fimmtudagur, 23. júlí 2015

Kartöflubátar með kryddsalti

Kartöflubátar með kryddsalti · Lísa Hjalt


Á þessu heimili erum við óð í kartöflur. Ég fer í gegnum tímabil þar sem ég leik mér með uppskriftir, einkum að bökuðum kartöflum því okkur finnst hýðið gott (það gefur trefjar). Sonurinn minnti mig á þessa kartöflubáta, sem ég krydda með heimagerðu kryddsalti, þegar hann bað um þá með kjúklingi á tíu ára afmæli sínu næsta laugardag. Hann vill líka eplaköku með rjóma. Mais bien sûr, monsieur!

Vissuð þið að fyrstir til að rækta kartöflur voru Inkar? Ég hafði ekki hugmynd um það þar til ég las um sögu kartöflunnar í Larousse Culinary Encyclopedia, alfræðibók um mat og matargerð. Það var Francisco Pizarro, spænski landkönnuðurinn sem lagði undir sig Inkaveldið (og stofnaði borgina Líma), sem kynnti kartöflur fyrir Evrópubúum árið 1534. Enski landkönnuðurinn Sir Walter Raleigh gerði sömu uppgötvun í Virginíu fimmtíu árum síðar og kom með kartöfluna til Englands. Það stöðvaði nú ekki kónginn James I frá því að láta fangelsa hann í Lundúnaturninum (Tower of London) fyrir föðurlandssvik og síðar taka af lífi. En það er önnur saga og ég er viss um að hún hefur ekkert með kartöflur að gera.Myndirnar hér að ofan eru einnig óskyldar kartöflum. Ég tók þær í garðinum okkar í lok maí og langaði að deila þeim á blogginu til að minna mig á þessa fallegu plöntu í blóma. Rætur hennar eru í garði nágrannanna og rétt áður en plantan blómgast læðist hún yfir girðinguna þannig að við fáum að njóta fallegu hvítu blómanna. Ég kalla hana ,sjalið' því hún er eins og sjal í laginu.Við skulum byrja á kryddsaltinu sem gæti ekki verið auðveldara að útbúa. Í blönduna mína nota ég bleika Himalaya-saltkristalla, en það má nota fínt sjávarsalt. Hlutföll reyktrar papriku velta bara á skapinu hverju sinni en bragð hennar getur verið örlítið yfirgnæfandi þannig að kannski er best að byrja með ¼ teskeið. Hlutföll chillipipars velta bara á því hvort ég nota milda eða sterka tegund af chilli. Þetta kryddsalt fær engar tungur til að loga, alla vega ekki okkar, en það lífgar aðeins upp á kartöflubátana.

Kartöflubátar með kryddsalti · Lísa Hjalt
STERKT KRYDDSALT

1½ matskeið Himalayasalt
1 teskeið broddkúmen (ground cumin)
½ teskeið mulinn kóríander
½ teskeið þurrkað óreganó
¼-½ teskeið reykt paprika
¼ teskeið rauðar chilliflögur
klípa eða ¼ teskeið chillipipar

Setjið allt í glerkrukku með loki og hristið vel. Munið að merkja krukkuna, og kannski að skrifa niður hlutföllin ef þið viljið breyta þeim síðar.

Kryddsaltið má nota til að ofnbaka grænmeti eða til að húða kjúkling. Það er kjörið í grillaðar samlokur. Saltið má einnig nota til að salta hvers kyns rétti sem verið er að elda, svo lengi sem kryddin fara vel saman með öðrum hráefnum/kryddum.

Kartöflubátar með kryddsalti · Lísa Hjalt


Bakaðar kartöflur með timían og rósmarín eru klassík sem getur ekki klikkað, en þegar ég ber fram kartöflur með, til dæmis, borgurum eða kjúklingaleggjum þá kalla bragðlaukarnir á eitthvað annað, helst eitthvað sterkt. Ef ég get bara nálgast mjög stórar bökunarkartöflur þá finnst mér best að forsjóða þær í 7-10 mínútur. Ég læt þær svo aðeins kólna í sigti áður en ég sker þær í báta. Hafið í huga að ég útbý bátana sem meðlæti fyrir 5 manns þannig að kannski viljið þið eitthvað breyta magninu.

KARTÖFLUBÁTAR MEÐ STERKU KRYDDSALTI

1 kg bökunarkartöflur
1 matskeið létt ólífuolía eða önnur jurtaolía
1 teskeið sterkt kryddsalt (sjá uppskrift hér að ofan)

Þvoið fyrst kartöflurnar. Skerið þær svo í báta með því að skera þær fyrst til helminga langsum og svo hvern helming í þrennt langsum (hver kartafla ætti að gefa ykkur 6 báta en ef bökunarkartöflurnar eru mjög stórar þá er gott að skera bátana þversum í tvennt). Passið að bátarnir séu ekki þunnt skornir því þeir eiga að geta legið á hýðinu þegar þeir bakast í ofninum.

Það eru tvær leiðir til að húða bátana: 1) Setjið innihaldið í góðan frystipoka. Lokið pokanum vel og veltið bátunum mjög vel í pokanum. Dreifið svo úr þeim á bökunarplötu með bökunarpappír og látið hýðið vísa niður. 2) Ef þið viljið húða þá í höndunum þá setjið þið fyrst allt innihald beint í ofnskúffu og dreifið svo úr bátunum þannig að hýðið vísi niður.

Bakið við 220˚C (200˚C ef blástursofn) í 25-30 mínútur, eða þar til kartöflubátarnir eru bakaðir í gegn, gullinbrúnir og stökkir. Við viljum okkar báta vel bakaða þannig að yfirleitt eftir 25 mínútur lækka ég eilítið hitann og baka þá í aðrar 5-10 mínútur, eða jafnvel lengur.

Berið kartöflubátana fram með gæða majónesi eða sýrðum rjóma. Einnig má útbúa ídýfu með því að setja gríska jógúrt í skál með örlitlu broddkúmeni (ground cumin).


Recipe in English.
Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.