Sýnir færslur með efnisorðinu kaffiborðsbækur. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu kaffiborðsbækur. Sýna allar færslur

sunnudagur, 19. apríl 2020

Art of Native America: The Charles and Valerie Diker Collection · The Met Museum

Bókarkápa: Art of Native America: The Charles and Valerie Diker Collection - The Met Museum


Ég var innblásin af náminu mínu í safnafræði þegar ég valdi bókarkápu Art of Native America: The Charles and Valerie Diker Collection (2018) fyrir þessa fyrstu bloggfærslu eftir margra vikna hlé. Á önninni sat ég í kúrsi sem kallast „Safn og samfélag: Sirkus dauðans?“ þar sem við lásum meðal annars um safnastarf í samfélögum Hopi- og Zuni-frumbyggja í Norður-Ameríku. Fyrir utan að lesa námsbækur og fræðigreinar skoðaði ég efni um varðveislu á vefsíðum safna og í þeirri leit fann ég þessa fallegu útgáfu frá Metropolitan Museum of Art. Í safneign Charles og Valerie Diker eru gripir frá meira en fimmtíu menningarheimum N-Ameríku, sem spanna tímabilið frá því áður en hvíti maðurinn nam land til fyrri hluta 20. aldar. Bókin veitir innsýn í list, menningu og daglegt líf í frumbyggjasamfélögum.

Kápumynd, smáatriði: mussa/kyrtill og legghlífar eftir Tlingit-listamann.


Art of Native America: The Charles and Valerie Diker Collection
Höf. Gaylord Torrence, Ned Blackhawk og Sylvia Yount
Innbundin, 232 blaðsíður, myndskreytt
ISBN: 9781588396624
Metropolitan Museum of Art



Hluti af yfirhöfn karlmanns, ca 1820, Innu (Naskapi), frumbyggjar N-Ameríku/The Met
Hluti af yfirhöfn karlmanns, ca. 1820, Innu (Naskapi), frumbyggjar N-Ameríku/The Met

Í desember þegar ég deildi fyrstu bókarkápufærslunni hélt ég í alvörunni að ég gæti notað þessar færslur til að halda blogginu lifandi á meðan ég væri í námi. En ég hef áttað mig á því að það er ómögulegt þegar lífið einkennist af skiladögum verkefna ofan á lestur fyrir hvern fyrirlestur. Það koma tímabil þar sem tilfinningin er sú að maður komi varla upp til að anda.

Bókarkápa: Museum as Process eftir Raymond A. Silverman · Lísa Stefan

Vegna kórónuveirufaraldursins hefur þessi önn verið skrýtin. Hún er næstum búin og hér í Austurríki hefur aðeins verið slakað á reglum um samkomubann. Því miður eru öll söfn enn lokuð þannig að ég hef hætt að gera mér vonir um að starfa sem nemi á safni í sumar. En góðu fréttirnar eru þær að enginn náinn mér hefur smitast og ég vona að blogglesendur mínir geti sagt hið sama. Farið vel með ykkur!

Mynd af yfirhöfn karlmanns af vefsíðu The Met



miðvikudagur, 8. janúar 2020

Legacy of the Masters: Painting and Calligraphy from the Islamic World · Will Kwiatkowski

Legacy of the Masters: Painting and Calligraphy from the Islamic World (PHP) eftir Will Kwiatkowski · Lísa Hjalt


Ég vil byrja nýja árið á blogginu með bókarkápu sem fékk hönnunarhjartað til að slá aðeins hraðar. Legacy of the Masters: Painting and Calligraphy from the Islamic World eftir Will Kwiatkowski var gefin út í október síðastliðnum af bókaútgáfunni Paul Holberton Publishing. Bókin hefur að geyma 75 myndir í lit af málverkum, teikningum og skrautskrift frá Safavíd-, Úsbek-, Ottóman- og Mógúl-veldunum frá 16. öld þar til snemma á 19. öld. Þessi bók nyti sín vel á kaffiborði alls áhugafólks um skreytilist og íslamska menningu.

