sunnudagur, 31. desember 2017

Nýjar bækur | Gleðilegt nýtt ár

Nýjar bækur · Lísa Hjalt


Á þessum síðasta degi ársins sit ég við tölvuna með mynstraðan túrban á höfðinu, jólabjór í glasi og tortilla-flögur í skál; steikin er á hægeldun í ofninum, gengið mitt er að horfa á Hobbitann og ekkert betra fyrir mig að gera en að blogga um nýjar bækur. Ég ætlaði að deila þessari færslu fyrr í desember en vegna tímaleysis ýtti ég henni til hliðar. Um jólin fór hún að leita á mig og þar sem flestar bækurnar á listanum, skáldverk og kaffiborðsbækur, voru gefnar út árið 2017 þá fannst mér ég eiginlega þurfa að deila henni áður en nýja árið gengi í garð. Ég er ekkert að eyða tíma í athugasemdir við hverja bók þar sem allir tenglarnir fyrir utan einn leiða ykkur á síðu Book Depository, þar sem þið finnið stutta kynningu á þeim öllum. Ég geri ráð fyrir því að allar bækurnar á listanum fyrir ofan smámyndirnar muni einn daginn rata á bókalista hér á blogginu því mig langar að lesa þær allar. Ég óska ykkur friðar á komandi ári.

Nýjar bækur:
· Spy of the First Person  eftir Sam Shepard (Knopf). Síðasta verkið fyrir andlát hans í júlí á þessu ári.
· Debriefing: Collected Stories  eftir Susan Sontag (FSG). Ritstj. Benjamin Taylor.
· Sing, Unburied, Sing  eftir Jesmyn Ward (Bloomsbury). Bókin sem hlaut National Book Award 2017.
· The Origin of Others  eftir Toni Morrison (Harvard UP).
· In Search of Ancient North Africa: A History in Six Lives  eftir Barnaby Rogerson (Haus Publishing).
· The Rub of Time  eftir Martin Amis (Random House).
· Philip Roth: Why Write? Collected Nonfiction 1960-2013  eftir Philip Roth (Library of America).


· Persian Art: Collecting the Arts of Iran for the V&A  eftir Moya Carey (V&A).
· Modern Art in Detail: 75 Masterpieces  eftir Susie Hodge (Thames & Hudson).
· Henri Cartier-Bresson: The Decisive Moment  eftir Henri Cartier-Bresson (Steidl). Endurútgáfa bókar frá árinu 1952 sem geymir bestu verk Cartier-Bresson. Forsíðan er eftir Henri Matisse.
· The Atlas of Beauty: Women of the World in 500 Portraits  eftir Mihaela Noroc (Penguin).
· Morris  eftir Charlotte and Peter Fiell (Taschen). Ríkulega myndskreytt bók um ævi og störf hönnuðarins William Morris (1834-1896).
· Map Cities: Histoires de cartes  eftir Francisca Mattéoli (Chêne). Eingöngu fáanleg á frönsku en verður vonandi þýdd á ensku síðar. Ég hef fjallað um Map Stories eftir Mattéoli hér á blogginu.
· Haute Bohemians  eftir Miguel Flores-Vianna (Vendome Press).

Úr bókinni Haute Bohemians eftir Miguel Flores-Vianna, bls. 80-81, Vendome Presssunnudagur, 24. desember 2017

№ 13 bókalisti | Gleðilega hátíð

№ 13 bókalisti | Gleðilega hátíð · Lísa Hjalt


Fyrr í vikunni lofaði ég að deila stuttum bókalista - þessi er № 13 - fyrir jólin (myndina tók ég fyrir tveimur dögum þegar ég var að pakka inn gjöfum; það sem hýasinturnar hafa vaxið síðan þá!). Á þessu augnabliki er ég í kaffipásu og fletti nýjasta tölublaði, janúar 2018, The World of Interiors, sem okkar elsta kom með frá Skotlandi. Jólaeftirréttirnir eru tilbúnir og bráðum byrjum við að undirbúa máltíð kvöldsins. Það sem ég hlakka til að setjast til borðs og borða veislumat.

