Sýnir færslur með efnisorðinu arkitektúr. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu arkitektúr. Sýna allar færslur

þriðjudagur, 30. janúar 2018

Edinburgh: Waterstones bókabúðin & Calton Hill

Edinburgh: Waterstones bókabúðin & Calton Hill · Lísa Stefan


Eftir að hafa skellt okkur nokkrum sinnum til Edinburgh síðasta sumar þá finnst mér ég þegar geta tengt við upplifun Alan Rickman heitins af skosku höfuðborginni: „I always feel that when I come to Edinburgh in many ways I am coming home“ (heimild). Við vorum í Edinburgh á meðan Fringe-listahátíðin stóð yfir, þegar borgin iðar af lífi og menningu, og sköpuðum ógleymanlegar minningar. Waterstones á Prince Street, West End-útibúið þeirra, rataði á lista okkar yfir heimili að heiman: Bókabúðin, sem er á fjórum hæðum, er Fyrirheitna land bókaunnandans með frábært úrval bóka og afslappandi andrúmsloft, svo ekki sé minnst á kaffihúsið, W Café, með stórkostlegu útsýni yfir til Kastalahæðarinnar.

Edinburgh: Waterstones bókabúðin & Calton Hill · Lísa Stefan
Kastalahæðin séð frá W Café

Til að forðast mannmergðina á götunum gengum við í gegnum Princes Street-garðana á leið okkar frá Waverley-stöðinni út í Waterstones, nutum veitinga og dvöldum lengur en við ætluðum okkur - við gáfum okkur tíma fyrir Waterstones í hverri ferð. Á bak við bygginguna, samhliða Princes St og George St, liggur hin heillandi Rose Street, sem er þröng gata, laus við umferð, þar sem má finna allt að því óteljandi veitingahús og krár.
Edinburgh: Waterstones bókabúðin & Calton Hill · Lísa Stefan

Edinburgh: Waterstones bókabúðin & Calton Hill · Lísa Stefan
W Café, bókakaffi Waterstones

Victoria Street í Old Town, gamla borgarhlutanum

Í Edinburgh gengum við út um alla miðborgina: upp að Kastalanum og niður á Grassmarket, upp hina frægu götu Victoria Street, meðfram Royal Mile (High St), þar sem við skoðuðum ýmsa króka hennar og kima, og þaðan í áttina að Calton Hill. Upp þrepin að hæðinni fórum við til að njóta glæsilegs útsýnis yfir borgina. Við lögðum það meira að segja á okkur að labba upp þrepin í Nelson Monument. Það var þess virði.

Princes Street séð frá Calton Hill

Edinburgh: Calton Hill · Lísa Stefan
Kastalinn frá Calton Hill, og til hægri, Scott Monument, minnisvarði í gotneskum stíl




mánudagur, 13. júlí 2015

Whitby - sögulegur bær við sjávarsíðuna

Whitby - sögulegur bær við sjávarsíðuna · Lísa Stefan


Á laugardaginn fagnaði ég afmælinu mínu í Whitby, sögulegum og fallegum bæ við sjávarsíðu North Yorkshire. Höfnin skiptir bænum í tvennt og er gamli hlutinn á austurbakkanum. Í Whitby má finna gömul hús, þröngar hellulagðar götur frá miðöldum, fallegar búðir, litríkar hurðir, krár, kaffihús, sandstrendur, kletta, svo við gleymum ekki frægum rústum Whitby Abbey, gotnesku kirkjunnar sem stendur á East Cliff-klettinum.
Höfnin í Whitby · Lísa Stefan


Whitby hljómar örugglega kunnuglega í eyrum þeirra sem hafa lesið klassísku, gotnesku hryllingssöguna Drakúla eftir Bram Stoker. Rússneskt skip sem Drakúla greifi ferðast með til Englands strandar við Whitby. Hann kemur í land í dulargervi svarts hunds og hefst þá „fjörið“! Eftir að hafa komið til Whitby þá verð ég að segja að sögusviðið er fullkomið.
Smábátahöfnin í Whitby með North York Moors-þjóðgarðinn í bakgrunni

Útsýnið í allar áttir frá tröppunum 199 er stórkostlegt. Þegar maður horfir yfir gömlu, rauðu húsþökin þá er eins og maður ferðist aftur í tímann eða að maður sé staddur í ævintýri. Ég mæli með því að labba inn í bæinn niður þessar tröppur sem eru með aðliggjandi hellulagðri brekku (það eru bílastæði á East Cliff-klettinum við rústir Whitby Abbey). Þegar farið er niður tröppurnar gengur maður beint inn í Church Street-götuna (sjá myndirnar hér að neðan), sem er sjarmerandi, þröng, hellulögð gata þar sem finnast alls kyns búðir, krár og kaffihús.
Whitby - sögulegur bær við sjávarsíðuna · Lísa Stefan
Whitby - sögulegur bær við sjávarsíðuna · Lísa Stefan


