Sýnir færslur með efnisorðinu elizabeth hardwick. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu elizabeth hardwick. Sýna allar færslur

mánudagur, 26. september 2022

№ 32 bókalisti: Woolf, Hardwick & nýjar bækur

№ 32 bókalisti: Kápan af The Element of Lavishness, bréf Sylviu Townsend Warner og Williams Maxwell, 1938-1978 · Lísa Stefan


Hér er bókalistinn sem ég lofaði nýverið. Ég hefði kannski átt að tvinna saman tvo lista því ég er byrjuð að lesa bækur sem verða á þeim næsta. Ég get svo játað að nú þegar horfi ég löngunaraugum á bækur sem munu rata á þarnæsta. Ein þeirra er bréfasafn Leonards Woolf. Já, ég er að tala um eiginmann Virginiu, en það er honum að þakka að við höfum aðgang að persónulegu efni hennar, bréfum, dagbókum o.fl. Ég hef gaman af lestri bréfa, einkum þeim sem tengjast bókmenntum. Bréfasafn rithöfundanna Warner og Maxwells á nýja listanum, bókin á myndinni hér að ofan, er gullmoli. Hvert bréf er vel skrifað og sú gagnkvæma virðing sem einkenndi vináttu þeirra skín í gegn.

№ 32 bókalisti:

1  The Years · Virginia Woolf
2  Virginia Woolf · Hermione Lee
3  A Room of One's Own · Virginia Woolf [endurlestur]
4  The Uncollected Essays of Elizabeth Hardwick · ritstj. Alex Andriesse
5  A Splendid Intelligence: The Life of Elizabeth Hardwick  · Cathy Curtis
6  De Profundis and Other Prison Writings · Oscar Wilde
7  The Element of Lavishness: Letters of Sylvia Townsend Warner and
William Maxwell 1938-1978  · ritstj. Michael Steinman

Á listanum er ævisaga Hermione Lee um Virginiu Woolf sem ég er að klára og mæli með fyrir Woolf-aðdáendur. Því miður get ég ekki mælt með skáldsögu Woolf, The Years. Nánar um þau vonbrigði síðar, kannski. Þeir sem lesa bloggið vita að Elizabeth Hardwick er í miklu uppáhaldi og á listanum finnið þið nýtt safn ritgerða og einu bókina um ævi hennar sem gefin hefur verið út. Og þá að öðrum lista, óskalistanum mínum.

Kápa bókarinnar Memoirs, sjálfsævisöguskrif Roberts Lowell
Kápa bókarinnar Come Back in September eftir Darryl Pinckney

Sjálfsævisöguleg skrif ljóðskáldsins Roberts Lowell komu út í ágúst (t.v.); Elizabeth Hardwick
prýðir kápu nýrrar bókar eftir Darryl Pinckney (t.h.)

Óskalistinn lengist stöðugt og mig langar að nefna tvær nýjar viðbætur á honum. Í október kemur út bókin Come Back in September eftir Darryl Pinckney. Hún fjallar um vináttu hans við Hardwick og ritstjórann Barböru Epstein. Báðar tóku þátt í því að koma bókmenntaritinu The New York Review of Books á laggirnar, þær voru bestu vinkonur og nágrannar á 67. stræti í New York. Hin, Memoirs, kom út í ágúst og er safn sjálfsævisögulegra skrifa eftir ljóðskáldið Robert Lowell (fyrrverandi eiginmaður Hardwick). Gagnrýnendur hafa lofað bókina.

Kaffiborðið mitt og bækur sem verða á næsta bókalista · Lísa Stefan
Nikkað til næsta bókalista



þriðjudagur, 5. janúar 2021

№ 25 bókalisti: kvennalistinn

№ 25 bókalisti: stafli af bókum eftir konur eingöngu · Lísa Stefan


Gleðilegt ár! Ég vil byrja árið með nýjum bókalista, sönnum kvennalista. Eins og þið líklega vitið þá er Elizabeth Hardwick í miklu uppáhaldi en ritgerðasafnið Seduction and Betrayal fjallar um kvenkyns rithöfunda og konur í bókmenntum. Svo skemmtilega vill til að Joan Didion, sem á bók á listanum, skrifar innganginn að þessu safni og í því er ritgerð um Bloomsbury-hópinn og Virginu Woolf, sem er einnig á listanum.

