Sýnir færslur með efnisorðinu veitingahús. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu veitingahús. Sýna allar færslur

fimmtudagur, 2. júlí 2015

Kember & Jones delí og kaffihús í Glasgow

Kember & Jones delí og kaffihús í Glasgow · Lísa Hjalt


Í gær skelltum við okkur til Glasgow í Skotlandi og ég varð bálskotin í West End-hverfinu. Einhvers staðar í hjarta þessa fallega og afslappaða hverfis, þar sem má finna kaffihús og veitingastaði á svo til hverju horni, leit ég á eiginmanninn og spurði: Hvar hefur þessi borg eiginlega verið allt mitt líf? Á Byres Road númer 134 fundum við Kember & Jones delí og kaffihús og þegar ég opnaði hurðina var ég komin heim. Við fengum borð uppi með útsýni yfir aðalhæðina þar sem við heldur betur gátum notið góðs anda staðarins.

Á blogginu skrifa ég aldrei svona 'vikan mín á Instagram'-færslur (afsakið en mér finnst slíkar færslur tilgangslausar með öllu) en þegar ég tók myndavélina upp úr töskunni og ætlaði að taka myndir af West End-hverfinu til að deila á blogginu þá áttaði ég mig á því að batteríið varð eftir í hleðslutækinu heima ... ég er ekki í lagi! Sem betur fer var eiginmaðurinn með símann á sér þannig að ég tók þessar á Kember & Jones og deildi þeim á Instagram. En þetta þýðir að ég þarf að fara aftur til Glasgow.
Kember & Jones delí og kaffihús í Glasgow · Lísa Hjalt


Aftur að kaffihúsinu. Persónulega þá þoli ég ekki þegar ég panta latte og það er borið fram í stóru glasi. Ég var svo heilluð af hráum stíl og hönnun Kember & Jones í gær að ég hreinlega gleymdi að spyrja hvernig þau bæru það fram. Kaffið kom í meðalstóru, svolítið gamaldags glasi, sem fór ekkert í taugarnar á minni latte-sál. Aðalatriðið var að kaffið var gott! Ég pantaði samloku á matseðlinum þeirra með grilluðu grænmeti, hummus, spínati og harissa chilli-dressingu, með baunum og salati til hliðar, sem var gómsæt. Þegar ég hélt að þetta kaffihús gæti ekki heillað mig meira þá fann ég á borði á aðalhæðinni svo til allar uppskriftabækurnar á óskalistanum mínum (Sunday Suppers eftir Karen Mordechai og A Kitchen in France: A Year of Cooking in My Farmhouse eftir Mimi Thorisson (íslenskur eiginmaður hennar, Oddur Þórisson, tekur myndirnar), bara til að nefna einhverjar, og ég bætti á listann The River Cafe Classic Italian Cookbook eftir Rose Gray and Ruth Rogers). Þetta kaffihús er einfaldlega draumur.

Að lokum verð ég að segja að ef þið ferðist einhvern tíma til Glasgow eða millilendið þar, ekki gera þau mistök að dvelja bara í einn dag. Ég gæti eytt nokkrum dögum bara í West End-hverfinu. Í raun þá gæti ég eytt nokkrum dögum í að njóta kaffi- og veitingahúsanna og andrúmsloftsins á Byres Road eingöngu.

miðvikudagur, 12. júní 2013

Espresso macchiato & hádegisverður á Konrad

Espresso macchiato & hádegisverður á Konrad · Lísa Hjalt


Á laugardaginn fór ég inn í borg og eyddi deginum með vinkonu minni. Planið var að smakka kaffið og borða hádegisverð á Konrad. Við fengum borð úti í skugganum og byrjuðum á kaffinu. Ég er yfirlýst latte-manneskja en undanfarið hef ég leyft mér að lifa hættulega og fæ mér þá espresso macchiato þegar ég sest niður á kaffihúsum en gríp með mér latte í götumáli ef ég er á ferðinni. Ekkert smá hugrekki!

