laugardagur, 25. janúar 2020

Genius and Ink: Virginia Woolf on How to Read

Genius and Ink: Virginia Woolf on How to Read (TLS Books) · Lísa Hjalt


Að mínu mati var þetta ein af flottustu bókarkápum ársins 2019. Minimalísk en grípandi (bakgrunnurinn er ljósari en myndin hér að ofan sýnir). Genius and Ink: Virginia Woolf on How to Read var gefin út af TLS Books, nýrri bókaútgáfu sem tók til starfa í fyrra. TLS stendur fyrir Times Literary Supplement, vikulegt bókmenntarit sem kom fyrst út árið 1902. Virginia Woolf skrifaði fyrir TLS og hér höfum við fjórtán gagnrýnar ritgerðir sem skrifaðar voru frá 1916 til 1935. Bókin var á nýjasta bókalistanum mínum og ég naut þess að lesa hana.

Genius and Ink: Virginia Woolf on How to Read
Innbundin, 256 blaðsíður, myndskreytt
ISBN: 9780008355722
TLS Books

Genius and Ink: Virginia Woolf on How to Read (TLS Books) · Lísa Hjalt
Genius and Ink var á № 22 bókalistanum mínum / Instagram 17/12/2019

Það vill svo til að Virginia Woolf fæddist á þessum degi árið 1882, á æskuheimilinu við 22 Hyde Park Gate, Kensington, London. Fyrsta skáldsaga hennar, The Voyage Out, kom út árið 1915.



föstudagur, 10. janúar 2020

Lestrarkompan: Whitehead, Baldwin & Brecht

Kaffi og Brecht; punktar úr lestrarkompunni · Lísa Hjalt


Skólinn er byrjaður og ég er rólega að koma mér í gírinn, gef mér enn tíma til að lesa bækurnar á síðasta bókalista áður en vinnuálagið eykst og skiladagar taka yfir. Ég kláraði Year of the Monkey eftir Patti Smith, sem mér fannst aldrei almennilega komast á flug, ef hægt er að lýsa þannig æviminningum sem að hluta til fjalla um missi og hafa því einkenni depurðar. Sam Shepard heitinn birtist á síðunum sem bjargar henni. Ég er aðdáandi Patti, skrifa hennar um ekki neitt, eins og hún útskýrir í bókinni M Train, en hér vantar eitthvað. Bókin hefur fengið góðar viðtökur en lýsingar á draumum og matsölustöðum (e. diners) gerðu lítið fyrir mig. Ég vildi að hún hefði beðið og skrifað um ferð sína til Ástralíu ári síðar (á meðal margra ljósmynda í bókinni er ein sem hún tók af Uluru/Ayers Rock), en þá hefði titill bókarinnar verið annar.

En þá að lestrarkompunni, síðustu færslunni fyrir bókalista ársins 2017. Ég veit, ég veit, við erum búin að ræða þetta.

Lestrarkompan, № 13 bókalisti, 3 af 4:

· The Underground Railroad eftir Colson Whitehead. Þessi skáldsaga vann bæði Pulitzer-verðlaunin fyrir bókmenntir 2017 og National Book Awards árið 2016, og var val Oprah-bókaklúbbsins sama ár. Kannski hefur þetta gert henni smá óleik því lesendur búast líklega við bókmenntalegu meistaraverki. Þrátt fyrir alvarlegt viðfangsefni, þrælahald, er hún mjög læsileg, og ég stend mig enn að því að hugsa um hana. Að hugsa um söguna sjálfa, ekki sögupersónurnar. Persónusköpunin er að mínu mati ekki sterk. Aðalsöguhetjan, Cora, hafði ekki mikil áhrif á mig en það sem stendur eftir er að saga hennar er saga of margra. Titillinn er vísun í net skipulagðra leiða til hjálpar þrælum á flótta yfir í frelsið. Whitehead notar aftur á móti töfraraunsæi og gefur þessu neti efnislegt form, sem ég hélt að truflaði mig, en gerði það ekki. Ég hef ekki lesið önnur verk eftir hann en ætla mér það svo sannarlega. Hann er góður sögumaður.

· Giovanni's Room eftir James Baldwin. Ég var að vonast til að mér líkaði þessi bók meira en ég gerði. Ekki misskilja mig, hún er góð en fer ekki í uppáhaldsflokkinn. Sögupersónan Giovanni fór í taugarnar á mér (undir lokin átti hann þó samúð mína) og mér fannst ekki sannfærandi að maður eins og David félli fyrir manni eins og Giovanni. Þessi sena hefur að vísu fests í huga mér, kvöldið sem þeir hittast á bar í París 6. áratugarins:
And he took his round metal tray and moved out into the crowd. I watched him as he moved. And then I watched their faces, watching him. And then I was afraid. I knew that they were watching, had been watching both of us. They knew that they had witnessed a beginning and now they would not cease to watch until they saw the end.
Þetta var önnur bókin sem ég las eftir Baldwin (hef núna lesið fleiri) en sú fyrsta sem ég las, Another Country, er enn í mestu uppáhaldi.

· Der Gute Mensch von Sezuan eftir Bertolt Brecht. Þetta leikrit var fyrsti þýski textinn sem ég las eftir að við fluttum til Þýskalands árið 2017, tilraun til að endurheimta orðaforðann (einu sinni fór ég nokkuð létt með að lesa skáldsögur á þýsku). Ég skildi ekki allt en náði merkingunni og naut lestursins. Leikritið er dæmisaga og sögusviðið er Kína. Þrír guðir koma til jarðar í leit að góðri manneskju. Vændiskonan Shen Te er sú eina sem býður þeim næturgistingu þegar þeir þurfa og í kjölfarið skiptir hún um atvinnugrein og kaupir tóbaksverslun fyrir peninga sem þeir gefa henni. Að vera góð manneskja í spilltum heimi reynist erfitt og hún býr til hliðarsjálf, frænda sinn Shui Ta, til að geta stundað viðskipti. Árið 1933 yfirgaf Brecht Þýskaland nasismans og leikritið er eitt af mörgum sem hann skrifaði í útlegðinni á tímum síðari heimsstyrjaldarinnar. Næsta verkið hans á listanum mínum er Mutter Courage und ihre Kinder (Mutter Courage og börnin hennar).

mynd mín, birtist á Instagram 11/11/2017



miðvikudagur, 8. janúar 2020

Legacy of the Masters: Painting and Calligraphy from the Islamic World · Will Kwiatkowski

Legacy of the Masters: Painting and Calligraphy from the Islamic World (PHP) eftir Will Kwiatkowski · Lísa Hjalt


Ég vil byrja nýja árið á blogginu með bókarkápu sem fékk hönnunarhjartað til að slá aðeins hraðar. Legacy of the Masters: Painting and Calligraphy from the Islamic World eftir Will Kwiatkowski var gefin út í október síðastliðnum af bókaútgáfunni Paul Holberton Publishing. Bókin hefur að geyma 75 myndir í lit af málverkum, teikningum og skrautskrift frá Safavíd-, Úsbek-, Ottóman- og Mógúl-veldunum frá 16. öld þar til snemma á 19. öld. Þessi bók nyti sín vel á kaffiborði alls áhugafólks um skreytilist og íslamska menningu.

Legacy of the Masters: Painting and Calligraphy from the Islamic World
Höf. Will Kwiatkowski
Innbundin, 192 blaðsíður, myndskreytt
ISBN: 9781911300731
Paul Holberton Publishing