Sýnir færslur með efnisorðinu smásögur. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu smásögur. Sýna allar færslur

þriðjudagur, 11. júní 2019

№ 21 bókalisti: ritgerðir eftir Zambra

№ 21 bókalisti: Alejandro Zambra, Grace Paley, Virginia Woolf, Anna Burns · Lísa Stefan


Jæja, það er kominn tími á fyrsta bókalista sumarsins. Samkvæmt hefð er eitt ritgerðasafn á honum, Not to Read eftir chileska rithöfundinn Alejandro Zambra (No Leer á spænsku). Í þeirri fyrstu viðurkennir hann að hafa sem krakki horft á Madame Bovary (1949) fyrir próf í stað þess að klára að lesa bókina. Til hliðar við rautt F skrifaði kennarinn hans: „Vincente Minnelli!!“ Þessar stuttu ritgerðir eru konfekt fyrir bókaunnendur. Ég ætlaði að hafa á listanum skáldsögu sem ég var byrjuð að lesa, The Friend eftir Sigrid Nunez sem hlaut verðlaunin National Book Awards fyrir bókmenntir árið 2018, sem veitt eru í BNA. Mér fannst hún áhugaverð, einkum vegna bókmenntalegra tilvísana (sögumaðurinn er rithöfundur), en svo fór mér að leiðast ritstíllinn og ég kláraði hana ekki. Það er heilsusamlegt að endurlesa eitthvað gott eftir lestur sem veldur vonbrigðum; ég valdi Mávinn eftir rússneska leikskáldið Anton Chekhov.

№ 21 bókalisti:
1  Not to Read  · Alejandro Zambra
2  The Collected Stories of Grace Paley 
3  Milkman  · Anna Burns
4  Disgrace  · J. M. Coetzee
5  The Voyage Out  · Virginia Woolf
6  Journal of Katherine Mansfield  · ritstj. John Middleton Murry
7  The Seagull  · Anton Chekhov

Enskar þýðingar: 1) Not to Read: Megan McDowell; 7) The Seagull: Laurence Senelick

Þið sem fylgist með blogginu vitið að Virginia Woolf er í miklu uppáhaldi. Háskólabókasafnið í Bremen á gömul bindi af öllum verkum hennar frá Hogarth Press, útgáfunni sem hún og maðurinn hennar Leonard settu á fót. Þessar innbundnu útgáfur eru fagurgrænar að lit og fyrst fékk ég The Voyage Out, hennar fyrstu skáldsögu, að láni bara til að fletta henni. Bókin er ekki mín uppáhalds eftir Woolf en ég stóðst ekki freistinguna og ákvað að endurlesa hana.
№ 21 bókalisti: Alejandro Zambra, Grace Paley, Virginia Woolf, Anna Burns · Lísa Stefan


Ég viðurkenni að stundum sakna ég gömlu bloggvenja minna, þegar ég safnaði myndum af innlitum í möppur og gat ekki beðið eftir að deila þeim. Þið kunnið að hafa tekið eftir að stundum nota ég myndir af málverkum í bloggfærslur, en núna ákvað ég að sýna ykkur tvö rými á heimili listakonunnar Sarah Graham í Chelsea, London, sem birtist í tímaritinu House & Garden UK. Þessi listrænu horn - þar sem kaffiborðinu bregður fyrir og bókahillunni við gluggann - höfða til áhugakonunnar um innanhússhönnun innra með mér. Fágað og smekklegt.

Heimili listakonunnar Sarah Graham í Chelsea. House & Garden UK · Greg Funnell | Lestur & Latte
Heimili listakonunnar Sarah Graham í Chelsea. House & Garden UK · Greg Funnell | Lestur & Latte

Heimili listakonunnar Sarah Graham í Chelsea, London.
House & Garden UK/Greg Funnell



miðvikudagur, 9. janúar 2019

№ 18 bókalisti: japanskar bókmenntir II

№ 18 bókalisti: japanskar bókmenntir II · Lísa Stefan


Nýtt ár, nýr japanskur bókalisti, loksins. Ég veit að nokkrir hafa beðið eftir þessum. Ég var með listann niðurnegldan en þurfti að gera smá breytingar því tvær bækur sem mig langaði að lesa núna voru ófáanlegar í enskri þýðingu á bókasafninu; þær verða bara á þeim þriðja. The Pillow Book eftir Sei Shonagon er, líkt og The Tale of Genji sem var á þeim fyrsta, klassískt rit eftir japanska hirðdömu skrifað um árið 1000, á Heian-tímabilinu í sögu Japans. Ég veit af enskri þýðingu eftir Ivan Morris frá árinu 1967 en ég er að lesa nýrri eftir Meredith McKinney, gefin út af Penguin Classics.

