Sýnir færslur með efnisorðinu sveitasetur. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu sveitasetur. Sýna allar færslur

mánudagur, 15. september 2014

Innlit: heimili listakonunnar Pepa Poch á Spáni



Þegar ég rekst á heimili listamanna sem eru jafn falleg og þetta þá fæ ég allt að því skjálfta í hnén. Hið vinsæla tímarit Lonny er ókeypis á netinu og septemberútgáfan er öll hin glæsilegasta. Þau heimsóttu katalónsku listakonuna Pepa Poch sem býr í hvítmáluðu húsi á Costa Brava á Spáni með útsýni út á Miðjarðarhaf. Ég allt að því slefaði þegar ég sá pússuðu gólfborðin, svo ég minnist nú ekki á loftbitana sem hafa verið málaðir í bláum tón. Það eru einmitt þessir bláu tónar hér og þar um húsið og í listaverkum Poch sem heilla mig. Ég er auk þess ákaflega hrifin af svona hráum stíl þar sem steinn og viður leika aðalhlutverk, sérstaklega þegar hann er hlýlegur eins og á þessu heimili. Það eru fleiri myndir á vefsíðu Lonny ef þið viljið sjá meira og að sjálfsögðu smá viðtal við listakonuna.


myndir:
Albert Font fyrir Lonny, september 2014

þriðjudagur, 29. júlí 2014

Rýmið 69



- forstofa í sveitasetri á Long Island
- hönnuður og eigandi Thomas O'Brien

Thomas O'Brien, eigandi Aero Studios, er einn af mínum uppáhaldshönnuðum. Ég sæki reglulega innblástur í hönnun hans, sérstaklega þegar ég finn back-to-the-basics þörf hjá mér (afsakið enskuslettuna); þegar ég er komin með leið á hönnuðum sem missa sig í litagleði eða eru mjög yfirdrifnir. Það er eitthvað jarðbundið við O'Brien án þess að verða leiðinlegt. Ég er sérstaklega hrifin af því hvernig hann blandar gömlu og nýju og hvernig hann stíliserar smáhluti. Ég hef þegar sýnt ykkur vinnustofu hans í risi hans á 57 Street í New York.

Ég er að fara í gegnum eitt O'Brien-tímabilið því ég er að lesa bók hans, American Modern, sem ég fékk í afmælisgjöf nú í júlí, en hún hafði verið lengi á óskalistanum. Í henni er að finna risíbúð hans í New York og sveitasetrið, sem kallast Academy því áður var það gömul skólabygging. Ég mæli með þessari bók fyrir þá sem hafa áhuga á innanhússhönnun og eru að leita eftir fallegri bók á stofuborðið sem inniheldur ekki bara myndir heldur ríkan texta líka.

mynd:
Laura Resen, úr bókinni American Modern eftir Thomas O'Brien af vefsíðu Aero Studios

fimmtudagur, 15. maí 2014

Rýmið 64



- eldhús í 160 ára gömlum sveitakofa í Barossa dalnum þar sem er að finna elstu vínhéruð Ástralíu
- arinninn er upprunalegur og steypugólfið líka

mynd:
Sharyn Cairns fyrir Country Style

fimmtudagur, 13. mars 2014

Innlit: strandhús listakonu í East Hampton



Innlitið að þessu sinni er bjart og fallegt strandhús í East Hampton á Long Island sem er í eigu listakonunnar Anh Duong. Hún eyddi fyrsta sumrinu sínu á eyjunni árið 1988 með þáverandi kærasta sínum í húsi sjálfs Andy Warhol í Montauk, en þá var hún nýkomin frá París og starfaði sem fyrirsæta. Þar málaði hún sína fyrstu sjálfsmynd og hún hefur málað margar síðan. Þær eru eitt af einkennum hennar sem listakonu. Strandhúsið notar hún bæði sem heimili og vinnustofu. Hún hefur innréttað það smekklega með gömlum munum sem hún hefur aðallega fundið á flóamörkuðum.


Eldhúsið er vægast sagt sumarlegt í útliti, einfalt og fallegt.


Það er eitthvað við litapalettuna í þessu svefnherbergi sem heillar mig - bláir og brúnir tónar eiga vel saman. Gaman líka að sjá að það er opið inn í stofuna, ekki lokað af með hurð, sem gefur báðum rýmunum enn meiri birtu. Á neðri myndinni sjáið þið eina af sjálfsmyndum Anh Duong.


