sunnudagur, 27. desember 2020

Philip Roth: The Biography - Blake Bailey

Kápa bókarinnar Philip Roth: The Biography eftir Blake Bailey · Lísa Hjalt


Það verður sannkallað Roth-vor á næsta ári því þá kemur í bókaverslanir Philip Roth: The Biography eftir Blake Bailey, gefin út af W. W. Norton & Co. Ég hef beðið eftir þessari opinberu ævisögu í nokkur ár, síðan ég sá Philip Roth Unleashed (2014), heimildarmynd í tveimur hlutum, í BBC-seríunni Imagine. Bailey var einn margra viðmælenda og ræddi ævisöguskrifin; Roth valdi hann sérstaklega til verksins og lét Bailey í hendur alla þá pappíra sem hann þurfti. Ég vissi ekki hvert ég ætlaði þegar ég sá bókarkápuna í sumar því þá vissi ég að biðin eftir bókinni væri að styttast.

Kápumynd: Bob Peterson, 1968

Philip Roth: The Biography
Höf. Blake Bailey
W. W. Norton & Company
Innbundin, 880 blaðsíður
Kaupa (bresk útg.)fimmtudagur, 17. desember 2020

Lestrarkompan: Mendelsohn og Gornick

Three Rings eftir Daniel Mendelsohn, úr lestrarkompunni · Lísa Hjalt


Ég er komin í jólafrí og þessa dagana fylgir mér vænn bunki af bókum. Ekki að ég þurfi að bera þær langar leiðir því hér í Austurríki er allt lokað vegna kófsins. Sumar voru á síðasta bókalista, sem ég á eftir að klára, aðrar eru nýjar sem munu rata á næstu tvo lista. Á mánudaginn barst í hús Three Rings: A Tale of Exile, Narrative, and Fate eftir Daniel Mendelsohn, sem er rithöfundur, gagnrýnandi og prófessor í klassískum fræðum. Bókin átti að fara undir tréð í ár, jólagjöf frá mér til mín, en ég gat ekki lagt hana frá mér þegar ég byrjaði að lesa hana í kaffipásu. Hún er stutt og inniheldur þrjár ritgerðir sem eru áhugaverð blanda af ævisögulegum skrifum, sögu og bókmenntarýni, sem tengjast höfundunum Erich Auerbach, François Fénelon og W. G. Sebald. Ef þið hafið gaman af bókum um bækur þá gæti þessi höfðað til ykkar.

Önnur bók í bunkanum er ritgerðasafn eftir Vivian Gornick, Approaching Eye Level. Mín fyrsta bók eftir hana og ekki sú síðasta. Hún rennur vel niður með kaffi og biscotti eins og ég spáði fyrir í síðustu bloggfærslu.
Vivian Gornick & kaffi; úr lestrarkompunni · Lísa Hjalt"


Í Lestrarkompunni hef ég fjallað um bækur af tilteknum bókalista en fann fyrir einhverju síðan að mig langaði að breyta til, að hafa hana tilviljanakenndari og í takt við líðandi stund. Mig vantaði líka færsluflokk til að halda til haga bókatengdum krækjum. Ég nefndi það einu sinni að það hefði aldrei verið hugmyndin að tjá mig um allar bækurnar á bókalistunum. Ég er vandlát á bækur og verð sjaldan fyrir vonbrigðum með þær sem rata á þá. Stundum þegar ég er mjög ánægð með bók þá langar mig bara að skrifa, Þetta er frábær bók, og ekkert meir. En það kallar varla á færslu; þá henta Instagram eða Twitter betur.
Bækur & kaffi; úr lestrarkompunni · Lísa Hjalt


Bókamerki & kompuskrif

Nýlega keypti ég:
  Suppose a Sentence eftir Brian Dillon
  The Rings of Saturn eftir W. G. Sebald

... bætti á óskalistann:
  The Krull House eftir Georges Simenon

... forgangsraðaði á langar-að-lesa listunum:
  skáldskapur: Oresteia: Agamemnon. Libation-Bearers. Eumenides eftir Æskílos
  almenn rit: Trieste eftir Jan Morris

Bókakæti:
  Þegar Margaret Busby, formaður dómnefndar Booker-verðlaunanna árið 2020, tilkynnti að skáldsagan Shuggie Bain hefði unnið og höfundur hennar Douglas Stuart þakkaði fyrir sig á tilfinningaríkan hátt. Ég rak upp gleðiöskur þegar hann vann þrátt fyrir að hafa ekki lesið þessa frumraun hans. Ég vonaði að hann myndi vinna en var hrædd um að það ynni gegn honum að vera hvítur karlmaður.