№ 18 bókalisti:
1  The Pillow Book  · Sei Shonagon
2  No Longer Human  · Osamu Dazai
3  Scandal  · Shusaku Endo
4  The Old Capital  · Yasunari Kawabata
5  Quicksand  · Junichiro Tanizaki
6  Death in Midsummer and Other Stories  · Yukio Mishima
7  Lost Japan  · Alex Kerr

Enskar þýðingar (í þessari röð): 1) Meredith McKinney; 2) Donald Keene; 3) Van C. Gessel;
4) J. Martin Holman; 5) Howard Hibbett; 6) Edward G. Seidensticker, Ivan Morris o.fl.;
7) Alex Kerr og Bodhi Fishman.

Titill bloggfærslunnar segir japanskar bókmenntir en í þetta sinn varð ég að bæta einu almennu riti á listann, Lost Japan eftir Alex Kerr, sem hann skrifaði upprunalega á japönsku. Þið kunnið að hafa séð hana nú þegar á Instagram hjá mér. Bókin var jólagjöf frá minni elstu, sem gaf mér einnig Orientalism eftir Edward W. Said. Vel valið hjá henni, ekki satt? Flestar bækurnar á bókalistanum eru fljótlesnar - ég er þegar að verða búin með þrjár þeirra - þannig að ég geri fastlega ráð fyrir að deila öðrum lista í byrjun febrúar. Gleðilegt og gæfuríkt ár!



föstudagur, 16. nóvember 2018

№ 17 bókalisti: rithöfundatryggð

№ 17 bókalisti: rithöfundatryggð · Lísa Stefan


Árið 1971 skrifaði Joan Didion ritgerð um Doris Lessing sem byrjaði á orðunum: „To read a great deal of Doris Lessing over a short span of time is to feel that the original hound of heaven has commandeered the attic. She holds the mind's other guests in ardent contempt“ (The White Album, bls. 119). Áhugavert. Ég hef orð hennar í huga þegar ég les Martha Quest, fyrstu bókina af fimm í Children of Violence seríunni. Þessi bókalisti er að nokkru leyti byggður á rithöfundatryggð: skáldsögurnar The Grass Is Singing og The Golden Notebook eftir Lessing voru á lista № 7 og á síðasta voru bækur eftir Didion, Johnson og Baldwin.

№ 17 bókalisti:
1  Martha Quest  eftir Doris Lessing
2  Two Lives  eftir William Trevor
3  Housekeeping  eftir Marilynne Robinson
4  Where I Was From  eftir Joan Didion *
5  Play It as It Lays  eftir Joan Didion
6  The Uncommon Reader  eftir Alan Bennett
7  Jesus' Son  eftir Denis Johnson
8  Nobody Knows My Name  eftir James Baldwin
9  Will You Please Be Quiet, Please?  eftir Raymond Carver **

* Úr We Tell Ourselves Stories in Order to Live, útg. Everyman's Library.
** Úr Collected Stories, útg. The Library of America.

Í fyrsta sinn er ég að lesa verk eftir þá William Trevor og Raymond Carver, og Play It as It Lays er fyrsta skáldsagan eftir Didion sem ég les. Á næsta bókalista verða japanskar bókmenntir eingöngu. Ég lofaði öðrum slíkum lista fyrir löngu og ætla að uppfylla það loforð sem fyrst.



föstudagur, 17. ágúst 2018

Lestrarkompan 2017: Modiano, DeLillo, Bedford ...

Lestrarkompan mín: Modiano, DeLillo, Bedford ... · Lísa Stefan


Hvað eruð þið að lesa þessa dagana? Ég er að lesa The Hare with Amber Eyes eftir Edmund de Waal af síðasta bókalista og þegar farin að hlakka til að deila þeim næsta. Ég var sko að kaupa bækur og á vefsíðu bóksafnsins fann ég margar sem mig hefur langað að lesa, til dæmis bókina The Bookshop eftir Penelope Fitzgerald. Ég efast um að kvikmyndin hafi farið fram hjá bókaunnendum. Ég er alltaf jafn spennt fyrir því að sjá heim bókmenntanna birtast á hvíta tjaldinu og dauðlangar að sjá Glenn Close og Jonathan Pryce í The Wife, byggð á samnefndri skáldsögu eftir Meg Wolitzer. En nóg í bili um bókmenntalegar kvikmyndir, við skulum halda áfram með Lestrarkompufærslur ársins 2017.

Lestrarkompan, № 10 bókalisti, 7 af 9:

The Ballad of the Sad Café eftir Carson McCullers
Það eru fínar sögur í þessu safni en að mínu mati er það titilsagan sem stendur upp úr: Loftið í þessari nóvellu er svo þykkt að það má næstum snerta það, snerta spennuna sem er í uppsiglingu. Þessi tilvísun segir allt: „This was not a fight to hash over and talk about afterwards; people went home and pulled the covers up over their heads.“ Aðalpersónan, fröken Amelia Evans, verður varanlega greipt í minnið.