№ 25 bókalisti:

1  Seduction and Betrayal  · Elizabeth Hardwick
2  Ninth Street Women  · Mary Gabriel
3  Approaching Eye Level  · Vivian Gornick
4  Intimations: Six Essays  · Zadie Smith
5  On Beauty  · Zadie Smith
6  The Waves  · Virginia Woolf [endurlestur]
7  Slouching Towards Bethlehem  · Joan Didion [endurlestur]

Ég verð að játa að listinn hefur verið það lengi í drögum á blogginu að ég hef þegar lesið fimm af bókunum sjö. Ég er ekki komin langt í bók Mary Gabriel - lipur titill í fullri lengd er Ninth Street Women: Lee Krasner, Elaine de Kooning, Grace Hartigan, Joan Mitchell, and Helen Frankenthaler: Five Painters and the Movement That Changed Modern Art - en get þegar mælt með henni. Ævisaga Lee Krasner eftir Gail Levin var á síðasta bókalista, № 24. Ég get einnig mælt með henni en ef ég ætti að gera upp á milli þessara tveggja þá veldi ég Ninth Street Women. Þrátt fyrir að Gabriel fjalli ekki um uppvaxtarár listakvennanna fimm þá finnst mér bók hennar skemmtilegri aflestrar. Hönnunin bókarinnar er vandaðri og myndir af listaverkum í lit. Levin vann augljóslega heimavinnuna sína um ævi Krasner en textinn verður stundum full akademískur fyrir minn smekk og flæðir þá illa. Í mínu eintaki, kilja frá William Morrow, virkar pappírinn ódýr og í því eru bara svarthvítar myndir af verkum Krasner.

Málverk eftir Lee Krasner, The Seasons, 1957, Pollock-Krasner Foundation / Whitney Museum of American Art
Lee Krasner, The Seasons, 1957

Lee Krasner listaverk, Pollock-Krasner Foundation / Whitney Museum of American Art af vefsíðu Haus der Kunst



föstudagur, 19. júní 2020

№ 23 bókalisti: Dolphin-bréfin

Bókastafli: № 23 bókalistinn · Lísa Stefan


Ég man ekki hvenær ég fyrst heyrði minnst á Elizabeth Hardwick – hlýtur að hafa verið í tengslum við ritgerðasafn hennar Seduction and Betrayal (1974) – en það var ekki fyrr en 2018 sem ég fyrst las verk eftir hana. Á síðasta ári var ég spennt fyrir útgáfu The Dolphin Letters, 1970-1979, safn bréfaskrifa á milli Hardwick og hennar fyrrverandi, ljóðskáldsins Robert Lowell (d. 1977), og vina þeirra. Til að gefa ykkur smá bakgrunn: Titillinn er vísun í ljóðasafn eftir Lowell sem færðu honum Pulitzer-verðlaunin árið 1974 í annað sinn. Það sem gerði safnið umdeilt var að Lowell notaði ekki einungis bréf Hardwick, skrifuð til hans í tilfinningalegu uppnámi, heldur breytti orðalaginu þannig að það félli að ljóðafrásögninni. Ég hélt að það tæki mig nokkrar vikur að lesa 500 blaðsíður af bréfaskrifum en gat ekki lagt bókina frá mér og kláraði hana á nokkrum dögum. Að lestri loknum var það eina í stöðunni að fara aftur á síðu 1 og byrja upp á nýtt. Í þetta sinn les ég eitt eða tvö bréf fyrir svefninn.

№ 23 bókalisti:

1  Sleepless Nights · Elizabeth Hardwick
2  The Dolphin Letters, 1970-1979: Elizabeth Hardwick, Robert Lowell,
Robert Lowell, and Their Circle · ritstj. Saskia Hamilton
3  How to Write an Autobiographical Novel · Alexander Chee
4  A Tale of Love and Darkness · Amos Oz
5  Mislæg gatnamót · Þórdís Gísladóttir
6  To Kill a Mockingbird · Harper Lee [endurlestur]
7  Museums as Cultures of Copies · ritstj. Brita Brenna, Hans Dam
Christensen og Olav Hamran

Ensk þýðing: 4) A Tale of Love and Darkness: Nicholas de Lange

Ég vil þakka bókaútgáfunni Routledge fyrir safnafræðibókina á listanum, sem inniheldur 17 kafla eftir sérfræðinga í fremstu röð á því sviði. Hún mun gera mér kleift að huga að námi mínu í sumar án verkefnaskila.

Aftur að The Dolphin Letters, 1970-1979: Ef þið þekkið forsöguna nú þegar og eruð forvitin að vita meira þá vil ég benda á upptöku af samræðum rithöfundarins og gagnrýnandans Hilton Als og Saskiu Hamilton, sem ritstýrði safninu og bætti við gagnlegum neðanmálsgreinum. Það sem gerði þennan atburð eftirminnilegri er upplestur leikkonunnar Kathleen Chalfant á þremur bréfum eftir Hardwick. Ég hef merkt við marga hluta í bókinni, einn þar sem Hardwick lýsir ákveðinni stemningu í bréfi til Lowell þann 13. janúar, 1976, þegar samband þeirra var aftur á vinalegum nótum:
... and strangely enough I do feel like writing just now and have fallen into a mood of reading books, thinking, idling about–all that puts one into the frame that makes writing possible and the life of literature beautiful and thrilling.
Á bókalistanum er líka Sleepless Nights (1979) eftir Hardwick, stutt skáldsaga, að hluta til sjálfsævisöguleg, sem ég hef einnig klárað. Ég held að ég hafi grætt á því að lesa hana eftir að hafa lesið persónuleg bréf hennar en í þeim fær lesandinn innsýn í það ritferli.