Hljóðvarpsþættir sem ég mæli með:
  Aftur að Shuggie Bain: Sam Leith, ritstjóri bókaumfjöllunar hjá The Spectator, talaði nýlega við höfundinn Douglas Stuart á hlaðvarpinu þeirra, The Book Club.
  Og hér talar Leith við Natalie Haynes um konur í grískri goðafræði.
  Í samræðum við Eleanor Wachtel hjá Writers & Company, talaði Martin Amis um bókmenntir, ástir og missi. Virkilega einlægur og hreinskilinn Amis.
  Ég kættist þegar ég sá að Stig Abell, fyrrum ritstjóri TLS, var kominn með með nýtt hlaðvarp sem kallast Stig Abell's Guide to Reading. (TLS-hlaðvarpið er ekki hið sama án hans.) Nýja hlaðvarpið tengist nýútgefnni bók hans, Things I Learned on the 6.28: A Guide to Daily Reading. Þessir tveir þættir eru mínir uppáhalds hingað til: Modern Literary Fiction með Kit de Waal og English Classics með Sam Leith, áðurnefndum ritstjóra.

myndir mínar, birtust á Instagram 14/12/20; 12/12/20; 23/11/20laugardagur, 3. október 2020

Approaching Eye Level · Vivian Gornick

Bókarkápa: Approaching Eye Level eftir Vivian Gornick (Daunt Books)


Ritgerðasafnið Approaching Eye Level eftir Vivian Gornick kom fyrst út árið 1996 en þessi tiltekna útgáfa er bresk, gefin út af Daunt Books í ágúst á þessu ári. Gornick er einn af þessum höfundum sem ég hef fylgst með lengi en aldrei lesið. Einn daginn hyggst ég bæta úr því og sé þegar fyrir mér vænan bunka af bókum hennar sem ratað hafa á óskalistann: Unfinished Business: Notes of a Chronic Re-Reader kom út í fyrra og fjallar um endurlestur bóka, ritgerðasafnið The End of the Novel of Love og tvær endurminningarnar, Fierce Attachments og The Odd Woman and the City. Latte, biscotti og Gornick ... það hlýtur að vera góð blanda.

Approaching Eye Level
Höf. Vivian Gornick
Daunt Books
Kiljubrot, 176 blaðsíður
Kaupalaugardagur, 29. ágúst 2020

№ 24 bókalisti: endurlestur klassískra bóka

№ 24 bókalistinn minn; klassísk verk endurlesin · Lísa Hjalt


Jæja, þá er haustönnin að byrja og best að deila þessum bókalista áður en verkefnaskil hefjast. Endurlestur klassískra verka einkennir listann en í byrjun sumars, þegar lítið var hægt að gera sökum heimsfaraldurs, fann ég löngun til að lesa ákveðnar bækur aftur. Ég er búin að lesa sjálfsævisögu Ednu O'Brien, Country Girl, og mæli með henni. Hún segir svo skemmtilega frá. Frásögnin kemst á flug þegar hún yfirgefur Írland og segir frá lífinu í London á 7. áratugnum; þegar hún ræðir bókmenntir og ritstörf. Ég átti oft erfitt með að leggja bókina frá mér.