Ég er ekki kaffisérfræðingur og hef ekki hugmynd um hvernig á að lýsa hinum fullkomna kaffibolla en ég veit að espresso bollinn sem ég fékk á laugardaginn var fullkominn. (Ef þið hafið áhuga á kaffismökkun þá verð ég að benda ykkur á Barista's Log viðbótina sem einn vinur minn þróaði sem er bæði kaffi- og tölvugúrú. Þegar ég sé þessar myndir þá væri ég alveg til í að vita meira um list kaffismökkunar.)
Kaffivélin á Konrad, Luxembourg · Lísa Hjalt


Þegar við vorum búnar að drekka kaffið færðum við okkur inn til að snæða hádegisverð. Karríréttir eru sérgrein þeirra á Konrad en á laugardögum er einfaldleikinn í eldhúsinu allsráðandi og ég fékk mér grænmetisböku með salati. Maturinn bragðaðist mjög vel. Ég lýg ekki, ég er enn að hugsa um þessa böku og stefni á að fá mér hana aftur fljótlega. Ég fékk mér líka glas af lífrænu rósavíni sem fullkomnaði máltíðina.

Bókahillur á Konrad, Luxembourg · Lísa Hjalt
Hádegisverður á Konrad, Luxembourg · Lísa Hjalt


Eins og sést á myndunum er Konrad einn af þessum hráu stöðum sem mér finnst alltaf skemmtilegir. Hann er í hjarta borgarinnar og er reyklaus og er auk þess bar sem býður reglulega upp á uppistand. Við borðin má ýmist sjá viðar- eða leðurstóla og upp við barinn eru þeir í iðnaðarstíl. Loftbitarnir eru sýnilegir, veggir hvítir fyrir utan einn sem er veggfóðraður með blómamynstri. Það eru engir matseðlar heldur er allt skrifað á krítartöflur.

Mér leiðist að koma inn á staði þar sem stemningin er einhvern veginn þvinguð; ekki afslöppuð. Mér líkar það best þegar eigendur kaffi- og veitingahúsa leggja meiri áherslu á að skapa gott andrúmsloft heldur en að dæla peningum í glæsilegar innréttingar og skrautmuni. Konrad er einmitt svona afslappur staður sem er laus við alla tilgerð og þar sem viðmót starfsmanna er vingjarnlegt.



Ég tók þessa mynd nýverið sem sýnir stemninguna fyrir utan staðinn. Hún er hluti af færslu á ensku útgáfu bloggsins þar sem ég sagði frá því þegar ég uppgötvaði fyrst götuna Rue du Nord.



mánudagur, 5. nóvember 2012

París: stemningin á Café de Flore

París: stemningin á Café de Flore í 6. hverfi · Lísa Hjalt


Er ekki í góðu lagi að skreppa aftur til Parísar í huganum? Þið sem fylgist með ensku útgáfu bloggsins hafið væntanlega séð þessar myndir fyrr í dag. Ég var að horfa á rigninguna út um gluggann í morgun og fannst þá tilvalið að deila myndum sem teknar voru á milli skúra í París.

Við vorum að rölta um 6. hverfi, rólega að fikra okkur í áttina að kaffihúsinu Café de Flore, þegar það fór að rigna eins og hellt væri úr fötu. Við hinkruðum og náðum svo á leiðarenda áður en það fór að rigna aftur. Við fengum borð úti þar sem við sátum í skjóli og hlýju og fylgdumst með mannlífinu á horni Boulevard Saint-Germain og Rue Saint-Benoît. Þetta kaffihús er með þeim þekktustu í París, oft tengt við Jean-Paul Sartre og Simone de Beauvoir því þarna áttu þau til að sitja og ræða heimspekileg málefni eða sinna skrifum. Þau mátti líka finna á Les Deux Magots, sem er nokkrum skrefum frá þessu.
París: stemningin á Café de Flore í 6. hverfi · Lísa Hjalt


Það hefur ekkert breyst á Café de Flore. Í áratugi hefur stíllinn verið sá sami og maður fær á tilfinninguna að tíminn hafi hreinlega staðið í stað. Þetta er hin fullkomna Parísarklisja; þjónar með hvítar síðar svuntur ganga á milli borða og heimamenn drekka kaffið sitt innan um ferðalanga. Ég skrapp inn til þess að kíkja á böku dagsins og aðrar kræsingar og veitti því athygli sem fram fór innandyra. Mikið af fólki sat einsamalt við borð og það var meira eins og það væri heima hjá sér. Það var búið að koma sér þægilega fyrir með allt sitt dót og virtist ekki upptekið af því hvað var að gerast í kringum sig. Ég valdi mér maison tarte sem var sítrónubaka og hugsaði með mér að líklega sæi ég þetta fólk við sama borð ef ég kæmi aftur daginn eftir.