Patrick Modiano: Tvær bækur eftir franska höfundinn og Nóbelsverðlaunahafann voru á listanum, Pedigree (ensk þýð. Mark Polizzotti) og In the Café of Lost Youth (þýð. Euan Cameron)
Sú fyrri er persónuleg saga höfundar, um foreldra hans. Ég nótaði ekki hjá mér neinar tilvísanir, en skrifaði að yfir bókinni hvíldi dapurleiki. Sú síðari fór rakleiðis með mig á götur Parísar. Skrif Modiano finnst mér meira snúast um stemningu heldur en söguþráð. Að lesa hann er oft eins og að horfa á kvikmynd; honum tekst að gera ákveðnar persónur ljóslifandi á síðunni án þess að eyða um þær mörgum orðum. Næst ætla ég að lesa The Occupation Trilogy.

Invisible Cities eftir Italo Calvino
Þessi stutta skáldsaga er ein af þeim sem höfðar ekki til allra. Hún greip mig ekki á fyrstu síðu en því meira sem ég las því meira heillaðist ég af prósanum. Bókin samanstendur af samræðum á milli Marco Polo og mongólska keisarans Kublai Khan. Polo er að lýsa fyrir honum borgunum sem hann hefur heimsótt þegar hann er í raun alltaf að lýsa sömu borginni, Feneyjum. (Ensk þýð. William Weaver.)

Stoner eftir John Williams
Þessi fannst mér virkilega góð. Varð heilluð af William Stoner en þoldi ekki konuna hans, persónu sem ýtti á alla mína takka. Stoner er fátækur bóndastrákur frá Missouri sem fer í háskóla og uppgötvar bókmenntir. Þær senur eru fegurð bókarinnar, unaður fyrir alla bókaorma. En líf Stoner er fullt af vonbrigðum, svo miklum að það næstum dregur lesandann niður. Gæti verið ástæðan fyrir því að bókin seldist ekki vel, sem er einmitt viðfangsefni þessarar áhugaverðu greinar sem birtist í The New Yorker.

Point Omega eftir Don DeLillo
Þessi stutta skáldsaga fór beint á listann yfir uppáhaldsbækurnar mínar árið 2017. Skrifin heilluðu mig; áferð textans. Sagan gerist aðallega í eyðimörkinni í Kaliforníu og verður að eins konar spennusögu þegar ein sögupersónan hverfur. Einn daginn ætla ég að kaupa mér eintak og lesa bókina aftur.

Jigsaw: An Unsentimental Education eftir Sybille Bedford
Það er ekki auðvelt að skrifa í fáum orðum um þessa skáldsögu sem að hluta til er sjálfsævisöguleg. Ef þið lesið hana finnst mér líklegt að hún festist í minninu. Bedford ólst upp í Þýskalandi hjá föður sínum og hjá móður sinni á Ítalíu eftir andlát hans. Hún menntaði sig í Englandi og upp úr 1920 ferðaðist hún á milli Englands og Suður-Frakklands (móðir hennar og stjúpi höfðu flutt þangað til að flýja uppgang fasismans). Þrátt fyrir að vera gallagripur og algjörlega óáreiðanleg er móðir hennar heillandi karakter með mikinn áhuga á bókmenntum („I must have read (with earnest marginal notes) and my mother re-read half of Balzac, most of Maupassant, some Zola ...“). Í Frakklandi lifði fjölskyldan menningarlegu, bóhemísku lífi; í vinahóp þeirra var Huxley-fjölskyldan (Aldous Huxley var lærifaðir Bedford; hann gaf henni leyfi til að skrifa ævisögu sína). Þetta er vel skrifuð þroskasaga sem gerist á milli tveggja heimsstyrjalda en hún er svo miklu meira en það.



fimmtudagur, 2. ágúst 2018

№ 15 bókalisti | #WITMonth

№ 15 bókalisti: Eisenberg, McPhee, McEwan · Lísa Stefan


Hitabylgja mætti á svæðið. Ég vona að hún fari að láta sig hverfa því ég get ekki lesið í þessum kæfandi hita, get ekki einbeitt mér. Hitabylgjur eru ekki fyrir fólk sem er fætt í nálægð við heimskautsbauginn. Þessa dagana eru það ís og sjónvarpsþættir sem hjálpa okkur að höndla ástandið. Bókalistinn, sem ég ætlaði að deila fyrr, hefur gengið í gegnum breytingar: Ég hef til dæmis fjarlægt tvær bækur sem ég endurlas og bókina The Human Stain eftir Philip Roth, sem nú er látinn. Roth verður að bíða því bókasafnið átti ekki eintak.

