þriðjudagur, 23. október 2012

París: Place des Vosges torgið



Ég lofaði Parísarstemningu á blogginu næstu daga og ætla að byrja á Place des Vosges torgi. Ég deili svo huggulegu te- og kaffihúsi í sér færslu á eftir en það stendur rétt við torgið. Place des Vosges liggur við línuna sem skiptir 3. og 4. hverfi. Svæðið í kring kallast Le Marais eða Mýrin og það er afskaplega skemmtilegt að rölta um og skoða byggingar og mannlíf og alls kyns sætar handverksbúðir. Við röltum frá Saint Paul metróstöðinni við Rue de Rivoli götuna (líka hægt að koma frá Bastille stöðinni) þar sem borgin iðaði af lífi og héldum í austurátt. Þetta er bara smá spölur og með hverju skrefi varð allt hljóðlegra. Þegar við gengum inn í Rue de Birague þá var það næstum því eins og að stíga inn í annan heim því kyrrðin var svo notaleg. Við enda götunnar lágu bogagöngin inn á torgið en þau sjást á myndinni hér að ofan.



Ég hafði lesið mig til um torgið áður en ég fór til Parísar og saga þess, sem verður ekki sögð hér, er ansi skemmtileg. Þetta er elsta skipulagða torg Parísar og margir tala um að þarna megi upplifa hina „gömlu“ París. Hvað er til í því hef ég enga hugmynd um en torgið var blessunarlega laust við ágang ferðamanna, alla vega á þessum árstíma. Hönnun torgsins og húsanna sem umlykja það er symmetrísk þannig að það er svo til eins í hvaða átt sem litið er. Það sem mér fannst einna dásamlegast var kyrrðin.


Margir vilja meina að tíminn hafi staðið í stað á torginu og kannski er það rétt. Ég myndi kannski frekar orða það þannig að umhverfið er hreinlega laust við ys og þys. Það virðist enginn vera að stressa sig og fólk greinilega kemur þarna til þess að njóta kyrrðar. Victor karlinn Hugo bjó þarna um tíma og þar er núna safn sem við slepptum að skoða í þessari ferð.

För okkar var næst heitið í skemmtilega búð í 3. hverfi sem heitir Merci, en hún er það sem kallast 'concept store' á ensku og hvað slíkt er best að kalla á íslensku hreinlega veit ég ekki. Við fórum út af torginu við bogagöngin í hinum endanum og inn í götuna Rue du Beárn í 3. hverfi. Þar fundum við Le café chinois.

myndir:
Lísa Hjalt

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.