fimmtudagur, 20. júní 2013

bókahillur eða heimaskrifstofa í opnu rými

Póstur dagsins er eilítið frábrugðinn öðrum á blogginu en þannig er mál með vexti að gömul skólasystir mín sendi mér póst og sagðist vera í stökustu vandræðum með heimaskrifstofuna sína sem er í opnu rými. Hún orðaði það þannig að hún væri eiginlega búin að gefast upp á þessu horni heimilisins, sem blasir við stofu og eldhúsi, og að öll hjálp væri vel þegin. Þegar hún svo sendi mér mynd, sem verður ekki birt hér, þá skildi ég hana vel og lofaði henni að grafa ofan í möppurnar mínar og setja saman bloggfærslu með myndum úr ýmsum áttum til að gefa henni hugmyndir.

Í hinum fullkomna heimi líta heimaskrifstofur í opnum rýmum út eins og að stílistar frá virtu hönnunartímariti hefðu mætt í heimsókn og tekið allt í gegn, jafnvel málað líka og skilið eftir fersk blóm í vasa sem lifa að eilífu. En því miður þarf ég að hryggja ykkur með því að stundum - eiginlega alltaf - er raunveruleikinn annar. Sé maður ekki haldinn örlitlum votti af skipulagsáráttu þá verða svona skrifstofurými alltaf til vandræða, en með smá breytingum og bættu skipulagi má sættast við þau.


Það fyrsta sem við þurfum að gera ef við ætlum að endurskipuleggja opið skrifstofurými er að fara í gegnum dótið okkar og losa okkur við gamalt dót eða bækur sem gera ekkert annað en að safna ryki, eins og til dæmis gamlar glósur úr menntaskóla. Ef þið eruð ekki á leið í endurtekningarpróf þá hafið þið ekkert við þær að gera. Beint á Sorpu með óþarfa pappíra og hluti. Gamlar bækur má gefa á næsta bókasafn eða til fjölskyldu og vina sem eiga sumarbústað og vantar lesefni. Haldið einungis bókum sem ykkur þykir vænt um og viljið lesa aftur þannig að bókahillurnar ykkar verði sem persónulegastar og lýsi bókasmekk og áhugamálum ykkar sem best.

Að þessu loknu sjáum við til þess að rýmið sé hreint áður en við byrjum að endurraða og skipuleggja.

Bókahillur sem geyma bara bækur geta orðið þreytandi til lengdar. Mér finnst skemmtilegra að blanda saman bókum og skrautmunum. Bókum má raða lóðrétt eða lárétt og ofan á bókastafla má setja litlar skálar eða krúsir. Stærri hlutum, eins og vösum, getum við raðað í sér hillu eða við hliðina á bókum, veltur bara á stærð. Litaval skiptir höfuðmáli í opnum rýmum. Passið að litirnir á þeim skrautmunum sem eiga að fara í hillurnar tóni við aðra liti í umhverfinu.

Ef ykkur datt í hug að litaraða bókum þá beiti ég neitunarvaldi. Ég vona að ég móðgi engan þegar ég segi að mér finnst það með því ósmekklegasta sem ég sé. Þá er ég að meina þegar litaröðunin er þannig að í einni hillu eru gular bækur, rauðar í annarri og svo framvegis. Mér finnst slík litaröðun ákaflega krefjandi og hún stöðvar allt sem heitir flæði og jafnvægi í rýminu. Ég er auðvitað ekki að tala hér um falleg ritsöfn sem hafa eins kápu eða nokkrar bækur með sama lit sem raðað er hlið við hlið.

Það að velja ákveðna litapalettu fyrir bókahilluna er líka allt annað mál. Kíkið á efstu tillöguna af þremur á síðu Laura Ashley þar sem bókahillan hefur blátt þema og blandast hlutlausum tónum. Þess konar litaröðun er ókrefjandi, smekkleg og þægileg fyrir augað.

Hvernig við röðum í hillurnar skiptir máli. Ég er búin að minnast á liti og mér finnst líka mikilvægt að hillurnar séu ekki ofhlaðnar. Mér finnst litapalettan í hillunni hér að ofan einstaklega falleg. Takið líka eftir hvernig jafnægi næst með uppröðun á bókum og vösum: Í efstu og neðstu hillunni liggja bækurnar lóðrétt út til vinstri og vasar standa til hægri, en í miðhillunni er bókunum staflað í miðjuna með vösum beggja megin við. Litlir persónulegir munir fullkomna svo uppröðunina án þess að hún verði ofhlaðin. Í svona stíliseringu er kjörið að nota bækur sem eru ekki í stöðugri notkun því það gæti orðið þreytandi að vera sífellt að færa til smámuni og raða upp á nýtt þegar nota þarf bók.

Hér eru tvær aðrar hillur og eins og sést er töluvert meira af bókum í hillunum á vinstri myndinni. Þar er bókum þétt raðað ýmist lárétt eða lóðrétt en takið eftir hvernig kápurnar tóna vel saman. Á myndinni til hægri fá hillurnar að anda meira og þar liggja flestar bækurnar láréttar innan um hlutlausar skálar og listmuni.