№ 15 bókalisti:
1  Enduring Love  · Ian McEwan
2  Draft No. 4  · John McPhee
3  Under the 82nd Airborne  · Deborah Eisenberg *
4  The Hare with Amber Eyes  · Edmund de Waal
5  Cheerful Weather for the Wedding  · Julia Strachey **
6  Comet in Moominland  · Tove Jansson **

* Eintakið mitt er ófáanlegt.
sömu smásögurnar.  ** Endurlestur

Ég keypti bókina eftir John McPhee í vor. Þó að vikur séu liðnar frá því ég las hana þá vildi ég hafa hana á listanum; mæla með henni fyrir alla sem hafa áhuga á skrifum. Hún er ekki hefðbundin ritstílsbók með dæmum og áherslulistum heldur safn ritgerða. Prófessor McPhee notar persónulegar dæmisögur til að deila innsýn sinni í það sem hann kallar skapandi óskálduð skrif (e. creative nonfiction). Á listanum er rit eftir listamanninn Edmund de Waal sem skrifaði sögu fjölskyldu sinnar. Það var textílhönnuðurinn Lisa Fine sem mælti með bókinni hér á blogginu og það er kominn tími til að lesa eintakið sem ég keypti í Skotlandi síðasta sumar.


Ágúst er Women in Translation Month, eða mánuður tileinkaður þýddum bókum eftir konur. Á samfélagsmiðlunum gengur hann undir merkinu #WITMonth. Það var Meytal Radzinski, sem heldur úti blogginu Bibliobio, sem sýndi frumkvæði árið 2014 og kynnti hann til sögunnar. Ég hef aldrei tekið þátt, sennilega vegna þess að ég, eins og aðrir Íslendingar, hef lesið þýddar bækur eftir konur (og karla) frá því ég man eftir mér. Að lesa þýdd verk telst eðlilegt meðal lesanda sem fæðast í löndum þar sem enska er ekki móðurmálið. Ég ákvað samt að lýsa stuðningi við #WITMonth í ár með því að bæta einni bók um Múmínálfana á bókalistann: Comet in Moominland eftir finnsku skáldkonuna Tove Jansson, í enskri þýðingu eftir Elizabeth Portch. Á íslensku kallast bókin Halastjarnan og það var Steinunn S. Briem heitin sem þýddi. Steinunn var ötull þýðandi.



föstudagur, 29. júní 2018

Nýjar bækur | Sumar í Bremen

Nýjar bækur | Sumar 2018 · Lísa Stefan


Tell me, what is it you plan to do
with your one wild and precious life?

Undanfarnar vikur hef ég verið að hugsa um þessar línur bandaríska ljóðskáldsins Mary Oliver (úr ljóðinu The Summer Day sem birtist í New and Selected Poems, Vol. One) og hef ekki enn fundið svar. Það er óhætt að segja að einföld spurning hennar komi huganum á flug. Mér finnst eins og ég sé ekki alveg lent í Þýskalandi. Ekki misskilja mig, mig langaði að flytja aftur til meginlandsins - menningin og lífsstíllinn í þessum hluta Evrópu á betur við mig - en hélt að á þessum tímapunkti hefði ég komið mér betur fyrir. Ég hef verið í leit að hlutastarfi þar sem ég get æft þýskuna áður en ég tek að mér meira krefjandi verkefni en hef ekki fundið neitt. Bókabúð svaraði ekki einu sinni tölvupósti frá mér. Hversu írónískt er það? Góðu fréttirnar eru þær að elsta dóttirin hefur lokið námi sínu í Skotlandi. Við fórum að sækja hana, tókum ferju frá Calais yfir Ermasundið og fengum að dást aftur að Hvítu klettunum í Dover.

Uppköstin bíða í röðum en mig langaði að enda þessa bloggþögn á lista yfir nýjar bækur. Ég er spennt fyrir nýrri skáldsögu Michael Ondaatje, Warlight, hans fyrstu í sjö ár. Ef þið eruð hrifin af verkum hans þá vil ég benda ykkur á nýlegt viðtal Eleanor Wachtel við hann fyrir CBC Radio. Hlaðvarpið hennar Writers and Company er eitt af þeim bestu fyrir bókaunnendur.

