sunnudagur, 19. apríl 2020

Art of Native America: The Charles and Valerie Diker Collection · The Met Museum

Bókarkápa: Art of Native America: The Charles and Valerie Diker Collection - The Met Museum


Ég var innblásin af náminu mínu í safnafræði þegar ég valdi bókarkápu Art of Native America: The Charles and Valerie Diker Collection (2018) fyrir þessa fyrstu bloggfærslu eftir margra vikna hlé. Á önninni sat ég í kúrsi sem kallast „Safn og samfélag: Sirkus dauðans?“ þar sem við lásum meðal annars um safnastarf í samfélögum Hopi- og Zuni-frumbyggja í Norður-Ameríku. Fyrir utan að lesa námsbækur og fræðigreinar skoðaði ég efni um varðveislu á vefsíðum safna og í þeirri leit fann ég þessa fallegu útgáfu frá Metropolitan Museum of Art. Í safneign Charles og Valerie Diker eru gripir frá meira en fimmtíu menningarheimum N-Ameríku, sem spanna tímabilið frá því áður en hvíti maðurinn nam land til fyrri hluta 20. aldar. Bókin veitir innsýn í list, menningu og daglegt líf í frumbyggjasamfélögum.

Kápumynd, smáatriði: mussa/kyrtill og legghlífar eftir Tlingit-listamann.


Art of Native America: The Charles and Valerie Diker Collection
Höf. Gaylord Torrence, Ned Blackhawk og Sylvia Yount
Innbundin, 232 blaðsíður, myndskreytt
ISBN: 9781588396624
Metropolitan Museum of Art



Hluti af yfirhöfn karlmanns, ca. 1820, Innu (Naskapi), frumbyggjar N-Ameríku/The Met
Hluti af yfirhöfn karlmanns, ca. 1820, Innu (Naskapi), frumbyggjar N-Ameríku/The Met

Í desember þegar ég deildi fyrstu bókarkápufærslunni hélt ég í alvörunni að ég gæti notað þessar færslur til að halda blogginu lifandi á meðan ég væri í námi. En ég hef áttað mig á því að það er ómögulegt þegar lífið einkennist af skiladögum verkefna ofan á lestur fyrir hvern fyrirlestur. Það koma tímabil þar sem tilfinningin er sú að maður komi varla upp til að anda.

Bókarkápa: Museum as Process eftir Raymond A. Silverman · Lísa Hjalt

Vegna kórónuveirufaraldursins hefur þessi önn verið skrýtin. Hún er næstum búin og hér í Austurríki hefur aðeins verið slakað á reglum um samkomubann. Því miður eru öll söfn enn lokuð þannig að ég hef hætt að gera mér vonir um að starfa sem nemi á safni í sumar. En góðu fréttirnar eru þær að enginn náinn mér hefur smitast af COVID-19 og ég vona að blogglesendur mínir geti sagt hið sama. Farið vel með ykkur!

neðsta mynd mín, birtist á Instagram 14/01/2020 | Yfirhöfn karlmanns af vefsíðu The Met