Sýnir færslur með efnisorðinu lárviðarlauf. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu lárviðarlauf. Sýna allar færslur

þriðjudagur, 24. janúar 2017

Brauðbollur | Tómatsúpa með næpum og steinselju

Brauðbollur með sesamfræjum (vegan) · Lísa Stefan


Matarmiklar súpur og heimagerðar brauðbollur halda mér gangandi þessa dagana þegar í huganum mig langar eina helst að flýja til annarrar plánetu. Í alvöru, ég held að þetta Trump-hugmyndafræði-tímabil sem við erum stigin inn í sé að hafa neikvæðari áhrif á mig en ég bjóst við. Tilhugsunin um fjögur ár af „öðrum mögulegum staðreyndum“ er allt annað en upplífgandi. Veit ekki hvar ég væri án bóka; í viðleitni minni til að forðast fréttir er ég byrjuð að hlusta á bókahlaðvörp frá árinu 2012! Lít á það sem þerapíu. Einnig gæðastundir í eldhúsinu. Ljósmynd af brauðbollum sem ég birti á Instagram á sunnudaginn var kveikjan að þessari færslu. Tveir báðu um uppskriftina og ég ákvað að baka þær aftur og deila á blogginu ásamt annarri uppskrift að tómatsúpu með næpum og steinselju.

Uppskriftin að brauðbollunum er í raun brauðuppskrift (án fræja) sem er prentuð á umbúðir af fljótvirku geri frá Doves Farm (e. quick yeast). Það þarf ekki að virkja það heldur er því blandað saman við mjölið á undan vökvanum. Sesamfræin eru mín viðbót og oftast strái ég þeim og birkifræjum (e. poppy seeds) yfir bollurnar. Í upprunalegu uppskriftinni er hefðbundið hveiti en þegar ég baka bollurnar kýs ég að skipta út 60 grömmum (¼ bolli) af fínmöluðu fyrir grófmalað spelti, rétt til að auka trefjarnar.

BRAUÐBOLLUR MEÐ SESAMFRÆJUM

500 g fínmalað spelti eða lífrænt hveiti
½ teskeið fínt sjávar/Himalayasalt
1 teskeið lífrænn hrásykur
1 teskeið (Doves Farm) fljótvirkt ger
1 matskeið sesamfræ
275-300 ml heitt vatn
1 matskeið kókosolía (eða önnur jurtaolía)
má sleppa: mjólk/sojamjólk til að pensla bollurnar
og sesam- og birkifræ til að strá yfir

Blandið saman mjöli, salti, sykri, fljótvirku geri og sesamfræjum í stórri skál með sleif.

Blandið heitu vatni saman við, byrjið með 275 ml, og bætið olíunni saman við þegar deigið fer að festast saman (ef þið notið kókosolíu látið þá krukkuna standa í heitu vatni fyrir notkun; í upprunalegu uppskriftinni er 1 teskeið af olíu). Bætið 1-2 matskeiðum af vatni saman við ef þörf er á.

Stráið örlitlu mjöli á borðplötu og hnoðið deigið í höndunum í 4-5 mínútur. Setjið deigið svo aftur í skálina og breiðið viskustykki yfir. Látið deigið hefast á hlýjum stað í a.m.k. 35 mínútur.

Skiptið deiginu í 8 hluta og mótið úr því kúlur. Setjið kúlurnar á ofnplötu með bökunarpappír og fletjið hverja út með því að þrýsta rétt aðeins ofan á þær með lófanum. Penslið með mjólk/sojamjólk og stráið sesam- og birkifræjum yfir. Bakið við 200°C (180°C á blæstri) í 12-14 mínútur.
Tómatsúpa með næpum og steinselju · Lísa Stefan


Bragð súpunnar skrifast að hluta á tvö yngstu börnin. Það var á köldum degi sem okkur langaði í súpu með næpum, selleríi og linsubaunum. Við elskum rófur og næpur (þessar hvítu eða gulleitu með fjólubláum blæ); þær gefa trefjar, B6- og C-vítamín til að nefna einhver heilsubætandi áhrif. Við kíktum á netið og fundum uppskrift að rauðri linsubaunasúpu með næpum og steinselju á vefsíðu Martha Stewart, sem við notuðum sem innblástur. Megin munurinn er sá að við notum mun minna af linsum í okkar og við völdum niðursoðna plómutómata í stað hrárra tómata. Þessi hefur oft mallað í pottinum á köldum dögum í janúar.