№ 13 bókalisti:
1  The Underground Railroad  eftir Colson Whitehead
2  Giovanni's Room  eftir James Baldwin
3  Der Gute Mensch von Sezuan  eftir Bertolt Brecht
4  Jane Eyre  eftir Charlotte Brontë

Síðasta sumar keypti ég eintak af Giovanni's Room eftir James Baldwin og hef beðið eftir rólegri stund til að hefja lesturinn. Ef síðasta bloggfærsla fór fram hjá ykkur þá er hann nýi uppáhaldshöfundurinn minn. Það er orðinn siður hjá mér á jólunum að endurlesa eitt klassískt verk og í ár valdi ég Jane Eyre. Það eru mörg ár síðan ég las hana og á jólunum í fyrra fékk ég þessa fallegu innbundnu útgáfu frá Penguin. Hún hefur starað á mig í eitt ár og ég sver það ég heyri hana stundum hvísla, Lestu mig!  Hinar tvær bækurnar hafið þið kannski þegar séð á Instagram; Whitehead var hluti af bókagjöf frá kærri vinkonu á Íslandi og leikritið eftir Brecht var fyrsta bókin sem ég keypti á þýsku eftir flutningana (ég veit ekki hvort það hafi verið þýtt á íslenku en hér er ensk útgáfa frá Bloomsbury, The Good Person of Szechwan, í þýðingu John Willett). Ég er þegar byrjuð að lesa hana, en rólega. Mjög rólega. Þetta er mín leið til að endurheimta þýska orðaforðann minn.

Ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla og friðar á komandi ári!miðvikudagur, 20. desember 2017

Lestrarkompan 2017: Baldwin, Bandi, Bellow ...

Lestrarkompan mín: Baldwin, Bandi, Bellow · Lísa Hjalt


Lestrarkompan mín, muniði eftir henni? Ég er á eftir með bloggið (sem gaf mér þá hugmynd að nota Instagram-myndirnar mínar fyrir þennan flokk). Ég held að best sé að nota bara að-flytja-til-Þýskalands spilið mitt. Við erum enn að venjast nýju umhverfi og tungumálinu. Við höfum átt góðar stundir en líka ergjandi, og upplifað einstaka afturför. Svona er þetta bara. Stuttu eftir flutningana fór okkar elsta aftur til Skotlands vegna náms og ég kann að hafa skilið hluta hjartans eftir á flugvellinum. Þetta var allt laust við dramatík en ég held að ég hafi gert mér grein fyrir því að einn daginn verður hreiðrið tómt. (Ég gæti alltaf leikið eftir Faust og gert samning við djöfulinn, selt honum sálu mína svo börnin kjósi háskóla á svæðinu þegar sá tími kemur. Vandamálið er að ég trúi ekki á tilvist hans.) Um jólin verður fjölskyldan saman á ný og framundan er afslöppun og góður matur (nýverið í spjalli á Skype minntist ég á gjafirnar og tvö barnanna skutu inn í: „Mamma, okkur er alveg sama um gjafirnar, við viljum bara matinn!“). Áður en jólahátíðin gengur í garð ætla ég að deila nýjum bókalista, stuttum. Þarf bara að finna tíma til að taka mynd.

№ 8 bókalisti (5 af 8):

· The Accusation eftir Bandi. Þegar ég birti bókalistann þá gaf ég þessu smásögusafni, sem var smyglað út úr Norður-Kóreu, sérstakan sess. Sögurnar ásækja mig enn, sérstaklega ein sem kallast „City of Specters“, en sú er önnur í röðinni. Í hvert sinn sem Norður-Kórea er í fréttunum - svo til á hverjum degi - verður mér hugsað til þessa sögusafns sem minnir mig á óréttlætið, vonleysið og ómannúðlegar aðstæður fólksins.

