Sýnir færslur með efnisorðinu hrár stíll. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu hrár stíll. Sýna allar færslur

fimmtudagur, 20. ágúst 2015

Innbyggðir setkrókar

Innbyggðir setkrókar · Lísa Hjalt


Í sumar hefur aðdáun mín á innbyggðum setkrókum færst upp á alveg nýtt stig. Ég held að það hafi byrjað með innliti á heimili í Ibiza sem birtist í Elle Decoration UK  og ég deildi í bloggfærslu í júní. Síðan þá hafa slíkir setkrókar verið að fanga athygli mína úr öllum áttum; einnig textíllinn, ábreiðurnar og púðarnir sem gera þá þægilegri. Ég á eintak af franska Elle Decoration frá síðasta sumri sem er stútfullt af innbyggðum setkrókum. Það hefur legið á borðinu mínu í sumar og ég varð að taka nokkar myndir fyrir bloggið. Sjáið til, ég lít á bloggið sem dagbók. Ég held ekki dagbók í kæra dagbók-stíl en er alltaf með skrifblokk innan handar. Myndræni þátturinn er mér líka mikilvægur; mér líkar að geta haldið til haga myndum á blogginu sem aðrir geta notið og sem ég get flett upp síðar meir.

Við skulum byrja á nokkrum setkrókum sem birtust í grein um gististaðinn Scorcialupi í Puglia-héraði á Ítalíu. Mér finnst svæðið utandyra hér að ofan glæsilegt og krókarnir tveir innandyra eru líka snotrir.


1-3: Scorcialupi, Elle Decoration (franska), júlí/ágúst 2014, bls. 108-117/Christian Schaulin

Eins og mér líkar setkrókurinn hér að neðan - það er jafnvægi í mildri litapalettunni - þá er ég ekki viss um að ég myndi vilja hafa svona borðkrók á veröndinni, sérstaklega ef ég væri með gesti. Ef einn þarf að standa upp þá þurfa fleiri að færa sig eða hliðra til fyrir viðkomandi. En svona hrár stíll er mér að skapi og mér finnst smart hvernig iðnaðarstíll Tolix-stólanna skapar mótvægi (þessi mynd sínir bara einn). Krókurinn tilheyrir fallegu og stílhreinu húsi á grísku eyjunni Mykonos.

4: Mykonos innlit, Elle Decoration (franska), júlí/ágúst 2014, bls. 130-141/Giorgio Baroni

þriðjudagur, 11. ágúst 2015

Náttúrulegt eldhús með réttri áferð

Náttúrulegt eldhús · Lísa Hjalt


Rétt áferð er það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar ég skoða eldhúsið hér að ofan. Eldhús með opnum hillum einkennast yfirleitt af léttleika sem ég er hrifin af og stíliseringin á þessu, náttúruleg og hlýleg með keramiki og ýmsum munum í hlutlausum tónum, er fullkomin. Fyrir utan tvær mosagrænar eldhúseiningar er litapalettan hlutlaus sem þýðir að áferð er lykillinn að útliti sem fangar augað. Allt gengur upp hér og ábreiðan á Chesterfield-sófanum, handofið ungverskt lín, undirstrikar enn frekar hina réttu áferð. Hillur og aðrar eldhúseiningar eru smíðaðar úr ómeðhöndlaðri eik og viðarkassar eru notaðir undir ýmsa eldhúsmuni í stað þess að loka einingunum með skápshurðum.

Fyrir um þremur mánuðum síðan pinnað ég tvær myndir af þessu sama eldhúsi. Mér fannst ég kannast við myndirnar en gat ekki staðsett þær fyrr en ég fletti nýlega í gegnum bunka af tímaritum í leit að ákveðnu innliti. Í febrúartölublaði Elle Decoration UK 2015 blasti eldhúsið við mér aftur, hluti af innliti sem kallast Revival of a Classic (ljósmyndað af Michael Paul). Fyrst hélt ég að þetta væri kannski skandinavískt eldhús en það er í uppgerðu húsi í Edward-byggingarstíl við ströndina í West Sussex, í suðurhluta Englands. Ef náttúrulegur og hrár stíll höfðar til ykkar þá er þetta innlit fyrir ykkur. Eigandi hússins er Alex Legendre, sem rekur verslunina I Gigi í Brighton.

