föstudagur, 24. febrúar 2017

Ár af lestri - 1. hluti

Lestarkompan: ár af lestri - 1. hluti · Lísa Hjalt


Hérna kemur hún, færslan sem ég velti fyrir mér hvort ég ætti að skrifa eða ekki, með athugasemdum um nokkrar bækur á bókalistunum mínum árið 2016. Fyrst ætlaði ég að setja þessa punkta í athugasemdakerfi umræddrar bókalistafærslu en svo fannst mér betra að halda þessu aðskildu. Ég sé enga ástæðu til að endurtaka það sem ég hef þegar sagt um ákveðnar bækur eða að minnast á þær sem ég endurlas; einu bækurnar sem ég les aftur eru þær sem mér líkar eða eiga sérstakan sess í hjartanu.

Talandi um endurlestur: Skoski rithöfundurinn Ali Smith var nýlega í By the Book dálki dagblaðsins NYT og ég fann samhljóm með einu sem hún sagði:
[A] rereading can feel like a first-time read in itself, which is another great thing about books and time; we think we know them, but as we change with time, so do they, with us. (Sunday Book Review, 12. feb. 2017)
Ég las þetta í fyrradag og tók eftir því að hún minntist á bókina Pale Fire eftir Vladimir Nabokov. Ef þið fylgið mér á Instagram þá sáuð þið kannski kápuna á mynd sem ég deildi á sunnudaginn. Það vill svo til að ég fékk bókina lánaða á bókasafninu síðasta laugardag og hún verður á næsta bókalista.


Hér að neðan eru nokkrar athugasemdir um bækur sem voru á № 1, 2 og 3 bókalistunum. Á þeim fyrsta voru líka hönnunarbækur en ég ákvað síðar að á þá rötuðu eingöngu skáldsögur sjálfs/ævisögur, ferðaskrif o.s.frv. Mig langar að bæta því við að það er ekki tilgangur minn að beina ykkur frá þeim bókum sem ég geri neikvæðar athugasemdir við eða þeim sem ég kláraði ekki. Bókmenntasmekkur okkar er ólíkur, eins menningarlegur og félagslegur bakgrunnur, og ég hef svo sannarlega ekki áhuga á því að gegna valdshlutverki og segja fólki hvað það eigi að lesa og hvað ekki. En málið er að ég á blogglesendur sem nota listana til að fá lestrarhugmyndir og því finnst mér eðlilegt að ég minnist á þær bækur sem kannski stóðust ekki væntingar mínar.

№ 1 bókalisti (2 af 8):

· The Shadow of the Sun eftir Ryszard Kapuscinski. Las nokkra kafla og setti svo til hliðar, einungis vegna þess að mig hefur lengi langað að lesa bókina Africa eftir John Reader og vildi gera það áður en ég læsi aðrar Afríku-tengdar bækur á langar-að-lesa listanum. Kapuscinski var pólskur fréttamaður sem skrifaði um Afríku í nokkra áratugi og ég held að einn daginn eigi ég eftir að klára þessa bók hans.
· The Great Railway Bazaar eftir Paul Theroux. Mestu vonbrigði ársins 2016 í lestri. Bókin byrjar virkilega vel og Theroux er bæði eftirtektarsamur og fyndinn - ég gat varla lagt bókina frá mér. Á einhverjum punkti verður hann þreytandi, eins og hann geti ekki gert annað en að kvarta. Ég missti bæði áhugann og þolinmæðina og hætti lestrinum. Þegar ferðaskrif fylla mig engri löngun til að ferðast þá fær sá höfundur ekki pláss í bókahjartanu mínu.

№ 2 bókalisti (1 af 6):

· Off the Road eftir Carolyn Cassady. Missti þolinmæðina og gafst upp. Alltof opinberandi og ekki á góðan máta. Tímarnir voru öðruvísi en ég var gáttuð á því hvernig hún leyfði Neal að koma fram við sig strax í upphafi sambands þeirra. Fyrstu kaflarnir eru ágætis lexía í því hvernig ekki skuli velja eiginmannsefni.
[Önnur af listanum: Testament of Youth eftir Vera Brittain (sjá sér bloggfærslu).]
Lestarkompan: ár af lestri - 1. hluti · Lísa Hjalt


№ 3 bókalisti (2 af 6):