Í þessari hillu er bókum raðað bæði lárétt og lóðrétt og eigandinn notar skærgulan lit í bland við gyllta og bláa tóna til að brjóta upp útlitið. Það er heilmikið líf í hillunni en ákveðið jafnvægi líka og listmunir fá að njóta sín.

Hérna eru tvö önnur dæmi um skemmtilega og stílhreina uppröðun í hillum. Það er nægilegt rými á milli bóka og hluta, ekki ofhlaðið í hillurnar. Á myndinni til hægri sjást neðri skápar sem geta heldur betur létt manni lífið þegar kemur að því að fela möppur og alls kyns hluti sem verða gjarnan til vandræða.


Þar sem ekki eru lokaðir skápar má nota kassa úr basti eða öðru fallegu efni, helst hlutlausu, undir smádót og muni sem gleðja ekki beint gestsaugað. Til dæmis er kjörið að raða spilum í slíka kassa því þá hafa þau sinn stað og ef börn eru á heimilinu er lítið mál að venja þau á að ganga frá kassanum eftir sig.

Fyrir ykkur sem hafið ekki lokaða skápa og eruð að vandræðast með möppur. Ég rakst á þessa mynd á vef Micasa þar sem allar möppur og tímaritakassar eru í hvítu og öllu raðað í neðstu hilluna. Fyrir ofan eru svo hvítir kassar notaðir undir hluti sem ekki eiga að sjást.

Á vinstri myndinni hér að neðan eru kassar úr basti hafðir í neðstu hillunni og eins og sést andar vel um þá. Ef þið lítið á hina myndina þá sjáið þið að bastkassinn þarna lengst til hægri fyllir svo til upp í hilluna. Þetta er bara smekksatriði. Það má svo að sjálfsögðu velja svona kassa með loki til að hylja algjörlega það sem í þeim er geymt. Ef þið eigið ekki skúffu undir ritföng þá eru kassar úr basti eða öðru efni kjörnir undir slíkt og hafið þá sem aðgengilegasta. Þið getið notað nokkrar stærðir af kössum en hafið þá helst í sama stíl.


Þegar ég skoðaði myndina frá skólasystur minni tók ég strax eftir því að fyrir ofan skrifborðið hangir nokkuð stór mynd í ramma. Það er hið besta mál en myndin er svo til beint fyrir ofan tölvuskjáinn og skapar þannig formfræðilegt ójafnvægi.

Þar sem hún er bara með opnar bókahillur á aðliggjandi vegg og enga lokaða skápa þá blasa allar möppur við. Það væri hugmynd að setja upp veggskáp (fann þennan á síðu Ikea bara til að gefa hugmynd), ef veggpláss leyfir, fyrir ofan skrifborðið og geyma í honum möppur og slíkt sem gleður ekki augað. Önnur hugmynd, sem ég er hrifnari af, er að setja upp nokkar opnar hillur fyrir ofan skrifborðið með fallega röðuðum myndarömmum og stílhreinum skrautmunum eins og sést hér að neðan. Þetta myndi strax fanga augað og draga athyglina frá skrifstofulegu útliti hornsins.

Ef hvorki veggskápur né stakar hillur koma til greina þá gæti hún líka sett upp töflu við hliðina á myndarammanum, helst í sömu stærð og ramminn upp á jafnvægi, og hengt upp á töfluna snyrtilega röðuðum myndum og úrklippum sem veita innblástur.

Ég tók einnig eftir því að á skrifborði hennar er enginn lampi. Rétt lýsing skiptir höfuðmáli og ef ekki er pláss fyrir fallegan lampa á borðinu þá má kaupa gólflampa. Stóllinn skiptir líka máli og í opinni heimaskrifstofu er best að velja hlutlausan lit á stólinn, sem hún hefur einmitt gert.

Ég vona að þessi póstur komi fleirum að gagni og fyrir þá sem vilja fleiri hugmyndir þá er ég með alla vega þrjú borð á Pinterest-síðunni minni með myndum sem þið getið skoðað: bókaherbergi og leskrókar, heimaskrifstofur og vinnustofur.

myndir:
1: Maisons du Monde / 2: Heather Clawson af blogginu Design Darling / 3: Lonny, mars/apríl 2012 / 4 + 7: Emily Henderson / 5: Robbie Caponetto | stílisering Lindsey Ellis Beatty af blogginu This is Glamorous / 6: Stephen Karlisch fyrir D Magazine / 8: Tom Kirkpatrick | stílisering frau-p af blogginu decor8 / 9: Emily Gilbert af síðunni Design*Sponge / 10: Laurey W. Glenn fyrir Southern Living 11: Simon Whitmore for House to Home / 12: Martin Hahn for Real Living af blogginu Dustjacket Attic