miðvikudagur, 21. júní 2017

Sumar 2017: nýjar bækur

sumar 2017 nýjar bækur · Lisa Hjalt


Lengsti dagur ársins er runninn upp og á vesturströnd Skotlands eru ský á lofti og létt rigning af og til. Hið fullkomna veður til að minnast á nýjar bækur, ekki satt, og að finna angan bóndarósanna á skrifborðinu mínu. Ég pantaði tvo titla á listanum á bókasafninu og vona að ég geti bætt þeim á næsta bókalista:

· The Ministry of Utmost Happiness eftir Arundhati Roy (Hamish Hamilton). Loksins, eftir tuttugu ár, ný skáldsaga frá Roy! Bók hennar The God of Small Things, sem hlaut Man Booker verðlaunin árið 1997, er ein af eftirminnilegustu bókum sem ég hef lesið.
· Theft by Finding: Diaries: Volume One eftir David Sedaris (Little, Brown). Nýverið var hann gestur á hlaðvarpi The NYT Book Review, þar sem hann talaði um og las upp úr dagbókinni, og ég var í hláturkasti í eldhúsinu. Hann er óborganlegur.
· House of Names eftir Colm Tóibín (Viking). Höfundur sem ég hef enn ekki lesið. Á langar-að-lesa listanum mínum er skáldsaga hans Brooklyn, sem mig langaði að lesa áður en ég sá kvikmyndina (2015), sem skartar Saoirse Ronan í aðalhlutverki. Gat ekki beðið og er svo glöð að ég lét undan. Myndin er svo falleg; ég get horft á hana aftur og aftur.
· The Unwomanly Face of War eftir Svetlana Alexievich (Penguin). Hún hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 2015. Biðin hefur verið löng eftir enskri þýðingu á þessu klassíska verki með reynslusögum sovéskra kvenna í síðari heimsstyrjöldinni. Kemur út í júlí.
· Friend of My Youth eftir Amit Chaudhuri (Faber). Fjallar um mann, sem heitir einmitt Amit Chaudhuri, sem snýr aftur á æskuslóðirnar, til borgarinnar Bombay. Kemur út í ágúst.laugardagur, 17. júní 2017

The Tale of Genji í þýðingu Seidensticker | 17. júní

The Tale of Genji í þýðingu Seidensticker · Lísa Hjalt


„In a certain reign there was a lady not of the first rank whom the emperor loved more than any of the others.“ Svo hefst The Tale of Genji sem japanska hirðdaman Murasaki Shikibu ritaði í upphafi 11. aldar (Heian-tímabilið). Tvær þýðingar á verkinu var að finna á № 9 bókalistanum mínum, þeim með japönskum bókmenntum eingöngu - ég átti eftir að ákveða hvora ég kæmi til með að lesa. Ég var svo heppin að eignast ólesið, notað eintak af þýðingu Edward G. Seidensticker, sem Everyman's Library gaf út. Það er ekki einu sinni búið að draga út borðann eða áfasta bókamerkið.

Ég hef næstum því klárað að lesa öll verkin á bókalistanum þannig að ég deili líklega öðrum fljótlega. Mér líkar að lesa nokkrar bækur í einu og þar sem The Tale of Genji er 1184 blaðsíður finnst mér líklegt að ég lesi fyrstu 250 síðurnar og eftir það einn til tvo kafla daglega meðfram öðrum bókum þar til ég klára. Svo má vel vera að ég sökkvi mér alveg ofan í bókina.


