Sýnir færslur með efnisorðinu matur. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu matur. Sýna allar færslur

sunnudagur, 21. nóvember 2021

Bóklestur í útgöngubanni

Kápan af Living on Paper: Letters from Iris Murdoch 1934-1995 · Lísa Stefan


Á föstudaginn trítlaði ég út á pósthús og fann um sjöhundruð síðna doðrant með bréfum Irisar Murdoch í hólfinu, Living on Paper: Letters from Iris Murdoch 1934-1995. Upphaflega keypti ég bókina til að setja undir jólatréð, gjöf frá mér til mín, en í staðinn verður hún útgöngubannsbókin mín. Bók með hlutverk.

Það hefur varla farið fram hjá neinum að á morgun verður öllu skellt í lás í Austurríki vegna hárrar tíðni COVID-smita. Það er óhætt að segja að stemningin sé sérkennileg þessa dagana og ég held að ég sé ekki ein um að glíma við lokanaleiða. Ég hafði hlakkað til að klára skólaönnina og njóta þess í desember að rölta um jólaskreyttar götur Linz, kíkja í bókabúðir og setjast niður á notalegum kaffihúsum. Að vísu er gert er ráð fyrir afléttingum fyrir jól en þá má búast við mannmergð í miðborginni, sem ég kæri mig lítið um þó að ég sé bólusett. Kosturinn við útgöngubann er sá að nægur tími gefst fyrir bóklestur og kósíheit heima fyrir. Mín bíður góður bunki þannig að ég get ekki kvartað.
Lestur um menningu og menningararf · Lísa Stefan


Það verður enginn bókaskortur í þessu banni því í hillunum leynist margt ólesið. Nýverið var ég stödd í bókabúð og keypti tvær þýskar, meðal annars Medea. Stimmen eftir Christu Wolf (1929-2011). Ég hef aldrei lesið verk eftir hana. Ég var í skapi fyrir gríska goðafræði því í kaffipásum á þessu hausti hef ég teygt mig í Mythos eftir Stephen Fry. Þvílík skemmtilesning, hann er svo orðheppinn. Ég hef líka verið að lesa íslenskar esseyjur í bókinni Póetík í Reykavík: Erindi 14 höfunda (ritstj. Kjartan Már Ómarsson). Einn höfundanna, Margrét Bjarnadóttir, sendi mér óvænt eintak en hún gaf út bókina Orðið á götunni, sem ég fletti reglulega mér til skemmtunar (sjá № 14 bókalista). Bækurnar þrjár verða á næsta bókalista sem ég hef ekki enn deilt á blogginu sökum anna.

Pasta og lærdómur · Lísa Stefan
Klassík lærdómspása með grænmetispasta

Bókabúð á Linz Hauptplatz: Alex Buchhandlung · Lísa Stefan
Anddyri bókabúðarinnar Alex Buchhandlung

Ein bókabúðin í Linz heitir Alex Buchhandlung og er staðsett á Der Linzer Hauptplatz, aðaltorgi sem er rétt við meginbrúna yfir Dóná. Þetta er lítil verslun með gríðarlegt magn þýskra bóka. Ég var næstum því búin að kaupa þar Fischer-útgáfu af dagbókum Franz Kafka en hugsaði með mér að þýskan mín væri kannski ekki nógu góð til að virkilega njóta lesturins. Ég lét hana því bíða og ákvað að fyrst skyldi ég lesa eina ólesna í hillunum mínum sem inniheldur sögurnar Málsóknin og Umskiptin. Ég hef lesið þá síðari í íslenskri þýðingu en aldrei lesið Kafka á þýsku.
Kápan af sögum Kafka í þýskri útgáfu (Fischer) · Lísa Stefan




sunnudagur, 22. ágúst 2021

Sicilia: A love letter to the food of Sicily · Ben Tish

Kápa bókarinnar Sicilia: A love letter to the food of Sicily eftir Ben Tish (Bloomsbury)


Sicilia: A love letter to the food of Sicily eftir Ben Tish kom út hjá Bloomsbury Publishing í júní. Bókin er stútfull af uppskriftum og ljósmyndum sem tengjast matargerð og menningu Sikileyjar. Um kápu bókarinnar þarf ekki að segja mörg orð, hún endurspeglar birtu og liti sumarsins í allri sinni dýrð. Þess má geta að fyrir tveimur árum sendi Tish frá sér bókina Moorish: Vibrant recipes from the Mediterranean, sem fjallar um menningaráhrif Norður-Afríku og Arabaheimsins á matargerð Miðjarðarhafssvæðisins.