[Langar ykkur að sjá meira? Myndirnar sem ég pinnaði sína ,Butler'-vaskinn, sem var keyptur notaður, og fyrrnefnda viðarkassa. Fyrir ykkur sem notið ekki Pinterest þá getið þið séð þessar myndir á heimasíðu norska innanhústímaritsins Vakre Hjem & Interiør.]

mynd mín | heimild: Elle Decoration UK, febrúar 2015, bls. 88 · Michael Paul

fimmtudagur, 2. júlí 2015

Kember & Jones delí og kaffihús í Glasgow

Kember & Jones delí og kaffihús í Glasgow · Lísa Hjalt


Í gær skelltum við okkur til Glasgow í Skotlandi og ég varð bálskotin í West End-hverfinu. Einhvers staðar í hjarta þessa fallega og afslappaða hverfis, þar sem má finna kaffihús og veitingastaði á svo til hverju horni, leit ég á eiginmanninn og spurði: Hvar hefur þessi borg eiginlega verið allt mitt líf? Á Byres Road númer 134 fundum við Kember & Jones delí og kaffihús og þegar ég opnaði hurðina var ég komin heim. Við fengum borð uppi með útsýni yfir aðalhæðina þar sem við heldur betur gátum notið góðs anda staðarins.

Á blogginu skrifa ég aldrei svona 'vikan mín á Instagram'-færslur (afsakið en mér finnst slíkar færslur tilgangslausar með öllu) en þegar ég tók myndavélina upp úr töskunni og ætlaði að taka myndir af West End-hverfinu til að deila á blogginu þá áttaði ég mig á því að batteríið varð eftir í hleðslutækinu heima ... ég er ekki í lagi! Sem betur fer var eiginmaðurinn með símann á sér þannig að ég tók þessar á Kember & Jones og deildi þeim á Instagram. En þetta þýðir að ég þarf að fara aftur til Glasgow.
Kember & Jones delí og kaffihús í Glasgow · Lísa Hjalt


Aftur að kaffihúsinu. Persónulega þá þoli ég ekki þegar ég panta latte og það er borið fram í stóru glasi. Ég var svo heilluð af hráum stíl og hönnun Kember & Jones í gær að ég hreinlega gleymdi að spyrja hvernig þau bæru það fram. Kaffið kom í meðalstóru, svolítið gamaldags glasi, sem fór ekkert í taugarnar á minni latte-sál. Aðalatriðið var að kaffið var gott! Ég pantaði samloku á matseðlinum þeirra með grilluðu grænmeti, hummus, spínati og harissa chilli-dressingu, með baunum og salati til hliðar, sem var gómsæt. Þegar ég hélt að þetta kaffihús gæti ekki heillað mig meira þá fann ég á borði á aðalhæðinni svo til allar uppskriftabækurnar á óskalistanum mínum (Sunday Suppers eftir Karen Mordechai og A Kitchen in France: A Year of Cooking in My Farmhouse eftir Mimi Thorisson (íslenskur eiginmaður hennar, Oddur Þórisson, tekur myndirnar), bara til að nefna einhverjar, og ég bætti á listann The River Cafe Classic Italian Cookbook eftir Rose Gray and Ruth Rogers). Þetta kaffihús er einfaldlega draumur.

Að lokum verð ég að segja að ef þið ferðist einhvern tíma til Glasgow eða millilendið þar, ekki gera þau mistök að dvelja bara í einn dag. Ég gæti eytt nokkrum dögum bara í West End-hverfinu. Í raun þá gæti ég eytt nokkrum dögum í að njóta kaffi- og veitingahúsanna og andrúmsloftsins á Byres Road eingöngu.

mánudagur, 1. júní 2015

Stílhreinn bóhemískur blær á Ibiza

Bóhemískur stíll á Ibiza · Lísa Stefan


Á laugardaginn barst nýjasta tölublað Elle Decoration UK í hús og innlitið sem ég féll kylliflöt fyrir var 300 ára gamalt stílhreint hús með bóhemískum blæ á afskekktu svæði á Ibiza. Það gerist ekki oft að mér líki svo til öll rými í innlitum tímarita en ég hef verið kannski full heltekin af þessu (efsta myndin skreytir núna tölvuskjáinn), sem kallast ,Where the cicadas sing' (ljósmyndarar Sunna og Marc Van Praag). Ég varð að smella af nokkrum myndum og deila með ykkur, af þeim rýmum í húsinu sem fá hjartað til að syngja.



Það er hrái stíllinn í húsinu sem sérstaklega höfðar til mín, eins þessir innbyggðu setkrókar næst eldhúsinu (ekki sýnt í tímaritinu) sem virka svo kósí og notalegir. Borðstofan tengist setustofunni og er einnig með innbyggðum setkrók. Í báðum setkrókunum má sjá fallegan textíl, púða og sessur í einlit eða með mynstri. Skrautmunir eru flestir eitthvað sem eigendurnir hafa keypt á ferðalögum um heiminn. Ég er einstaklega hrifin af þessum mynstraða lampa á milli setkrókanna en það kemur ekki fram í greininni hvaðan hann kemur.