Að lokum óska ég ykkur gleðilegrar þjóðhátíðar. Á vesturströnd Skotlands er sólríkur sumardagur og við hjónin fögnum 19 ára brúðkaupsafmæli.fimmtudagur, 1. júní 2017

№ 9 bókalisti: japanskar bókmenntir IHugmyndin að japönskum bókalista kviknaði fyrir mörgum mánuðum síðan og þegar ég byrjaði að skrifa höfunda og titla í vasabókina sá ég strax að listarnir yrðu fleiri en einn. Þrátt fyrir að orðið snjór komi fyrir í einum titlinum hér að neðan fannst mér tilvalið að fara inn í sumarið lesandi japanskar bókmenntir. Þessi fyrsti listi er eilítið styttri en hann átti að vera, einfaldlega vegna þess að ein bók sem ég pantaði hefur enn ekki borist og á síðustu stundu ákvað ég að hafa ekki á honum tvö verk eftir sama höfund. Það þýðir að skáldsaga eftir Yasunari Kawabata, sem hlaut Nóbelsverðlaunin árið 1968, færist yfir á næsta. Þeir sem fylgjast með blogginu ættu að kannast við Tanizaki, en verk hans The Makioka Sisters var á einum lista. Það gladdi mig þegar einn blogglesandi sagðist hafa ákveðið að lesa bókina og notið lestursins rétt eins og ég.

№ 9 bókalisti:
1  First Snow on Fuji  eftir Yasunari Kawabata
2  The Temple of the Golden Pavilion  eftir Yukio Mishima
3  Some Prefer Nettles  eftir Jun'ichirō Tanizaki
4  The Tale of Genji  eftir Murasaki Shikibu *
5  The Tale of Genji  eftir Murasaki Shikibu **
6  My Neighbor Totoro: The Novel  eftir Tsugiko Kubo ***

Ensk þýðing eftir: * Edward G. Seidensticker; ** Dennis Washburn
*** Myndskreyting eftir Hayao Miyazaki

Eins og sjá má eru á listanum tvær óstyttar útgáfur af The Tale of Genji og ég hef enn ekki ákveðið hvora ég ætla að lesa. Sú sem Washburn þýddi er ný útgáfa í kiljubroti frá W. W Norton & Co, hin er innbundin frá Everyman's Library. Ég er að reyna að panta þessa í þýðingu Seidensticker í gegnum bókasafnið, sem er ástæða þess að ég hef frestað birtingu listans. Ef ég næ ekki að redda henni þá þarf ég bara að ákveða hvora ég kaupi. Kannski hafið þið tekið eftir því á Instagram að ég er byrjuð að lesa The Temple of the Golden Pavilion eftir Mishima. Hann setti í skáldsöguform söguna um munkinn sem árið 1950 kveikti í Gullna hofinu í Kyoto, sem var reist á 15. öld (Bandaríkjamenn vörpuðu ekki sprengjum á hofin í stríðinu). Þessi atburður var sjokkerandi. Fyrir dómi sagðist ungi munkurinn hafa verið að mótmæla markaðssetningu búddisma. Fræðimaðurinn Donald Keene skrifar aftur á móti í inngangi bókarinnar: „[H]e may have been directly inspired by nothing more significant than pique over having been given a worn garment when he had asked the Surperior of the temple for an overcoat“! (Hann á sem sagt að hafa beðið um nýja yfirhöfn og móðgast þegar hann fékk notaða!) Ég er meira en hálfnuð með bókina og Gullna hofið sem stendur enn er byrjað að trufla hugarró aðalsöguhetjunnar, sem ég myndi lýsa sem frekar fráhrindandi einstaklingi.


Hafið þið séð teiknimyndina My Neighbour Totoro (1988) eftir Hayao Miyazaki? Hún er ein af japönsku myndunum í uppáhaldi á okkar bæ. Í fyrra sat ég með syni mínum á bókakaffinu í Waterstones hér í bænum þegar hann spottaði bókina í hillu. Við höfðum ekki hugmynd um tilvist bókarinnar. Kom þá í ljós að skáldsaga var gerð eftir kvikmyndinni með myndskreytingum Miyazaki. Bókin er svo falleg og við nældum okkur að sjálfsögðu í eintak. Sonurinn hafði virkilega gaman af lestrinum og nú er röðin komin að mér.