miðvikudagur, 12. júní 2013

Espresso macchiato & hádegisverður á Konrad

Espresso macchiato & hádegisverður á Konrad · Lísa Hjalt


Á laugardaginn fór ég inn í borg og eyddi deginum með vinkonu minni. Planið var að smakka kaffið og borða hádegisverð á Konrad. Við fengum borð úti í skugganum og byrjuðum á kaffinu. Ég er yfirlýst latte-manneskja en undanfarið hef ég leyft mér að lifa hættulega og fæ mér þá espresso macchiato þegar ég sest niður á kaffihúsum en gríp með mér latte í götumáli ef ég er á ferðinni. Ekkert smá hugrekki!

Ég er ekki kaffisérfræðingur og hef ekki hugmynd um hvernig á að lýsa hinum fullkomna kaffibolla en ég veit að espresso bollinn sem ég fékk á laugardaginn var fullkominn. (Ef þið hafið áhuga á kaffismökkun þá verð ég að benda ykkur á Barista's Log viðbótina sem einn vinur minn þróaði sem er bæði kaffi- og tölvugúrú. Þegar ég sé þessar myndir þá væri ég alveg til í að vita meira um list kaffismökkunar.)
Kaffivélin á Konrad, Luxembourg · Lísa Hjalt


Þegar við vorum búnar að drekka kaffið færðum við okkur inn til að snæða hádegisverð. Karríréttir eru sérgrein þeirra á Konrad en á laugardögum er einfaldleikinn í eldhúsinu allsráðandi og ég fékk mér grænmetisböku með salati. Maturinn bragðaðist mjög vel. Ég lýg ekki, ég er enn að hugsa um þessa böku og stefni á að fá mér hana aftur fljótlega. Ég fékk mér líka glas af lífrænu rósavíni sem fullkomnaði máltíðina.

Bókahillur á Konrad, Luxembourg · Lísa Hjalt
Hádegisverður á Konrad, Luxembourg · Lísa Hjalt


Eins og sést á myndunum er Konrad einn af þessum hráu stöðum sem mér finnst alltaf skemmtilegir. Hann er í hjarta borgarinnar og er reyklaus og er auk þess bar sem býður reglulega upp á uppistand. Við borðin má ýmist sjá viðar- eða leðurstóla og upp við barinn eru þeir í iðnaðarstíl. Loftbitarnir eru sýnilegir, veggir hvítir fyrir utan einn sem er veggfóðraður með blómamynstri. Það eru engir matseðlar heldur er allt skrifað á krítartöflur.

Mér leiðist að koma inn á staði þar sem stemningin er einhvern veginn þvinguð; ekki afslöppuð. Mér líkar það best þegar eigendur kaffi- og veitingahúsa leggja meiri áherslu á að skapa gott andrúmsloft heldur en að dæla peningum í glæsilegar innréttingar og skrautmuni. Konrad er einmitt svona afslappur staður sem er laus við alla tilgerð og þar sem viðmót starfsmanna er vingjarnlegt.



Ég tók þessa mynd nýverið sem sýnir stemninguna fyrir utan staðinn. Hún er hluti af færslu á ensku útgáfu bloggsins þar sem ég sagði frá því þegar ég uppgötvaði fyrst götuna Rue du Nord.



Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.