TÓMATSÚPA MEÐ NÆPUM OG STEINSELJU

1 matskeið létt ólífuolía
1 laukur
3 hvítlauksrif
2 sellerístilkar
1 næpa
1 dós (400 g) plómutómatar
1250 ml vatn
60 g / 75 ml rauðar linsubaunir
klípa broddkúmen (ground cumin)
klípa reykt paprika
1 lítið lárviðarlauf
½-1 teskeið gróft sjávar/Himalaya salt
nýmalaður svartur pipar eftir smekk
1 teskeið Modena balsamedik
75 ml fínsöxuð fersk flatblaða steinselja

Byrjið á grænmetinu. Afhýðið og saxið laukinn. Sneiðið selleríið fínt. Afhýðið hvítlauksrifin, sneiðið eitt fínt og pressið hin tvö þegar þau eiga að fara í pottinn. Afhýðið næpuna, skerið í bita og setjið til hliðar.

Hitið olíuna í meðalstórum potti við meðalhita. Léttsteikið lauk, sellerí og hvítlauk í 5 mínútur eða þar til mjúkt og hrærið rólega á meðan.

Stillið á hæsta hita og bætið plómutómötum ásamt vökva, rauðum linsum (skolið fyrst), næpubitum og vatni út í. Hitið að suðu, minnkið hitann, bætið ½ teskeið af salti út í og lófafylli af saxaðri steinselju og svörtum pipar. Eldið við vægan hita í 25 mínútur.

Undir lokin skuluð þið hræra út í pottinn balsamedikinu, restinni af steinseljunni og salta örlítið meira ef þarf. Til að gera matarstundina enn notalegri berið þá súpuna fram með heimabökuðu brauði eða brauðbollum.

Nýleg mynd á @lisastefanat sem var kveikjan að þessari bloggfærslu



mánudagur, 25. apríl 2016

Linsubaunasúpa | Vegan í húsinu

Linsubaunasúpa (vegan) · Lísa Hjalt


Matarmiklar súpur eru ekki það fyrsta sem mér dettur í hug að setja á vormatseðilinn en hér á miðri vesturströnd Skotlands steig vorið á bremsuna; skyndilega komu kaldari dagar með rigningu. Í síðustu viku lét sólin loksins sjá sig að nýju þannig að nú virðist vorið framundan og brumin kætast. Mig langaði að deila þessari uppskrift að linsubaunasúpu áður en það verður of seint. Þá meina ég úr takt við árstíðina, sérstaklega fyrir þá sem búa sunnar á hnettinum og njóta veðurblíðu og blómstrandi trjáa. Í garðinum okkar er risastórt kirsuberjatré sem er alveg að springa út. Greinar þess teygja sig yfir veröndina og sumar snerta meginþak hússins. Ef ég hefði gluggann í svefnherbergi sonarins opinn myndu þær finna sér leið inn. Mér stæði á sama en líklega ekki honum. Ég bíð spennt eftir því að sjá kirsuberjatréð í allri sinni dýrð.


Aftur að súpunni. Í janúar ákvað yngri dóttirin, 14 ára unglingur, að gerast vegan. Við hjónin ræddum það okkar á milli að þetta væri bara einhver bóla, eitthvað sem hún yrði að fá að kanna. Í sannleika sagt héldum við að hún entist í 1-2 vikur. Fyrir utan hangikjötið á jólunum þá hefur hún verið lítið fyrir kjöt. Sá þáttur yrði henni því auðveldur. En að hætta að borða egg var allt annað og hún gæfist fljótt upp. Eða svo héldum við. Okkar dama elskaði ommilettur og útbjó þær sjálf þegar ég var að gera t.d. fajitas eða eitthvað sem henni fannst ekki gott. Senn líður að maí og okkar kona hefur hvergi beygt af. Er enn þá vegan.

Vegna þessa hef ég að einhverju leyti aðlagað mína eldamennsku - sem dæmi eggjabakstur snarminnkað - og ég hef breytt sumum grænmetisuppskriftunum mínum og gert þær vegan, og þróað nýjar. Það sem gleður mig í þessu ferli er það að hún er að lesa sig heilmikið til um næringarfræði og að fikra sig áfram í eldamennsku. Hún borðar líka orðið sumt grænmeti sem hún vildi ekki borða áður. Mér finnst gaman að sjá hvað hún er að verða örugg í eldhúsinu; hvernig hún útbýr óflókna, næringarríka rétti án aðstoðar. Stundum erum við tvær saman í eldhúsinu að undirbúa máltíð sem þarf að aðlaga fyrir hana. Fyrir móður, sem er matgæðingur, eru þetta gæðastundir. Þegar kaldara var í veðri þá gerði ég gjarnan fyrir mig í hádeginu chillibaunarétt eða aðra baunarétti eða matarmiklar súpur, sem svo biðu á hellunni þegar okkar staðráðna vegankona kom heim úr skólanum. Þessi linsubaunasúpa er einmitt ein þeirra.