Nýjar bækur:
· Warlight  eftir Michael Ondaatje (Vintage). Síðasta bókin sem ég las eftir hann var Anil's Ghost, og á undan henni, The English Patient. Líkaði báðar. Þið kunnið nú þegar að hafa tekið eftir bókarkápunni í hliðardálki bloggsins og megið búast við að sjá hana á bókalista í náinni framtíð.
· The Beautiful Summer  eftir Cesare Pavese (Penguin). Þroskasaga sem gerist á Ítalíu á fjórða áratug síðustu aldar. Kom fyrst út árið 1949.
· The Years  eftir Annie Ernaux (Fitzcarraldo, í þýðingu Alison L. Strayer). Þetta er breska útgáfan en æviminningar hennar á ensku hafa þegar komið út í BNA. „[A] masterpiece memoir of French life“ segir í titli ritdóms The Guardian. Hann kveikti áhuga minn og ég ætla að lesa bókina þó að ég hafi aldrei lesið neitt eftir höfundinn.
· There There  eftir Tommy Orange (Vintage). Ein af tveimur frumraunum á þessum lista yfir nýjar bækur, gerist í samfélagi Indjána í Oakland, Kaliforníu, þar sem höfundurinn fæddist og ólst upp. Þessi bók hefur fengið góða dóma. Flott bókarkápa.


· 100 Books That Changed the World  eftir Scott Christianson og Colin Salter (Rizzoli). „A tour of global history by way of history’s most important scrolls, manuscripts, and printed books, from Plato and Homer to the twenty-first century—100 must reads.“ Bók um bækur sem gæti verið gaman að hafa á kaffiborðinu. Þessi kom út í vor en mig langaði að hafa hana á listanum.
· The Collected Stories of Machado de Assis  (Liveright Publishing, í þýðingu Margaret Jull Costa + Robin Patterson). Í sannleika sagt man ég ekki eftir að hafa heyrt um Joaquim Maria Machado de Assis (1839-1908), einn mesta rithöfund Brasilíu, þar til ég las ritdóm Parul Sehgal fyrir The New York Times. Ég hengi höfuðið í skömm. Ef ykkur líkar smásögur þá ætti það að gleðja ykkur að safnið er 930 blaðsíður.
· A Place for Us  eftir Fatima Farheen Mirza (Vintage). Frumraun höfundar sem fjallar um indversk-múslimska fjölskyldu sem undirbýr brúðkaup elstu dótturinnar. Útgáfustjórinn Sarah Jessica Parker valdi bókina fyrir útgáfumerkið SJP for Hogarth. Ég hef oft varann á þegar stórstjörnurnar leggja nafn sitt við eitthvað en ég veit að Parker er ötull lesandi og hef heyrt hana mæla með góðum bókum. Höfundurinn, sem ólst upp í Kaliforníu en á rætur að rekja til Indlands, var nýlega í viðtali í The Guardian, sem þið hafið kannski áhuga á.
· The Outsider  eftir Stephen King (Hodder & Stoughton). Að lokum, ný spennusaga fyrir alla King-aðdáendur.

Café Tölke í Schnoor-hverfinu í Bremen, Þýskalandi · Lísa Stefan
Café Tölke í Schnoor-hverfinu, Bremen

Í vor ætlaði ég að deila myndum frá Bremen á blogginu en komst aldrei í það. Sumarið kom snemma og á hlýjum sunnudegi hjólaði ég inn í miðbæ og fór í göngutúr um gamla Schnoor-hverfið. Það var of sólríkt fyrir myndatökur en ég tók þessa mynd sem fangar stemninguna fyrir framan Café Tölke, eitt af fyrstu kaffihúsunum sem ég fór á eftir að við fluttum hingað. Lítið og sjarmerandi kaffihús sem sérhæfir sig í kökum og bökum. Þegar þið finnið borð og setjist niður með kaffibolla og eplastrúdel gætuð þið fengið það á tilfinninguna að svo lengi sem þessi staður helst opinn verður veröldin í lagi. Þannig er andi sumra kaffihúsa.



þriðjudagur, 13. mars 2018

Lestrarkompan 2017: japanskar bókmenntir I

Lestrarkompan 2017: japanskar bókmenntir I · Lísa Stefan


Á næstu vikum ætla ég að gera mitt besta til að klára Lestrarkompufærslur ársins 2017 og í dag deili ég áliti mínu á þeim bókum sem var að finna á fyrsta listanum mínum með japönskum bókmenntum eingöngu. Það gleður mig alltaf þegar ég heyri frá blogglesendum sem nota listana til að velja sér lestrarefni; enn meira þegar þeir njóta lestursins. Ég hef þegar verið spurð að því hvenær ég ætli að deila næsta japanska lista en ástæðan fyrir því að ég frestaði honum er sú að ég hef ekki klárað The Tale of Genji (sjá neðar). Á þeim lista verður bókin The Pillow Book eftir Sei Shonagon, annað klassískt verk eftir japanska hirðdömu, og mig langar að klára Genji áður en ég les hana. Þetta þýðir að lesendur bloggsins þurfa að bíða aðeins lengur.

Lestrarkompan, № 9 bókalisti:

First Snow on Fuji eftir Yasunari Kawabata
(Ensk þýðing: Michael Emmerich.)