Hvert sem litið er má finna eitthvað sem vert er að festa á filmu en á laugardaginn var bærinn pakkaður af fólki, sem gerði myndatöku erfiða. Við keyrðum til Whitby og til að aka inn í bæinn þarf að aka í gegnum North York Moors-þjóðgarðinn, sem er með fallegu landslagi.
Whitby - sögulegur bær við sjávarsíðuna · Lísa Stefan
Marie Antoinette's Patisserie-bakaríið við götuna Church Street

Ég kom auga á eitt í Whitby sem pirraði mig (ekki í fyrsta sinn). Þegar við vorum að labba í Church Street-götunni þá sá ég skilti bakarísins Marie Antoinette's Patisserie með orðunum 'let them eat cake' (látum þau borða kökur). Franska drottningin er gjarnan ranglega tengd við þessi orð, sem hún átti að hafa mælt þegar henni var tjáð að lýðurinn hefði ekki efni á brauði. Staðreyndin er sú að hún sagði þetta aldrei, heldur var þetta bara hluti af áróðri Frönsku byltingarinnar. Það vill svo til að í töskunni minni var ég með eintak af Must You Go?: My Life with Harold Pinter eftir Antonia Fraser (snemmbúin afmælisgjöf frá eiginmanninum). Fyrir nokkrum árum síðan las ég ævisöguna Marie Antoinette: The Journey eftir Fraser þar sem hún leiðréttir látum-þau-borða-kökur lygasöguna og mér finnst það beinlínis vera skylda mín að gera svo hér, ef þið rækjuð augun í orðalagið á skilti bakarísins sem ég tók mynd af.



Ég tók nokkrar myndir af rústum Whitby Abbey-kirkjunnar, sem ég deili kannski síðar. Eins og ég sagði fyrr þá var svo mikið af fólki í Whitby sem torveldaði myndatöku. Þessi ferð var auk þess til skemmtunar fyrir fjölskylduna og ég vildi helst hlífa fólkinu mínu við því að þurfa stöðugt að stoppa á meðan ég mundaði linsuna. Hugmyndin er annars sú að fara aftur til Whitby á virkum degi og ég get þá skellt mér í göngutúr með myndavélina á meðan liðið flatmagar á ströndinni.


föstudagur, 24. apríl 2015

Kyrrlátur reitur í þorpinu

Kyrrlátur reitur í þorpinu · Lísa Hjalt


Í fyrra þegar ég flutti til South Yorkshire þá stóð ég í þeirri meiningu að ég væri að flytja í lítinn bæ. Það var ekki fyrr en fólk fór að spyrja mig hvernig mér liði í þorpinu að ég áttaði mig á því að ég byggi í einu slíku. Þegar ég hugsa um þorp þá sé ég fyrir mér örfá múrsteinshús, þröngar steinlagðar götur og gamalt pósthús með gömlu og kannski eilítið ryðguðu reiðhjóli við innganginn.


Þessi fallegi reitur við kirkjuna er líklega einn fárra sem minna á þorp, ef umferðarniðurinn frá megingötunni er ekki talinn með. Kirkjan kallast St. Saviour og þar sem ég fer ekki í messu þá hef ég aldrei stigið inn í hana. Ég tók ekki eftir bekknum fyrr en ég var í göngutúr með syni mínum á sólríkum vordegi og sá að tréð hafði blómgast. Þessi reitur var eins og segull sem dró okkur yfir götuna; hann virkaði svo friðsæll. Þegar við tókum eftir áletruðu plötunni undir trénu þá einhvern veginn jókst sérstaða þessa reitar.



Stundum líður mér eins og ég sé áttræð þegar ég tala um veðrið á blogginu en þessa dagana er hreinlega eins og sumarið sé komið! Við vorum í London á þriðjudaginn og borgin iðaði af lífi; fólk í stuttbuxum eða pilsum í sólinni; kaffihús og veitingastaðir þéttsetnir utandyra og allir glaðir. Við enduðum daginn í Chelsea-hverfinu og nutum góðs matar og kaffis á Startisans, sem er „pop-up“ kaffihús með götumat á the Duke of York Square-torginu. Ég hefði getað setið þar fram eftir kvöldi og notið þess að fylgjast með umhverfinu og fólkinu.

