föstudagur, 24. ágúst 2018

Travels in a Dervish Cloak e. Isambard Wilkinson

Ritdómur: Travels in a Dervish Cloak eftir Isambard Wilkinson · Lísa Hjalt


Má ég freista ykkar með grípandi bókarkápu og frábæru innihaldi? Travels in a Dervish Cloak eftir Isambard Wilkinson fjallar um ævintýraleg og hættuleg ferðalög hans í Pakistan á þeim tíma sem hann skrifaði fréttir fyrir The Daily Telegraph um Stríðið gegn hryðjuverkum. Wilkinson er frábær penni, hnyttinn og eftirtektarsamur, laus við þann sjálfhverfa stíl sem stundum einkennir ferðafrásagnir. Hann fer með lesandann um allt Pakistan, land sem hann skilur og þykir vænt um án þess að vera blindur gagnvart vandamálum þess („the mysterious world that I was so eager to capture before it disappeared“). Eftir stendur glögg frásögn höfundar um framandi menningu þess. Þetta var uppáhaldsbókin mín árið 2017. Hún er nú fáanleg í kiljubroti og ég hvet alla sem áhuga hafa á ferðaskrifum að næla sér í eintak.

Í bókinni sýnir Wilkinson okkur breidd pakistanskt þjóðfélags; fólk við hversdagslega iðju, heilaga menn, stríðsherra, þrjóta og aðrar furðuverur í landi sem er að breytast hratt. Nálgun hans er fræðandi, tilgerðarlaus og skemmtileg. Hér heimsækir hann gamalt virki í grennd við ættbálkasvæði:
Sitting in the courtyard, I could almost feel the modern age clamouring at its walls, wanting to bash down its gates and slay its lord, who I imagined would have gone without a murmur, accepting his fate as the natural order of things.
Hann er trúr viðfangsefni sínu og dæmir ekki hart. Athugasemdir hans um fólk og staði hljóma sannar. Í textanum eru tilvísanir í bókmenntir og ein kallaði fram hlátur: hann hittir herskáan stríðsmann sem neitar að „go gentle into that good night“. Aldrei grunaði mig að ég ætti eftir að tengja ljóðskáldið Dylan Thomas við stríðsmann í Baluchistan-héraði! Sá hinn sami lifir að vísu ekki af. Stundum er bókin líkari skáldsögu; ég fletti síðunum af miklum ákafa, allt að því haldandi niðri í mér andanum. Á einhverjum punkti þurfti ég að minna sjálfa mig á að það væri engin bók ef höfundurinn hefði ekki sloppið lifandi. Þetta er bók fyrir þá sem vilja sjá aðra hlið á Pakistan heldur en þá sem endurspeglast í Hollywood-framleiðslum. Þetta er alvöru stöff.

Ritdómur: Travels in a Dervish Cloak eftir Isambard Wilkinson · Lísa Hjalt
Úr bókinni: Kennari og nemendur hans í Kasmír, 2005 eftir Chev Wilkinson

Ef þið fylgist með heimsfréttum ættuð þið að vita að ný ríkisstjórn er tekin við í Pakistan, undir forystu Imran Khan sem virðist ætla að gera umbætur. (Ef við lítum á núverandi valdhafa Hvíta hússins þá held ég að fyrrum krikketspilari sem forsætisráðherra sé ekki versti kostur þjóðar.) Ég man enn eftir þeirri sjokkerandi frétt í desember 2007 þegar Benzir Bhutto var ráðin af dögum á kosningafundi í Rawalpindi. Mér fannst það alltaf lofa góðu að kona hefði verið forsætisráðherra íslamsks ríkis, og það tvisvar. Tveimur mánuðum áður var Wilkinson nálægt hryllingnum í Karachi þegar hún slapp lifandi frá sprengjuárás, en á Írlandi þegar örlög hennar réðust. Hann hafði verið rekinn úr landi fyrir ritstjórnargrein sem var þáverandi forseta, Pervez Musharraf, ekki að skapi. Í janúar þar á eftir var honum leyft að snúa til baka. Á flugvellinum beið skelfilegi bílstjórinn hans með „forljót appelsínugul blóm“.

Bílstjórinn Allah Ditta er einn af mörgum litríkum persónum í bókinni. Nafn hans merkir „Gjöf frá Guði“ og ég get bara sagt að Guð hlýtur að hafa furðulega kímnigáfu. Kokkurinn hans Basil er engu betri. Þessum tveimur kemur ekki saman og afleiðingin er kostulegur ófriður á heimili Wilkinson. Mín uppáhaldspersóna er bróðir hans Chev:
'You can't hang about here like a mixture of a wannabe Lord Byron and Lord Fauntleroy waiting for the next cup of tea or bout of diarrhoea. Pick a spot on the map and let's be off,' he said. ... His presence was reassuring. He's always stuck by me, whatever my failings. He doesn't mind sharing a bed with me, as long as there's a pillow between us lest I grow amorous in my sleep. And he's good at pointing out if I have food round my mouth before I interview people.
Chev, sem er ljósmyndari, er hinn upplagði ferðafélagi. Mikilvægara er að Wilkinson neyðist til að yfirgefa Pakistan vegna nýrnabilunar og þá fáum við að vita að það var Chev sem bjargaði lífi hans: Hann gaf honum nýra.

Ég vildi geta sagt ykkur að önnur ferðasaga væri væntanleg frá Wilkinson en hann hefur farið í tvær nýrnaskiptaaðgerðir og því ólíklegt að hann hætti sér til varhugaverðra staða. Ég virkilega naut þeirrar ríku frásagnargáfu sem finnst í Travels in a Dervish Cloak, bók sem er full af kímni og kryddum. Hún var tilnefnd til verðlauna sem kallast Stanford Dolman Travel Book of the Year Award. Ef þið dæmið bók af kápunni þá get ég lofað að þessi skilar sínu.


Travels in a Dervish Cloak
Eftir Isambard Wilkinson
Eland
Innbundin, 256 blaðsíður, myndskreytt
Kaupa innbundna | Kiljubrot


myndir mínar | mynd úr bókinni eftir Chev Wilkinson | myndskreyting kápu: Dorry SpikesEngin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.