Á meðan lestrinum stóð fékk ég það á tilfinninguna að takmörkuð þekking mín á japanskri menningu stæði í vegi fyrir að ég nyti þessara smásagna betur. Mér fannst líka eins og ég hefði fyrst þurft að lesa skáldsögur eftir Kawabata (ein verður á næsta japanska lista, og mér finnst líklegt að einn daginn lesi ég þetta sögusafn aftur). Það voru aðallega þrjár sögur sem höfðuðu til mín: „Silence“, „Nature“ og sú sem gefur bókinni titil sinn, „First Snow on Fuji“. Fuji-sagan er í uppáhaldi, en hún fjallar um tvo fyrrum elskendur sem fara saman í ferðalag þar sem þau sjá fjallið út um lestargluggann.

The Temple of the Golden Pavilion eftir Yukio Mishima
(Ensk þýðing: Ivan Morris.)

Þegar ég deildi listanum var ég um það bil hálfnuð með bókina og sagði ykkur frá, að því er mér fannst, fráhrindandi söguhetjunni. Mishima moðaði skáldsögu úr sögunni um munkinn sem kveikti í Gullna hofinu árið 1950. Ég man ekki eftir því að hafa fundist nokkur söguhetja eins fráhrindandi. Ég fann ekki nokkra samúð með gæjanum og þegar leið á söguna varð hann sífellt meira ógeðfelldari. Sennilega er það snilldin við bókina. Ég get ekki sagt að hún hafi verið skemmtilestur. Það væri betra að lýsa lestrarupplifuninni sem áhugaverðri.

Some Prefer Nettles eftir Jun'ichirō Tanizaki
(Ensk þýðing: Edward G. Seidensticker.)

Stutt skáldsaga um menningarlega togstreitu, þar sem gamla og nýja Japan mætast. Bókin veitir innsýn í heim japansks brúðuleikhúss. Ef frá er talinn tvíræður endirinn líkaði mér bókin, mér líkaði prósinn, en mæli ekki með að fólk lesi þessa fyrst ef það hefur aldrei lesið bók eftir Tanizaki. The Makioka Sisters er enn mín uppáhaldsbók eftir hann, og ein af mínum allra uppáhaldsbókum.

The Tale of Genji eftir Murasaki Shikibu
Á bókalistanum voru tvær þýðingar og ég keypti þá eftir Edward G. Seidensticker, sem Everyman's Library gaf út. Eins og ég nefndi áður þá hef ég ekki lokið lestrinum. Ekki það að mér líki ekki bókin, heldur fannst mér eins og ég þyrfti einhvers konar kennslubók til að skilja þann heim sem hún lýsir. Fyrir löngu síðan skráði ég mig í kúrs um heimsbókmenntir í gegnum netið, sem ég náði aldrei að klára, og á honum var einmitt Genji tekin fyrir. Ég áttaði mig á því að ég hafði enn aðgang að fyrirlestrunum og efninu á netinu og ákvað því að taka lestrarpásu. Því miður fer kúrsinn ekki í gegnum bókina kafla fyrir kafla en fyrirlestrarnir hjálpuðu mér að fá betri innsýn í þennan heim. Núna kýs ég að lesa einn til tvo kafla í einu og velta þeim fyrir mér áður en ég held áfram. Bókin er blanda af prósa og ljóðum og lýsir fornri japanskri menningu (Heian-tímabilið), pólitík og samfélagi keisarahirðarinnar. Siðir hennar voru mér framandi en núna finnst mér ég skilja verkið betur. Ég er heilluð af því hvernig sögupersónurnar eiga samskipti með því að skiptast á ljóðum - aðallega elskhugar - og hlutverki skrautskriftar. Í verkinu er stöðugt verið að vísa í plöntur og ég stend sjálfa mig að því að fletta upp myndum af þeim á netinu.

My Neighbor Totoro: The Novel eftir Tsugiko Kubo
Þessi dásamlega bók fyrir börn (á öllum aldri) inniheldur upprunalegu teikningar leikstjórans Hayao Miyazaki (bókin er gerð eftir teiknimyndinni frá Studio Ghibli). Ef þið eruð þreytt á því sem ég kýs að kalla hávaðasamar barnabækur þá vil ég trúa því að þessi komi ykkur á óvart og kæti. Hún fjallar um hina ellefu ára gömlu Satsuki og systur hennar Mei og hvernig þær uppgötva Totoro, skógarveru sem býr yfir göldrum. (Ef hávaðasamar teiknimyndir fá ykkur til að missa trúna á mannkyninu þá get ég mælt með teiknimyndinni, My Neighbour Totoro (1988).)