Eins og ég sagði, hin fullkomna Parísarklisja.



föstudagur, 26. október 2012

búð: merci í parís


Ég pósta alltaf blómum á föstudögum en út af því ég tók frí í gær þá ætla ég að breyta aðeins til í dag og sýna ykkur Merci verslunina í 3. hverfi í París. Hún er það sem kallast 'concept store' á ensku. Ég var alveg ákveðin að kíkja í hana í Parísarferðinni og varð svo sannarlega ekki fyrir vonbrigðum. Vöruúrvalið er frábært: ritföng, munir fyrir heimilið, sængurver, fatnaður og aukahlutir, og svo margt fleira. Öllu þessu eru fallega uppstillt og það er nóg pláss til þess að skoða sig um.

Verslunin er staðsett á Boulevard Beaumarchais og fyrst er gengið í gegnum göng. Þá kemur maður inn í lítinn og snotran steinlagðan garð þar sem rauði sæti Merci bíllinn blasir við manni. Það er kaffihús í sjálfri versluninni sem sést á efstu myndinni til hægri og það er kaffihús/veitingastaður í sér rými við hliðina á henni. Andrúsmloftið þarna inni er virkilega skemmtilegt. Ef þið eigið leið til Parísar þá mæli ég hiklaust með því að kíkja inn og skoða.

Merci, 111 Boulevard Beaumarchais, 75003 París

Eigið góða helgi!

myndir:
Lísa Hjalt

þriðjudagur, 23. október 2012

París: Le Café Chinois í 3. hverfi




Ég deildi myndum frá torginu Place des Vosges í færslu fyrr í dag og lofaði að deila með ykkur þessu huggulega te- og kaffihúsi sem er að finna í 3. hverfi Parísar. Það heitir Le Café Chinois og stendur í götunni Rue du Béarn, sem liggur út frá torginu. Við gengum fram hjá því á leið okkar í Merci búðina en þá var ekki búið að opna þannig að við ákváðum að kíkja aftur. Við þurftum að bíða eftir borði í svolítinn tíma og karrílyktin sem barst út á götu ætlaði að fara með okkur. En biðin var þess virði.


Staðurinn er frekar lítill og nokkuð hrár í útliti en er samt hlýlegur. Þetta er sem sagt te- og kaffihús og handan eins veggjar er lítil búð með asískum munum og vefnaðarvöru. Hádegisverður - „slow lunch“ - er í boði á milli klukkan 12 og 15 og á töflunni má finna nokkra grænmetisrétti. Mér sýndist vera einn túnfisksréttur líka, en það er ekkert kjöt. Fyrir utan kaffi og te má fá alls kyns ferska safa og við fengum okkur engifer- og hibiscus drykk (held að hibiscus kallist stokkrós á íslensku) sem var ljómandi ferskur og góður. Ég pantaði karrí- og baunarétt með grænmeti á grjónabeði sem var virkilega bragðgóður. Fram til þessa höfðum við ekki borðað neitt nema ekta franskan mat og því var þetta gott mótvægi; bragðaðist svo vel og var alls ekki dýrt. Maturinn fyllti okkur auk þess orku.

Stemningin á staðnum var heimilisleg og um leið alþjóðleg því það mátti heyra frönsku í bland við ensku, spænsku og önnur tungumál. Ef þið eigið leið um þetta svæði í Mýrinni í París þá mæli ég hiklaust með þessum stað. Hann er líka vænn fyrir budduna.

Le Café Chinois, 7 rue du Béarn, 75003 Paris
opið þriðjudaga - laugardaga frá 12-18:30
'slow lunch' frá 12-15