Í svefnherbergi listakonunnar er að finna afskaplega fallegt rúmteppi og verk eftir Julian Schnabel (til vinstri (hann er gamli kærastinn sem ég minntist á í innganginum)) og McDermott & McGough. Myndin að neðan er tekin í vinnustofunni.


myndir:
Oberto Gili fyrir Architectural Digest, október 2012 af AD DesignFile

miðvikudagur, 22. janúar 2014

Rýmið 50



Þetta er fimmtugasti rýmispósturinn á blogginu og ég ákvað að halda áfram með stemninguna frá því í gær. Þessi stofa, sem kallast Brodsworth Hall, er á ensku sveitasetri sem kallast Angelfield House. Húsið var tökustaður breskrar sjónvarpsmyndar, Thirteenth Tale, sem var sýnd á BBC um jólin. Því miður missti ég af henni, sennilega vegna þess að ég horfi aldrei á sjónvarp. En ég hefði alveg verið til í að kveikja á því fyrir þessa mynd, það er nokkuð ljóst. Frábærir leikarar og söguþráðurinn greinilega spennandi! Myndin var byggð á samnefndri bók eftir Diane Setterfield.

mynd:
Brodsworth Hall, Angelfield House af síðu English Heritage á Twitter

miðvikudagur, 15. janúar 2014

Rýmið 49



Því miður veit ég ekkert um þessa borðstofu annað en að ljósmyndarinn Debi Treloar tók myndina. Rýmið er greinilega hluti af sveitasetri ef við skoðum það litla sem sést út um gluggann en mér hefur ekki tekist að finna hvaða sveitasetur það er. Ég verð því að láta rómantísku stemninguna í myndinni nægja í dag.

mynd:
Debi Treloar af blogginu La Cocina de Tina

miðvikudagur, 23. október 2013

Innlit: enskt sveitasetur



Ég veit ekki í hvaða tímariti þessi umfjöllun um sveitasetrið hans John Roger birtist, en þar sem Carol Prisant skrifar greinina var það líklega World of Interiors eða House Beautiful. Roger stjórnar antíkmunadeild Sibyl Colefax & John Fowler, sem er enskt hönnunarfyrirtæki stofnað upp úr 1930. Það fyndna er að hann starfaði sem lögmaður þegar hann einn daginn gekk inn í sýningarsal þeirra í leit að skrifborði og starfsferill hann breyttist snarlega. Þið sjáið hluta af skrifborðinu hér fyrir neðan og svo getið þið séð það í horninu á myndinni úr stofunni. Mér finnst þetta sveitasetur hans heimilislegt en um leið smekklegt - ég er lítið fyrir ofhlaðinn sveitastíl. Garðhönnunin finnst mér ákaflega falleg og ekki of formleg. Ég vildi geta sagt ykkur eitthvað meira um húsið en ég fann þessar skönnuðu myndir á netinu án viðtalsins við Roger.

Á persónulegum nótum, vegna anna á næstu vikum þá verð ég í fríi frá bloggskrifum og veit ekki alveg hvenær ég sný aftur, kannski undir lok nóvember. Ég lofa smá fréttum þegar ég kem til baka. (Ef þið notið Pinterest þá er ég þar og kem til með að pinna í kaffipásum.) À bientôt!


Elizabeth Zeschin (skannaðar) af blogginu Kitchens I Have Loved

mánudagur, 9. september 2013

Lavender í friðsælum einkagarði í West Midlands



Við eyddum síðustu viku í enskri sveit í West Midlands, nánar tiltekið í uppgerðum kofa sem tilheyrir 14. aldar sveitasetri (sjá innganginn að honum í bakgrunni myndarinnar fyrir neðan). Í einkagarði/innkeyrslu sveitasetursins mátti finna beð full af lavender og alls kyns blóm og tré. Þetta var ákaflega friðsælt og fallegt. Á meðan dvölinni stóð könnuðum við sveitirnar í kring og keyrðum líka til Warwickshire - Shakespeare's Country.


Upphaflega ætluðum við að vera í kofa norðarlega á Cotswolds-svæðinu en það gekk ekki upp og eftir á vorum við bara ánægð með það því þetta gat ekki verið fullkomnara. Við fengum dásamlegt veður, sól og blíðu, og það eina sem minnti á komu haustsins var liturinn á lavender plöntunum sem var tekinn að dofna.


myndir:
Lísa Hjalt

miðvikudagur, 21. ágúst 2013

Rýmið 39



- gestaherbergi í 18. aldar steinhúsi í Connecticut í eigu arkitektsins Daniel Romualdez

mynd:
Oberto Gili fyrir Vogue US

fimmtudagur, 18. apríl 2013