№ 24 bókalisti:

1  Country Girl · Edna O'Brien
2  Lee Krasner: A Biography · Gail Levin
3  Museum Activism · ritstj. Robert R. Janes og Richard Sandell
4  The Varieties of Religious Experience · William James
5  One Hundred Years of Solitude · Gabriel García Márquez *
6  Crime and Punishment · Fyodor Dostoevsky * [hljóðbók]
7  War and Peace · Leo Tolstoy *
8  Sense and Sensibility · Jane Austen *
9  Sjálfstætt fólk · Halldór Kiljan Laxness * [RÚV]

* Endurlestur

Þessa dagana er Stríð og friður á náttborðinu. Ég skil ekki fólk sem kvartar yfir lengd bókarinnar, kaflarnir eru stuttir og mig langar alltaf að lesa „bara einn til viðbótar“. Tvímælalaust ein af mínum uppáhalds. Fyrir þennan endurlestur á Glæp og refsingu valdi ég hljóðbók, mína fyrstu. Ég virkilega naut þess að rifja upp þessa sögu með svona líka vönduðum upplestri. Þessi ánægjulega reynsla af hljóðbók varð til þess að ég hlustaði á Arnar Jónsson leikara lesa Sjálfstætt fólk eftir Nóbelsskáldið á vef RÚV og þá varð ekki aftur snúið. Laxness fór á listann.

Að öðru Nóbelsskáldi: Í sumar gaf elsta dóttirin mér í afmælisgjöf þessa fallegu innbundnu útgáfu af bók Márquez. Fyrir nokkrum árum ákvað ég að endurlesa verk hans Ástin á tímum kólerunnar og fékk strax góða tilfinningu. En eftir um 150 blaðsíður missti ég áhugann. Ég hafði greinilega breyst sem lesandi og sagan höfðaði ekki lengur til mín. Ég hafði smá áhyggjur af því að það yrði eins með Hundrað ára einsemd en svo var sem betur fer ekki.

Mig langar að minnast á bókina eftir William James (eldri bróðir Henrys). Ég vissi ekkert um hana fyrr en ég hlustaði á skemmtilegan þátt á bókahlaðvarpinu The Backlisted Podcast. John Williams hjá The New York Times Book Review var í spjalli hjá þeim um þessa bók, sem er röð fyrirlestra sem James hélt í Edinborgarháskóla árin 1901 og 1902. Þetta er áhugaverð bók, kannski eilítið þurr í byrjun sem lagast í þriðja kafla.

Ég vil þakka bókaútgáfunni Routledge fyrir safnafræðibókina á listanum, sem snýst um þá hugmynd að aðgerðastefna geti verið hluti af safnastarfi. Í bókinni eru 33 greinar eftir fleiri en 50 sérfræðinga á sviði safnafræðinnar. Ritstjórarnir tveir skrifa inngang en ég hef kynnst rannsóknum þeirra beggja í gegnum námið mitt; í einum kúrsi lásum við einmitt fræðigrein úr þessari tilteknu bók.

Museum Activism, gefin út af Routledge · Lísa Hjalt
Museum Activism, published by Routledge / Instagram

Þessa dagana nýt ég þess annars að fylgjast með Edinburgh International Book Festival. Þessi árlega, alþjóðlega bókmenntahátíð fer fram á netinu í ár sökum faraldursins og er öllum aðgengileg. Þvílík veisla fyrir bókaunnendur! Margar bækur hafa bæst á langar-að-lesa listann góða og ég er einkum spennt fyrir Shuggie Bain eftir hinn skoska Douglas Stuart. Þessi fyrsta skáldsaga hans komst á forvalslista Booker-verðlaunanna í ár. Það kemur í ljós um miðjan september hvort hún komist á lokalistann. Í upphafi hátíðarinnar spjallaði áðurnefndur John Williams við Stuart og aðra höfunda fyrir The New York Times Book Review og nú í vikunni var annar viðburður þar sem Stuart sat einn fyrir svörum. Virkilega einlægur rithöfundur sem gaman verður að fylgjast með í framtíðinni.fimmtudagur, 20. ágúst 2020

Strange Flowers - Donal Ryan

Kápumynd: Strange Flowers e. Donal Ryan (Doubleday)


Ég hef beðið í rúma tvo mánuði eftir því að deila þessari bókarkápu með ykkur sem mér finnst einstaklega falleg og haustleg, en það gera litatónarnir. Strange Flowers er nýjasta skáldsaga írska rithöfundarins Donal Ryans. Enginn bannaði mér að deila kápunni fyrr; það var bara ég sem vildi bíða eftir útgáfudeginum. Sagan byrjar árið 1973 þegar hin tvítuga Moll Gladney tekur strætó að morgni dags og hverfur. Eftir fimm ár snýr hún til baka, ekki einsömul, sem breytir lífi fjölskyldu hennar að eilífu. Ég hef einungis lesið eina bók eftir Ryan og ætla að bæta úr því í framtíðinni. Mér líkar ritstíll hans. Ég hef minnst á það áður að ég er hrifin af írskum rithöfundum.