Sicilia: A love letter to the food of Sicily
Höf. Ben Tish
Innbundin, myndskreytt, 304 blaðsíður
ISBN: 9781472982759
Bloomsbury Publishing



sunnudagur, 25. nóvember 2018

Gulróta- og kókossúpa frá Zanzibar

Gulróta- og kókossúpa frá Zanzibar · Lísa Stefan


Þessi ljúffenga gulróta- og kókossúpa frá Zanzibar er bragðgóð og rjómakennd. Líkaminn bókstaflega öskrar á hana á haustin þegar ný gulrótauppskera kemur í verslanir. Sigrún vinkona á uppskriftina sem birtist í bók hennar, Café Sigrún: Hollustan hefst heima (við skemmtum okkur vel þegar ég var að aðstoða hana með handritið). Sigrún hefur ferðast mikið um Austur-Afríku og súpan er innblásin af undursamlegum dögum á eyjunni Zanzibar: Þar sem hún sat og gæddi sér á gulrótasúpu naut hún útsýnis yfir Indlandshafið og í loftinu var ilmurinn sem barst frá matarbásunum á Forodhani-markaðnum, í hinni sögulegu borg Stone Town. Súpan er vegan, auðvelt er að matreiða hana (þið þurfið töfrasprota eða matvinnsluvél) og hún gefur ykkur nauðsynleg vítamín og trefjar. Þetta er ein vinsælasta uppskriftin á CafeSigrun-vefsíðunni: Ég hef engar breytingar gert á innihaldinu, bara örlitlar á aðferðinni.

GULRÓTA- OG KÓKOSSÚPA FRÁ ZANZIBAR

2 matskeiðar kókosolía
1 stór laukur
4 hvítlauksrif
lítill bútur ferskt engifer
300 g lífrænar gulrætur
150 g sætar kartöflur
1 teskeið karrí
2 lífrænir grænmetisteningar
750 ml vatn
150 ml kókosmjólk
½-1 teskeið sjávar/Himalayasalt
má sleppa: pipar eftir smekk
má sleppa: 7-10 saffranþræðir

Skolið gulræturnar (burstið ef þarf) og afhýðið annað grænmeti. Saxið allt gróft. (Afhýðið eða skafið gulræturnar ef þið notið ekki lífrænar.)

Hitið kókosolíuna í potti við meðalhita og steikið laukinn þar til hann fer að mýkjast. Bætið hvítlauk og engifer út í, steikið áfram í nokkrar mínútur og hrærið svo karrí saman við (ég nota kraftmikið karrí).

Bætið gulrótum og sætum kartöflum út í og veltið upp úr karríblöndunni. Hellið vatninu í pottinn ásamt grænmetisteningunum, aukið hitann og hrærið vel. Hitið upp að suðu, hrærið ½ teskeið af salti saman við, setjið svo lok á pottinn og leyfið súpunni að malla við vægan hita í 25-30 mínútur.

Fjarlægið pottinn af hellunni og blandið kókosmjólkinni ásamt saffranþráðunum saman við. Maukið súpuna með töfrasprota þar til áferðin er silkimjúk. Farið varlega því súpan er sjóðandi heit: Haldið töfrasprotanum alveg beinum og ýtið á takkann þegar neðsti hluti sprotans er ofan í súpunni (ef maukuð í matvinnsluvél/blandara er betra að leyfa súpunni að kólna aðeins áður hún er maukuð í smá skömmtum).

Hitið súpuna upp og smakkið til með salti og pipar án þess að láta hana sjóða. Berið súpuna fram með nýbökuðu brauði eða bollum.




