föstudagur, 21. október 2016

№ 5 bókalisti: Booktober 2016

№ 5 bókalisti: Booktober 2016 · Lísa Hjalt


Dásamlegar samræður á milli rithöfunda áttu sér stað á Lannan Literary viðburði í apríl þegar Zadie Smith og Karl Ove Knausgård deildu sviðinu. Karl Ove var mættur til að lesa upp úr Some Rain Must Fall, fimmtu My Struggle bókinni, og Zadie til að kynna hann og spyrja spurninga. Hún byrjaði á skondinni sögu: Á flugvellinum, á leið sinni til viðburðarins, heyrði hún konu segja við vinkonu sína: „Hvers konar manneskja eiginlega segir svona upphátt?“ Og hún hugsaði: „Ég er að fara að hitta hann núna. Ég veit nákvæmlega hver þetta er.“ („What kind of a person even says that out loud?“ . . . „I'm gonna go meet him now. I know exactly who it is.“)

Þeir sem hafa lesið sjálfsævisögulegar bækur Karl Ove þar sem hann opinberar allt brosa sennilega eða hlæja núna. Alla vega voru það viðbrögð fólksins í salnum. Bók 1 er á Booktober-bókalistanum mínum og ég er svo glöð að hafa dembt mér ofan í lesturinn. Ég var ekki viss hvort My Struggle bækurnar (Min Kamp á norsku) væru fyrir mig, auk þess er ég alltaf örlítið skeptísk þegar verk verða ofurvinsæl. En það var eitthvað sem stöðugt togaði í mig og þegar ég áttaði mig á því að ég hafði meira eða minna séð annað hvert myndband á YouTube með samræðum við Karl Ove þá sagði ég við sjálfa mig, Þetta fer að verða fáranlegt, að vita svona mikið um þessar bækur og lesa þær ekki. Ég hef varla lagt bókina frá mér en ætla að geyma Bók 2 fyrir næsta lista og lesa í staðinn annað verk eftir hann. Hér er listinn, sem mun teygja sig vel inn í nóvember:

1  A Death in the Family: My Struggle 1  · Karl Ove Knausgård
2  A Time for Everything  · Karl Ove Knausgård
3  White Teeth  · Zadie Smith
4  NW  · Zadie Smith
5  Americanah  · Chimamanda Ngozi Adichie
6  Purple Hibiscus  · Chimamanda Ngozi Adichie
7  Avid Reader: A Life  · Robert Gottlieb

Ég hef lengi fylgst með Zadie Smith - hún hefur einstaka persónutöfra á bókmenntasviðinu - en aldrei lesið neitt eftir hana fyrr en núna þegar ég keypti fyrstu skáldsögu hennar, White Teeth, og fékk NW lánaða á bókasafninu (stundum snýst þetta allt um tímasetningu). Nýjasta bókin hennar, Swing Time, er að koma út og ég tek eftir Zadie-umfjöllunum í ýmsum fjölmiðlum, t.d. viðtal í T Magazine sem rithöfundurinn Jeffrey Eugenides tók. Hún prýðir forsíðu nýjasta tölublaðs The Gentlewoman, nr. 14, haust og vetur 2016. Mig langaði að kaupa það en hef ekki fundið eintak hérna í bænum. Önnur skáldkona með persónutöfra er hin nígeríska Chimamanda Ngozi Adichie. Mér fannst Half of a Yellow Sun frábær, las hana tvisar og mun líklega lesa hana aftur. Mig hefur langað að hlusta á samræður á milli Zadie og Chimamanda sem fóru fram í Schomburg-miðstöðinni í Harlem-hverfi í New York. Ég byrjaði að horfa og fannst þær frábærar saman en vildi ekki halda áfram fyrr en ég væri búin að lesa Americanah, sem ég keypti í sumar. Þegar ég hef lokið lestri þessara skáldsagna ætla ég að snúa mér að æviminningum ritstjórans Robert Gottlieb sem voru að koma út. Þegar þetta er skrifað er eintakið mitt á leiðinni með póstinum og ég get ekki beðið eftir því að fá það í hendur.

Listaverk: Georgia O'Keeffe, Black Cross with Stars and Blue, 1929
Georgia O'Keeffe, Black Cross with Stars and Blue, 1929

Í ágúst þegar við vorum í London fór ég með eldri dótturinni á Georgia O'Keeffe sýninguna í Tate Modern; ein af ástæðum ferðarinnar. Hún hafði lært um O'Keeffe í listatímum í skólanum og þetta var mín fyrsta O'Keeffe-sýning. Að sjá mörg af mínum uppáhaldsverkum með eigin augum var einstök reynsla. Eitt þeirra var Black Cross with Stars and Blue, 1929, sem glittir í á myndunum mínum:
This painting depicts a cross of the Penitente sect of Catholicism, frequently sited within the New Mexico landscape, but viewed here against the outline of Taos Mountain, a sacred site for the local Native American community. The composition thus emphasises O'Keeffe's understanding of the layering of cultural identity on the American landscape. As she described: „It was in the late light and the cross stood out – dark against the evening sky. If I turned a little to the left, away from the cross, I saw the Taos Mountain – a beautiful shape. I painted the cross against the mountain although I never saw it that way.“ (Tate, bls. 68)
Annað málverk var Abstraction White Rose, 1927. Ég sver það, ég þurfti að bæla niður óp þegar ég sá það og hjartað sló hraðar þegar ég virti það fyrir mér. Sýningunni lýkur í lok október og ég hvet ykkur að sjá hana ef þið eruð í London.

№ 5 bókalisti: Booktober 2016 · Lísa Hjalt
Booktober-bókalisti í bígerð

myndir mínar | Georgia O'Keeffe málverk af vefsíðu Studio InternationalEngin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.