Legacy of the Masters: Painting and Calligraphy from the Islamic World
Höf. Will Kwiatkowski
Innbundin, 192 blaðsíður, myndskreytt
ISBN: 9781911300731
Paul Holberton Publishing



sunnudagur, 31. desember 2017

Nýjar bækur | Gleðilegt nýtt ár

Nýjar bækur · Lísa Stefan


Á þessum síðasta degi ársins sit ég við tölvuna með mynstraðan túrban á höfðinu, jólabjór í glasi og tortilla-flögur í skál. Steikin er á hægeldun í ofninum, gengið mitt er að horfa á Hobbitann og ekkert betra fyrir mig að gera en að blogga um nýjar bækur. Ég ætlaði að deila þessari færslu fyrr í desember en vegna tímaleysis ýtti ég henni til hliðar. Um jólin fór hún að leita á mig og þar sem flestar bækurnar á listanum, skáldverk og kaffiborðsbækur, voru gefnar út árið 2017 þá fannst mér ég eiginlega þurfa að deila henni áður en nýja árið gengi í garð. Ég er ekkert að eyða tíma í athugasemdir við hverja bók þar sem allir hlekkirnir fyrir utan einn eru á vefsíður útgefenda, þar sem þið finnið stutta kynningu á þeim öllum. Ég geri ráð fyrir því að allar bækurnar á listanum fyrir ofan smámyndirnar muni einn daginn rata á bókalista hér á blogginu því mig langar að lesa þær allar. Ég óska ykkur friðar á komandi ári.

Nýjar bækur:
· Spy of the First Person  eftir Sam Shepard (Knopf). Síðasta verkið fyrir andlát hans í júlí á þessu ári.
· Debriefing: Collected Stories  eftir Susan Sontag (FSG). Ritstj. Benjamin Taylor.
· Sing, Unburied, Sing  eftir Jesmyn Ward (Bloomsbury). Bókin sem hlaut National Book Award 2017.
· The Origin of Others  eftir Toni Morrison (Harvard UP).
· In Search of Ancient North Africa: A History in Six Lives  eftir Barnaby Rogerson (Haus Publishing).
· The Rub of Time  eftir Martin Amis (Random House).
· Philip Roth: Why Write? Collected Nonfiction 1960-2013  eftir Philip Roth (Library of America).


· Persian Art: Collecting the Arts of Iran for the V&A  eftir Moya Carey (V&A).
· Modern Art in Detail: 75 Masterpieces  eftir Susie Hodge (Thames & Hudson).
· Henri Cartier-Bresson: The Decisive Moment  eftir Henri Cartier-Bresson (Steidl). Endurútgáfa bókar frá árinu 1952 sem geymir bestu verk Cartier-Bresson. Forsíðan er eftir Henri Matisse.
· The Atlas of Beauty: Women of the World in 500 Portraits  eftir Mihaela Noroc (Penguin).
· Morris  eftir Charlotte and Peter Fiell (Taschen). Ríkulega myndskreytt bók um ævi og störf hönnuðarins William Morris (1834-1896).
· Map Cities: Histoires de cartes  eftir Francisca Mattéoli (Chêne). Eingöngu fáanleg á frönsku en verður vonandi þýdd á ensku síðar. Ég hef fjallað um Map Stories eftir Mattéoli hér á blogginu.
· Haute Bohemians  eftir Miguel Flores-Vianna (Vendome Press).

Úr bókinni Haute Bohemians eftir Miguel Flores-Vianna, bls. 80-81, Vendome Press



mánudagur, 10. apríl 2017

Samtal við textílhönnuðinn Lisa Fine

Samtal við textílhönnuðinn Lisa Fine · Lísa Stefan


Þessi orð eru höfð eftir bandaríska ljósmyndaranum, Ansel Adams heitinum: „You don't make a photograph just with a camera. You bring to the act of photography all the pictures you have seen, the books you have read, the music you have heard, the people you have loved.“ Orð hans eiga við hvers kyns skapandi listir og ég notaði þau til að hefja samræður við textílhönnuðinn Lisa Fine í gegnum tölvupóst. Á blogginu hef ég þegar lýst henni sem hönnuði með skilning á sögu og stend við þau orð. Hún er lagin með liti og mynstur; það virðist sem hvert efni frá Lisa Fine Textiles segi sögu. Hún er fædd og uppalin í Mississippi. Nú býr hún í New York ásamt hundunum sínum og ferðast víða, oft til Indlands eða annarra framandi staða. Smálistaverk hafa innblásið feril hennar, einnig listmálarinn Henri Matisse.

