bóla, eitthvað sem hún yrði að fá að kanna. Í sannleika sagt héldum við að hún entist í 1-2 vikur. Fyrir utan hangikjötið á jólunum þá hefur hún verið lítið fyrir kjöt. Sá þáttur yrði henni því auðveldur. En að hætta að borða egg var allt annað og hún gæfist fljótt upp. Eða svo héldum við. Okkar dama elskaði ommilettur og útbjó þær sjálf þegar ég var að gera t.d. fajitas eða eitthvað sem henni fannst ekki gott. Senn líður að maí og okkar kona hefur hvergi beygt af. Er enn þá vegan.

Vegna þessa hef ég að einhverju leyti aðlagað mína eldamennsku - sem dæmi eggjabakstur snarminnkað - og ég hef breytt sumum grænmetisuppskriftunum mínum og gert þær vegan, og þróað nýjar. Það sem gleður mig í þessu ferli er það að hún er að lesa sig heilmikið til um næringarfræði og að fikra sig áfram í eldamennsku. Hún borðar líka orðið sumt grænmeti sem hún vildi ekki borða áður. Mér finnst gaman að sjá hvað hún er að verða örugg í eldhúsinu; hvernig hún útbýr óflókna, næringarríka rétti án aðstoðar. Stundum erum við tvær saman í eldhúsinu að undirbúa máltíð sem þarf að aðlaga fyrir hana. Fyrir móður, sem er matgæðingur, eru þetta gæðastundir. Þegar kaldara var í veðri þá gerði ég gjarnan fyrir mig í hádeginu chillibaunarétt eða aðra baunarétti eða matarmiklar súpur, sem svo biðu á hellunni þegar okkar staðráðna vegankona kom heim úr skólanum. Þessi linsubaunasúpa er einmitt ein þeirra.

[Textíllinn sem sést á súpumyndunum, fyrir utan servíettuna, er hannaður af Lisa Fine: Baroda 1 í indígó (fuglamynstrið), Lahore í aprikósulit (blóma-), og Chiara í himinbláu (mynstrið lengst til hægri). Meira um Lisa Fine Textiles síðar.]
Linsubaunasúpa | vegan · Lísa Hjalt


Hvort sem þið eruð vegan eða ekki þá eru linsubaunir góðar fyrir ykkur (nánar um hollustu þeirra); mér finnst að allir ættu að eiga í kollinum eina góða grunnuppskrift með linsum til að grípa í. Linsubaunir eru ríkar af próteinum, trefjum og járni, og gefa til dæmis B1- og B6-vítamín. Linsubaunir og krydd eru dásamleg blanda því linsurnar draga í sig kryddbragðið. Að mínu mati passa líka jurtir eins og lárviðarlauf og tímían vel með linsum. Gætið þess bara að ofsjóða þær ekki heldur leyfa þeim að halda lögun sinni. Mjúkar linsur, já takk. Mauksoðnar, nei takk. Í grænmetissoðið nota ég lífrænan, vegan grænmetiskraft frá Marigold (inniheldur líka minna salt), en það má að sjálfsögðu nota grænmetisteninga.

LINSUBAUNASÚPA

1 matskeið kókosolía eða létt ólífuolía
1 lítill laukur
2 gulrætur
1-2 sellerístilkar
3 hvítlauksrif
1 rautt chilli aldin (eða ¼ teskeið chillipipar)
1 bolli (250 ml) grænar linsubaunir
1 teskeið broddkúmen (ground cumin)
½ teskeið mulinn kóríander
½ teskeið mulin kúrkúma / túrmerik
1250 ml lífrænt grænmetissoð (5 bollar)
1 lárviðarlauf
1 teskeið þurrkað tímían eða 1-2 heilar tímíangreinar
má sleppa: 1-2 tómatar
smakkið til með sjávarsalti og svörtum pipar

Skolið linsubaunirnar og látið vatnið renna af þeim (hafið í huga að sumar linsur er gott að sjóða fyrst í 2 mínútur og skola svo). Setjið þær til hliðar á meðan þið útbúið grænmetissoðið. Sjóðið vatn og hellið í hitaþolna mælikönnu ásamt grænmetiskrafti eða -teningum. Fyrir 1250 ml af vatni ættuð þið að þurfa 5 teskeiðar af krafti eða 2¼ teninga (veltur á tegund; lesið merkingar á umbúðum).

Afhýðið laukinn og saxið. Sneiðið gulræturnar og selleríið. Fræhreinsið og fínsaxið chilli aldinið (ef notað). Hitið olíuna í meðalstórum potti við meðalhita. Léttsteikið laukinn og grænmetið þar til það fer að mýkjast. Afhýðið hvítlauksrifin, pressið og bætið út í pottinn. Eldið í 1-2 mínútur til viðbótar og hrærið rólega.

Blandið næst linsum og kryddum saman við. Hellið svo grænmetissoðinu í pottinn ásamt lárviðarlaufi og tímían. Hækkið hitann og látið suðuna koma upp, lækkið þá hitann og leyfið súpunni að malla í 25-30 mínútur, eða þar til linsubaunirnar eru mjúkar en ekki mauksoðnar. Tillið loki á pottinn þannig að gufan sleppi í gegn. Ef þið notið tómata í súpuna fræhreinsið þá fyrst og skerið í bita.

Áður en súpan er borin fram skuluð þið veiða lárviðarlaufið og tímíangreinarnar (ef notaðar) upp úr pottinum. Smakkið til með svörtum pipar og sjávarsalti, ef ykkur finnst þurfa meira salt. Berið súpuna fram með (heimabökuðu) grófu brauði, og kannski einu glasi af góðu rauðvíni . . . bara hugmynd.

