miðvikudagur, 24. ágúst 2016

Decorative Textiles from Arab & Islamic Cultures

Bók: Decorative Textiles from Arab & Islamic Cultures · Lísa Hjalt


Fyrr í sumar fékk ég senda bókina Decorative Textiles from Arab & Islamic Cultures: Selections from the Al Lulwa Collection til umfjöllunar á ensku útgáfu bloggsins. Bókin er virkilega falleg og ég naut lestursins; ég mæli með henni fyrir alla sem hafa áhuga á framandi textíl og íslamskri menningu. Jennifer Wearden er höfundur texta og Jennifer Scarce skrifar inngang. Það var Altaf S. Al Sabah sem kom safninu upp til minningar um ömmu sína. Á undan formála sínum segir hún í stuttu máli að al lulwa þýði perla, sem var nafn ömmu hennar heitinnar. Forlagið Paul Holberton publishing annaðist útgáfu bókarinnar. Í fréttatilkynningu er komið inn á mikilvægi safnsins og arfleifð þess, en þar segir: „The Al Lulwa Collection has a heritage that reaches back well over a thousand years, and is significant both for its quality and as an illustration of the survival and adaptation of a major industry.“


Decorative Textiles from Arab & Islamic Cultures er í kiljubroti, 200 blaðsíður með 140 litmyndum. Hún skiptist í fjóra kafla: 1) Blómamynstur, 2) Geómetrísk mynstur, 3) Hið skrifaða orð, og 4) Ásaumað skraut. Textíllinn kemur frá Miðausturlöndum, Arabíuskaganum, Íran, Indlandi og Norður-Afríku. Wearden hefur skrifað flæðandi og skemmtilegar lýsingar við alla munina í bókinni. Textinn er fræðandi án þess að verða of fræðilegur og er auðgaður með sögulegum og menningarlegum smáatriðum.

Öllum lýsingum á textíl í bókinni fylgir mynd og stundum eru myndir af smáatriðum á sér síðu. Fyrir ólærða í textílhönnun, eins og mig, er það mjög áhugavert að geta skoðað nánar mótífin og mynstrin með texta Wearden til hliðsjónar. Stundum gerir hún samanburð á textílnum í bókinni og bendir á það sem er líkt og ólíkt, sem mér finnst ómetanlegt. Einstaka sinnum bendur hún á mistök í mynstrum, sem gera þau enn áhugaverðari að skoða. Bókin inniheldur einnig orðalista með teikningum af ýmsum saumum.

Smáatriði: Hluti af ábreiðu á gröf, Íran, snemma á 18. öld, bls. 140-3

Þar sem bókin barst mér til umfjöllunar á ensku útgáfu bloggsins hef ég ritdóminn ekki lengri hér. Í texta mínum í ensku bloggfærslunni er nokkuð um arabísk heiti og tilvísanir í bókina sem ég hefði hvort eð er ekki þýtt yfir á íslensku. Fyrir ykkur sem viljið lesa ritdóminn í heild sinni og sjá fleiri myndir bendi ég á færsluna á Lunch & Latte.


Decorative Textiles from Arab & Islamic Cultures:
Selections from the Al Lulwa Collection
Eftir Jennifer Wearden
Paul Holberton publishing
Kilja, 200 blaðsíður, myndskreytt
Kaupa


Khayamiya, veggteppi, Egyptaland, seint á 19. öld, bls. 174

myndir mínar | heimildir: allar ljósmyndir í bókinni eru eftir Stephanie McGehee
- til að sjá allan ritdóminn á ensku útgáfu bloggsins fylgið tenglinum hér að ofanEngin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.