miðvikudagur, 31. október 2012

Rýmið 11

- gestaherbergi í Pottersville, New Jersey
- hönnuðir Andrea Filippone og William Welch / Tendenze Design

mynd:
William Waldron fyrir Elle Decor, maí 2012

þriðjudagur, 30. október 2012

parís: luxembourg garðurinn


Enn og aftur fer ég með ykkur til Parísar enda fæ ég ekki nóg af því að skoða myndirnar og dásama þessa borg. Án efa var ein af notalegustu stundum ferðarinnar sú sem við eyddum í Luxembourg garðinum í dásamlegu haustveðri. Garðurinn er í 6. hverfi og í honum er að finna fallegar styttur - Medici styttan á efstu myndinni er sú allra þekktasta - og gróður. Við norðurenda garðsins er glæsileg höll sem hýsir öldungadeild franska þingsins, Le Sénate. Eftir góðan göngutúr um garðinn settumst við á stóla og nutum kyrrðarinnar og umhverfisins. Það er greinilegt að Parísarbúar kunna að meta þennan garð og mátti sjá ansi marga á ferli eða sitjandi
á bekk að lesa.


myndir:
Lísa Hjalt

mánudagur, 29. október 2012

parís: eiffel turninn

"I ought to be jealous of the tower. She is more famous than I am."
Gustave Eiffel (1832-1923)      

Ég er enn í Parísaralgleymingi og á nóg eftir af myndum til að deila á blogginu. Ef þið eruð á leið til Parísar þá er ansi líklegt að þið ætlið að skoða Eiffel turninn. Frá Trocadéro torginu hafið þið frábært útsýni á turninn. Ef þið notið metróinn til að ferðast þá farið þið út á þeirri stöð og um leið og þið labbið upp tröppurnar og fyrir hornið þá blasir hann við ykkur í allri sinn dýrð. Frá torginu getið þið svo fikrað ykkur nær turninum ef þið ætlið að fara upp til að njóta útsýnisins.

myndir:
Lísa Hjalt

föstudagur, 26. október 2012

búð: merci í parís


Ég pósta alltaf blómum á föstudögum en út af því ég tók frí í gær þá ætla ég að breyta aðeins til í dag og sýna ykkur Merci verslunina í 3. hverfi í París. Hún er það sem kallast 'concept store' á ensku. Ég var alveg ákveðin að kíkja í hana í Parísarferðinni og varð svo sannarlega ekki fyrir vonbrigðum. Vöruúrvalið er frábært: ritföng, munir fyrir heimilið, sængurver, fatnaður og aukahlutir, og svo margt fleira. Öllu þessu eru fallega uppstillt og það er nóg pláss til þess að skoða sig um.

Verslunin er staðsett á Boulevard Beaumarchais og fyrst er gengið í gegnum göng. Þá kemur maður inn í lítinn og snotran steinlagðan garð þar sem rauði sæti Merci bíllinn blasir við manni. Það er kaffihús í sjálfri versluninni sem sést á efstu myndinni til hægri og það er kaffihús/veitingastaður í sér rými við hliðina á henni. Andrúsmloftið þarna inni er virkilega skemmtilegt. Ef þið eigið leið til Parísar þá mæli ég hiklaust með því að kíkja inn og skoða.

Merci, 111 Boulevard Beaumarchais, 75003 París

Eigið góða helgi!

myndir:
Lísa Hjalt

miðvikudagur, 24. október 2012

París: sjarmi í fjórða hverfi

París: sjarmi í fjórða hverfi · Lísa Hjalt


Ef þið hafið rölt um stræti Parísar með myndavél þá kannist þið örugglega við tilfinninguna að vilja hreinlega mynda allt sem í vegi ykkar verður. Þetta var bara eitt af þeim augnablikum á Rue François Miron götunni í 4. hverfi.

þriðjudagur, 23. október 2012

París: Le Café Chinois í 3. hverfi
Ég deildi myndum frá torginu Place des Vosges í færslu fyrr í dag og lofaði að deila með ykkur þessu huggulega te- og kaffihúsi sem er að finna í 3. hverfi Parísar. Það heitir Le Café Chinois og stendur í götunni Rue du Béarn, sem liggur út frá torginu. Við gengum fram hjá því á leið okkar í Merci búðina en þá var ekki búið að opna þannig að við ákváðum að kíkja aftur. Við þurftum að bíða eftir borði í svolítinn tíma og karrílyktin sem barst út á götu ætlaði að fara með okkur. En biðin var þess virði.