[Textíllinn sem sést á súpumyndunum, fyrir utan servíettuna, er hannaður af Lisa Fine: Baroda 1 í indígó (fuglamynstrið), Lahore í aprikósulit (blóma-), og Chiara í himinbláu (mynstrið lengst til hægri). Meira um Lisa Fine Textiles síðar.]
Linsubaunasúpa | vegan · Lísa Hjalt


Hvort sem þið eruð vegan eða ekki þá eru linsubaunir góðar fyrir ykkur (nánar um hollustu þeirra); mér finnst að allir ættu að eiga í kollinum eina góða grunnuppskrift með linsum til að grípa í. Linsubaunir eru ríkar af próteinum, trefjum og járni, og gefa til dæmis B1- og B6-vítamín. Linsubaunir og krydd eru dásamleg blanda því linsurnar draga í sig kryddbragðið. Að mínu mati passa líka jurtir eins og lárviðarlauf og tímían vel með linsum. Gætið þess bara að ofsjóða þær ekki heldur leyfa þeim að halda lögun sinni. Mjúkar linsur, já takk. Mauksoðnar, nei takk. Í grænmetissoðið nota ég lífrænan, vegan grænmetiskraft frá Marigold (inniheldur líka minna salt), en það má að sjálfsögðu nota grænmetisteninga.

LINSUBAUNASÚPA

1 matskeið kókosolía eða létt ólífuolía
1 lítill laukur
2 gulrætur
1-2 sellerístilkar
3 hvítlauksrif
1 rautt chilli aldin (eða ¼ teskeið chillipipar)
1 bolli (250 ml) grænar linsubaunir
1 teskeið broddkúmen (ground cumin)
½ teskeið mulinn kóríander
½ teskeið mulin kúrkúma / túrmerik
1250 ml lífrænt grænmetissoð (5 bollar)
1 lárviðarlauf
1 teskeið þurrkað tímían eða 1-2 heilar tímíangreinar
má sleppa: 1-2 tómatar
smakkið til með sjávarsalti og svörtum pipar

Skolið linsubaunirnar og látið vatnið renna af þeim (hafið í huga að sumar linsur er gott að sjóða fyrst í 2 mínútur og skola svo). Setjið þær til hliðar á meðan þið útbúið grænmetissoðið. Sjóðið vatn og hellið í hitaþolna mælikönnu ásamt grænmetiskrafti eða -teningum. Fyrir 1250 ml af vatni ættuð þið að þurfa 5 teskeiðar af krafti eða 2¼ teninga (veltur á tegund; lesið merkingar á umbúðum).

Afhýðið laukinn og saxið. Sneiðið gulræturnar og selleríið. Fræhreinsið og fínsaxið chilli aldinið (ef notað). Hitið olíuna í meðalstórum potti við meðalhita. Léttsteikið laukinn og grænmetið þar til það fer að mýkjast. Afhýðið hvítlauksrifin, pressið og bætið út í pottinn. Eldið í 1-2 mínútur til viðbótar og hrærið rólega.

Blandið næst linsum og kryddum saman við. Hellið svo grænmetissoðinu í pottinn ásamt lárviðarlaufi og tímían. Hækkið hitann og látið suðuna koma upp, lækkið þá hitann og leyfið súpunni að malla í 25-30 mínútur, eða þar til linsubaunirnar eru mjúkar en ekki mauksoðnar. Tillið loki á pottinn þannig að gufan sleppi í gegn. Ef þið notið tómata í súpuna fræhreinsið þá fyrst og skerið í bita.

Áður en súpan er borin fram skuluð þið veiða lárviðarlaufið og tímíangreinarnar (ef notaðar) upp úr pottinum. Smakkið til með svörtum pipar og sjávarsalti, ef ykkur finnst þurfa meira salt. Berið súpuna fram með (heimabökuðu) grófu brauði, og kannski einu glasi af góðu rauðvíni . . . bara hugmynd.

Recipe in English