· Memoirs of a Dutiful Daughter eftir Simone de Beauvoir. Fyrsta bindi sjálfsævisögu hennar þar sem hún fjallar um uppvaxtarárin, barnæskuna í París og árin í Sorbonne-háskóla. Það eina sem ég fann að bókinni var alvarlegur frásagnarstíllinn; mér fannst hún nota of vitsmunalegan tón til að lýsa hugsunum barns, sem truflaði mig ekki eftir því sem hún varð eldri. Næstu bindi munu rata á bókalistana mína í framtíðinni.
· Prayers for the Stolen eftir Jennifer Clement. Að mínu mati, ofmetin. Í byrjun er sögumaðurinn ung stelpa sem er vísun á auðveldan lestur með einföldum orðaforða, og það er nóg um kímni (móðirin er óborganleg!). Þegar ég var komin inn í þriðja eða fjórða hluta bókarinnar (þegar stelpan fer að heiman) þá fannst mér höfundurinn misstíga sig; það var sem hún hætti að vanda sig. Þessi bók var ein þeirra sem mig virkilega langaði að finnast góð til að geta mælt með henni en í lokin olli lesturinn vonbrigðum.

Bráðum birti ég 2. hluta þar sem ég tek fyrir nokkrar bækur á № 4, 5 og 6 bókalistunum.

[Uppfærsla: smellið hér fyrir 2. hluta.]



mánudagur, 13. febrúar 2017

Lokasetning eftir Tanizaki | Virginia Woolf

Lokasetning eftir Tanizaki | Virginia Woolf · Lísa Hjalt


Ég veit ekki með ykkur en í bókabúðum stend ég mig oft að því að lesa fyrstu setningu bókar eða fyrstu málsgreinina. Ég kíki aldrei á lokasetninguna því ég vil ekki vita hvernig bókin endar, en ég þekki nokkra sem gera það. Í janúar kláraði ég að lesa The Makioka Sisters eftir japanska rithöfundinn Jun'ichirō Tanizaki (1886-1965), í þýðingu Edward G. Seidensticker (útgáfa frá Everyman's Library). Án þess að gefa upp sögulokin þá verð ég að deila með ykkur lokasetningunni, sem óþarfi er að þýða: „Yukiko's diarrhea persisted through the twenty-sixth, and was a problem on the train to Tokyo“ (bls. 498).

Þurfið þið að lesa þessa setningu aftur? Ég þurfti þess.

Í hvert sinn sem ég lýk lestri bókar þá koma venjulega upp í hugann persónur, söguflétta, þemu o.s.frv., og stundum skrifa ég kannski nokkrar línur í minnisbókina mína. Í þetta sinn var hugurinn eitthvað á þessa leið, Okei, vantar kafla í bókina? Er þetta endirinn? Ég meira að segja sneri bókinni við - ég held að ég hafi rólega hrist hana - til að finna kaflann sem vantaði. Þegar ég svo loksins áttaði mig á því það var ekkert meira, að þetta var lokasetningin, þá sprakk ég úr hlátri. Þetta er ein sú eftirminnilegasta lokasetning sem ég hef nokkurn tíma lesið.

Ég fæ enn hláturkast þegar ég horfi á þessa síðu; þessi lokasetning kemur úr svo óvæntri átt.

Prósi bókarinnar The Makioka Sisters er mjög róandi (á meðan lestrinum stóð sagði ég við vini að þetta væri stundum eins og hugleiðsla). Ég man ekki eftir bók með svo rólegum prósa. Hún er nokkuð löng, skiptist í þrjá bækur, en ég naut þess að lesa hana. Í aðalatriðum fjallar hún um leit Makioka-fjölskyldunnar að eiginmanni fyrir þriðju systurina þannig að hægt sé að gifta þá fjórðu og yngstu, sem er þegar komin með vonbiðil. Þemað er eins og í hvaða skáldsögu sem er eftir Jane Austen en stíllinn er gjörólíkur. Þetta er áhugaverð samfélagsskoðun, á japanskri menningu og siðum, á ákveðnu tímabili: Bókin hefst árið 1936 og lýkur í apríl 1941; stríð geisar þegar í Evrópu en árásin á Pearl Harbor hefur enn ekki átt sér stað. Þegar lestrinum lýkur þá veit maður að stórkostlegar breytingar eru í vændum.