· Another Country eftir James Baldwin. Ég vissi að hann yrði nýi uppáhaldshöfundurinn minn þegar ég kom að þessari persónulýsingu á síðu 18: „[H]e had discovered that he could say it with a saxophone. He had a lot to say.“ Frá fyrstu síðu skynjar maður rytma í frásögninni. Ég las einhvers staðar á netinu að það væri jazz og hugsaði með mér, Jazz, auðvitað! Skáldsagan gerist á síðari hluta 6. áratugarins, í Greenwich Village, NY. Hún er ekki fyrir alla (ef stutt er í blygðunarkennd ykkar ættuð þið að láta þessa eiga sig; ég verð þó að segja að þið eruð að missa af frábærum ritstíl) þar sem hún tekst á við ögrandi þemu eins og framhjáhald, samkynhneigð, tvíkynhneygð og sambönd fólks af ólíkum kynþætti. Athugið að bókin kom út árið 1962! Ég skammast mín fyrir að segja að þetta er fyrsta bókin sem ég les eftir Baldwin. Ég hafði bara lesið gömul viðtöl við hann og umfjallanir í tímaritum þar sem vísað var í verk hans og nú ætla ég mér að lesa allt sem hann skrifaði, skáldverk og ritgerðir.

· Seize the Day eftir Saul Bellow. Mín fyrsta bók eftir Bellow. Minnisverð nóvella sem gerist í NY en, ef ég á að segja alveg eins og er, greip mig ekki alveg frá byrjun (ég segi þetta með allri virðingu fyrir aðdáendum hans: á meðan lestrinum stóð kann Bellow að hafa eilítið fölnað í samanburði við Baldwin, sem hafði heltekið bókabéusinn innra með mér). Það var ekki fyrr en að lestrinum loknum sem sagan fór að koma reglulega upp í hugann og nú langar mig að lesa hana aftur.

· The Blue Touch Paper eftir David Hare. Æviminningar sem ég naut að lesa þó að sumir hlutar hafi ekki verið eins áhugaverðir og aðrir. Oft þegar ég les ævisögur þá leiðist mér barnæskuhlutinn (stundum er það vegna skorts á heiðarleika af hálfu höfundar; stundum á höfundur til með að mála helst til of rósrauða mynd), sem var ekki í þessu tilfelli. Áður en ég las bókina vissi ég ekkert um uppvaxtarár Hare og hann hélt mér við lesturinn með skemmtilegum og heiðarlegum sögum, eða svo held ég. Það er heilmikið um pólitík í bókinni, sem höfðar kannski ekki til allra, en leikhússena Lundúna vaknar til lífsins á síðunum og lesandinn fær að deila sigrum Hare, og ósigrum.

· Pale Fire eftir Vladimir Nabokov. Kláraði ekki bókina. Ekki minn tebolli. Á síðunum höfum við ljóðskáld, Shade, sem hefur samið langt ljóð fyrir andlát sitt. Nágranni hans og kollegi, Kinbote, greinir ljóðið ansi ítarlega og mjög fljótt áttar lesandinn sig á því að hann er úti á túni. Ég einfaldlega missti þolinmæðina við að lesa greiningu Kinbote, fyrir sjálfsblekkingu hans (það hafði ekkert með skrif Nabokov að gera).

[Eins og ég hef sagt áður, í lestrarkompufærslum geri ég engar athugasemdir við bækur sem ég endurles eða þær sem ég hef þegar fjallað um á blogginu. Sjá sér færslur fyrir þessar tvær af listanum: Stríðsdagbækur Lindgren A World Gone Mad: The Diaries of Astrid Lindgren, 1939-45 og skáldsöguna Pachinko eftir Min Jin Lee.]

mynd mín, birt á Instagram 29/07/2017fimmtudagur, 23. nóvember 2017

Stríðsdagbækur Astrid Lindgren

Stríðsdagbækur Astrid Lindgren: A World Gone Mad · Lísa Hjalt


Á bókalista sem ég birti í mars var að finna stríðsdagbækur Astrid Lindgren, A World Gone Mad: The Diaries of Astrid Lindgren, 1939-45, sem bókaútgáfan Pushkin Press gaf út á ensku síðasta haust (þýð. Sarah Death). Sænska barnabókahöfundinn Lindgren og dásamlegu persónurnar sem hún skapaði þarf vart að kynna fyrir íslenskum lesendum. Ég man enn eftir nestistímum í barnaskóla þegar kennarinn las Á Saltkráku og bókin sem ég las í óteljandi skipti og er mér hvað kærust er Bróðir minn Ljónshjarta. Sem barn spáir maður held ég ekki mikið í persónulegt líf höfundar heldur gleymir sér bara í þeim heimi sem hann skapar. Dagbækur hennar sýndu mér því hlið á höfundinum sem ég vissi ekkert um: Lindgren sem ung móðir að reyna að ná utan um hrylling heimsstyrjaldarinnar, ekki laus við sektarkennd í hlutlausri Svíþjóð.