Staðurinn er frekar lítill og nokkuð hrár í útliti en er samt hlýlegur. Þetta er sem sagt te- og kaffihús og handan eins veggjar er lítil búð með asískum munum og vefnaðarvöru. Hádegisverður - „slow lunch“ - er í boði á milli klukkan 12 og 15 og á töflunni má finna nokkra grænmetisrétti. Mér sýndist vera einn túnfisksréttur líka, en það er ekkert kjöt. Fyrir utan kaffi og te má fá alls kyns ferska safa og við fengum okkur engifer- og hibiscus drykk (held að hibiscus kallist stokkrós á íslensku) sem var ljómandi ferskur og góður. Ég pantaði karrí- og baunarétt með grænmeti á grjónabeði sem var virkilega bragðgóður. Fram til þessa höfðum við ekki borðað neitt nema ekta franskan mat og því var þetta gott mótvægi; bragðaðist svo vel og var alls ekki dýrt. Maturinn fyllti okkur auk þess orku.

Stemningin á staðnum var heimilisleg og um leið alþjóðleg því það mátti heyra frönsku í bland við ensku, spænsku og önnur tungumál. Ef þið eigið leið um þetta svæði í Mýrinni í París þá mæli ég hiklaust með þessum stað. Hann er líka vænn fyrir budduna.

Le Café Chinois, 7 rue du Béarn, 75003 Paris
opið þriðjudaga - laugardaga frá 12-18:30
'slow lunch' frá 12-15

París: Place des Vosges torgiðÉg lofaði Parísarstemningu á blogginu næstu daga og ætla að byrja á Place des Vosges torgi. Ég deili svo huggulegu te- og kaffihúsi í sér færslu á eftir en það stendur rétt við torgið. Place des Vosges liggur við línuna sem skiptir 3. og 4. hverfi. Svæðið í kring kallast Le Marais eða Mýrin og það er afskaplega skemmtilegt að rölta um og skoða byggingar og mannlíf og alls kyns sætar handverksbúðir. Við röltum frá Saint Paul metróstöðinni við Rue de Rivoli götuna (líka hægt að koma frá Bastille stöðinni) þar sem borgin iðaði af lífi og héldum í austurátt. Þetta er bara smá spölur og með hverju skrefi varð allt hljóðlegra. Þegar við gengum inn í Rue de Birague þá var það næstum því eins og að stíga inn í annan heim því kyrrðin var svo notaleg. Við enda götunnar lágu bogagöngin inn á torgið en þau sjást á myndinni hér að ofan.Ég hafði lesið mig til um torgið áður en ég fór til Parísar og saga þess, sem verður ekki sögð hér, er ansi skemmtileg. Þetta er elsta skipulagða torg Parísar og margir tala um að þarna megi upplifa hina „gömlu“ París. Hvað er til í því hef ég enga hugmynd um en torgið var blessunarlega laust við ágang ferðamanna, alla vega á þessum árstíma. Hönnun torgsins og húsanna sem umlykja það er symmetrísk þannig að það er svo til eins í hvaða átt sem litið er. Það sem mér fannst einna dásamlegast var kyrrðin.


Margir vilja meina að tíminn hafi staðið í stað á torginu og kannski er það rétt. Ég myndi kannski frekar orða það þannig að umhverfið er hreinlega laust við ys og þys. Það virðist enginn vera að stressa sig og fólk greinilega kemur þarna til þess að njóta kyrrðar. Victor karlinn Hugo bjó þarna um tíma og þar er núna safn sem við slepptum að skoða í þessari ferð.

För okkar var næst heitið í skemmtilega búð í 3. hverfi sem heitir Merci, en hún er það sem kallast 'concept store' á ensku og hvað slíkt er best að kalla á íslensku hreinlega veit ég ekki. Við fórum út af torginu við bogagöngin í hinum endanum og inn í götuna Rue du Beárn í 3. hverfi. Þar fundum við Le café chinois.

myndir:
Lísa Hjalt

mánudagur, 22. október 2012

París: rigning í 6. hverfiÞað var dásamlegt í París þrátt fyrir smá rigningu. Ég passaði mig að vera ekki með of þétta dagskrá og náði því að að gera svo til allt sem ég ætlaði mér. Við borðuðum góðan mat og upplifðum skemmtilega stemningu á hinum og þessum kaffihúsum. Hótelið var í snoturri götu í 6. hverfi og staðsetningin frábær.