The Makioka Sisters var á № 6 bókalistanum og þá sagðist ég vera að nóta hjá mér hugmyndir að japönskum lista. Á honum munuð þið finna The Tale of Genji eftir Murasaki Shikibu, klassískt japanskt verk frá 11. öld, sem margir telja fyrstu skáldsögu heimsins, sem Tanizaki þýddi yfir á nútímalegra japanskt mál. Á listanum verður líka Some Prefer Nettles eftir Tanizaki - ég segi ekki meira þar til ég birti hann.

Úr umfjöllun um Virginia Woolf, „Bloomsbury & Beyond“, Harpar's Bazaar UK, mars 2017, bls. 324-25

Kannski hafið þið þegar séð Vanessa Bell umfjöllunina sem ég deildi á Instagram í síðastu viku, úr Harper's Bazaar UK, marstölublaðinu 2017. Það eru mánuðir síðan ég keypti tískutímarit en ég næstum hljóp út í búð þegar ég sá að bæði Bell og systir hennar Virginia Woolf voru í menningarþættinum. Umfjöllunin um Woolf kallast „Bloomsbury & Beyond“ og byrjar á ljósmynd af skrifborðinu hennar í Monk's House, heimili hennar í Sussex (sjá efstu myndina mína), og lýkur með smásögunni The Lady in the Looking Glass, sem birtist í janúartölublaðinu 1930. Ódýr Penguin-útgáfa af The Lady in the Looking Glass inniheldur líka sögur hennar A Society, The Mark on the Wall, Solid Objects og Lappin and Lapinova. Sú síðasta birtist í apríltölublaðinu 1939, en hún sést efst í vinstra horninu á myndinni minni hér að ofan. Ef þið hafið áhuga á smásögum þá má held ég finna allar eftir Woolf á netinu.

myndir mínar | heimildir: Harper's Bazaar UK, mars 2017 · Harry Cory Wright | Frakklandskort úr Map Stories: The Art of Discovery eftir Francisca Mattéoli (Octopus Publishing Group) © Bibliothèque Nationale de France



miðvikudagur, 8. febrúar 2017

№ 7 bókalisti | Vanessa Bell sýning

№ 7 bókalisti | Vanessa Bell-sýning · Lísa Hjalt


Í gamla minnisbók hef ég skrifað tilvitnun sem fær mig alltaf til að hlæja. Leikkonan Emma Thompson var í NYT-dálkinum By the Book og þegar hún var spurð út í síðustu bókina sem fékk hana til að gráta svaraði hún: „I was on holiday years ago with “Corelli’s Mandolin.” Rendered inconsolable and had to be put to bed for the afternoon“ (Sunday Book Review, 23.09.2012). Ég dýrk'ana. Það er kominn tími á annan bókalista og bók Bernières er á honum, Vintage Books útgáfa, fallega myndskreytt af Rob Ryan. Þarna er líka skáldsaga eftir Sigurð Pálsson, sem er í miklu uppáhaldi. Ég sá hann stundum á kaffihúsum í Reykjavík, alltaf svo smart til fara, gjarnan með mynstraðan silkihálsklút eða alpahúfu (hann lærði í Frakklandi). Ég hef þegar minnst á Doris Lessing og að ég væri að endurlesa Little Women. Hér er № 7 bókalistinn, sá fyrsti árið 2017 (til þæginda hef ég númerað listana):

1  Fictions  · Jorge Luis Borges
2  The Grass is Singing  · Doris Lessing
3  The Golden Notebook  · Doris Lessing
4  Captain Corelli's Mandolin  · Louis De Bernières
5  Instead of a Book: Letters to a Friend  · Diana Athill
6  Local Souls  · Allan Gurganus
7  Parísarhjól  · Sigurður Pálsson
8  Little Women  · Louisa May Alcott
9  In Montmartre: Picasso, Matisse and Modernism in Paris, 1900-1910  ·
Sue Roe


Ég er næstum því með samviskubit yfir því að hafa ekki lesið æviminningar Athill, Instead of a Letter, en þegar ég sá Instead of a Book á útsölu í Waterstones vissi ég að hún færi á listann minn. Í bókinni eru bréf sem hún skrifaði í yfir þrjátíu ár til ameríska ljóðskáldsins Edward Field, sem geymdi þau og vildi gefa út. Í innganginum bendir Athill gamansamlega á:
Usually when someone's letters are published the writer is dead. In this case there was a problem: Edward is six years younger than I am, but since I'm ninety-three that doesn't make him young. If he waited until I was dead he might be dead too. (bls. vii)
Hrós til rithöfunda sem fá mann til að skella upp úr í bókabúð! Ég hef aldrei lesið bók eftir höfundinn Gurganus. Ég keypti bókina hans eftir að hafa hlustað á samræður hans og Michael Silverblatt í Bookworm (þætti frá nóv. 2013) og endaði á því að hlusta á allar samræður þeirra. Ég var að hugsa um að setja hana upp í hillu og lesa fyrst Oldest Living Confederate Widow Tells All, en hún togaði í mig og fór á listann. Það gladdi mig að finna bók Roe á bókasafninu. Það eina sem ég get sagt um hana núna er að ég vildi að í henni væru fleiri myndir (á myndinni minni hér að ofan sést í málverk Modigliani, Caryatid, 1911).

