fimmtudagur, 27. júní 2013

Garðhönnun: 18. aldar mylluhús í Oxfordshire

Í gær gerðist svolítið skrýtið. Þegar eiginmaðurinn kom heim var ég að hlaða inn þessum myndum, sem ég hef geymt í möppunni minni í svolítinn tíma, af garði sem tilheyrir 18. aldar mylluhúsi við Cherwell ána í Oxfordshire. Hann hafði gripið nýjustu útgáfu House & Garden (júlí 2013) með sér og ég lýg ekki, það er umfjöllun í tímaritinu um þennan sama garð. Það er auk þess stutt viðtal við garðhönnuðinn sjálfan, Arne Maynard.

Í umfjölluninni kemur fram að það kom út bók eftir Maynard árið 2004, A Sense of Place: How to Create a Garden with Atmosphere, sem rataði að sjálfsögðu beint á óskalistann minn.

Í greininni segir að húsið liggi eins og í „samloku á milli Cherwell árinnar og South Oxford kanalsins á landræmu sem er næstum því eyja“ (bls. 102). Myndirnar í tímaritinu sýndu bæði garðinn og húsið frá fleiri hornum og ég varð að taka mynd af einni opnunni sem sýnir húsið baka til því það er engin slík á vefsíðu Maynard.

Þegar Maynard skoðaði garðinn í fyrsta sinn var hann að drukkna í víðitrjám sem höfðu ekki verið klippt né snyrt í langan tíma og það var bergflétta út um allt. Garðinn sárvantaði rými til að anda þannig að allt var fjarlægt fyrir utan ,New Dawn' og ,Albertine' klifurrósir sem sjást á framhlið hússins.

Nálægt húsinu er hönnun garðsins nokkuð formleg en við jaðarinn er útlitið meira náttúrulegt. Maynard hannaði sérstakan jurtagarð þar sem litríkar plöntur fá að njóta sín og einnig formlegan garð (parterre) með pýramídalaga ýviðum og klipptum limgerðum.

Og sjáið allan þennan lavender!


Í greininni er tilvísun í bókina hans Maynard:
A successful garden must relate and respond to the surrounding landscape and its history as well as to the style of the building, to give it a proper sense of belonging.
Á íslensku leggst þetta nokkurn veginn svona: „Vel heppnaður garður þarf að tengjast og kallast á við sitt nánasta umhverfi og sögu þess, og einnig stíl byggingarinnar, þannig að sú tilfinning að hann tilheyri þessu sé skýr.“ Ég held að það sé óhætt að fullyrða að þessi garðheimspeki komi sterkt fram í þessum glæsilega garði, sem samt virkar einhvern veginn svo látlaus.

myndir:
1-2 + 4-9: Arne Maynard Garden Design / 3: Lísa Hjalt (ljósmynd í tímariti er eftir Allan Pollok-Morris)

þriðjudagur, 25. júní 2013

Rýmið 34



- sumardvalarstaður á Paros, Grikklandi

mynd:
White Key Villa/Louisa Nikolaidou af vefsíðu Architectural Digest

fimmtudagur, 20. júní 2013

bókahillur eða heimaskrifstofa í opnu rými

Póstur dagsins er eilítið frábrugðinn öðrum á blogginu en þannig er mál með vexti að gömul skólasystir mín sendi mér póst og sagðist vera í stökustu vandræðum með heimaskrifstofuna sína sem er í opnu rými. Hún orðaði það þannig að hún væri eiginlega búin að gefast upp á þessu horni heimilisins, sem blasir við stofu og eldhúsi, og að öll hjálp væri vel þegin. Þegar hún svo sendi mér mynd, sem verður ekki birt hér, þá skildi ég hana vel og lofaði henni að grafa ofan í möppurnar mínar og setja saman bloggfærslu með myndum úr ýmsum áttum til að gefa henni hugmyndir.

Í hinum fullkomna heimi líta heimaskrifstofur í opnum rýmum út eins og að stílistar frá virtu hönnunartímariti hefðu mætt í heimsókn og tekið allt í gegn, jafnvel málað líka og skilið eftir fersk blóm í vasa sem lifa að eilífu. En því miður þarf ég að hryggja ykkur með því að stundum - eiginlega alltaf - er raunveruleikinn annar. Sé maður ekki haldinn örlitlum votti af skipulagsáráttu þá verða svona skrifstofurými alltaf til vandræða, en með smá breytingum og bættu skipulagi má sættast við þau.