þriðjudagur, 12. maí 2015

Svartbaunaborgarar (vegan)

Svartbaunaborgarar (vegan) · Lísa Stefan


Ást mín á svörtum baunum þekkir engin landamæri og þessir svartbaunaborgarar fengu mig til að skipta alfarið yfir í grænmetisborgara. Ég myndi ekki segja nei við góðum borgara matreiddum úr gæða kjöti en þegar ég fæ löngun í borgara þá geri ég þessa. Þetta snýst ekki bara um bragðið heldur alla þessa dásamlegu ferskvöru á borðinu þegar ég útbý máltíðina.
Kóríander · Lísa Stefan


Ferskan kóríander vil ég helst alltaf eiga. Ég elska bragðið (nefnt „pungent“ í ensku) og upp á síðkastið stend ég mig að því að nota meiri kóríander en uppskriftir segja til um. „Cilantro“ er annað heiti yfir ferskan kóríander sem Bandaríkjamenn nota úr spænsku. Svo eru sumir sem tala um blöðin sem arabíska steinselju („parsley“) og enn aðrir sem kínverska steinselju. Ekki skrýtið að fólk verði stundum ruglað á öllum þessum heitum.

Svartbaunaborgarar (grænmeti) · Lísa Stefan


Á þessum bæ hefur þróast ákveðin svartbaunaborgarahefð. Í hvert sinn sem ég geri borgarana, sem er ansi oft, þá útbý ég sama meðlætið: Ég steiki sveppi í örlítilli léttri ólífuolíu með hvítlauk og smá salti sem notum líka í borgarana.

Talandi um sveppi. Fyrir mörgum árum síðan fór vinur minn á fyrirlestur með búddhamunki sem sagði eitthvað á þá leið að enginn ætti að borða sveppi því þeir vaxa ekki í sól. Allir hafa rétt á sínum skoðunum en þetta hafði ég um málið að segja: Enginn munkur eða heimspeki skyldi koma á milli mín og minna sveppa og frá þeirri stundu strengdi uppreisnarmaðurinn innra með mér það heit að ég skyldi borða enn meira af þeim. Það er bara þannig sem ég rúlla.
Svartbaunaborgarar · Lísa Stefan


Uppskriftin að svartbaunaborgurunum kemur frá leikkonunni Gwyneth Paltrow, en hana er að finna í bók hennar, Notes From My Kitchen Table. Ég veit að margir þola hana ekki en hún má eiga það að þessi uppskrift er góð (ég gerði bara örlitlar breytingar). Það er auðvelt að matreiða borgarana og eðal að skella í þá ef þið eigið afgang af soðnum brúnum grjónum. (Tekur annars 25-30 mínútur að sjóða þau: 30 g (ca 3 matskeiðar) = 75 g soðin).
Svartbaunaborgarar · Lísa Stefan


Ég vil borgarana steikta en ég bætti við ofnbakaðri útgáfu fyrir þá sem kjósa það frekar. Ég tvöfaldaði skammtinn af broddkúmeni í uppskriftinni og nota 2 matskeiðar af söxuðum ferskum kóríander. Ég bætti líka chilliflögum og næringargerflögum (nutritional yeast flakes), sem ég merki sem val. Ég ber borgarana fram með steiktum sveppum og hvítlauk, sem ég minntist á hér að ofan, tómötum, avókadó, salatblöðum og gæða majónesi eða heimagerðu. Það er laukur í uppskriftinni og því finnst mér óþarfi að setja hráan lauk eða rauðlauk á borgarann, en þegar ég vil aðeins sterkara bragð þá nota ég jalapeno úr krukku. Með borgaranum fæ ég mér stundum lítið glas af ísköldum bjór með nýkreistum límónusafa.