Recipe in English



þriðjudagur, 19. janúar 2016

Tómatsúpa með grænmeti og karrí

Tómatsúpa með grænmeti og karrí · Lísa Stefan


Ég skrifaði þetta í gær þegar við vorum öll saman í stofunni að drekka heitt súkkulaði með eld logandi í arninum. Síðustu daga hefur ekki bara verið kalt úti heldur bilaði miðstöðvarketillinn á sunnudaginn og viðgerðarmaðurinn ekki væntanlegur fyrr en í dag. Ég ætla ekki að reyna að lýsa því hversu þakklát ég er fyrir þennan arinn! Í hádeginu í gær urðum við að fá eitthvað til að verma kroppinn og það eina sem við gátum hugsað okkur var skál af kalt-úti súpu. Það er nafnið sem við gáfum minni útgáfu af tómatsúpu Höddu, matarmikilli súpu sem við fundum á CafeSigrun-vefsíðunni fyrir mörgum árum síðan þegar við bjuggum enn á Íslandi. Hún er kjörin á köldum vetrardögum.
Tómatsúpa með grænmeti og karrí · Lísa Stefan


Við erum öll hrifin af upprunalegu uppskriftinni að tómatsúpunni. Sú inniheldur léttan rjómaost, sem ég kaupi afar sjaldan, en of mikið af rósmaríni fyrir minn smekk. Þess vegna ákvað ég að breyta henni örlítið og ég bætti við baunum til að gera hana enn matarmeiri. Ég ber súpuna fram með brauði, nýbökuðu úr ofninum eða brauðvélinni. Til þess að ná ákveðinni áferð þá þarf töfrasprota eða matvinnsluvél/blandara til að gera súpuna. Ekki örvænta ef þið eigið ekki þessar græjur heldur skerið bara grænmetið fínt; áferðin verður ekki sú sama en bragðið breytist ekki. Þetta er stór skammtur af súpu sem ég ber á borð fyrir fimm manns. Þið getið breytt hlutföllunum ef þið eruð að elda fyrir 1-2, eða geymt restina í kæli og hitað upp daginn eftir.

TÓMATSÚPA MEÐ GRÆNMETI OG KARRÍ

1 matskeið kókosolía
1 laukur
2 hvítlauksrif
2 gulrætur
2 sellerístilkar
4 kartöflur
2 x 400 g dósir tómatar
500-700 ml vatn
2 lífrænir grænmetisteningar (eða 1 og 1 kjúklingateningur)
2-3 matskeiðar lífræn tómatsósa
- eða 1 matskeið mólassi (blackstrap molasses) eða hrásykur
½ matskeið karrí (sterkt eða milt)
½ matskeið mulinn kóríander
½ matskeið paprika
1 teskeið basilíka
¼ teskeið rósmarín
má sleppa: klípa af saffranþráðum
1 dós (400 g) nýrnabaunir eða svartar baunir
100-125 ml kókosmjólk
fínt sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar eftir smekk

Afhýðið laukinn og saxið gróft. Hitið kókosolíuna í stórum potti og steikið laukinn á lágum hita þar til hann mýkist. Afhýðið hvítlauksrifin, pressið og bætið út í pottinn.

Flysjið kartöflurnar. Skerið gulrætur, sellerí og kartöflur gróft, setjið í pottinn og steikið áfram á lágum hita í nokkrar mínútur þar til grænmetið mýkist.

Bætið tómötum úr dós, vatni, grænmetisteningum og tómatsósu saman við. Hækkið hitann og látið suðuna koma upp. Blandið þá kryddum og kryddjurtum saman við, setjið lok á pottinn og látið malla á lágum eða meðalhita í 15 mínútur.

Fjarlægið pottinn af hellunni. Maukið súpuna með töfrasprota þannig að áferðin haldist eilítið gróf (maukið lengur ef þið kjósið að hafa súpuna alveg silkimjúka) en farið varlega: Súpan er mjög heit og þið getið brennt ykkur ef hún slettist upp og úr pottinum! Það má láta hana kólna áður en hún er maukuð, en best er að halda töfrasprotanum alveg beinum og ýta bara á takkann þegar neðsti hluti sprotans er ofan í súpunni. Ég kýs að hafa svolítið af grófum bitum í súpunni og mauka því aðallega kartöflurnar og stærstu grænmetisbitana. Það má líka láta súpuna kólna og mauka í skömmtum í matvinnsluvél/blandara.

Setjið baunirnar í sigti og skolið af þeim. Bætið þeim í pottinn ásamt kókosmjólkinni. Hitið súpuna (ekki láta hana sjóða) í nokkrar mínútur og smakkið til með salti og svörtum pipar áður en þið berið hana fram.



mánudagur, 11. ágúst 2014

Uppskrift: gulrótarmöffins



Ég var að afsaka mig á matarblogginu fyrir að hafa ekki birt uppskrift síðan í desember á síðasta ári! Já, þið lásuð rétt. Ég þarf víst að afsaka mig hér líka því ég birti ekki eina einustu færslu í síðustu viku. Vikan hreinlega flaug frá mér; ég ætlaði alltaf að birta eitthvað að kvöldi til og mundi svo þegar ég lagðist á koddann að ég hafði gleymt því. En hér er ég mætt að nýju með uppskrift að gulrótarmöffinsum. Vonandi eruð þið í stuði fyrir bakstur. Mig langaði samt að segja að það verður kannski rólegt hérna á íslensku útgáfunni í ágúst því ég er frekar upptekin þessa dagana.