Kápumynd: Owen Gent

Strange Flowers
Höf. Donal Ryan
Doubleday
Innbundin, 240 blaðsíður
Kaupaföstudagur, 19. júní 2020

№ 23 bókalisti: Dolphin-bréfin

Bókastafli: № 23 bókalistinn · Lísa Hjalt


Ég man ekki hvenær ég fyrst heyrði minnst á Elizabeth Hardwick – hlýtur að hafa verið í tengslum við ritgerðasafn hennar Seduction and Betrayal (1974) – en það var ekki fyrr en 2018 sem ég fyrst las verk eftir hana. Á síðasta ári var ég spennt fyrir útgáfu The Dolphin Letters, 1970-1979, safn bréfaskrifa á milli Hardwick og hennar fyrrverandi, ljóðskáldsins Robert Lowell (d. 1977), og vina þeirra. Til að gefa ykkur smá bakgrunn: Titillinn er vísun í ljóðasafn eftir Lowell sem færðu honum Pulitzer-verðlaunin árið 1974 í annað sinn. Það sem gerði safnið umdeilt var að Lowell notaði ekki einungis bréf Hardwick, skrifuð til hans í tilfinningalegu uppnámi, heldur breytti orðalaginu þannig að það félli að ljóðafrásögninni. Ég hélt að það tæki mig nokkrar vikur að lesa 500 blaðsíður af bréfaskrifum en gat ekki lagt bókina frá mér og kláraði hana á nokkrum dögum. Að lestri loknum var það eina í stöðunni að fara aftur á síðu 1 og byrja upp á nýtt. Í þetta sinn les ég eitt eða tvö bréf fyrir svefninn.

№ 23 bókalisti:

1  Sleepless Nights · Elizabeth Hardwick
2  The Dolphin Letters, 1970-1979: Elizabeth Hardwick, Robert Lowell,
Robert Lowell, and Their Circle · ritstj. Saskia Hamilton
3  How to Write an Autobiographical Novel · Alexander Chee
4  A Tale of Love and Darkness · Amos Oz
5  Mislæg gatnamót · Þórdís Gísladóttir
6  To Kill a Mockingbird · Harper Lee [endurlestur]
7  Museums as Cultures of Copies · ritstj. Brita Brenna, Hans Dam
Christensen og Olav Hamran

Ensk þýðing: 4) A Tale of Love and Darkness: Nicholas de Lange

Ég vil þakka bókaútgáfunni Routledge fyrir safnafræðibókina á listanum, sem inniheldur 17 kafla eftir sérfræðinga í fremstu röð á því sviði. Hún mun gera mér kleift að huga að námi mínu í sumar án verkefnaskila.

Aftur að The Dolphin Letters, 1970-1979: Ef þið þekkið forsöguna nú þegar og eruð forvitin að vita meira þá vil ég benda á upptöku af samræðum rithöfundarins og gagnrýnandans Hilton Als og Saskiu Hamilton, sem ritstýrði safninu og bætti við gagnlegum neðanmálsgreinum. Það sem gerði þennan atburð eftirminnilegri er upplestur leikkonunnar Kathleen Chalfant á þremur bréfum eftir Hardwick. Ég hef merkt við marga hluta í bókinni, einn þar sem Hardwick lýsir ákveðinni stemningu í bréfi til Lowell þann 13. janúar, 1976, þegar samband þeirra var aftur á vinalegum nótum:
... and strangely enough I do feel like writing just now and have fallen into a mood of reading books, thinking, idling about–all that puts one into the frame that makes writing possible and the life of literature beautiful and thrilling.
Á bókalistanum er líka Sleepless Nights (1979) eftir Hardwick, stutt skáldsaga, að hluta til sjálfsævisöguleg, sem ég hef einnig klárað. Ég held að ég hafi grætt á því að lesa hana eftir að hafa lesið persónuleg bréf hennar en í þeim fær lesandinn innsýn í það ritferli.