Það fyrsta sem við þurfum að gera ef við ætlum að endurskipuleggja opið skrifstofurými er að fara í gegnum dótið okkar og losa okkur við gamalt dót eða bækur sem gera ekkert annað en að safna ryki, eins og til dæmis gamlar glósur úr menntaskóla. Ef þið eruð ekki á leið í endurtekningarpróf þá hafið þið ekkert við þær að gera. Beint á Sorpu með óþarfa pappíra og hluti. Gamlar bækur má gefa á næsta bókasafn eða til fjölskyldu og vina sem eiga sumarbústað og vantar lesefni. Haldið einungis bókum sem ykkur þykir vænt um og viljið lesa aftur þannig að bókahillurnar ykkar verði sem persónulegastar og lýsi bókasmekk og áhugamálum ykkar sem best.

Að þessu loknu sjáum við til þess að rýmið sé hreint áður en við byrjum að endurraða og skipuleggja.

Bókahillur sem geyma bara bækur geta orðið þreytandi til lengdar. Mér finnst skemmtilegra að blanda saman bókum og skrautmunum. Bókum má raða lóðrétt eða lárétt og ofan á bókastafla má setja litlar skálar eða krúsir. Stærri hlutum, eins og vösum, getum við raðað í sér hillu eða við hliðina á bókum, veltur bara á stærð. Litaval skiptir höfuðmáli í opnum rýmum. Passið að litirnir á þeim skrautmunum sem eiga að fara í hillurnar tóni við aðra liti í umhverfinu.

Ef ykkur datt í hug að litaraða bókum þá beiti ég neitunarvaldi. Ég vona að ég móðgi engan þegar ég segi að mér finnst það með því ósmekklegasta sem ég sé. Þá er ég að meina þegar litaröðunin er þannig að í einni hillu eru gular bækur, rauðar í annarri og svo framvegis. Mér finnst slík litaröðun ákaflega krefjandi og hún stöðvar allt sem heitir flæði og jafnvægi í rýminu. Ég er auðvitað ekki að tala hér um falleg ritsöfn sem hafa eins kápu eða nokkrar bækur með sama lit sem raðað er hlið við hlið.

Það að velja ákveðna litapalettu fyrir bókahilluna er líka allt annað mál. Kíkið á efstu tillöguna af þremur á síðu Laura Ashley þar sem bókahillan hefur blátt þema og blandast hlutlausum tónum. Þess konar litaröðun er ókrefjandi, smekkleg og þægileg fyrir augað.

Hvernig við röðum í hillurnar skiptir máli. Ég er búin að minnast á liti og mér finnst líka mikilvægt að hillurnar séu ekki ofhlaðnar. Mér finnst litapalettan í hillunni hér að ofan einstaklega falleg. Takið líka eftir hvernig jafnægi næst með uppröðun á bókum og vösum: Í efstu og neðstu hillunni liggja bækurnar lóðrétt út til vinstri og vasar standa til hægri, en í miðhillunni er bókunum staflað í miðjuna með vösum beggja megin við. Litlir persónulegir munir fullkomna svo uppröðunina án þess að hún verði ofhlaðin. Í svona stíliseringu er kjörið að nota bækur sem eru ekki í stöðugri notkun því það gæti orðið þreytandi að vera sífellt að færa til smámuni og raða upp á nýtt þegar nota þarf bók.

Hér eru tvær aðrar hillur og eins og sést er töluvert meira af bókum í hillunum á vinstri myndinni. Þar er bókum þétt raðað ýmist lárétt eða lóðrétt en takið eftir hvernig kápurnar tóna vel saman. Á myndinni til hægri fá hillurnar að anda meira og þar liggja flestar bækurnar láréttar innan um hlutlausar skálar og listmuni.


Í þessari hillu er bókum raðað bæði lárétt og lóðrétt og eigandinn notar skærgulan lit í bland við gyllta og bláa tóna til að brjóta upp útlitið. Það er heilmikið líf í hillunni en ákveðið jafnvægi líka og listmunir fá að njóta sín.

Hérna eru tvö önnur dæmi um skemmtilega og stílhreina uppröðun í hillum. Það er nægilegt rými á milli bóka og hluta, ekki ofhlaðið í hillurnar. Á myndinni til hægri sjást neðri skápar sem geta heldur betur létt manni lífið þegar kemur að því að fela möppur og alls kyns hluti sem verða gjarnan til vandræða.


