Sýnir færslur með efnisorðinu ævisögur. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu ævisögur. Sýna allar færslur

mánudagur, 26. september 2022

№ 32 bókalisti: Woolf, Hardwick & nýjar bækur

№ 32 bókalisti: Kápan af The Element of Lavishness, bréf Sylviu Townsend Warner og Williams Maxwell, 1938-1978 · Lísa Stefan


Hér er bókalistinn sem ég lofaði nýverið. Ég hefði kannski átt að tvinna saman tvo lista því ég er byrjuð að lesa bækur sem verða á þeim næsta. Ég get svo játað að nú þegar horfi ég löngunaraugum á bækur sem munu rata á þarnæsta. Ein þeirra er bréfasafn Leonards Woolf. Já, ég er að tala um eiginmann Virginiu, en það er honum að þakka að við höfum aðgang að persónulegu efni hennar, bréfum, dagbókum o.fl. Ég hef gaman af lestri bréfa, einkum þeim sem tengjast bókmenntum. Bréfasafn rithöfundanna Warner og Maxwells á nýja listanum, bókin á myndinni hér að ofan, er gullmoli. Hvert bréf er vel skrifað og sú gagnkvæma virðing sem einkenndi vináttu þeirra skín í gegn.

№ 32 bókalisti:

1  The Years · Virginia Woolf
2  Virginia Woolf · Hermione Lee
3  A Room of One's Own · Virginia Woolf [endurlestur]
4  The Uncollected Essays of Elizabeth Hardwick · ritstj. Alex Andriesse
5  A Splendid Intelligence: The Life of Elizabeth Hardwick  · Cathy Curtis
6  De Profundis and Other Prison Writings · Oscar Wilde
7  The Element of Lavishness: Letters of Sylvia Townsend Warner and
William Maxwell 1938-1978  · ritstj. Michael Steinman

Á listanum er ævisaga Hermione Lee um Virginiu Woolf sem ég er að klára og mæli með fyrir Woolf-aðdáendur. Því miður get ég ekki mælt með skáldsögu Woolf, The Years. Nánar um þau vonbrigði síðar, kannski. Þeir sem lesa bloggið vita að Elizabeth Hardwick er í miklu uppáhaldi og á listanum finnið þið nýtt safn ritgerða og einu bókina um ævi hennar sem gefin hefur verið út. Og þá að öðrum lista, óskalistanum mínum.

Kápa bókarinnar Memoirs, sjálfsævisöguskrif Roberts Lowell
Kápa bókarinnar Come Back in September eftir Darryl Pinckney

Sjálfsævisöguleg skrif ljóðskáldsins Roberts Lowell komu út í ágúst (t.v.); Elizabeth Hardwick
prýðir kápu nýrrar bókar eftir Darryl Pinckney (t.h.)

Óskalistinn lengist stöðugt og mig langar að nefna tvær nýjar viðbætur á honum. Í október kemur út bókin Come Back in September eftir Darryl Pinckney. Hún fjallar um vináttu hans við Hardwick og ritstjórann Barböru Epstein. Báðar tóku þátt í því að koma bókmenntaritinu The New York Review of Books á laggirnar, þær voru bestu vinkonur og nágrannar á 67. stræti í New York. Hin, Memoirs, kom út í ágúst og er safn sjálfsævisögulegra skrifa eftir ljóðskáldið Robert Lowell (fyrrverandi eiginmaður Hardwick). Gagnrýnendur hafa lofað bókina.