Vegna búsetu erlendis gerist það ekki oft að nýjar íslenskar bækur rati á bókalistana. En í vor barst pakki frá kærri vinkonu og í honum leyndist nýjasta ljóðabók Þórdísar Gísladóttur, Mislæg gatnamót. Bókin er gullmoli.
Bókastafli og kafli: № 23 bókalistinn · Lísa Hjalt
fimmtudagur, 11. júní 2020

James & Nora - Edna O'Brien

Bókarkápa: James & Nora: A Portrait of a Marriage, höf. Edna O'Brien (W&N)


Bókin James & Nora: A Portrait of a Marriage eftir írsku skáldkonuna Ednu O‘Brien kemur út í dag hjá forlaginu W&N. Bókin er endurútgáfa á stuttri sögu, sem kom fyrst út í Bandaríkjunum árið 1981, þar sem O‘Brien færir hjónaband írska rithöfundarins James Joyce og Noru Barnacle í skáldsögulegan búning. Tímasetning útgáfunnar er engin tilviljun, rétt fyrir Blooms-daginn þann 16. júní, sem margir aðdáendur Joyce fagna og er kenndur við sögupersónuna Leopold Bloom í verki hans Ulysses, sem gerist á þeim degi árið 1904.

Kápumynd: Nora Barnacle and James Joyce eftir listamanninn John Nolan

Edna O‘Brien hlaut hin virtu David Cohen verðlaun árið 2019, sem veitt eru breskum eða írskum rithöfundum fyrir æviframlag sitt á bókmenntasviðinu. Hennar fyrsta skáldsaga, The Country Girls, kom út árið 1960. Bókin olli hneykslan á Írlandi og var bæði bönnuð og brennd. O‘Brien hefur skrifað fjölmargar skáldsögur, smásögur, leikrit, ljóð, almenn rit og æviminningarnar sínar, Country Girl. Það kom mér á óvart að lesa að einungis tvær bækur eftir hana hafa komið út í íslenskri þýðingu: fyrsta skáldsagan, Sveitastúlkurnar, og ein barnabók.

James & Nora: A Portrait of a Marriage
Höf. Edna O'Brien
Weidenfeld & Nicolson
Kiljubrot, 80 blaðsíður
Kaupaþriðjudagur, 9. júní 2020

Lestrarkompan: Beauvoir & Kafka

Bókarkápur, úr lestrarkompunni · Lísa Hjalt


Ég vildi lauma inn einni lestrarkompufærslu áður en ég deili fleiri bókarkápum á blogginu. Bókarkápufærslurnar eru freistandi því ég þarf ekki að munda myndavélina og þær eru margar kápurnar sem mig langar að halda til haga. Bókaunnendur þurfa ekki að óttast það að kórónuveirufaraldur komi í veg fyrir útgáfu bóka. Því miður hef ég ekki aðgang að íslenskum bókum hér í Austurríki en er spennt fyrir Gamlar konur detta út um glugga eftir rússneska höfundinn Danííl Kharms, sem Bókaútgáfan Dimma gaf út nýverið. Ég hlustaði á umfjöllun um hana í Víðsjá og hló mikið.

Lestrarkompan, № 14 bókalisti, 2 af 7:

· Letters to Friends, Family & Editors eftir Franz Kafka. Þetta er fyrsta bréfasafnið eftir Kafka sem ég les og eignast. Ég var ekkert að flýta mér að klára bókina og fannst best að komast aðeins inn í hana til að fá tilfinningu fyrir tóninum og lesa svo eitt og eitt bréf fyrir svefninn. Bréfin sýna lesandanum ólíkar hliðar á Kafka, frá námsárum hans í Prag í upphafi 20. aldar þar til berklar drógu hann til dauða á heilsuhæli í grennd við Vínarborg árið 1924. Í bréfum til vina er hann að sjálfsögðu persónulegri, einkum til Max Brod sem safnaði bréfunum saman eftir andlát hans, og það er í gegnum þau sem við sjáum heilsu hans hraka. Formlegri tónn einkennir bréfin til ritstjóranna þar sem hann ræðir handrit sín og jafnvel bókahönnun og letrugerð fyrir útgáfu. Kannski höfða þau bréf frekar til fræðimanna.

