þriðjudagur, 26. apríl 2022

№ 31 bókalisti: bréfaskrif Bishop & Lowell

Á № 31 bókalistanum mínum: bréfaskrif þeirra Bishop og Lowell · Lísa Hjalt


Það var afbragðshugmynd að setja Swann's Way á síðasta bókalista (№ 30). Ég er enn að lesa Proust og botna ekkert í mér að hafa ekki lesið hann fyrr. Ríkur prósinn kallar á hæga yfirferð og því finnst mér best að lesa 8-10 síður í einu, einkum í kyrrð og ró að morgni. Daginn byrja ég á lestri; vakna eldsnemma með syninum sem þarf að þvera Linz og úthverfi með sporvagni til að fara í skólann. Þegar hann leggur af stað - flest fólk er þá enn sofandi - sest ég niður með fyrsta kaffibolla dagsins, ristað brauð og bækur. Þessa dagana byrja ég á nokkrum bréfum sem ljóðskáldin Elizabeth Bishop og Robert Lowell sendu sín á milli áður en ég sný mér að Proust og öðrum höfundum. Þessari rútínu lýkur svo með þýska skáldverkinu sem ég er að lesa þá stundina.

№ 31 bókalisti:

1  Words in Air: The Complete Correspondence Between Elizabeth Bishop
and Robert Lowell  · ritstj. Thomas Travisano & Saskia Hamilton
2  Upstream: Selected Essays  · Mary Oliver
3  Speak, Memory  · Vladimir Nabokov
4  Personal History  · Katharine Graham
5  Ein ganzes Leben  · Robert Seethaler [þýsk]

Ég er enn að lesa Der Untergeher (plebbinn á ísl., № 30), mína þriðju bók eftir hinn austurríska Thomas Bernhard. Hann er einstaklega hnyttinn sögumaður. Mig langar að lesa allt eftir hann sem ég kemst yfir á frummálinu. Ég held að verk hans hafi ekki verið gefin út á Íslandi en skáldsögur hans og leikrit eru til í enskri þýðingu. Ég hef aldrei lesið neitt eftir landa hans Robert Seethaler og nú er kominn tími á Ein ganzes Leben sem ég keypti í fyrrasumar. Mannsævi heitir hún í íslenskri þýðingu og kom út fyrir nokkrum árum.

Kirstuberjatré í blóma, Antwerpen, vor 2011 · Lísa Hjalt
Kirsuberjatré í blóma, Antwerpen 2011

Fyrir svefninn undanfarið hef ég verið að lesa Personal History, ævisögu Katharinu Graham heitinnar, útgefanda The Washington Post. Bókin hlaut Pulitzer-verðlaunin árið 1998. Ég byrjaði á henni fyrir töluvert löngu síðan en hinkraði með það að setja hana á bókalista þar til núna. Ég vissi að hún skrifaði marga kafla um fjölskyldu sína og uppvaxtarár (sá hluti ævisagna sem mér leiðist hvað mest) og því vildi ég gefa mér tíma til að komast í gegnum þá. Þegar frásögn hennar komst loks á flug var stundum erfitt að leggja bókina frá sér en nánar um það í næstu lestrarkompufærslu.
Á № 31 bókalistanum: sjálfsævisaga Vladimirs Nabokov · Lísa Hjalt


myndir mínar, 01 og 03 birtust á Instagram 12/04/21 og 24/04/21



fimmtudagur, 14. apríl 2022

Lestrarkompan: Virginia Woolf um bækur

Lestrarkompan: Latte og dagbók Virginiu Woolf · Lísa Hjalt


Virginia Woolf deilir mínum eigin hugsunum um bækur:
What a vast fertility of pleasure books hold for me! I went in & found the table laden with books. I looked in & sniffed them all. I could not resist carrying this one* off & broaching it. I think I could happily live here & read forever.
Þessar dásamlegu línur skrifar hún í dagbók sína í Monk's House, fimmtudaginn 24. ágúst 1933 (4. bindi, sjá № 29).
*The Confessions of Arsene Houssaye

mynd mín, birtist á Instagram 04/02/22