SVARTBAUNABORGARAR

1½-2 matskeiðar létt ólífuolía
1 lítill laukur
2 hvítlauksrif
½ teskeið broddkúmen (ground cumin)
klípa rauðar chilliflögur (má sleppa)
½ teskeið fínt sjávar/Himalayasalt
¼ teskeið nýmalaður svartur pipar
1 dós (400g) lífrænar svartar baunir
75 g soðin brún hrísgrjón
1-2 matskeiðar ferskur kóríander
1 matskeið næringargerflögur (má sleppa)
1-2 matskeiðar lífrænt mjöl (til steikingar)
2-3 matskeiðar jurtaolía (til steikingar)
4 gróf hamborgarabrauð

Sjóðið 30 g af brúnum hrísgrjónum áður en byrjað er á borgurunum. Setjið svörtu baunirnar í sigti og skolið af þeim. Setjið til hliðar.

Afhýðið lauk og hvítlauk og saxið smátt. Hitið ólífuolíuna á pönnu og steikið lauk, hvítlauk, broddkúmen og chilliflögur (ef notaðar) í 5-7 mínútur við lágan-meðalhita.

Bætið salti, pipar, svörtum baunum og grjónum á pönnuna, steikið í 2 mínútur og hrærið á meðan.

Saxið ferskan kóríander smátt og bætið á pönnuna ásamt næringageri (ef notað) og hrærið saman við. Takið pönnuna af hellunni.

Notið kartöflustöppu til að stappa blönduna án þess að mauka hana alveg. Hún má halda smá grófleika. Leyfið henni að kólna þar til auðvelt er að meðhöndla hana og mótið þá 4 borgara (á þessum punkti má líka setja hana í kæli í nokkrar klukkustundir).

• Steiktir borgarar: Stráið báðar hliðar með mjöli. Hitið olíuna á stórri pönnu við meðal-hæsta hita og brúnið borgarana, í um mínútu á hvorri hlið. Berið þá fram í grilluðu hamborgarabrauði með því ferska hráefni sem ykkur þykir best.

• Ofnbakaðir borgarar: Setjið borgarana á ofnplötu með bökunarpappír. Bakið við 190°C (175°C á blæstri) í 8-10 mínútur á hvorri hlið.

Örlítið breytt uppskrift úr bókinni Notes From My Kitchen Table eftir Gwyneth Paltrow



miðvikudagur, 15. apríl 2015

Pestó með basilíku

Uppskrift: klassískt pestó með basilíku · Lísa Stefan


Matarbiblían mín, Larousse Culinary Encyclopedia, fullyrðir að pestó komi frá Genúa og ekki rífst ég við hana. Það vill svo til að ég var þar fyrir mörgum árum síðan. Hið klassíska, ítalska pestó með basilíku, parmesanosti og furuhnetum er í miklu uppáhaldi hjá mér. Ég hef loksins eignast nýja og betri matvinnsluvél og geri því oft pestó í hádeginu. Líka má skrifa pestóneysluna á uppskriftabókina hennar (Cafe)Sigrúnar vinkonu því hún kvaldi mig með mörgum pestómyndum þegar við unnum í handritinu. Í bók Sigrúnar er klassísk pestóuppskrift (önnur hlutföll en mín; það eru til svo margar útgáfur) og graskersfræjapestó sem fékk mig til að kalla hátt yum ... yum! Muniði eftir senunni í Julie and Julia þegar ritstjórinn var að prófa uppskrift Child að boeuf bourguignon og lygndi aftur augunum í hamingjukasti? Það er það sem ég á við þegar ég segi yum ... yum! Ég lofa að deila uppskriftinni þegar bókin kemur út í haust.
Pestó, klassískt · Lísa Stefan


Með góða matvinnsluvél í eldhúsinu þarf aldrei að kaupa pestó í krukku. Ég held að margir geri sér ekki grein fyrir hversu auðvelt það er að útbúa pestó og það besta er að það má nota hvaða hlutföll sem er. Viltu meiri ólíuolíu? Notaðu þá meira! Meiri parmesanost? Láttu vaða! Ástæðan fyrir því að ég nota 60 grömm af basilíku er að ég fæ blöðin í 30-gramma pakkningu og næ akkúrat áferðinni sem mér líkar. Ef pestóið klárast ekki þá bæti ég örlitlu af ólífuolíu saman við og geymi í glerkrukku í kæli. Ef þið eigið ekki matvinnsluvél þá má alltaf nota mortél.