Hefur ekki nóg verið skrifað um síðari heimsstyrjöldina; hafa dagbækur Lindgren einhverju við það að bæta? Það sem mér þótti áhugavert við lesturinn er að hún er tæplega 32 ára gömul þegar stríðið brýst út og finnur greinilega hjá sér þörf fyrir að halda utan um framgang þess. Hún safnar blaðaúrklippum og skrifar mislangar færslur í leðurbundnar bækur, sautján talsins sem fundust á heimili hennar í Dalagatan í Stokkhólmi eftir andlát hennar árið 2002 (gefnar út í Svíþjóð árið 2015). Bókin inniheldur eingöngu færslurnar sjálfar, og nokkrar myndir, og það sem kom mér á óvart var hversu nákvæm hún var. Ég hélt að ég væri að fara að lesa persónulegar hugrenningar Lindgren en áttaði mig fljótt á því að þetta var bók um stríð á mannamáli.
Stríðsdagbækur Astrid Lindgren: A World Gone Mad · Lísa Hjalt


Lindgren kemur sér beint að efninu og er laus við óþarfa dramatík þó að hún upplifi að sjálfsögðu ótta og reiði. Fyrstu færsluna skrifar hún 1. september 1939 þegar Þjóðverjar ráðast inn í Pólland. Með nokkuð stöðugri rödd ber hún friðsamt lífið í Svíþjóð á stríðstímum - þar sem engin átök áttu sér stað; bara áhrif skömmtunar - við hryllinginn sem á sér stað annars staðar í Evrópu, einkum í nágrannalöndunum Finnlandi og Noregi. Þegar hún fer að vinna fyrir sænsku leyniþjónustuna við ritskoðun pósts erlendis frá þá færist stríðið enn nær; hún minnist einmitt á persónulegt bréf Gyðings („profoundly sad Jewish letter“) á meginlandinu til vinar í Svíþjóð.

Um jólin 1944 dregur af henni og niðurbrot á sér stað, sem margir lesendur sem ekki þekkja Lindgren gætu túlkað sem afleiðingu stríðsins og vinnu hennar: „I've had a hell of a six months this second half of 1944 and the ground beneath me has been shaken to its very foundation; I'm disconsolate, down, disappointed, often melancholy - but I'm not really unhappy.“ Hún skrifar ekki ástæðuna í dagbókina en þeir sem hafa lesið um líf Lindgren vita að það voru vandræði í hjónabandi hennar. Eiginmaður hennar hafði kynnst annarri konu og farið fram á skilnað, sem hann svo fylgdi ekki eftir.

Dagbókaskrifin komu á undan barnabókum Lindgren, en á síðunum má segja að rithöfundur verði til því á stríðsárunum er hún að skrifa sínar fyrstu bækur: „I'm the happiest when I write.“ Þetta er samt ekki eiginleg dagbók rithöfundar eins og margir vilja meina, ekki dagbók með færslum um skrif og stíl. Fyrsta barnabókin hennar, um stúlkuna Britt-Mari, var gefin út 1944 og fyrir hana hlaut hún verðlaun. Í mars 1944 þegar dóttir hennar er rúmliggjandi með mislinga er hún að skrifa handritið að Línu langsokk og á lokasíðum bókarinnar má sjá mynd af höfnunarbréfinu sem henni barst eftir að hún sendi inn handritið í apríl 1944. Ári síðar talar hún aftur um Línu, um endurskrif - „to see if I can make anything of that bad child.“ Við vitum öll hvernig það endaði.