Þar sem umræðuefnið er ekki flókið finnst mér óþarfi að þýða svör hennar yfir á íslensku. Þar sem það er mögulegt, einnig í beinum tilvísunum, hef ég sett inn tengla á t.d. stuttar ritgerðir á vefsíðum listasafna sem mér fannst áhugaverðar og fræðandi. Fyrir utan málverkin eftir Matisse valdi ég myndirnar í færslunni.

[Mynstur frá Lisa Fine Textiles sem sjást á efstu myndinni (smellið fyrir nánari
upplýsingar): Cairo, Kashgar, Luxor, Malabar, Malula, Mandalay, Pasha og
Rajkot. Sjá bækur neðar í færslunni]

Persneskt smálistaverk: Mir Sayyid 'Ali, Night-time in a City,
ca. 1540, Tabriz, Íran, Safavíd-tímabilið

Svo við víkjum aftur að orðum Adams, hvað hefur sett mark sitt á hönnuðinn Lisa Fine (í ljósi alls sem hún hefur uppgötvað í gegnum vinnu sína og ferðalög).
LF: My life is very much about people, however, books and art not only inspire and teach but are the best refuge.

My favorite painter is Matisse. I love his mix of color and pattern, especially in his orientalist portraits. Irving & Fine [samstarf við textílhönnuðinn Carolina Irving] peasant blouses were very much inspired by his work. I also love the Fauvism movement.
Tveir aðrir listamenn eru einnig í uppáhaldi hjá henni, Kees Van Dongen og Amedeo Modigliani.

Henri Matisse, Zorah on the Terrace, 1912

Hún á ekki eitt uppáhaldsverk eftir Matisse en sagði: „I love his Moroccan period most, especially the portraits.“ Síðar fann ég verk hans Zorah on the Terrace í pósthólfinu mínu með orðunum: „Love Moroccan portraits.“ Hin tvö verkin eftir Matisse fylgdu á eftir, verkið hér að neðan með orðunum: „Love odalisque series.“

fimmtudagur, 2. febrúar 2017

Map Stories eftir Francisca Mattéoli

Ritdómur: Map Stories eftir Francisca Mattéoli · Lísa Stefan


Munið þið eftir ykkar fyrsta atlas, ykkar eigin? Fyrir utan myndir af hnettinum þá var forsíðan á mínum svört með hvítum stöfum. Ég var tíu eða ellefu ára og gleypti hann í mig. Landakort hafa undarlegt aðdráttarafl og virðast gefa von um stórkostleg ævintýri. Gömul landakort hafa alltaf heillað mig, sérstaklega þessi myndskreyttu sem eru landfræðilega kolröng. Myndir af sjávarskrímslum og seglskipum gera þau enn meira heillandi. Þið getið rétt ímyndað ykkur spenninginn þegar mér barst fyrir nokkrum mánuðum síðan eintak af nýrri bók, Map Stories: The Art of Discovery (Octopus (Ilex)). Höfundurinn Francisca Mattéoli sérhæfir sig í ferðaskrifum. Í bókinni notar hún tuttugu og þrjár sögur og frábært safn sögulegra landakorta til að halda með okkur á vit ævintýra um allan heiminn þar sem við hittum kortagerðarmenn, landfræðinga, könnuði og draumóramenn. Stundum fannst mér sem ég væri að stíga inn í vídd þar sem Bilbo Baggins hittir Indiana Jones.

Kort af Nílardal eftir Nicolas de Fer og gefið út 1720, bls. 44-45

Mattéoli er ekki fræðingur á sviði landafræði og bók hennar er ekki hugsuð sem fræðirit. Í formálanum skrifar hún: „Þetta er bók sem býður lesandanum í ferðalag frá landakorti til landakorts til að hleypa ímyndunaraflinu lausu“ (bls. 7). Það er einmitt þar sem gerir bókina heillandi.