PESTÓ MEÐ BASILÍKU

50 g furuhnetur
60 g fersk græn basilíkublöð
35 g parmesanostur
½-1 hvítlauksrif
½ teskeið fínt sjávar/Himalayasalt
klípa nýmalaður svartur pipar
50 ml lífræn jómfrúarólífuolía

Brúnið furuhnetur létt án olíu á pönnu til að kalla fram meira bragð.

Áður en þið setjið hráefnin í matvinnsluvélina er ágætt að skera parmesanostinn í þunnar sneiðar, og afhýða og grófsaxa hvítlaukinn. Látið matvinnsluvélina vinna á meðan þið hellið ólífuolíunni rólega ofan í skálina þar til pestóið þykknar. (Það veltur á gæðum vélarinnar en kannski þurfið þið að skafa hliðar skálarinnar einu sinni eða tvisvar.)

Berið pestóið fram með nýbökuðu snittu/brauði og eða pasta, laxi eða öðrum fiski, kjöti eða grænmeti.

Hugmynd mín að einföldum hádegisverði: Ég sýð tagliatelle eða linguine á meðan ég útbý pestóið (ég stilli klukkuna á al dente-suðutíma fyrir pastað). Ég læt vatnið renna af soðnu pastanu á meðan ég steiki sveppi í ólífuolíu og strái smá salti yfir. Pastað með sveppunum læt ég í skál og ber fram með pestóinu.


Aftur til Genúa. Ég tók lest þangað frá Zürich í gegnum Mílanó og tók leigubíl á tiltekna ferðaskrifstofu til að kaupa ferjumiða yfir til Sardiníu, eins og sagði í ferðahandbókinni (ekkert net í þá daga). Afgreiðslukonan horfði á mig með vorkunn og sagði að handbókin færi með rangt mál; ég ætti að kaupa miðann á ferjuhöfninni. (Heimska ferðahandbók!) Ég tók annan leigubíl út að höfn og rétt missti af ferju - klassískt. Sem betur fer var þetta fallegur sumardagur og ég man að seinnipartinn sat ég á tröppum á höfninni með bók og safaríkar ferskjur sem ég hafði keypt á markaði. Við hlið mér voru háskólastúdentar frá Mílanó (ég var yngri, bara 18) og einhvern veginn varð ég hluti af þeirra hóp án þess að vera hluti af honum. Ég talaði ekki ítölsku en það var eins og þau væru að líta eftir þessum einsama íslenska ferðalangi sem sat þarna við hliðina á þeim. Eftir öll þessi ár man ég enn eftir tveimur andlitum úr hópnum, þeim sem töluðu ensku. Ég get ekki sagt að ég hafi verið óörugg að ferðast ein en það var notalegt að sitja þarna með þeim þar sem biðin eftir ferjunni reyndist löng.


mánudagur, 23. mars 2015

Kort og kjúklingaleggir

Kort og latte · Lísa Hjalt


Ég hélt að á þessum tímapunkti gæti ég sýnt ykkur vorið í allri sinni dýrð en sú myndataka verður aðeins að bíða því þetta vor virðist vera með smá hiksta. Það vantar ekki páskaliljur og krókusa í blóma en ég er að bíða eftir að ákveðið magnólíutré í bænum taki að blómstra. Þegar sá dagur kemur að ég labba fyrir hornið og sé tréð í fullum blóma þá verður vorið komið hjá mér. Og hvað hefur þetta að gera með kort og kjúklingaleggi? Nákvæmlega ekkert.
Kort úr bókunum The Food of France, myndskreyting eftir Russell Bryant,
og The Food of India, eftir Rosanna Vecchio

Nýverið var sonurinn að vinna að verkefni í skólanum sem snerist um mat, sem leiddi til enn meiri matarumræðu en gengur og gerist á heimilinu. Þar sem pizza er uppáhaldsmaturinn hans rataði Ítalía í verkefnið og þá kom nú kortið mitt að góðum notum. Síðan þá hefur kortið legið hérna á borðinu mínu og stuðlað að þó nokkru korta-oflæti (mér finnst myndskreytt kort líka svo flott) og ferðahugmyndum: Einn vill fara til Japans, annar til Fiji eða Hawaii og svo fékk ég líka spurninguna, Mamma, hvernig er í Norður-Kóreu?, sem varð til þess að ég fór að hugsa um hvort þar væri hægt að fá latte. Ég get nú ekki sagt að latte-drykkja í Norður-Kóreu hafi ratað á listann minn góða en hver veit hvað framtíðin ber í skauti sér?