Vegna búsetu erlendis gerist það ekki oft að nýjar íslenskar bækur rati á bókalistana. En í vor barst pakki frá kærri vinkonu og í honum leyndist nýjasta ljóðabók Þórdísar Gísladóttur, Mislæg gatnamót. Bókin er gullmoli.
Bókastafli og kafli: № 23 bókalistinn · Lísa Stefan




laugardagur, 14. desember 2019

Sleepless Nights · Elizabeth Hardwick

Sleepless Nights eftir Elizabeth Hardwick (Faber) · Lísa Hjalt


Ég kolféll fyrir Elizabeth Hardwick við lestur ritgerðasafns sem gefið var út 2017. Ég hafði þegar sett Sleepless Nights (1979) á langar-að-lesa listann þegar forlagið Faber & Faber sendi frá sér þessa nýju útgáfu síðasta sumar. Henni er lýst svona: „a kaleidoscopic scrapbook of one woman’s memories; a collage of fiction and memoir, letters and essays, portraits and dreams, and one of the greatest New York novels of all time.“

Kápumynd: © Daido Moriyama Photo Foundation
Bókahönnun: Faber

Á sama tíma kom út hjá Faber ritgerðasafnið Seduction and Betrayal (1974), sem ég ætla að birta á bókalista síðar. Önnur bók sem hefur ratað á óskalistann minn er nýútkomið bréfasafn, í BNA, The Dolphin Letters, 1970-1979: Elizabeth Hardwick, Robert Lowell, and Their Circle (FSG, ritstj. Saskia Hamilton).

Sleepless Nights
Höf. Elizabeth Hardwick
Kiljubrot, 144 blaðsíður
ISBN: 9780571346998
Faber & Faber



mánudagur, 1. október 2018

№ 16 bókalisti | Black History Month (UK)

№ 16 bókalisti · Lísa Stefan


Bókasöfn eru hamingjustaðurinn minn. Eða svo hélt ég. Í síðustu viku var ég á safninu með minnisbók, þá sem ég nota fyrir bókatitla sem mig langar að lesa. Eins og þið getið ímyndað ykkur var ég eins og lítill krakki á leið í Disneyland. Ég gekk upp þrepin og inn á hæð hugvísinda (þetta er háskólabókasafn, það er stórt) þar sem ég í sæluvímu gekk á milli hárra bókarekka. Skoðaði bækur, snerti bækur. Fjarlægði bækur af bókalistanum sem ég hafði þegar í huga til að skapa pláss fyrir þær sem kröfðust þess að vera á honum. Setti bækur aftur á listann, kannski til þess eins að taka þær af honum aftur stuttu síðar. Bara eðlileg bókasafnshegðun.

En svo gerðist eitthvað, eitthvað sem ég var ekki búin undir: ég upplifði augnabliks hræðslukast. Í nokkrar sekúndur, þar sem ég stóð við fyrstu hillurekkana með bandarískum skáldskap, gerði ég mér skyndilega grein fyrir því hversu margar bækur voru þarna á hæðinni, í öllum þessum hillum: Í þessu lífi kæmist ég aldrei yfir það að lesa allar bækurnar á langar-að-lesa listanum því hann verður alltaf lengri. Ég get ekki verið eini bókaunnandinn sem hefur upplifað þennan ótta. Getur ekki verið. Það er eins gott að það sé líf á eftir þessu, þar sem okkar bíður bókasafn með öllum ólesnu bókunum sem okkur langar að lesa. Það er eins gott.

№ 16 bókalisti:
1  Blue Nights  · Joan Didion
2  Go Tell It on the Mountain  · James Baldwin
3  Sing, Unburied, Sing  · Jesmyn Ward
4  The Human Stain  · Philip Roth
5  Stet  · Diana Athill
6  Train Dreams  · Denis Johnson
7  The Bookshop  · Penelope Fitzgerald
8  Do Not Say We Have Nothing  · Madeleine Thien
9  The Collected Essays of Elizabeth Hardwick  · ritstj. D. Pinckney


Á laugardaginn - kannski hafið þið þegar séð það á Instagram - las ég æviminningar Didion, Blue Nights, í einum rykk. Hún skrifaði bókina eftir andlát dóttur sinnar, Quintana, sem var aðeins 39 þegar hún lést. (Hún skrifaði The Year of Magical Thinking eftir andlát eiginmannsins, rithöfundarins John Gregory Dunne). Mér líkaði Blue Nights. Þetta er ekki sorgarsaga sem kallar á bréfþurrku við lesturinn. Stíll Didion er ekki ofurhlaðinn tilfinningum. Hún er bara að reyna að ná utan um þetta allt. Að reyna að finna svör við spurningum sem ekki er hægt að svara.

Okótber er Black History Month í Bretlandi, mánuður tileinkaður sögu blökkumanna (febrúar í BNA). Ég sýni stuðning minn með tveimur skáldsögum á listanum, eftir James Baldwin og Jesmyn Ward. Hún hlaut verðlaunin National Book Awards 2017 fyrir Sing, Unburied, Sing. Það var í annað sinn sem hún hlaut þau, árið 2011 fyrir skáldsögu sína Salvage the Bones.