Konurnar í lífi hans, Felice Bauer, Milena Jesenská-Polak, Julie Wohryzek og Dora Dymant, eru á síðunum en bréfin til þeirra Felice og Milenu eru fáanleg í sér útgáfum: Letters to Felice (ég deildi nýlega bókarkápunni) og Letters to Milena. Eina atriðið sem truflaði mig við lesturinn tengist uppsetningu bókarinnar: Athugasemdir birtast aftast í stað þess að vera í neðanmálsgreinum, sem er þægilegra fyrir lesandann. Þetta var einkum þreytandi þegar ég las mikið í einu því þá fannst mér ég stöðugt vera að fletta þeim upp. [Schocken; ensk þýð.: Richard og Clara Winston]

· The Prime of Life eftir Simone de Beauvoir – sjálfsævisaga, 2. bindi. Það er töluvert síðan ég las þessa, sem fjallar um líf Beauvoir frá 1929 til 1944, og hef aðeins verið að glugga í hana aftur, einkum til að renna yfir þá hluta sem ég merkti við á spássíu. Ég var hrifnari af þessu bindi heldur en því fyrsta en verð þó að segja að í fyrstu köflunum fannst mér hún full upptekin af smáatriðum. Mér leiddist stundum lesturinn þegar mér fannst sem hún nafngreindi og lýsti hverri einustu manneskju sem varð á vegi hennar, en það breyttist þegar leið á frásögnina og nær dró heimsstyrjöldinni.

Á þremur blaðsíðum (319-321) sem spanna tímabilið frá 1937 til 1938 er stríð í aðsigi og ástandið hefur augljóslega áhrif á sálarlífið:
Indeed, I now passed through one of the most depressing periods of my whole life. I refused to admit that war was even possible, let alone imminent. But it was no use my playing the ostrich; the growing perils all around crushed me beneath their weight.

If the Spanish tragedy dismayed us, events in Germany scared us stiff. In September, at Nuremberg, before an audience of 300,000 Nazis and something like a million visitors, Hitler delivered his most aggressive speech yet.

For my own part I was still trying to delude myself, and refusing to face the facts. But the future had begun to open up under my very feet, and produced in me a sick feeling akin to real anguish. No doubt that is why I retain only a misty recollection of this entire year. Nor can I remember anything of outstanding interest in my private life.
Bókarkápa eftir Matisse: Notað eintak af The Prime of Life eftir Simone de Beauvoir - sjálfsævisaga, 2. bindi · Lísa Hjalt


Þegar Þjóðverjar ráðast inn í Pólland 1. september 1939 breytist frásögnin í dagbók sem lýkur 14. júlí 1940. Þann 14. september fór hún t.d. í bíó og las Portrait of a Lady eftir Henry James fyrir svefninn. Hún skrifar ekki daglega og tekur smá hlé frá skrifum eftir fall Parísar, 14. júní 1940. Þrátt fyrir stríð er enginn skortur á umræðu um bókmenntir og heimspeki, og þess ber að geta að bókina tileinkar hún Jean-Paul Sartre, sálufélaganum. Það var virkilega áhugavert að lesa um lífið í Frakklandi, um París stríðsáranna; um ferðir á Café de Flore, kaffihúsið á horni Boulevard Saint-Germain og Rue Saint-Benoît, en þar voru hún og Sartre fastagestir („It was our own special resort. We felt at home there; it sheltered us from the outside world.“). Í þessu bindi fær lesandinn að fylgjast með fæðingu rithöfundarins en árið 1943 kom út fyrsta skáldsaga Beauvoir, She Came to Stay (L’Invitée á frummálinu). Á stríðsárunum var hún einnig að skrifa önnur verk, heimspekilegu ritgerðina Pyrrhus et Cinéas og skáldsögurnar The Blood of Others (Le Sang des autres) og All Men Are Mortal (Tous les hommes sont mortels). [Penguin; ensk þýð.: Peter Green]