Ég veit ekki hvar ég væri án Google-kortanna en ég verð að segja að það jafnast nú ekkert á við að dreifa úr stóru landakorti á borð og gera ferðaplön eða bara að láta sig dreyma.

Þar sem páskarnir eru á næsta leiti er ég aðeins farin að huga að því hvað ég eigi að bralla í eldhúsinu. Allar páskaminningar úr barnæsku snúast um páskaegg, veisluborð og fermingar. Ég veit ekki með ykkur en hjá okkur eru engar páskaveislur og við höfum þetta eins einfalt og hugsast getur. Hérna megin við Atlantshafið er líka veðrið yfirleitt orðið það gott að ég nenni ekki að vera inni að stússast í eldhúsinu þegar ég get verið úti í sólinni. Ég fór því að hugsa um kjúklingaleggi.
Kjúklingaleggir, maríneraðir · Lísa Hjalt


Mér líkar einfaldleikinn sem fylgir því að elda og bera fram maríneraða kjúklingaleggi. Maríneraður kjúklingur finnst mér mjög góður en ég vil ekki að maríneringin steli of miklu bragði frá kjúklingakjötinu. Kannski má segja að sú heimspeki eigi við alla mína matargerð því ég er lítið hrifin af því þegar eitthvað eitt tiltekið bragð verður einkennandi. Ég mæli með því að marínera leggina yfir nótt. Þegar ég ber þá fram með grjónum þá rista ég yfirleitt sesamfræ á pönnu og strái yfir grjónin áður en ég ber þau fram.

MARÍNERAÐIR KJÚKLINGALEGGIR

9-10 kjúklingaleggir (helst velferðar-/free-range)
1 matskeið jurtaolía
1 matskeið tamarisósa
1 matskeið appelsínusafi, nýkreistur
1 rautt chilli aldin
lítill bútur ferskt engifer
má sleppa: nokkrir dropar Tabasco-sósa

Fræhreinsið og fínsaxið chilli aldinið. Afhýðið og fínsaxið engiferið.

Setjið kjúklingaleggina ásamt öðru hráefni í góðan frystipoka. Lokið pokanum vel og veltið leggjunum í pokanum til að dreifa vel úr maríneringunni. Setjið pokann í skál og látið leggina marínerast í alla vega 2-4 klukkustundir í kæliskáp, helst yfir nótt og snúið þá pokanum nokkrum sinnum.

Þegar kjúklingaleggirnir hafa marínerast skuluð þið dreifa þeim í ofnskúffu með grind. Eldið við 200°C (180° ef blástursofn) í 35 mínútur (þar til safinn er orðinn glær).

Berið fram með, til dæmis, hvítum eða brúnum basmati hrísgrjónum og tamarisósu, og jafnvel með sneiðum af avókadó og rauðri papriku.

Recipe in English
Kjúklingaleggir · Lísa Hjalt


föstudagur, 22. ágúst 2014

Sýnishorn: CafeSigrun uppskriftabókin

CafeSigrun uppskriftabókin


Fyrr í vikunni sagði ég ykkur að uppskriftir væru mér hugleiknar þessa dagana, meira en venjulega, og nú langar mig að segja ykkur út af hverju (enginn föstudagsblómapóstur í dag). Ég tók að mér að ritstýra handritinu að bók Sigrúnar vinkonu minnar sem heldur úti CafeSigrun vefsíðunni, þar sem má heldur betur finna úrval af frábærum uppskriftum sem eru lausar við hvítan sykur, hvítt hveiti, ger og fleira. Sigrún hefur haldið úti vefsíðunni í fjölmörg ár, með mjög svo óeigingjörnu starfi, og núna er hún að koma með sína fyrstu uppskriftabók. Hún vann allar uppskriftirnar sjálf í eldhúsinu sínu (fyrst í London, þar sem hún bjó áður, og svo heima á Íslandi) og tók einnig allar myndirnar sjálf. Þess má geta að hún er í fullu námi í klínískri barnasálfræði og á auk þess tvö lítil kríli þannig að þetta hefur verið mikil vinna, en vel þess virði því bókin verður virkilega falleg.
CafeSigrun uppskriftabókin