Listaverk: Vanessa Bell, Nude with Poppies, 1916
Vanessa Bell, Nude with Poppies, 1916

Stundum vildi ég óska að ég byggi nær London. Þá gæti ég tekið næstu lest til að sjá Vanessa Bell sýninguna í Dulwich Picture Gallery sem opnar í dag (þangað er stutt lestarferð frá miðri London). Listakonan Vanessa Bell (1879–1961) tilheyrði bóhemíska Bloomsbury-hópnum og var systir Virginiu Woolf (ljósmyndin af henni sem sést á myndinni minni er tekin fyrir utan Charleston-setrið árið 1925). Sýningunni lýkur 4. júní. Í tengslum við sýninguna kemur út bókin Vanessa Bell (ritstj. Sarah Milroy, Philip Wilson Publishers) sem mig langar að eiga. Ef þið eruð Bell-aðdáendur þá langar mig að benda ykkur á safnaratölublað Harper's Bazaar UK, mars 2017, sem er eingöngu fáanlegt í gegnum Dulwich-safnið.

mynd mín | ljósmynd af Vanessu Bell er úr bókinni Charleston: A Bloomsbury House & Garden | málverk Amedeo Modigliani er úr bókinni In Montmartre © Musée d'Art Moderne de la Ville de Paris | málverk Bell er af vefsíðu Art UK © 1961 estate of Vanessa Bell, Henrietta Garnett, Swindon Art Gallery



fimmtudagur, 2. febrúar 2017

Map Stories eftir Francisca Mattéoli

Ritdómur: Map Stories eftir Francisca Mattéoli · Lísa Hjalt


Munið þið eftir ykkar fyrsta atlas, ykkar eigin? Fyrir utan myndir af hnettinum þá var forsíðan á mínum svört með hvítum stöfum. Ég var tíu eða ellefu ára og gleypti hann í mig. Landakort hafa undarlegt aðdráttarafl og virðast gefa von um stórkostleg ævintýri. Gömul landakort hafa alltaf heillað mig, sérstaklega þessi myndskreyttu sem eru landfræðilega kolröng. Myndir af sjávarskrímslum og seglskipum gera þau enn meira heillandi. Þið getið rétt ímyndað ykkur spenninginn þegar mér barst fyrir nokkrum mánuðum síðan eintak af nýrri bók, Map Stories: The Art of Discovery (Octopus (Ilex)). Höfundurinn Francisca Mattéoli sérhæfir sig í ferðaskrifum. Í bókinni notar hún tuttugu og þrjár sögur og frábært safn sögulegra landakorta til að halda með okkur á vit ævintýra um allan heiminn þar sem við hittum kortagerðarmenn, landfræðinga, könnuði og draumóramenn. Stundum fannst mér sem ég væri að stíga inn í vídd þar sem Bilbo Baggins hittir Indiana Jones.

Kort af Nílardal eftir Nicolas de Fer og gefið út 1720, bls. 44-45

Mattéoli er ekki fræðingur á sviði landafræði og bók hennar er ekki hugsuð sem fræðirit. Í formálanum skrifar hún: „Þetta er bók sem býður lesandanum í ferðalag frá landakorti til landakorts til að hleypa ímyndunaraflinu lausu“ (bls. 7). Það er einmitt þar sem gerir bókina heillandi.

Ferðalag Mattéoli byrjar með enduruppgötvun hinnar týndu borgar Petru og endar í Kína eftir för um Silkiveginn. Þar á milli erum við á slóð Inkanna, á hinum dularfulla stað Machu Picchu; í kappinu á Suðurpólinn; á Þjóðvegi 66; í leit að upptökum Nílar; um borð í Austurlandahraðlestinni; kannski að velta því fyrir okkur hvort skrímslið Nessie leynist einhvers staðar í Loch Ness. Þetta er bara brot af áfangastöðunum.