Þeir sem fylgja mér á Instagram kunna að hafa tekið eftir nokkrum nýjum bókum. Ég deili bráðum № 14 bókalistanum, ég þarf bara að komast á háskólabókasafnið í Bremen áður og grípa þar tvö verk sem ég vil hafa á honum. Til að segja eins og er held ég að sterkar líkur séu á því að ég missi alla sjálfstjórn og fái fleiri bækur að láni á safninu.



sunnudagur, 31. desember 2017

Nýjar bækur | Gleðilegt nýtt ár

Nýjar bækur · Lísa Stefan


Á þessum síðasta degi ársins sit ég við tölvuna með mynstraðan túrban á höfðinu, jólabjór í glasi og tortilla-flögur í skál. Steikin er á hægeldun í ofninum, gengið mitt er að horfa á Hobbitann og ekkert betra fyrir mig að gera en að blogga um nýjar bækur. Ég ætlaði að deila þessari færslu fyrr í desember en vegna tímaleysis ýtti ég henni til hliðar. Um jólin fór hún að leita á mig og þar sem flestar bækurnar á listanum, skáldverk og kaffiborðsbækur, voru gefnar út árið 2017 þá fannst mér ég eiginlega þurfa að deila henni áður en nýja árið gengi í garð. Ég er ekkert að eyða tíma í athugasemdir við hverja bók þar sem allir hlekkirnir fyrir utan einn eru á vefsíður útgefenda, þar sem þið finnið stutta kynningu á þeim öllum. Ég geri ráð fyrir því að allar bækurnar á listanum fyrir ofan smámyndirnar muni einn daginn rata á bókalista hér á blogginu því mig langar að lesa þær allar. Ég óska ykkur friðar á komandi ári.

Nýjar bækur:
· Spy of the First Person  eftir Sam Shepard (Knopf). Síðasta verkið fyrir andlát hans í júlí á þessu ári.
· Debriefing: Collected Stories  eftir Susan Sontag (FSG). Ritstj. Benjamin Taylor.
· Sing, Unburied, Sing  eftir Jesmyn Ward (Bloomsbury). Bókin sem hlaut National Book Award 2017.
· The Origin of Others  eftir Toni Morrison (Harvard UP).
· In Search of Ancient North Africa: A History in Six Lives  eftir Barnaby Rogerson (Haus Publishing).
· The Rub of Time  eftir Martin Amis (Random House).
· Philip Roth: Why Write? Collected Nonfiction 1960-2013  eftir Philip Roth (Library of America).


· Persian Art: Collecting the Arts of Iran for the V&A  eftir Moya Carey (V&A).
· Modern Art in Detail: 75 Masterpieces  eftir Susie Hodge (Thames & Hudson).
· Henri Cartier-Bresson: The Decisive Moment  eftir Henri Cartier-Bresson (Steidl). Endurútgáfa bókar frá árinu 1952 sem geymir bestu verk Cartier-Bresson. Forsíðan er eftir Henri Matisse.
· The Atlas of Beauty: Women of the World in 500 Portraits  eftir Mihaela Noroc (Penguin).
· Morris  eftir Charlotte and Peter Fiell (Taschen). Ríkulega myndskreytt bók um ævi og störf hönnuðarins William Morris (1834-1896).
· Map Cities: Histoires de cartes  eftir Francisca Mattéoli (Chêne). Eingöngu fáanleg á frönsku en verður vonandi þýdd á ensku síðar. Ég hef fjallað um Map Stories eftir Mattéoli hér á blogginu.
· Haute Bohemians  eftir Miguel Flores-Vianna (Vendome Press).

Úr bókinni Haute Bohemians eftir Miguel Flores-Vianna, bls. 80-81, Vendome Press



miðvikudagur, 20. desember 2017

Lestrarkompan 2017: Baldwin, Bandi, Bellow ...

Lestrarkompan mín: Baldwin, Bandi, Bellow · Lísa Stefan


Lestrarkompan mín, muniði eftir henni? Ég er á eftir með bloggið (sem gaf mér þá hugmynd að nota Instagram-myndirnar mínar fyrir þennan flokk). Ég held að best sé að nota bara að-flytja-til-Þýskalands spilið mitt. Við erum enn að venjast nýju umhverfi og tungumálinu. Við höfum átt góðar stundir en líka ergjandi, og upplifað einstaka afturför. Svona er þetta bara. Stuttu eftir flutningana fór okkar elsta aftur til Skotlands vegna náms og ég kann að hafa skilið hluta hjartans eftir á flugvellinum. Þetta var allt laust við dramatík en ég held að ég hafi gert mér grein fyrir því að einn daginn verður hreiðrið tómt. (Ég gæti alltaf leikið eftir Faust og gert samning við djöfulinn, selt honum sálu mína svo börnin kjósi háskóla á svæðinu þegar sá tími kemur. Vandamálið er að ég trúi ekki á tilvist hans.) Um jólin verður fjölskyldan saman á ný og framundan er afslöppun og góður matur (nýverið í spjalli á Skype minntist ég á gjafirnar og tvö barnanna skutu inn í: „Mamma, okkur er alveg sama um gjafirnar, við viljum bara matinn!“). Áður en jólahátíðin gengur í garð ætla ég að deila nýjum bókalista, stuttum. Þarf bara að finna tíma til að taka mynd.

