mánudagur, 23. febrúar 2015

84 Charing Cross Road eftir Helene Hanff



Muniði hvenær þið síðast urðuð ástfangin af bók á blaðsíðu 10? Það henti mig í síðustu viku þegar ég las 84 Charing Cross Road eftir Helene Hanff. Ég er lítið fyrir að segja fólki að það þurfi að lesa eitthvað en fyrir alla bókaunnendur þá er þessi eiginlega skyldulesning. Upphafið að þessu öllu er bréf sem fröken Hanff skrifar frá New York árið 1949 til bókabúðarinnar Marks & Co., á 84 Charing Cross Road í London, til að spyrjast fyrir um notaðar bækur á hagstæðu verði. Það leiddi til bréfaskrifta í 20 ár, aðallega við einn starfsmanninn, Frank Doel. Í þriðja bréfinu sínu hafði Hanff sleppt formlegheitunum og leyft kímni og einstökum húmor að njóta sín, en það gerðist ekki alveg strax hjá Bretanum Frank Doel. Hér er brot úr sjötta bréfi hennar frá mars 1950 (stafsetningin er hennar):
Where is the Leigh Hunt? Where is the Oxford Verse? Where is the Vulgate and dear goofy John Henry, I thought they'd be such nice uplifting reading for Lent and NOTHING do you send me. you leave me sitting here writing long margin notes in library books that don't belong to me, some day they'll find out i did it and take my library card away. (bls. 10)
Mér finnst kvörtunartónninn alveg dásamlegur og hvernig hún virðist garga á Doel. Ég hef ekki hugrekki Hanff til að skrifa út á spássíur bókasafnsbóka en í mínar eigin bækur merki ég heldur betur setningar og efnisgreinar með krossum eða lóðréttum strikum.


Bókin 84 Charing Cross Road er einungis 95 blaðsíður og því fljótlesin. Flest bréfin eru hreint út sagt dásamleg og svo eru nokkur, sérstaklega eitt, sem kremja hjartað. Ég segi ekki meira. Hanff sendi ekki bara bréf heldur lét hún einnig senda matarpakka (kjöt og egg) til starfsfólksins til að láta í ljós þakklæti sitt fyrir bækurnar sem hún fékk. Bréfaskiptin byrjuðu í Bretlandi eftirstríðsáranna og hún var hneyskluð yfir skömmtuninni sem henni þótti rýr. Í upphafi fékk hún alltaf bréf frá Marks & Co. þar sem hún var spurð hvort hún hefði enn áhuga á tilteknum bókum áður en þær voru sendar. Þetta gerði hún að umræðuefni í bréfi í september 1950, sem hún skrifaði frá íbúð sinni á 14 East 95th Street:
Never wonder if I've found something somewhere else, I don't look anywhere else any more. Why should I run all the way down to 17th St. to buy dirty, badly made books when I can buy clean, beautiful ones from you without leaving the typewriter? From where I sit, London's a lot closer than 17th Street. (bls. 15)
Bókin minnir mig á aðra dásamlega, The Guernsey Literary and Potato Peel Society (Bókmennta- og kartöflubökufélagið á íslensku) eftir Mary Ann Shaffer, sem ég minntist á í annarri bloggfærslu. Eftir lesturinn á þessum tveimur þá hélt ég eintökunum þétt upp að hjartanu í nokkrar sekúndur. Svo heitt elskaði ég þær!


Mín útgáfa af 84 Charing Cross Road inniheldur framhaldið, The Duchess of Bloomsbury Street, sem fjallar um ferð Hanff til London (kápuna myndskreytti Sarah McMenemy). Ég myndi ekki hugsa um að lesa þá fyrri án þess að vera með þá síðari innan seilingar. Eftir lesturinn vildi ég lesa meira eftir Hanff og pantaði bókina Letter from New York. Ég fékk notað eintak sem ætti að berast fljólega. Ég fann líka hljóðbókarútgáfu af 84 Charing Cross Road á YouTube, sem ég hef hlustað á tvisvar á meðan ég sinni húsverkum. Svo er til kvikmynd frá árinu 1987, sem skartar Anne Bancroft og Anthony Hopkins í aðalhlutverkum, en hana á ég eftir að sjá.

Ef það rignir (eða snjóar) úti þá er þetta hin fullkomna bók til að lesa undir teppi með kaffi- eða tebolla í hönd og gleyma sér í dásemdinni. Ég mæli með að hafa bréfsefni við höndina því eftir lesturinn er ekki ólíklegt að ykkur langi að skrifa bréf, ekki tölvupóst.


þriðjudagur, 17. febrúar 2015

Skýjaður dagur í Suður-Jórvíkurskíri | Brauðbollur



Í dag er pönnukökudagurinn í Bretlandi og fleiri löndum. Sólin skín, fuglarnir syngja og við erum búin að borða pönnsur með sultu og rjóma. Í gær var aftur á móti skýjað. Ég skellti í brauðbollur og lét deigið hefast á meðan ég og sonurinn fórum í göngutúr. Það var ákaflega notalegt að koma svo inn í hlýjuna og taka eilítið síðar nýbakaðar brauðbollur með sesamfræjum úr ofninum. Það er ekkert lag sem heitir Cloudy Day in South Yorkshire (mér finnst þýðingin Suður-Jórvíkurskíri alltaf jafn fyndin) en í gær hljómaði lagið Rainy Night in Georgia stanslaust í kollinum á mér og ég fór eitthvað að rýna í textann:

I feel like it's rainin' all over the world,
How many times I wondered, It still comes out the same
No matter how you look at it or think of it,
It's life and you just got to play the game…

~ • ~
Þetta er lífið og þú þarft bara að leika leikinn ... góð þessi síðasta lína.