Þar sem ekki eru lokaðir skápar má nota kassa úr basti eða öðru fallegu efni, helst hlutlausu, undir smádót og muni sem gleðja ekki beint gestsaugað. Til dæmis er kjörið að raða spilum í slíka kassa því þá hafa þau sinn stað og ef börn eru á heimilinu er lítið mál að venja þau á að ganga frá kassanum eftir sig.

Fyrir ykkur sem hafið ekki lokaða skápa og eruð að vandræðast með möppur. Ég rakst á þessa mynd á vef Micasa þar sem allar möppur og tímaritakassar eru í hvítu og öllu raðað í neðstu hilluna. Fyrir ofan eru svo hvítir kassar notaðir undir hluti sem ekki eiga að sjást.

Á vinstri myndinni hér að neðan eru kassar úr basti hafðir í neðstu hillunni og eins og sést andar vel um þá. Ef þið lítið á hina myndina þá sjáið þið að bastkassinn þarna lengst til hægri fyllir svo til upp í hilluna. Þetta er bara smekksatriði. Það má svo að sjálfsögðu velja svona kassa með loki til að hylja algjörlega það sem í þeim er geymt. Ef þið eigið ekki skúffu undir ritföng þá eru kassar úr basti eða öðru efni kjörnir undir slíkt og hafið þá sem aðgengilegasta. Þið getið notað nokkrar stærðir af kössum en hafið þá helst í sama stíl.


Þegar ég skoðaði myndina frá skólasystur minni tók ég strax eftir því að fyrir ofan skrifborðið hangir nokkuð stór mynd í ramma. Það er hið besta mál en myndin er svo til beint fyrir ofan tölvuskjáinn og skapar þannig formfræðilegt ójafnvægi.

Þar sem hún er bara með opnar bókahillur á aðliggjandi vegg og enga lokaða skápa þá blasa allar möppur við. Það væri hugmynd að setja upp veggskáp (fann þennan á síðu Ikea bara til að gefa hugmynd), ef veggpláss leyfir, fyrir ofan skrifborðið og geyma í honum möppur og slíkt sem gleður ekki augað. Önnur hugmynd, sem ég er hrifnari af, er að setja upp nokkar opnar hillur fyrir ofan skrifborðið með fallega röðuðum myndarömmum og stílhreinum skrautmunum eins og sést hér að neðan. Þetta myndi strax fanga augað og draga athyglina frá skrifstofulegu útliti hornsins.

Ef hvorki veggskápur né stakar hillur koma til greina þá gæti hún líka sett upp töflu við hliðina á myndarammanum, helst í sömu stærð og ramminn upp á jafnvægi, og hengt upp á töfluna snyrtilega röðuðum myndum og úrklippum sem veita innblástur.

Ég tók einnig eftir því að á skrifborði hennar er enginn lampi. Rétt lýsing skiptir höfuðmáli og ef ekki er pláss fyrir fallegan lampa á borðinu þá má kaupa gólflampa. Stóllinn skiptir líka máli og í opinni heimaskrifstofu er best að velja hlutlausan lit á stólinn, sem hún hefur einmitt gert.

Ég vona að þessi póstur komi fleirum að gagni og fyrir þá sem vilja fleiri hugmyndir þá er ég með alla vega þrjú borð á Pinterest-síðunni minni með myndum sem þið getið skoðað: bókaherbergi og leskrókar, heimaskrifstofur og vinnustofur.

myndir:
1: Maisons du Monde / 2: Heather Clawson af blogginu Design Darling / 3: Lonny, mars/apríl 2012 / 4 + 7: Emily Henderson / 5: Robbie Caponetto | stílisering Lindsey Ellis Beatty af blogginu This is Glamorous / 6: Stephen Karlisch fyrir D Magazine / 8: Tom Kirkpatrick | stílisering frau-p af blogginu decor8 / 9: Emily Gilbert af síðunni Design*Sponge / 10: Laurey W. Glenn fyrir Southern Living 11: Simon Whitmore for House to Home / 12: Martin Hahn for Real Living af blogginu Dustjacket Attic


miðvikudagur, 19. júní 2013

Garðhönnun: frönsk áhrif í garði í Alabama


Það var ást við fyrstu sýn þegar ég sá þennan franska glugga með útsýni út í garðinn á vefsíðu Traditional Home. Ég hugsaði um þessa mynd og þennan garð í allan dag á meðan ég var að vinna í mínum eigin, sem er heldur tilþrifaminni og ekki eins litríkur (kemur allt rólega, núna eru rósirnar fyrir framan hús loksins byrjaðar að blómstra!).