Kaffiborðið mitt og bækur sem verða á næsta bókalista · Lísa Stefan
Nikkað til næsta bókalista



þriðjudagur, 26. apríl 2022

№ 31 bókalisti: bréfaskrif Bishop & Lowell

Á № 31 bókalistanum mínum: bréfaskrif þeirra Bishop og Lowell · Lísa Stefan


Það var afbragðshugmynd að setja Swann's Way á síðasta bókalista (№ 30). Ég er enn að lesa Proust og botna ekkert í mér að hafa ekki lesið hann fyrr. Ríkur prósinn kallar á hæga yfirferð og því finnst mér best að lesa 8-10 síður í einu, einkum í kyrrð og ró að morgni. Daginn byrja ég á lestri; vakna eldsnemma með syninum sem þarf að þvera Linz og úthverfi með sporvagni til að fara í skólann. Þegar hann leggur af stað - flest fólk er þá enn sofandi - sest ég niður með fyrsta kaffibolla dagsins, ristað brauð og bækur. Þessa dagana byrja ég á nokkrum bréfum sem ljóðskáldin Elizabeth Bishop og Robert Lowell sendu sín á milli áður en ég sný mér að Proust og öðrum höfundum. Þessari rútínu lýkur svo með þýska skáldverkinu sem ég er að lesa þá stundina.

№ 31 bókalisti:

1  Words in Air: The Complete Correspondence Between Elizabeth Bishop
and Robert Lowell  · ritstj. Thomas Travisano & Saskia Hamilton
2  Upstream: Selected Essays  · Mary Oliver
3  Speak, Memory  · Vladimir Nabokov
4  Personal History  · Katharine Graham
5  Ein ganzes Leben  · Robert Seethaler [þýsk]

Ég er enn að lesa Der Untergeher (plebbinn á ísl., № 30), mína þriðju bók eftir hinn austurríska Thomas Bernhard. Hann er einstaklega hnyttinn sögumaður. Mig langar að lesa allt eftir hann sem ég kemst yfir á frummálinu. Ég held að verk hans hafi ekki verið gefin út á Íslandi en skáldsögur hans og leikrit eru til í enskri þýðingu. Ég hef aldrei lesið neitt eftir landa hans Robert Seethaler og nú er kominn tími á Ein ganzes Leben sem ég keypti í fyrrasumar. Mannsævi heitir hún í íslenskri þýðingu og kom út fyrir nokkrum árum.

Kirstuberjatré í blóma, Antwerpen, vor 2011 · Lísa Stefan
Kirsuberjatré í blóma, Antwerpen 2011

Fyrir svefninn undanfarið hef ég verið að lesa Personal History, ævisögu Katharinu Graham heitinnar, útgefanda The Washington Post. Bókin hlaut Pulitzer-verðlaunin árið 1998. Ég byrjaði á henni fyrir töluvert löngu síðan en hinkraði með það að setja hana á bókalista þar til núna. Ég vissi að hún skrifaði marga kafla um fjölskyldu sína og uppvaxtarár (sá hluti ævisagna sem mér leiðist hvað mest) og því vildi ég gefa mér tíma til að komast í gegnum þá. Þegar frásögn hennar komst loks á flug var stundum erfitt að leggja bókina frá sér.
Á № 31 bókalistanum: sjálfsævisaga Vladimirs Nabokov · Lísa Stefan




miðvikudagur, 14. apríl 2021

Lestrarkompan: Simone de Beauvoir

Kápan af Force of Circumstance eftir Simone de Beauvoir, 3. bindi sjálfsævisögu hennar · Lísa Stefan


Ég er hálfnuð með Force of Circumstance, 3. bindið af sjálfsævisögu Simone de Beauvoir (№ 26). Hugmyndin var að klára það áður en ég deili nýjum bókalista. Lífshlaup Beauvoir er áhugavert en þetta bindi er ekki gallalaust: Stundum er hún of upptekin við að gera upp málin og oft er það sem Jean-Paul Sartre sé aðalpersónan. Augljóslega var líf þeirra samfléttað en ég hef áhuga á sögu hennar, á skrifum hennar, ekki fléttu í leikritum Sartre eða innihaldi pólitískra greina hans í Les Temps Modernes. Talandi um stjórnmál. Bókin er full af þeim, stundum á þeim mörkum að verða leiðinleg eða þreytandi. Fer eftir skapi mínu. Á jákvæðum nótum þá ferðast Beauvoir um heiminn og hefur skarpt auga fyrir fólki og landslagi. Þær frásagnir, bækur hennar og viðtökur þeirra gerir bindið lestursins virði, hingað til.