Ég get mælt með þessari bók sem er fljótlesin og, eins og áður sagði, sýndi mér nýja hlið á mínum uppáhaldsrithöfundi úr æsku. Það eina sem ég hef út á hana að setja er smávægilegt: mér fannst skorta fleiri myndir. Þarna eru myndir af Lindgren og fjölskyldu hennar en ég hefði viljað sjá meira af sjálfum færslunum og blaðaúrklippunum, sérstaklega með sumum lykilorrustum sem Lindgren fjallar um í færslum sínum. Það hefði hjálpað til að tengja á sjónrænni hátt við hennar upplifun af stríðinu.

A World Gone Mad: The Diaries of Astrid Lindgren, 1939-45
Höf. Astrid Lindgren
Pushkin Press
Innbundin, 240 blaðsíður, myndskreytt
Kaupamánudagur, 30. október 2017

№ 12 bókalisti ... frá Landi hugmyndanna

№ 12 bókalisti | Ayobami Adebayo, Peter Hedges, Isambard Wilkinson · Lísa Hjalt


Ég er mánuði seinna á ferðinni með № 12 bókalistann - þessi bókastafli lítur vel út, ekki satt? - því skyndilega varð ég upptekin við pökkun. Þá meina ég eins og að flytja, til Þýskalands. Ich bin ein Bremer! Þessi yfirlýsing mín vegur ekki alveg jafn þungt og sú frá Kennedy, Ich bin ein Berliner ... nema fyrir okkur fjölskylduna. Við erum að koma okkur fyrir á nýju heimili og að kanna umhverfið okkar. Mitt fyrsta verk var að ganga frá bókunum og útbúa notalegan lestrarkrók, og svo, til að finnast ég virkilega vera komin heim, að setja upp eldhús og gera fyrstu föstudagspizzurnar. Í Bremen er fjöldinn allur af kaffi- og veitingahúsum og þangað sem ég hef komið hefur mér líkað stemningin, afslöppuð og tilgerðarlaus. Ég hef þegar kíkt í tvær bókabúðir í miðbænum en á eftir að fara á bókasafn. Vegna flutninganna hefur tími til lesturs verið af skornum skammti en ég er búin með fyrstu tvö verkin á listanum og komin vel áleiðis með nokkur önnur. Þrír útgefendur útveguðu bækur fyrir listann og fyrir það ber að þakka: Canongate [1]  , Eland Books [2] og Fox, Finch & Tepper [3]. Ég kem til með að gagnrýna þessar þrjár á blogginu síðar meir.

№ 12 reading list:
1  South and West: From a Notebook  · Joan Didion
2  Stay with Me  · Ayobami Adebayo [1]
3  Travels in a Dervish Cloak  · Isambard Wilkinson [2]
4  What's Eating Gilbert Grape  · Peter Hedges [3]
5  The Unwomanly Face of War  · Svetlana Alexievich
6  Autumn  · Ali Smith
7  Hitch-22: A Memoir  · Christopher Hitchens
8  How Fiction Works  · James Wood
9  Against Interpretation and Other Essays  · Susan Sontag


Yfirleitt eru nokkrar bókasafnsbækur á listunum mínum en í þetta sinn eru bækurnar mínar eigin. Íslensk vinkona mín var svo sniðug að gefa mér í afmælisgjöf veglegt gjafakort í Waterstones, sem ég notaði til að kaupa verkin eftir Didion, Sontag, Wood og Alexievich (ef þið fylgist með á Instagram hafið þið kannski tekið eftir því). Síðar var ég að skoða verk eftir Christopher Hitchens heitinn í bókabúð þegar ég rak augun í æviminningar hans, sem höfðu farið fram hjá mér - svo glöð að ég keypti bókina. Að lesa Autumn eftir Smith þetta haust var upplagt og eitthvað segir mér að ég eigi eftir að lesa hennar nýjustu, Winter, á komandi vetri. Ég hef einnig augastað á nokkrum íslenskum titlum sem ég væri til í að fjalla um á blogginu. Og ekki má gleyma nýrri útgáfu þetta haust sem ég er mjög spennt fyrir: nýjustu bók Patti Smith, Devotion. Skrif hennar eru yndisleg.
№ 12 bókalisti | Ayobami Adebayo, Peter Hedges, Isambard Wilkinson · Lísa Hjalt


Þessi þrjú verk kem ég til með að gagnrýna síðar:

