föstudagur, 9. september 2016

Nýjar kaffiborðsbækur

Nýjar kaffiborðsbækur · Lísa Hjalt


Það er nú ekki haustlegt um að litast hér við vesturströnd Skotlands en samt er ég komin í örlítinn haustgír. Ég er byrjuð að kveikja á kertum á morgnana og einstaka sinnum kveiki ég upp í arninum, bara í stutta stund. Bráðum gef ég sumarskyrtunum frí og dreg fram hlýjar peysur og sjöl í dekkri tónum. Ég er líka farin að huga að nýjum kaffiborðsbókum en útgáfa slíkra bóka er ávallt blómleg að hausti. Mig langar að deila með ykkur listanum yfir þær sem ég hef í sjónmáli.


· Nomad Deluxe: Wandering with a Purpose eftir Herbert Ypma. Þessi var að vísu gefin út fyrr á árinu en fangaði athygli mína nýverið. Þær ljósmyndir Ypma sem eru aðgengilegar á vefsíðu Assouline-útgáfunnar eru glæsilegar.
· Neisha Crosland: Life of a Pattern eftir Neisha Crosland. Bók eftir textílhönnuð full af mynstrum ... orð eru óþörf.
· Map Stories: The Art of Discovery eftir Francisca Mattéoli. Þessi bók er áreiðanlega gersemi fyrir þá sem hrífast af gömlum landakortum. Hún var gefin út á frönsku í fyrra en er loksins að koma út í enskri útgáfu. Ef þið þekkið ekki til verka Mattéoli þá getið þið kíkt á bloggið hennar, sem hún skrifar á bæði frönsku og ensku.
· Cecil Beaton at Home: An Interior Life eftir Andrew Ginger. Ég get ekki beðið að fletta í gegnum þessa. Ég held að hún eigi eftir að enda á kaffiborðinu mínu einn daginn.
· François Catroux eftir David Netto. Ég held að bók um hönnun Catroux hafi verið tímabær. Ég deildi einu sinni á ensku útgáfu bloggsins innliti á heimili Lauren Santo Domingo í París sem Catroux hannaði. Eitt af mínum uppáhaldsinnlitum er í íbúð hans í París.
· Urban Jungle: Living and Styling with Plants eftir Igor Josifovic + Judith de Graaff. Igor er kær bloggvinur minn og það er virkilega spennandi að sjá bókina hans loks koma út. Á bloggi sínu Happy Interior Blog deildi hann nokkrum myndum þar sem skyggnast má á bakvið tjöldin þegar vinnan við bókina stóð yfir.
· Wanderlust: Interiors That Bring the World Home eftir Michelle Nussbaumer. Textílhjartað mitt er þegar byrjað að slá hraðar. Sjá meira hér að neðan.
· Ottolenghi: The Cookbook eftir Yotam Ottolenghi + Sami Tamimi. Þetta er ný útgáfa af bókinni sem kom fyrst út árið 2008. Ekki beint kaffiborðsbók en bók þeirra Jerusalem er ein af þeim sem endar reglulega á mínu því hún er meira en bara uppskriftabók.

Það er ekki tilgangur minn að gera upp á milli bókanna á listanum en þegar ég sá textílinn og litapalettuna í svefnherbergi hönnuðarins Michelle Nussbaumer, á heimili hennar í Sviss, þá varð ég að deila henni hér. (Ég held að þessa mynd sé að finna í bókinni en í henni er m.a. skyggst inn á heimili hennar í Sviss og Texas.) Það er kúnst að raða mismunandi mynstrum saman þannig að útkoman verði smekkleg og það er óhætt að segja að Nussbaumer fari létt með það. Þær myndir sem ég hef séð af hönnun hennar eiga það sameiginlegt að vera ríkar af antíkmunum, mynstruðum textíl og munum frá framandi löndum. Hún rekur gríðarlega vinsæla hönnunarbúð í Dallas, Ceylon et Cie.

Mynstraður textíll í svefnherbergi hönnuðarins Michelle Nussbaumer

1: mynd mín | 2: mynd af svefnherbergi · Melanie Acevedo af vefsíðu WSJEngin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.