Bókamerki & kompuskrif

Nýlega keypti ég:
  Philip Roth: The Biography eftir Blake Bailey
  The Radetzky March eftir Joseph Roth

... bætti á óskalistann:
  A Splendid Intelligence: The Life of Elizabeth Hardwick eftir Cathy Curtis

... bætti á langar-að-lesa listann:
  Hannah Arendt eftir Samantha Rose Hill
  This Little Art eftir Kate Briggs
  Endpapers: A Family Story of Books, War, Escape and Home eftir Alexander Wolff

... langar að lesa aftur:
  The Master and Margarita eftir Mikhail Bulgakov

Bókakæti:
  Nýlega var forvalslisti Alþjóðlegu Booker-verðlaunanna árið 2021 kynntur, en á honum eru höfundar og þýðendur 13 bóka sem eru gefnar út í Bretlandi eða Írlandi. Ég hef enga þeirra lesið en var glöð að sjá þeirra á meðal In Memory of Memory eftir rússnesku skáldkonuna Mariu Stepanova. Þýðandi hennar er Sasha Dugdale. Það vill svo til að í nýlegri bloggfærslu deildi ég amerísku bókarkápunni. Síðar í apríl kemur í ljós hvaða bækur komast á lokalistann og í júní hver hlýtur verðlaunin.

Hlaðvarpsþáttur sem ég mæli með:
  Þar síðasti þátturinn á Backlisted-hlaðvarpinu var frábær. Til umfjöllunar var Halldór Laxness og skáldsaga hans Brekkukotsannáll (enska þýðingin The Fish Can Sing) sem kom út 1957, tveimur árum eftir að hann hlaut Nóbelsverðlaunin. Gestur þáttarins í þetta sinn var breski rithöfundurinn og ljóðskáldið Derek Owusu. Fyrir þá sem hafa áhuga á má hlusta á Laxness sjálfan lesa skáldsöguna á RÚV.



föstudagur, 5. mars 2021

Fierce Poise: Helen Frankenthaler and 1950s New York · Alexander Nemerov

Kápa ævisögunnar Fierce Poise: Helen Frankenthaler and 1950s New York eftir Alexander Nemerov (Penguin)


Síðar í mars sendir Penguin frá sér bókina Fierce Poise: Helen Frankenthaler and 1950s New York eftir listfræðinginn Alexander Nemerov. Þetta er ævisaga í styttri kantinum um afmarkað tímabil í lífi listakonunnar. Áhugafólk um abstrakt expressjónisma gæti kannast við kápumyndina, sem tekin var fyrir tímaritið Life og sýnir Frankenthaler sitjandi á máluðum striga í vinnustofu sinni á West End Avenue í New York. Frankenthaler, sem á 6. áratugnum skapaði sér nafn í amerískum listheimi eftirstríðsáranna, var ein merkasta listakona Bandaríkjanna á 20. öld og hafði mikil áhrif á samtímalist.

Það vill svo til að ég er enn að lesa Ninth Street Women (sjá № 25 bókalista) sem fjallar um feril Frankenthaler og stallsystra hennar Lee Krasner, Elaine de Kooning, Grace Hartigan og Joan Mitchell. Höfundur þeirrar bókar, Mary Gabriel, lætur hafa eftir sér jákvæð orð um þessa nýju bók Nemerovs og segir að ljóðrænar lýsingar hans megi lesa „eins og málverk eftir Helen“.

Kápumynd: Gordon Parks, 1957

Fierce Poise: Helen Frankenthaler and 1950s New York
Höf. Alexander Nemerov
Innbundin, 288 blaðsíður
ISBN: 9780525560203
Penguin Press



þriðjudagur, 9. júní 2020

Lestrarkompan: Beauvoir & Kafka

Bókarkápur, úr lestrarkompunni · Lísa Stefan


Ég vildi lauma inn einni lestrarkompufærslu áður en ég deili fleiri bókarkápum á blogginu. Bókarkápufærslurnar eru freistandi því ég þarf ekki að munda myndavélina og þær eru margar kápurnar sem mig langar að halda til haga. Bókaunnendur þurfa ekki að óttast það að kórónuveirufaraldur komi í veg fyrir útgáfu bóka. Því miður hef ég ekki aðgang að íslenskum bókum hér í Austurríki en er spennt fyrir Gamlar konur detta út um glugga eftir rússneska höfundinn Danííl Kharms, sem Bókaútgáfan Dimma gaf út nýverið. Ég hlustaði á umfjöllun um hana í Víðsjá og hló mikið.