Setustofa í hráum stíl með arni og innbyggðum setkrók

Aðrir munir á heimilinu sem fönguðu athygli mína voru skreyttu vasarnir á borðinu hér að neðan og í stiganum, og einnig fallegar mottur sem er að finna í öllum rýmum.


Á baðherberginu eru bogadregnu veggirnir upprunalegir og flísarnar eru spænskar. Þessi motta á gólfinu er alveg í mínum stíl! Ég varð að láta fylgja með svæðið utandyra með sundlauginni, en til að sjá meira þá verðið þið bara að næla ykkur í eintak af tímaritinu!



Ég held að flestir Íslendingar kannist við Ibiza, sem er hluti af balerísku eyjunum í Miðjarðarhafinu. Eyjan hefur alltaf verið tengd við fjörugt næturlíf, sem er ekki aðdráttarafl fyrir mig á ferðalögum. En ég hef alltaf verið hrifin af smáþorpum eyjunnar, afskekktum stöðum og ólíkum menningarstraumum, sem er ástæða þess að Ibiza komst á langar-að-heimsækja listann minn. Það er gömul bloggfærsla sem kallast Colours of Ibiza eftir Maríu bloggvinkonu mína á EclecChic sem sýnir akkúrat hvað það er sem laðar mig að eyjunni.


Það er ein önnur grein í júlíhefti Elle Decoration UK í ár sem mig langar að nefna. Hún er um arkitektinn og hönnuðinn Alexander Girard (1907-1993). Vitra Design Museum í Weil am Rhein verður með heilmikla sýningu á verkum hans árið 2016 (staðsetning safnsins er í horninu þar sem Þýskaland, Sviss og Frakkland mætast.) Hér er hlekkur á hönnun Alexanders Girard fyrir Vitra - eldspýtustokkarnir finnst mér æðislegir.


myndir af tölublaði Elle Decoration UK, júlí 2015, Where the cicadas sing, bls. 98-107 · Sunna og Mark Van Praag

fimmtudagur, 16. október 2014

Innlit: fyrrum textílverksmiðja í Como



Það þarf ekki að hafa mörg orð um þetta innlit. Ítalski arkitektinn og listamaðurinn Marco Vido endurgerði þetta ris í Como á Ítalíu en á 3. áratugnum var húsið textílverksmiðja. Ég er í einhvers konar haltu mér-slepptu mér sambandi við iðnaðarstíl því stundum finnst mér hann of kaldur og fráhrindandi. Hérna finnst mér hafa vel tekist til því það er nóg af hlýjum viði sem skapar jafnvægi. Auk þess finnst mér svörtu gluggarnir svakalega flottir.


myndir:
Nathalie Krag fyrir Interior Design, ágúst 2014

þriðjudagur, 7. október 2014

Rýmið 75



- stofa í húsi á nýsjálensku eyjunni Waiheke Island, Auckland
- hönnun Fearon Hay Architects

mynd:
Patrick Reynolds fyrir Fearon Hay Architects af vefsíðu ArchDaily

fimmtudagur, 6. mars 2014

Stílisering: írskt brúðkaup í náttúrulegum stíl



Ég held að það sé óþarfi að hafa mörg orð um þennan myndaþátt, best að leyfa bara myndunum að tala. Ég rakst á þá efstu á Pinterest og hrár og náttúrulegur stíllinn minnti mig svolítið á myndaþátt sem ég deildi á ensku útgáfunni um daginn. Ég pósta ekki oft einhverju brúðkaupstengdu á bloggin en ég hef alltaf gaman af fallegri, náttúrulegri stíliseringu. Það er einhver einfaldleiki og friður í þessum myndum sem heillar mig, umhverfið er líka svo skemmtilegt og maturinn virkilega girnilegur. Stílisti var Alise Taggart og Paula O'Hara tók myndirnar, einhvers staðar á Írlandi.


myndir:
Paula O'Hara af síðunni 100 Layer Cake | stílisering: Alise Taggart

þriðjudagur, 14. janúar 2014

Innlit: lúxus og bóhemískur stíll á grísku eyjunni Mykonos



Innlitið að þessu sinni er strandhótelið San Giorgio á grísku eyjunni Mykonos þar sem lúxus og bóhemstíll mætast. Í boði eru 33 herbergi þar sem hvítir veggir, húsgögn úr hráu timbri, bastkörfur og -mottur ásamt fallegum textíl leika lykilhlutverk. Hvað þarf maður meira þegar gríska Eyjahafið í allri sinni dýrð er innan seilingar?


myndir:
San Giorgio af vefsíðu Est Magazine

fimmtudagur, 18. apríl 2013