Íslenski bolludagurinn fór ekki fram hjá okkur í gær. Ég man enn þá eftir sunnudögunum í eldhúsinu þegar mamma var að baka vatnsdeigsbollurnar. Ég man meira að segja eftir skálinni sem hún notaði undir glassúrið, og ég man svo sannarlega eftir augnablikinu þegar nestisboxið með bollunum var opnað í skólanum.

Brauðbollur með sesamfræjum · Lísa Hjalt
Ég get ekki sagt að ég hafi haldið í bolludagshefðina. Ég held svei mér þá að ég hafi síðast bakað rjómabollur í Danmörku árið 2010! En ég get alveg sagt að ég hafi bakað bollur í gær, það voru bara brauðbollur.

Þessi vika er annars sú þriðja í grasekkjustandi. Eiginmaðurinn er á námskeiði í Þýskalandi og við finnum alveg fyrir fjarveru hans, sennilega vegna þess að enginn úr fjölskyldunni býr nálægt. Á þessum bæ sjáum við bæði um eldamennskuna, ákveðna rétti sér hann alfarið um og ég ákveðna, og svo eldum við nokkra saman. Það er engin regla á þessu hjá okkur. Sá sem er í stuði fyrir að elda sér um eldamennskuna. Þegar hann er í burtu þá geri ég grófan matseðil fyrir vikuna því ég læt senda vörurnar heim. Ég reyni að forðast að elda alltaf sömu réttina og nota tækifærið til að útbúa eitthvað sem ég hef ekki gert áður eða ekki gert í langan tíma. Ég baka afar sjaldan með geri og því finnst mér athyglisvert hvað ég er búin að gera þessar brauðbollur oft núna síðustu tvær vikur. Það er eitthvað róandi við það að hnoða deig í höndunum. Svo hef ég lengi átt í ástarsambandi við sesamfræ.

Talandi um sesamfræ, ég sá að það er að koma ný uppskriftabók á markaðinn sem kallast Sesame & Spice: Baking from the East End to the Middle East eftir Anne Shooter. Orðin sesame og baking fönguðu athygli mína. Ég hef enga hugmynd um hvernig uppskriftir eru í bókinni, hvort þær eru mjög sykraðar eða ekki, en kápan lofar góðu. Og þá að brauðbollunum.
Brauðbollur með sesamfræjum · Lísa Hjalt


Þið sem hafið fylgst með blogginu í einhvern tíma hafið væntanlega tekið eftir því að ég nota yfirleitt spelti í bakstur. Þegar ég baka brauð/bollur þá blanda ég gjarnan fínu og grófu spelti saman. Undanfarið hefur verið erfitt að fá fínt spelti í búðum í nágrenninu. Grófa speltið sem ég keypti um daginn reyndist aðeins of gróft og hentar illa í brauðbakstur. Ég baka því þessar bollur með lífrænu hveiti eða brauðhveiti. Gerið sem ég nota er fast-active þannig að það blandast bara með þurrefnunum. Í stað þess að hita mjólkina, eins og oft er gert í gerbakstri, þá sýð ég vatnið og blanda því saman við mjólkina og hunangið. Sesamfræ eru auðug af kalki, magnesíum og járni og að mínu mati ætti að neyta þeirra á hverjum degi. Bollurnar berum við fram með harðsoðnum eggjum og agúrku eða heimagerðu pestó.

BRAUÐBOLLUR MEÐ SESAMFRÆJUM

450 g lífrænt hveiti
2 teskeiðar „fast-active“ þurrger
1 teskeið fínt sjávar/Himalayasalt
2 matskeiðar sesamfræ
125 ml mjólk
100 ml soðið vatn
½ matskeið lífrænt hunang
1 matskeið jurtaolía
1 eggjahvíta eða mjólk til að pensla bollurnar
sesamfræ til að strá yfir

Blandið þurrefnum saman í stórri skál og hrærið sesamfræjum saman við.

Blandið mjólk, soðnu vatni og hunangi saman í lítilli skál og hrærið rólega til að leysa upp hunangið. Látið standa í skálinni í 1-2 mínútur áður en þið blandið olíu saman við. Hellið blöndunni hægt út í stóru skálina með þurrefnunum og hrærið rólega með sleif.

Notið fyrst sleif til að blanda hráefnunum vel saman, stráið svo örlitlu mjöli á borðplötu og hnoðið deigið í höndunum í 5-10 mínútur. Setjið deigið svo aftur í skálina og breiðið rökum klút yfir. Látið deigið hefast í 1½-2 klukkustundir (helst fjarri kulda).

Skiptið deiginu í 8 hluta og mótið úr því kúlur. Setjið kúlurnar á ofnplötu með bökunarpappír og fletjið hverja út með því að þrýsta rétt aðeins ofan á þær með lófanum. Penslið þær svo með eggjahvítu eða mjólk og stráið sesamfræjum yfir. Bakið við 200°C (180°C á blæstri) í 12-14 mínútur.

Recipe in English

Brauðbollur með sesamfræjum á leið í ofninn