Í hinu sögulega hverfi Redmont í Birmingham, Alabama stendur hús frá árinu 1926 sem er í eigu innanhússhönnuðarins Mary Finch og eiginmanns hennar. Þau keyptu húsið árið 2004 og leituðu til garðyrkjumeistarans Norman Kent Johnson til að fá aðstoð við að hanna garðinn upp á nýtt. Hann var berangurslegur og í honum var aðallega gamalt og ofvaxið bláregni sem sárlega þurfti að klippa til og snyrta. Áður en þau keyptu húsið þá hafði Mary ekki verið mikil garðyrkjukona en eins og segir í greininni „stóðst hún ekki mátið að vinna með ómálaðan striga.“ Franskir garðar voru henni innblástur eftir að hafa skoðað vínekrur í Frakklandi og ferðast um Provence-hérað. Hún er einlæg þegar hún segir hlæjandi: „Sennilega er það franskasta við þennan garð allt það magn af frönsku víni sem hér hefur verið deilt.“


Að ofan sjáið þið fjólubláa salvíu og glæsilegar svalir þar sem þau njóta þess að drekka kaffið sitt á morgnana á meðan þau dást að garðinum og útsýninu. Í dag hljómar Mary eins og sannur garðunnandi þegar hún segir: „Það eru alltaf einhverjar breytingar ... Það er spennandi að sjá nýtt lauf myndast, blöð breytast eða blóm sem er við það að blómstra.“


Plantan hér að ofan er rauð verbena, sem ég hef aldrei séð áður. Hún gengur einnig undir nafninu ,Voodoo Star' eða 'Vúdú-stjarna' og laðar að sér fiðrildi, fulga og býflugur. Rauða blómið fyrir ofan hana kallast Schizanthus.

Hér fyrir neðan má sjá plöntu sem kallast ,Purple Flame' eða ,Fjólublár logi' (Cyclamen hederifolium) og englastyttur í miðju formlega garðsins (enska: parterre).


Útsýnið baka til er stórkostlegt, en frá svölunum má njóta formlega garðsins og hinum megin við dalinn blasir við Appalachian-fjallgarðurinn. Það voru Mary og garðyrkjumeistarinn Norman Kent Johnson sem bættu formlega garðinum við, svona til að halda franskri hönnun á lofti. Horn hans mynda fjórir stórir vasar sem um leið afmarka garðinn.


Í garðinum er opin verönd sem þau nota gjarnan þegar gesti ber að garði því í húsinu sjálfu er ekki formleg borðstofa. Á frístandandi vegg hanga luktir sem gefa frá sér milda birtu þegar sólin sest.


Ég notaði ekki allar myndirnar úr greininni í þessa færslu en ég lýk þessu með steinlögðum stíg og gömlu járnhliði sem hefur yfir sér franskan blæ.


myndir:
Jean Allsopp fyrir Traditional Home

þriðjudagur, 18. júní 2013

rýmið 33


- sundlaug og verönd húss í georgískum stíl frá ca. 1840 í Sussex, Englandi

Á enska blogginu í dag er innlit á skemmtilega vinnustofu í Hudson Valley í New York. Kíkið endilega á það ef þið hafið áhuga. Ég vona að þið hafið átt gleðilegan þjóðhátíðardag í gær!

mynd:
Dominic Blackmore fyrir Traditional Home af blogginu Savy Home

fimmtudagur, 13. júní 2013

augnablikið 04

Marilyn Monroe, 19 ára á miðjum Pacific Coast þjóðvegi í Kaliforníu, 1945.

mynd:
Andre de Dienes af síðunni Facie Populi

miðvikudagur, 12. júní 2013

Espresso macchiato & hádegisverður á Konrad

Espresso macchiato & hádegisverður á Konrad · Lísa Hjalt


Á laugardaginn fór ég inn í borg og eyddi deginum með vinkonu minni. Planið var að smakka kaffið og borða hádegisverð á Konrad. Við fengum borð úti í skugganum og byrjuðum á kaffinu. Ég er yfirlýst latte-manneskja en undanfarið hef ég leyft mér að lifa hættulega og fæ mér þá espresso macchiato þegar ég sest niður á kaffihúsum en gríp með mér latte í götumáli ef ég er á ferðinni. Ekkert smá hugrekki!