Heimskort feneyska munksins Fra Mauro, ca. 1449, bls. 100-101

Það veltur alfarið á áhugasviði ykkar og sögulegri þekkingu hvort sumar sögur Mattéoli hljómi kunnuglegri en aðrar og hvort þær kenni ykkur eitthvað nýtt. Sérstakan áhuga hjá mér vakti sú um leitina að upptökum Nílarárinnar - leiðangur Richard Burton og John Speke - sem minnir meira á ráðgátu með dramatískum endi. Eftirfarandi lýsing er fengin af ljósmynd af kortaherbergi í Hinu konunglega landfræðifélagi (Royal Geographical Society):
[It] is plunged in a dusty half-light and decorated with maps, as one might expect. An enormous terrestrial globe fills one corner. On the upper floor, dark wood shelves are stacked with carefully arranged documents and books. On the ground floor, two large display cabinets protect the most precious objects and on a long table standing in the center of the room, pages lie spread out as if waiting to be consulted by some very serious gentleman. This was the setting that would soon be at the heart of the scandal. It was here, or at least in a similar room of this distinguished institution founded in 1830 that, around a hundred years ago, a disagreement broke out regarding the source of this fabled river, which would soon turn into a downright controversy and then a brutal confrontation. (bls. 42)

Kort af Síle (Chile), 1884, bls. 157

Með aðstoð Mattéoli hittum við ævintýramenn eins og Thomas Edward Lawrence, eða sjálfan Arabíu-Lawrence, norska landkönnuðinn Roald Amundsen, sem fyrstur náði á suðurskautið, og Peter Fleming (bróðir Ian Fleming), sem árið 1932 tók þátt í Amazon-leiðangri eftir að hafa séð auglýsingu í The Times (bók hans Brazilian Adventure, sem kom út 1933, er enn í prentun).

Map Stories gerir okkur kleift að dást að verkum frægra kortagerðarmanna og má þar nefna: Fra Mauro (sjá mynd mína hér að ofan), Fernão (Fernando) Vaz Dourado, Nicolas de Fer (sjá kort að ofan af Nílardal), Willem Blaeu og son hans Joan, Martin Behaim, Pedro Reinel og Lopo Homem, Jodocus Hondius, Guillaume Le Testu og John Speed.

Í bókinni er eitthvað fyrir alla. Og ef þið standið sjálf ykkur að því að fletta upp gömlum ferðakoffortum á netinu, eða öðrum gömlum munum sem tengjast ferðalögum, þá skil ég ykkur fullkomlega.

Kort af Suðurpólnum, 1912, bls. 120-121

Einkum er ég hrifin af hönnun bókarinnar sem er falleg viðbót í safnið á kaffiborðinu. Kortið á forsíðunni er upphleypt og innri kápan er gamalt landakort með teikningum af helstu fjöllum og ám ásamt upptökum og ósum (sjá kort). Uppsetning textans er skýr og efst á vinstri blaðsíðum eru hnit þess staðar sem um ræðir. Landakortin eru ýmist á einni blaðsíðu eða á opnu. Mig langaði að klippa sum út og ramma inn sem því miður hefði skemmt bókina.

Rithöfundurinn Francisca Mattéoli
Francisca Mattéoli er höfundur margra ferðatengdra bóka sem hafa verið þýddar á mörg tungumál. Hún hefur einnig skrifað ferðagreinar fyrir tímarit eins og National Geographic, Condé Nast Traveller og Air France Magazine. Hún heldur einnig úti bloggi á frönsku og ensku. Hún býr í París en ólst að vísu upp í Suður-Ameríku með síleskt þjóðerni (móðir er skosk). Hún vinnur nú þegar að sinni næstu bók.


Map Stories: The Art of Discovery
Höf. Francisca Mattéoli
Octopus
Innbundin, 176 blaðsíður, myndskreytt
Kaupa


Brot af Evrópukorti, notað í kennslu á grunnskólastigi, frá árinu 1880, bls. 143

myndir mínar | fyrir utan nr. 2, 4-6, birtar með leyfi Octopus Publishing Group (nr. 5 í breyttu formi) | landakort - heimildir: nr. 1 (forsíða) © akg-images/North Wind Picture Archives; nr. 2, 4-5, 7 © Bibliothèque Nationale de France; nr. 3 © akg-images/British Library