Lestrarkompan, № 14 bókalisti, 2 af 7:

Letters to Friends, Family & Editors eftir Franz Kafka
(Schocken; ensk þýðing: Richard og Clara Winston)

Þetta er fyrsta bréfasafnið eftir Kafka sem ég les og eignast. Ég var ekkert að flýta mér að klára bókina og fannst best að komast aðeins inn í hana til að fá tilfinningu fyrir tóninum og lesa svo eitt og eitt bréf fyrir svefninn. Bréfin sýna lesandanum ólíkar hliðar á Kafka, frá námsárum hans í Prag í upphafi 20. aldar þar til berklar drógu hann til dauða á heilsuhæli í grennd við Vínarborg árið 1924. Í bréfum til vina er hann að sjálfsögðu persónulegri, einkum til Max Brod sem safnaði bréfunum saman eftir andlát hans, og það er í gegnum þau sem við sjáum heilsu hans hraka. Formlegri tónn einkennir bréfin til ritstjóranna þar sem hann ræðir handrit sín og jafnvel bókahönnun og letrugerð fyrir útgáfu. Kannski höfða þau bréf frekar til fræðimanna.

Konurnar í lífi hans, Felice Bauer, Milena Jesenská-Polak, Julie Wohryzek og Dora Dymant, eru á síðunum en bréfin til þeirra Felice og Milenu eru fáanleg í sér útgáfum: Letters to Felice (ég deildi nýlega bókarkápunni) og Letters to Milena. Eina atriðið sem truflaði mig við lesturinn tengist uppsetningu bókarinnar: Athugasemdir birtast aftast í stað þess að vera í neðanmálsgreinum, sem er þægilegra fyrir lesandann. Þetta var einkum þreytandi þegar ég las mikið í einu því þá fannst mér ég stöðugt vera að fletta þeim upp.

The Prime of Life eftir Simone de Beauvoir – sjálfsævisaga, 2. bindi
(Penguin; ensk þýðing: Peter Green)

Það er töluvert síðan ég las þessa, sem fjallar um líf Beauvoir frá 1929 til 1944, og hef aðeins verið að glugga í hana aftur, einkum til að renna yfir þá hluta sem ég merkti við á spássíu. Ég var hrifnari af þessu bindi heldur en því fyrsta en verð þó að segja að í fyrstu köflunum fannst mér hún full upptekin af smáatriðum. Mér leiddist stundum lesturinn þegar mér fannst sem hún nafngreindi og lýsti hverri einustu manneskju sem varð á vegi hennar, en það breyttist þegar leið á frásögnina og nær dró heimsstyrjöldinni.

Á þremur blaðsíðum (319-321) sem spanna tímabilið frá 1937 til 1938 er stríð í aðsigi og ástandið hefur augljóslega áhrif á sálarlífið:
Indeed, I now passed through one of the most depressing periods of my whole life. I refused to admit that war was even possible, let alone imminent. But it was no use my playing the ostrich; the growing perils all around crushed me beneath their weight.

If the Spanish tragedy dismayed us, events in Germany scared us stiff. In September, at Nuremberg, before an audience of 300,000 Nazis and something like a million visitors, Hitler delivered his most aggressive speech yet.