Þessa dagana hugsa ég eiginlega í uppskriftum og á skrifborðinu eru ekkert nema útprentuð drög að köflum frá Sigrúnu. Ég gæti allt eins svarað með orðinu múskat eða grasker ef einhver spyrði mig hvernig ég hefði það. Eins gaman og þetta er þá verð ég að viðurkenna að um leið er þetta eins konar sjálfspynting því þegar ég samþykkti að aðstoða Sigrúnu þá gleymdi ég einu atriði: Öllum myndunum sem verða í bókinni sem ég fæ í tölvupósti! Ég sit hér í sakleysi mínu að lesa yfir kafla þegar tölvupóstur berst með ekki einni heldur kannski fimm myndum af guðdómlegustu súkkulaðisneið sem fyrir finnst (þessar sem innihalda alvöru súkkulaði sem glampar á!) og svo spyr Sigrún eins og ekkert sé: „Hver er best?“ Og þegar ég hef rétt jafnað mig á þessari sendingu þá berst annar póstur með kannski svakalega girnilegum grænmetisrétti, fiskrétti, salati, súpu, brauði, ís, konfekti og ég veit ekki hvað. Og svona er þetta alla daga. Alla! Bara nú í dag hef ég fengið um 10 myndir eða svo.

Myndirnar í þessari bloggfærslu eru bara örlítið brot af kræsingunum í bókinni (og fyrrnefndri sjálfspyntingu!).
CafeSigrun uppskriftabókin


Það er enn ekki kominn útgáfudagur á bókina, sem Forlagið gefur út, en ég segi ykkur að sjálfsögðu hvenær það gerist. Handritinu skilar Sigrún inn núna í byrjun september og við erum auðvitað voðalega spenntar yfir þessu öllu. Næstu viku ætlum við að nota til þess að fínpússa handritið fyrir skil og því ætla ég að taka frí frá bloggskrifum.

Ég óska ykkur góðrar helgar og vona að þessir síðustu dagar ágústmánaðar leiki við ykkur!

Sigrún Þorsteinsdóttir - CafeSigrun

þriðjudagur, 19. ágúst 2014

Tzatziki eftir listakonuna Felicita Sala



Uppskriftir eru mér ansi hugleiknar þessa dagana, enn meira en venjulega. Ég segi ykkur síðar út af hverju. En í matarvímu hérna áðan mundi ég allt í einu eftir þessum skemmtilegu prentverkum með uppskriftum eftir listakonuna Felicita Sala.

Þessi væri nú svolítið sæt á vegg í eldhúsinu yfir sumartímann, er það ekki?


fimmtudagur, 6. mars 2014

Stílisering: írskt brúðkaup í náttúrulegum stíl



Ég held að það sé óþarfi að hafa mörg orð um þennan myndaþátt, best að leyfa bara myndunum að tala. Ég rakst á þá efstu á Pinterest og hrár og náttúrulegur stíllinn minnti mig svolítið á myndaþátt sem ég deildi á ensku útgáfunni um daginn. Ég pósta ekki oft einhverju brúðkaupstengdu á bloggin en ég hef alltaf gaman af fallegri, náttúrulegri stíliseringu. Það er einhver einfaldleiki og friður í þessum myndum sem heillar mig, umhverfið er líka svo skemmtilegt og maturinn virkilega girnilegur. Stílisti var Alise Taggart og Paula O'Hara tók myndirnar, einhvers staðar á Írlandi.


myndir:
Paula O'Hara af síðunni 100 Layer Cake | stílisering: Alise Taggart