Bókaútgáfan Canongate sendi frá sér Stay with Me, fyrstu skáldsögu Ayobami Adebayo, sem er ungur rithöfundur frá Nígeríu. Ég ætla rétt að vona að hún sé nú þegar að skrifa aðra bók. Án þess að gefa upp fléttuna langar mig að deila sögulýsingunni: „Yejide vonast eftir kraftaverki, eftir barni. Það er allt sem eiginmaður hennar þráir, allt sem tengdamóðir hennar þráir, og hún hefur reynt allt - erfiðar pílagrímsferðir, læknisráðgjöf, bænir til Guðs. En þegar ættingjarnir krefjast þess að eiginmaðurinn eignist aðra konu reynist það Yejide um megn. Afleiðingarnar eru afbrýðisemi, svik og örvinglun.“

Fox, Finch & Tepper er bókaútgáfa sem sérhæfir sig í útgáfu skáldverka sem þegar hafa fest sig í sessi og eiga það skilið að vera gefin út að nýju. What's Eating Gilbert Grape eftir Peter Hedges er fullkomið dæmi. Ég hafði bara séð kvikmyndina, sem skartar þeim Johnny Depp, Leonardo DiCaprio og Juliette Lewis, og mér finnst bókin frábær. Ritstíll Hedges er dásamlegur.

Frá útgáfunni Eland Books, sem sérhæfir sig í útgáfu ferðarita, kom nýverið bókin Travels in a Dervish Cloak eftir Isambard Wilkinson. Hann var á unglingsaldri þegar hann kom fyrst til Pakistan og á meðan Stríðið gegn hryðjuverkum (the War on Terror) stóð yfir starfaði hann þar sem fréttaritari. Ég byrjaði ekki á bókinni fyrr en almennilegt netsamband var komið í nýja húsið því ég vildi geta flett upp stöðum og ýmsum atriðum. Góð ferðaskrif stuðla einmitt að slíku. Ég held að Wilkinson eigi eftir að kenna mér heilmikið um Pakistan og menningu landsins.

Bis bald!þriðjudagur, 12. september 2017

Schuyler Samperton Textiles - ný hönnun

Schuyler Samperton Textiles, hönnun, mynstur, efni: Nellcote, Cordoba, Celandine · Lísa Hjalt


Heimur textílhönnunar auðgaðist á árinu þegar Schuyler Samperton, innanhússhönnuður með aðsetur í Los Angeles, tók af skarið og kynnti sína eigin línu undir nafninu Schuyler Samperton Textiles. Með framleiðslu efnanna rættist langþráður draumur Samperton, sem hefur safnað textíl frá unglingsaldri. Orðið glæsilegt var það fyrsta sem kom upp í hugann þegar ég sá úrvalið í fyrsta sinn, en það samanstendur af átta efnum úr 100% líni, fáanlegum í mörgum litum. Í tvo mánuði hef ég dáðst að smáatriðum í mynstrunum og spurt sjálfa mig að því, Hvar byrja ég eiginlega að deila þessari fegurð?

Schuyler Samperton Textiles, hönnun, mynstur, efni: Nellcote
Nellcote/Petunia frá Schuyler Samperton Textiles

Þið kunnið að hafa tekið eftir efnum frá Schuyler Samperton Textiles á Instagram-síðunni minni í sumar, en fyrir fyrstu bloggfærsluna valdi ég Nellcote/Apricot í aðalhlutverk, bóhemískt mynstur sem fyrir mér virðist á einhvern hátt bregða á leik. (Smáatriðið að ofan sýnir efnið í litnum Petunia.)

Nellcote/Apricot er efni og litur sem mig langar að nota á einn púða eða tvo í nýju stofunni minni, þegar við höfum keypt nýjan sófa - ég er að flytja, fer bráðum að pakka í kassa! Ég hef verið að leika mér með hugmyndir og í hvert sinn er þetta mynstrið sem kallar á mig, auk þess sem litirnir í því passa vel við þann textíl sem ég á nú þegar og þann sem ég hef augastað á.