For my own part I was still trying to delude myself, and refusing to face the facts. But the future had begun to open up under my very feet, and produced in me a sick feeling akin to real anguish. No doubt that is why I retain only a misty recollection of this entire year. Nor can I remember anything of outstanding interest in my private life.
Bókarkápa eftir Matisse: Notað eintak af The Prime of Life eftir Simone de Beauvoir - sjálfsævisaga, 2. bindi · Lísa Stefan


Þegar Þjóðverjar ráðast inn í Pólland 1. september 1939 breytist frásögnin í dagbók sem lýkur 14. júlí 1940. Þann 14. september fór hún t.d. í bíó og las Portrait of a Lady eftir Henry James fyrir svefninn. Hún skrifar ekki daglega og tekur smá hlé frá skrifum eftir fall Parísar, 14. júní 1940. Þrátt fyrir stríð er enginn skortur á umræðu um bókmenntir og heimspeki, og þess ber að geta að bókina tileinkar hún Jean-Paul Sartre, sálufélaganum. Það var virkilega áhugavert að lesa um lífið í Frakklandi, um París stríðsáranna; um ferðir á Café de Flore, kaffihúsið á horni Boulevard Saint-Germain og Rue Saint-Benoît, en þar voru hún og Sartre fastagestir („It was our own special resort. We felt at home there; it sheltered us from the outside world.“). Í þessu bindi fær lesandinn að fylgjast með fæðingu rithöfundarins en árið 1943 kom út fyrsta skáldsaga Beauvoir, She Came to Stay (L’Invitée á frummálinu). Á stríðsárunum var hún einnig að skrifa önnur verk, heimspekilegu ritgerðina Pyrrhus et Cinéas og skáldsögurnar The Blood of Others (Le Sang des autres) og All Men Are Mortal (Tous les hommes sont mortels).

Mig langar benda áhugasömum á að eitt og annað sem fram kemur í bréfum Beauvoir, sem birt voru síðar, stangast á við frásögnina í sjálfsævisögunni. Nokkur orð að lokum um eintakið mitt sem mér þykir ákaflega vænt um. Það var keypt notað, útgefið 1976, og er núna svo úr sér gengið að það er farið að detta í sundur. Kápuna prýðir eitt af bláu klippuverkum listamannsins Matisse, Blue Nude with Flowing Hair, 1952.



föstudagur, 6. desember 2019

Life with Picasso · Françoise Gilot

Bókahönnun: Life with Picasso eftir Françoise Gilot og Carlton Lake (NYRB)


Þessari skólaönn er lokið og ég er komin í jólafrí. Í morgun horfði ég á tvo þætti af Kiljunni, las fyrstu síðurnar í Year of the Monkey, nýju bókinni hennar Patti Smith, og hlustaði á nokkur bókahlaðvörp sem ég hef ekki haft tíma fyrir síðan um miðjan október. Á næstu vikum ætla ég að njóta svona daga til fullnustu.

Þegar ég skráði mig inn síðast hafði ég hugmyndir um hvernig ég ætti að halda blogginu lifandi á meðan ég væri í námi, til dæmis með nýjum flokki um fallegar bókarkápur, en ekkert gerðist. Þetta er kápan sem ég vildi deila fyrst, ný útgáfa æviminninganna Life with Picasso (1964) eftir Françoise Gilot og Carlton Lake sem var gefin út í sumar af New York Review Books.

Kápumynd: Françoise Gilot, Self-Portrait, 1953
Bókahönnun: Katy Homans

Listaverk: Françoise Gilot, So Far, So Near, 2016, olía á striga (The Elkon Gallery)
Françoise Gilot, So Far, So Near, 2016

Árið 1943 var Gilot rétt rúmlega tvítug þegar hún kynntist Picasso, þá 61 árs. Þau giftust aldrei en samband þeirra entist í tíu ár og þau eignuðust tvö börn. Bókin verður á næsta bókalista, sem ég ætlaði að vera búin að birta, og ég mæli með henni fyrir alla sem hafa áhuga á list. Hlutar bókarinnar sem innihalda samræður hennar og Picasso um listsköpun eru unaður að lesa.

Life with Picasso
Höf. Françoise Gilot and Carlton Lake
Kiljubrot, 384 blaðsíður, myndskreytt
ISBN: 9781681373195
New York Review Books

Life with Picasso eftir Françoise Gilot (NYRB) · Lísa Stefan


Françoise Gilot listaverk af vefsíðu The Elkon Gallery