Ég er að fara í gegnum myndirnar mínar og ákveða hverjum ég ætla að deila á blogginu. Það verður því Parísarstemning á blogginu næstu daga.

Ég tók þessa mynd á fimmtudaginn í göngutúr um 6. hverfið þar sem við lentum heldur betur í rigningu seinnipartinn. Ég var akkúrat stödd í Rue Saint Sulpice götunni þegar demban kom. París var ekkert verri í rigningu.

mynd:
Lísa Hjalt

þriðjudagur, 16. október 2012

stutt bloggfrí


Ég er farin í smá bloggfrí þar sem ég er að fara til Parísar eldsnemma í fyrramálið. Ég hlakka til að rölta um stræti borgarinnar með myndavélina, sitja á kaffihúsum og fylgjast með mannlífinu.

Eigið góða viku!

mynd:
Santiago Esteban fyrir Vogue Spain, janúar 2011 | Erin Wasson í tískuþættinum 'Rock'n Erin' | stílisti: Inmaculada Jimenez

miðvikudagur, 10. október 2012

Uppskrift: epla- og kanilmuffinsEr ekki kominn tími til að skella einhverju góðu í ofninn og fá sér með kaffinu? Mér finnst ógurlega gaman að baka og ég var að setja nýja uppskrift á matarbloggið mitt: epla- og kanilmuffins. Við höldum mikið upp á þessa. Matarbloggið kalla ég Lísa Hjalt ~ uppskriftir og það er svæði þar sem ég safna saman uppskriftum sem ég hef verið að leika mér með að þróa sjálf eða uppskriftum frá öðrum.

mynd:
Lísa Hjalt

þriðjudagur, 9. október 2012

provence-hérað með augum jose villa


Einn af mínum uppáhaldsljósmyndurum í dag er Jose Villa. Hann myndar aðallega brúðkaup og verk hans birtast í öllum þessum þekktu amerísku brúðarblöðum og víðar. Það var ekki fyrr en í sumar sem ég uppgötvaði bloggið hans og ég hreinlega elska þegar hann deilir myndum sem teknar eru á ferðalögum eða á tökustað en eru samt hans persónulegu myndir. Hann deildi þessum nýlega sem hann tók í Provence-héraði í Frakklandi.


myndir:
Jose Villa

fimmtudagur, 4. október 2012

Bók: Interiors Atelier AMÞað var ekki ætlunin að kynna erlendar bækur um innanhússhönnun á blogginu í viku hverri en það eru bara svo margar skemmtilegar bækur að koma út núna. Ég hef ekki undan að bæta þeim á óskalistann. Þessi rataði á hann í vikunni, Interiors Atelier AM eftir hjónin Alexandra og Michael Misczynski, gefin út af Rizzoli bókaforlaginu.

Alexandra og Michael starfa í Los Angeles undir heitinu Atelier AM, eru þekkt í bransanum og hafa innréttað mörg heimili. Það er nóg að horfa á þessar myndir úr bókinni eftir François Halard til að sjá fallegt handbragðið.
myndir:
François Halard, úr bókinni Interiors Atelier AM eftir Alexandra og Michael Misczynski, gefin út af Rizzoli, af blogginu Aesthetically Thinking

miðvikudagur, 3. október 2012

rómantískur myndaþáttur


Er ekki ágætt að fá smá skammt af rómantík í æð á þessum miðvikudegi? Það væri ekki amalegt að liggja upp í sófa með tebolla sér við hlið og lesa leikrit eftir Ibsen. Mér finnst þetta svo fallegur myndaþáttur; draumkenndur og fullur af gömlum munum. Ef þið viljið skoða meira þá getið þið smellt á báða tenglana hér að neðan.

myndir: 
1-6, 8-10 Elizabeth Messina fyrir Ruche af síðunni Style Me Pretty / 7 Style Me Pretty | Gallery