Schuyler Samperton Textiles, hönnun, mynstur, efni: Doshi
Schuyler Samperton Textiles, hönnun, mynstur, efni: Nellcote, Caledonia, Celandine · Lísa Hjalt

Til vinstri: Efnið Doshi/Persimmon. Til hægri: Nellcote/Apricot í forgrunni;
Caledonia/Mandarin efst; Celandine/Sunset neðst til vinstri

Af efnunum átta er það Doshi sem er með dauflega prentuðu mynstri, einföldu blómamótífi. Það er fáanlegt í fimm litum sem má auðveldlega nota til að draga fram einhvern annan lit og skapa þannig fallega hannað rými. Fyrir þessa færslu valdi ég Doshi í litnum Persimmon en ég er líka skotin í bláu afbrigði, Doshi/Lake. Blómamynstrið sem sést í mynd minni hér að ofan kallast Celandine/Sunset.

Síðar á blogginu langar mig að fjalla um efnið Caledonia í sér færslu. Það er blómamynstrið með fiðrildinu sem einnig sést á myndinni hér að ofan, í litnum Mandarin. Efnið er einnig með fuglamótífi.
Schuyler Samperton Textiles, hönnun, mynstur, efni: Nellcote, Cordoba, Celandine · Lísa Hjalt


Önnur textílhönnun frá Schuyler Samperton sem ég er líka hrifin af og langar á nota á nýja heimilinu er Cordoba, efni með paisley-mótífi, sem sést brotið saman í litnum Spice í mynd minni hér að ofan - sjá einnig nærmynd hér að neðan (það glittir í efnið í bláa litnum Indigo undir keramikvasanum). Ég á enn eftir að velja á milli Cordoba/Spice og Cordoba/Dahlia.

Ég ætla að fjalla nánar um fleiri efni síðar en á heimasíðu Schuyler Samperton Textiles má skoða línuna í heild sinni og þar er einnig að finna lista yfir sýningarsali.

Schuyler Samperton Textiles, hönnun, mynstur, efni: Cordoba
Mynstrið Cordoba/Spice frá Schuyler Samperton Textiles

Fyrir nokkrum árum deildi ég innanhússhönnun Schuyler Samperton á ensku útgáfu bloggsins. Þeir lesendur sem hrífast af suzani muna kannski eftir þessari færslu þar sem ég birti mynd, ásamt öðrum, af svefnherbergi (skrollið niður) í West Hollywood, sem tilheyrir húsi sem hún hannaði. Hún nam listasögu og skreytilist við Trinity College, NYU og Parsons School of Design, og í fjögur ár vann hún fyrir ameríska innanhússhönnuðinn Michael S. Smith. Verkefni hennar á sviði innanhússhönnunar eru aðgengileg á netinu. Í septembermánuði ætla ég að deila myndum af mínum uphaldsrýmum eftir Schuyler Samperton á Tumblr-síðu Lunch & Latte.


Textíl- og innanhússhönnuðurinn Schuyler Samperton. © Schuyler Samperton Textiles/Alexandre Jarassunnudagur, 23. júlí 2017

№ 11 bókalisti | Miðausturlanda- og glæpasögur

№ 11 bókalisti | Miðausturlanda- og glæpasögur · Lísa Hjalt
№ 11 bókalisti | persneskur köttur og Arundhati Roy · Lísa Hjalt


Sunnudagsmorgun, kaffi, nýr bókalisti og Gilead eftir skáldkonuna Marilynne Robinson. Treystið mér, ekki amaleg byrjun á deginum. Júlí er enn ekki liðinn og ég er þegar að deila nýjum bókalista - annar listinn í mánuðinum! Ástæðan er einföld: það voru margar stuttar bækur á þeim síðasta. Nýi listinn er með örlitlu Miðausturlandabragði. Lengi hef ég ætlað að lesa Palace Walk, fyrstu bókina í Kaíró-þríleiknum eftir egypska höfundinn og Nóbelsverðlaunahafann Naguib Mahfouz. Annar höfundur sem ég er að lesa í fyrsta sinn er hin ísraelska Ayelet Gundar-Goshen. Kunningi og bókmenntaunnandi á Instagram mælti með seinni bók hennar Waking Lions (þýdd úr hebresku af Sondra Silverston) og gaf þrjár ástæður: 1) Gerist í borginni Beersheba (Beer-Sheva) sem, samkvæmt honum, er alveg nýtt í ísraelskum bókmenntum. 2) Er hið fullkomna sögusvið fyrir persónurnar, sem eru á jaðri þjóðfélagsins. 3) Sagan varpar eilitlu ljósi á kynþáttafordóma í Ísrael; hún er um flóttafólk frá Erítreu og Súdan. Það þurfti ekki meira til að selja mér bókina sem ég fékk að vísu á bókasafninu þegar ég sótti eintak mitt af nýjustu skáldsögu Arundhati Roy.