Ég er ekki kaffisérfræðingur og hef ekki hugmynd um hvernig á að lýsa hinum fullkomna kaffibolla en ég veit að espresso bollinn sem ég fékk á laugardaginn var fullkominn. (Ef þið hafið áhuga á kaffismökkun þá verð ég að benda ykkur á Barista's Log viðbótina sem einn vinur minn þróaði sem er bæði kaffi- og tölvugúrú. Þegar ég sé þessar myndir þá væri ég alveg til í að vita meira um list kaffismökkunar.)
Kaffivélin á Konrad, Luxembourg · Lísa Hjalt


Þegar við vorum búnar að drekka kaffið færðum við okkur inn til að snæða hádegisverð. Karríréttir eru sérgrein þeirra á Konrad en á laugardögum er einfaldleikinn í eldhúsinu allsráðandi og ég fékk mér grænmetisböku með salati. Maturinn bragðaðist mjög vel. Ég lýg ekki, ég er enn að hugsa um þessa böku og stefni á að fá mér hana aftur fljótlega. Ég fékk mér líka glas af lífrænu rósavíni sem fullkomnaði máltíðina.

Bókahillur á Konrad, Luxembourg · Lísa Hjalt
Hádegisverður á Konrad, Luxembourg · Lísa Hjalt


Eins og sést á myndunum er Konrad einn af þessum hráu stöðum sem mér finnst alltaf skemmtilegir. Hann er í hjarta borgarinnar og er reyklaus og er auk þess bar sem býður reglulega upp á uppistand. Við borðin má ýmist sjá viðar- eða leðurstóla og upp við barinn eru þeir í iðnaðarstíl. Loftbitarnir eru sýnilegir, veggir hvítir fyrir utan einn sem er veggfóðraður með blómamynstri. Það eru engir matseðlar heldur er allt skrifað á krítartöflur.

Mér leiðist að koma inn á staði þar sem stemningin er einhvern veginn þvinguð; ekki afslöppuð. Mér líkar það best þegar eigendur kaffi- og veitingahúsa leggja meiri áherslu á að skapa gott andrúmsloft heldur en að dæla peningum í glæsilegar innréttingar og skrautmuni. Konrad er einmitt svona afslappur staður sem er laus við alla tilgerð og þar sem viðmót starfsmanna er vingjarnlegt.



Ég tók þessa mynd nýverið sem sýnir stemninguna fyrir utan staðinn. Hún er hluti af færslu á ensku útgáfu bloggsins þar sem ég sagði frá því þegar ég uppgötvaði fyrst götuna Rue du Nord.



fimmtudagur, 6. júní 2013

rýmið 32


- verönd sem tilheyrir gestahúsi 17. aldar sveitaseturs í Val di Chiana, Toscana-héraði, Ítalíu
- eigendurnir, hjónin og arkitektarnir Marta og Oscar Fisch, höfðu umsjón með endurnýjun hússins
- arkitektinn Fabrizio Bardelli var ráðinn til þess að sjá um öll leyfi fyrir framkvæmdum frá ítölskum yfirvöldum

mynd:
Giancarlo Gardin fyrir Architectural Digest

miðvikudagur, 5. júní 2013

Garðhönnun: 17. aldar sveitasetur í Devon

Í möppunum mínum er að finna nokkra garða sem ég ætla að deila í sumar en þessi - hannaður af Arne Maynard - varð fyrir valinu í dag vegna þess að í honum er fullt af lavender. Undanfarið hef ég varla hugsað um annað en lavender þar sem ég var að dreifa mínum nýlega og stend sjálfa mig að því að vera stöðugt að kíkja á afraksturinn og jafnvel spjalla við hann, svona til að hvetja vöxtinn. (Það er í góðu lagi að tala við plöntur en ef þær fara að svara þá er kannski ráð að leita sér hjálpar!) Lavender er án efa ein af mínum uppáhaldsplöntum og þetta er ekki í eina skiptið sem ég kem til með að pósta lavender í sumar.

Garðhönnuðurinn Arne Maynard á landareignina í Wales sem ég póstaði nýverið á blogginu. Þetta sveitasetur í Devon er frá 17. öld og þegar Maynard var fenginn til að endurhanna garðinn þá var formið þegar til staðar en það þurfti bara að endurvekja það. Maynard byrjaði á því að laga og breyta aðalgönguleiðinni að húsinu og í ytri garðinum var sem dæmi komið fyrir perutrjám sem klifra upp og meðfram veggjum. Í garðinum við göngustíginn voru notaðar alls kyns plöntur eins og lavender, stjúpur og geraníur.

Ég veit ekki með ykkur en ég er bálskotin í þessum garði.

myndir:
Arne Maynard Garden Design