Góða helgi!

fimmtudagur, 16. október 2014

Innlit: fyrrum textílverksmiðja í Como



Það þarf ekki að hafa mörg orð um þetta innlit. Ítalski arkitektinn og listamaðurinn Marco Vido endurgerði þetta ris í Como á Ítalíu en á 3. áratugnum var húsið textílverksmiðja. Ég er í einhvers konar haltu mér-slepptu mér sambandi við iðnaðarstíl því stundum finnst mér hann of kaldur og fráhrindandi. Hérna finnst mér hafa vel tekist til því það er nóg af hlýjum viði sem skapar jafnvægi. Auk þess finnst mér svörtu gluggarnir svakalega flottir.


myndir:
Nathalie Krag fyrir Interior Design, ágúst 2014

þriðjudagur, 7. október 2014

Rýmið 75



- stofa í húsi á nýsjálensku eyjunni Waiheke Island, Auckland
- hönnun Fearon Hay Architects

mynd:
Patrick Reynolds fyrir Fearon Hay Architects af vefsíðu ArchDaily

fimmtudagur, 2. október 2014

Innlit: þakíbúð með verönd í East Village, NY



Á fimmtudögum á ensku útgáfu bloggsins er ég með seríu þar sem ég birti veröndir og önnur útisvæði. Í dag var ég með stóra verönd virklega fallegrar þakíbúðar í East Village hverfinu í New York og hugsaði með mér, því ekki að deila innri rýmunum hér á íslensku útgáfunni. Það var arkitektinn Michael Neumann sem hjálpaði eigendunum að ráðast í endurnýjun og miklar breytingar á húsnæðinu. Glerhurðirnar með svörtu römmunum og bogadregnu gluggarnir sem einkenna rýmið finnst mér hafa heppnast ákaflega vel, en samtals fimm hurðir opnast út á veröndina. Stíllinn er hrár en samt hlýlegur, mikið er um muni úr náttúrulegum efnum og brúnir tónar eru einkennandi.


Einn eigandanna er einn af yfirmönnum hjá Ralph Lauren veldinu og því er að finna mikið af húsgögnum og munum fyrir heimilið frá Ralph Lauren Home, til dæmis sófann og stólana í stofunni. Rammaða prentverkið fyrir ofan arininn er eftir Richard Serra.


Persónulega langaði mig að sleppa að nota þessa mynd af borðstofunni því mér finnst borðskreytingin svo yfirdrifin eða, svo ég segi það bara hreint út, forljót. En hin myndin sem ég fann var bara of lítil. Ég vildi samt sýna ykkur rýmið því þaðan sést vel út á veröndina og myndin sýnir hurðirnar og gluggana vel. Það er annars alveg merkilegt hvað þetta er algeng stílisering í innlitum í amerískum tímaritum, eins og það þurfi alltaf að vera einhver svakalegur vasi með risastórum blómum eða greinum ofan á hringborði sem gnæfir yfir allt annað. Þess má geta að stólarnir í iðnaðar- eða verksmiðjustílnum eru gamlir Tolix stólar og eru líka notaðir við borðið á veröndinni.


myndir:
Miguel Flores-Vianna fyrir Architectural Digest, apríl 2012

mánudagur, 15. september 2014

Innlit: heimili listakonunnar Pepa Poch á Spáni



Þegar ég rekst á heimili listamanna sem eru jafn falleg og þetta þá fæ ég allt að því skjálfta í hnén. Hið vinsæla tímarit Lonny er ókeypis á netinu og septemberútgáfan er öll hin glæsilegasta. Þau heimsóttu katalónsku listakonuna Pepa Poch sem býr í hvítmáluðu húsi á Costa Brava á Spáni með útsýni út á Miðjarðarhaf. Ég allt að því slefaði þegar ég sá pússuðu gólfborðin, svo ég minnist nú ekki á loftbitana sem hafa verið málaðir í bláum tón. Það eru einmitt þessir bláu tónar hér og þar um húsið og í listaverkum Poch sem heilla mig. Ég er auk þess ákaflega hrifin af svona hráum stíl þar sem steinn og viður leika aðalhlutverk, sérstaklega þegar hann er hlýlegur eins og á þessu heimili. Það eru fleiri myndir á vefsíðu Lonny ef þið viljið sjá meira og að sjálfsögðu smá viðtal við listakonuna.


myndir:
Albert Font fyrir Lonny, september 2014