Mig langar benda áhugasömum á að eitt og annað sem fram kemur í bréfum Beauvoir, sem birt voru síðar, stangast á við frásögnina í sjálfsævisögunni. Nokkur orð að lokum um eintakið mitt sem mér þykir ákaflega vænt um. Það var keypt notað, útgefið 1976, og er núna svo úr sér gengið að það er farið að detta í sundur. Kápuna prýðir eitt af bláu klippuverkum listamannsins Matisse, Blue Nude with Flowing Hair, 1952.

myndir mínar, birtust á Instagram 08/03/2018 og 11/07/2017föstudagur, 15. maí 2020

Virginia Woolf: HMH-útgáfur

Bókarkápa: Mrs Dalloway eftir Virginia Woolf (Houghton Mifflin Harcourt)


Mrs Dalloway said she would buy the flowers herself. 

Þekkið þið þessa fyrstu setningu í Mrs Dalloway, klassíku skáldsögunni eftir Virginiu Woolf? Bókin var fyrst gefin út 14. maí 1925 af Hogarth Press, sem hún og eiginmaðurinn hennar Leonard Woolf settu á fót. Systir hennar, listakonan Vanessa Bell, hannaði bókarkápuna. Næsta bloggfærslan mín átti að vera úr lestrarkompunni en ég get ekki hætt að hugsa um þessar sex gömlu kiljuútgáfur frá HMH Books sem ég sá á Instagram í gær - á Mrs Dalloway deginum. Hér höfum við kápurnar af Mrs Dalloway, Three Guineas og Orlando, sem ég bætti strax á óskalistann. Ef þær bara væru innbundnar.
Bókarkápa: Three Guineas eftir Virginia Woolf (Houghton Mifflin Harcourt)
Bókarkápa: Orlando eftir Virginia Woolf (Houghton Mifflin Harcourt)


Mrs Dalloway; Three Guineas; Orlando
Höf. Virginia Woolf
Houghton Mifflin Harcourt
Kiljubrot: 224; 192; 352 blaðsíður
Sjá úrval bóka eftir Woolf hérföstudagur, 8. maí 2020

Letters to Felice eftir Franz Kafka

Bókarkápa Letters to Felice eftir Franz Kafka, hönnuð af Peter Mendelsund


The Schocken Kafka Library er safn þrettán bóka eftir Franz Kafka (f. 1883) sem inniheldur skáldskap hans, bréfaskrif og dagbækur. Safnið er gefið út í nokkuð stóru kiljubroti sem er afskaplega smekklega hannað, þar sem leturgerð titlanna hefur verið aðlöguð með læsilegri rithönd Kafka. Eins og er á ég bara eina bók úr safninu, bréfin sem hann skrifaði til vina, fjölskyldu og ritstjóra, en hef bætt mörgum á óskalistann. Letters to Felice (2016) geymir rúm 500 bréf sem hann skrifaði til kærustu sinnar Felice, sem hann trúlofaðist tvisvar en giftist aldrei. Þau kynntust í ágúst 1912 heima hjá Max Brod, besta vini Kafka, og samband þeirra einkenndist af bréfaskrifum þar sem hann bjó í Prag en hún í Berlín. Brod á annars heiðurinn af því að við höfum aðgang að skrifum Kafka í dag. Kafka bað hann um að brenna allt óútgefið efni eftir dauðadag sinn en Brod neitaði. Berklar drógu Kafka til dauða þann 3. júní 1924 þegar hann var á 41. aldursári. Kafka er grafinn í Nýja kirkjugarði gyðinga í Prag.

Bókahönnun: Peter Mendelsund

Letters to Felice
Höf. Franz Kafka
Ritstjórar: Erich Heller og Jürgen Born
Þýðendur: James Stern og Elisabeth Duckworth
Schocken Books
Kiljubrot, 624 blaðsíður
Kaupa