№ 11 reading list:
1  The Ministry of Utmost Happiness  eftir Arundhati Roy
2  Palace Walk  eftir Naguib Mahfouz
3  Waking Lions  eftir Ayelet Gundar-Goshen
4  The Black Prince  eftir Iris Murdoch
5  Gilead  eftir Marilynne Robinson
6  So You Don't Get Lost in the Neighbourhood  eftir Patrick Modiano
7  The Redbreast  eftir Jo Nesbø
8  Instead of a Letter  eftir Diana Athill
9  Let's Explore Diabetes with Owls  eftir David Sedaris


Ég er enn að lesa Jigsaw eftir Sybille Bedford sem var á síðasta bókalista en hef þegar klárað The Redbreast (Rauðbrystingur í íslenskri þýðingu) eftir Norðmanninn Jo Nesbø á þeim nýja. Á einhverjum punkti varð þessi þriðja bók um rannsóknarlögreglumanninn Harry Hole (sú fyrsta í Osló-seríunni) mjög spennandi og ég gat ekki lagt hana frá mér. Glæpasögur eru ekki beint sú tegund bókmennta sem ég sæki í en stundum hef ég lesið allt fáanlegt eftir ákveðinn glæpasagnahöfund (aðallega norrænu höfundana; það byrjaði allt með okkar manni Arnaldi Indriðasyni og sögupersónu hans Erlendi). Harry Hole hans Nesbø er áhugaverður karakter og ég verð að sjá hvað gerist í næstu bókinni um hann, Nemesis.

Ég er byrjuð á bók Sedaris en varð að hætta að lesa hana fyrir háttatíma því sonur minn, sem finnst notalegt að lesa með mér, gat ekki einbeitt sér að sinni bók vegna hlátursins í mér. Þetta er tár-renna-niður-kinnarnar hlátur. Ég reyndi að bæla hann niður en það tókst ekki. Sedaris er einfaldlega hættulega fyndinn og ég hlakka til að lesa Dagbækurnar. Marilynne Robinson er höfundur sem ég er að lesa aftur; ég las Home þegar við bjuggum í Luxembourg. Ég skil ekki út af hverju það hefur tekið mig svona langan tíma að næla mér í Gilead (báðar bækurnar gerast á sama tímabili í sama bænum, einnig bók hennar Lila). Prósinn í Gilead er virkilega fallegur; engin furða að bókin færði henni National Book Critics Circle verðlaunin og Pulitzer-verðlaunin fyrir bókmenntir árið 2005.
№ 11 bókalisti | Miðausturlanda- og glæpasögur · Lísa Hjalt


Mig langar að enda á tilvísun í skáldkonuna Iris Murdoch (1919-1999) sem ég hef þegar deilt á Instagram og langaði að halda til haga á blogginu líka. Spurð út í þá aðferð sem hún notar við skáldskapinn í viðtali sem birtist í The Paris Review, sumartölublaði ársins 1990, svaraði Murdoch:
Well, I think it is important to make a plan before you write the first sentence. Some people think one should write, George woke up and knew that something terrible had happened yesterday, and then see what happens. I plan the whole thing in detail before I begin. I have a general scheme and lots of notes. Every chapter is planned. Every conversation is planned. This is, of course, a primary stage, and very frightening because you've committed yourself at this point ... [Og þegar hún talar um næsta stig.] The deep things that the work is about declare themselves and connect. Somehow things fly together and generate other things, and characters invent other characters, as if they were all doing it themselves. (Tölublað 115, sumar 1990)