fimmtudagur, 6. október 2016

Baunapottréttur með karrí og kókosmjólk

Baunapottréttur með karrí og kókosmjólk · Lísa Hjalt


Bestu stundirnar í eldhúsinu finnst mér vera þær þegar ég hef allan tímann í heiminum og enginn er að bíða eftir matnum. Ég læt kvikmynd eða þátt rúlla í spilaranum og dunda mér við það að skera grænmeti fyrir til dæmis pottrétt sem mallar svo bara í rólegheitum á hellunni. Ég átti einmitt svona stund á sunnudaginn þegar ég var að útbúa þennan baunapottrétt með karrí og kókosmjólk, sem er í miklu uppáhaldi. Á meðan hlustaði ég á samræður við rithöfundinn Zadie Smith á YouTube (frá 2010, hluti af seríunni Live from the New York Public Library). Ég gleymdi mér alveg og lét pottréttinn malla aðeins lengur en venjulega, sem er í góðu lagi. Núna þegar tekið er að hausta verða svona stundir tíðari. Innihaldslisti pottréttsins kann að virðast langur en það er ekki flókið að elda hann. Þið þurfið bara tíma.

BAUNAPOTTRÉTTUR MEÐ KARRÍ OG KÓKOSMJÓLK

1 matskeið kókosolía
1 laukur
3 hvítlauksrif
2 paprikur, rauð og græn
2 sellerístilkar
75 g strengjabaunir
150 g sætar kartöflur
100 g butternut-grasker
1 dós (400 g) nýrnabaunir
1 dós (400 g) cannellinibaunir
4 teskeiðar (vegan) grænmetiskraftur
1 teskeið tandoori-karríduft

(eða 1 teskeið milt karrí og ¼ teskeið chillipipar)
½ teskeið túrmerik
½ teskeið engifer
½ teskeið rauðar chilliflögur
¼ teskeið svartur pipar
1 teskeið ítölsk kryddjurtablanda
1 dós (400 g) tómatar
1 dós (400 ml) kókosmjólk
má sleppa: lófafylli spínat
Maldon sjávarsaltflögur eftir smekk

Byrjið á því að undirbúa grænmeti og baunir: Afhýðið lauk og hvítlauk, saxið og fínsaxið. Fræhreinsið paprikur og skerið í bita. Sneiðið sellerístilka fínt. Trimmið enda af strengjabaunum og sneiðið þær gróft. Í pottréttinn nota ég frosnar sætar kartöflur og butternut-grasker í bitum. Ef þið fáið þetta ekki frosið notið þá ferskt hráefni. Skolið nýrna- og cannellinibaunir í sigti.

Hitið kókosolíuna í stórum potti og léttsteikið lauk og hvítlauk á vægum hita í nokkrar mínútur þar til laukurinn mýkist. Bætið öllu öðru grænmeti út í pottinn, léttsteikið aðeins lengur og veltið rólega til og frá með sleif. Því næst skuluð þið setja baunir, kraft (eða 2 grænmetisteninga), krydd og kryddjurtir í pottinn og hræra saman áður en þið bætið tómötum og kókosmjólk saman við. Hækkið hitann og hrærið rólega af og til þar til suðan kemur upp. Setjið lok á pottinn og látið malla á vægum hita í 20 mínútur. Hrærið spínatinu saman við, ef notað, tyllið svo lokinu þannig að gufan sleppi í gegn og látið malla á vægum hita í 15-20 mínútur til viðbótar. Ef ykkur finnst vanta salt smakkið þá til með Maldon sjávarsaltflögum.

Berið pottréttinn fram með til dæmis súrdeigsbrauði eða steinbökuðu snittubrauði.


Recipe in English.Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.