Lestrarkompan, № 8 bókalisti, 5 af 8:

The Accusation eftir Bandi
(Ensk þýðing: Deborah Smith)

Þegar ég birti bókalistann þá gaf ég þessu smásögusafni, sem var smyglað út úr Norður-Kóreu, sérstakan sess. Sögurnar ásækja mig enn, sérstaklega ein sem kallast „City of Specters“, en sú er önnur í röðinni. Í hvert sinn sem Norður-Kórea er í fréttunum - svo til á hverjum degi - verður mér hugsað til þessa sögusafns sem minnir mig á óréttlætið, vonleysið og ómannúðlegar aðstæður fólksins.

Another Country eftir James Baldwin
Ég vissi að hann yrði nýi uppáhaldshöfundurinn minn þegar ég kom að þessari persónulýsingu á síðu 18: „[H]e had discovered that he could say it with a saxophone. He had a lot to say.“ Frá fyrstu síðu skynjar maður rytma í frásögninni. Ég las einhvers staðar á netinu að það væri jazz og hugsaði með mér, Jazz, auðvitað! Skáldsagan gerist á síðari hluta 6. áratugarins, í Greenwich Village, NY. Hún er ekki fyrir alla (ef stutt er í blygðunarkennd ykkar ættuð þið að láta þessa eiga sig; ég verð þó að segja að þið eruð að missa af frábærum ritstíl) þar sem hún tekst á við ögrandi þemu eins og framhjáhald, samkynhneigð, tvíkynhneygð og sambönd fólks af ólíkum kynþætti. Athugið að bókin kom út árið 1962! Ég skammast mín fyrir að segja að þetta er fyrsta bókin sem ég les eftir Baldwin. Ég hafði bara lesið gömul viðtöl við hann og umfjallanir í tímaritum þar sem vísað var í verk hans og nú ætla ég mér að lesa allt sem hann skrifaði, skáldverk og ritgerðir.

Seize the Day eftir Saul Bellow
Mín fyrsta bók eftir Bellow. Minnisverð nóvella sem gerist í NY en, ef ég á að segja alveg eins og er, greip mig ekki alveg frá byrjun (ég segi þetta með allri virðingu fyrir aðdáendum hans: á meðan lestrinum stóð kann Bellow að hafa eilítið fölnað í samanburði við Baldwin, sem hafði heltekið bókabéusinn innra með mér). Það var ekki fyrr en að lestrinum loknum sem sagan fór að koma reglulega upp í hugann og nú langar mig að lesa hana aftur.

The Blue Touch Paper eftir David Hare
Æviminningar sem ég naut að lesa þó að sumir hlutar hafi ekki verið eins áhugaverðir og aðrir. Oft þegar ég les ævisögur þá leiðist mér barnæskuhlutinn (stundum er það vegna skorts á heiðarleika af hálfu höfundar; stundum á höfundur til með að mála helst til of rósrauða mynd), sem var ekki í þessu tilfelli. Áður en ég las bókina vissi ég ekkert um uppvaxtarár Hare og hann hélt mér við lesturinn með skemmtilegum og heiðarlegum sögum, eða svo held ég. Það er heilmikið um pólitík í bókinni, sem höfðar kannski ekki til allra, en leikhússena Lundúna vaknar til lífsins á síðunum og lesandinn fær að deila sigrum Hare, og ósigrum.

Pale Fire eftir Vladimir Nabokov
Kláraði ekki bókina. Ekki minn tebolli. Á síðunum höfum við ljóðskáld, Shade, sem hefur samið langt ljóð fyrir andlát sitt. Nágranni hans og kollegi, Kinbote, greinir ljóðið ansi ítarlega og mjög fljótt áttar lesandinn sig á því að hann er úti á túni. Ég einfaldlega missti þolinmæðina við að lesa greiningu Kinbote, fyrir sjálfsblekkingu hans (það hafði ekkert með skrif Nabokov að gera).

[Sem fyrr geri ég engar athugasemdir við endurlesnar bækur í lestrarkompunni eða
þær sem ég hef þegar fjallað um. Sjá sér færslur fyrir þessar tvær af listanum:
Stríðsdagbækur Lindgren A World Gone Mad: The Diaries of Astrid Lindgren, 1939-45
og skáldsöguna Pachinko eftir Min Jin Lee.]