Ferðalag Mattéoli byrjar með enduruppgötvun hinnar týndu borgar Petru og endar í Kína eftir för um Silkiveginn. Þar á milli erum við á slóð Inkanna, á hinum dularfulla stað Machu Picchu; í kappinu á Suðurpólinn; á Þjóðvegi 66; í leit að upptökum Nílar; um borð í Austurlandahraðlestinni; kannski að velta því fyrir okkur hvort skrímslið Nessie leynist einhvers staðar í Loch Ness. Þetta er bara brot af áfangastöðunum.

Heimskort feneyska munksins Fra Mauro, ca. 1449, bls. 100-101

Það veltur alfarið á áhugasviði ykkar og sögulegri þekkingu hvort sumar sögur Mattéoli hljómi kunnuglegri en aðrar og hvort þær kenni ykkur eitthvað nýtt. Sérstakan áhuga hjá mér vakti sú um leitina að upptökum Nílarárinnar - leiðangur Richard Burton og John Speke - sem minnir meira á ráðgátu með dramatískum endi. Eftirfarandi lýsing er fengin af ljósmynd af kortaherbergi í Hinu konunglega landfræðifélagi (Royal Geographical Society):
[It] is plunged in a dusty half-light and decorated with maps, as one might expect. An enormous terrestrial globe fills one corner. On the upper floor, dark wood shelves are stacked with carefully arranged documents and books. On the ground floor, two large display cabinets protect the most precious objects and on a long table standing in the center of the room, pages lie spread out as if waiting to be consulted by some very serious gentleman. This was the setting that would soon be at the heart of the scandal. It was here, or at least in a similar room of this distinguished institution founded in 1830 that, around a hundred years ago, a disagreement broke out regarding the source of this fabled river, which would soon turn into a downright controversy and then a brutal confrontation. (bls. 42)

Kort af Síle (Chile), 1884, bls. 157

Með aðstoð Mattéoli hittum við ævintýramenn eins og Thomas Edward Lawrence, eða sjálfan Arabíu-Lawrence, norska landkönnuðinn Roald Amundsen, sem fyrstur náði á suðurskautið, og Peter Fleming (bróðir Ian Fleming), sem árið 1932 tók þátt í Amazon-leiðangri eftir að hafa séð auglýsingu í The Times (bók hans Brazilian Adventure, sem kom út 1933, er enn í prentun).

Map Stories gerir okkur kleift að dást að verkum frægra kortagerðarmanna og má þar nefna: Fra Mauro (sjá mynd mína hér að ofan), Fernão (Fernando) Vaz Dourado, Nicolas de Fer (sjá kort að ofan af Nílardal), Willem Blaeu og son hans Joan, Martin Behaim, Pedro Reinel og Lopo Homem, Jodocus Hondius, Guillaume Le Testu og John Speed.

Í bókinni er eitthvað fyrir alla. Og ef þið standið sjálf ykkur að því að fletta upp gömlum ferðakoffortum á netinu, eða öðrum gömlum munum sem tengjast ferðalögum, þá skil ég ykkur fullkomlega.

Kort af Suðurpólnum, 1912, bls. 120-121

Einkum er ég hrifin af hönnun bókarinnar sem er falleg viðbót í safnið á kaffiborðinu. Kortið á forsíðunni er upphleypt og innri kápan er gamalt landakort með teikningum af helstu fjöllum og ám ásamt upptökum og ósum (sjá kort). Uppsetning textans er skýr og efst á vinstri blaðsíðum eru hnit þess staðar sem um ræðir. Landakortin eru ýmist á einni blaðsíðu eða á opnu. Mig langaði að klippa sum út og ramma inn sem því miður hefði skemmt bókina.

Rithöfundurinn Francisca Mattéoli
Francisca Mattéoli er höfundur margra ferðatengdra bóka sem hafa verið þýddar á mörg tungumál. Hún hefur einnig skrifað ferðagreinar fyrir tímarit eins og National Geographic, Condé Nast Traveller og Air France Magazine. Hún heldur einnig úti bloggi á frönsku og ensku. Hún býr í París en ólst að vísu upp í Suður-Ameríku með síleskt þjóðerni (móðir er skosk). Hún vinnur nú þegar að sinni næstu bók.


Map Stories: The Art of Discovery
Höf. Francisca Mattéoli
Innbundin, 176 blaðsíður, myndskreytt
Octopus


Brot af Evrópukorti, notað í kennslu á grunnskólastigi, frá árinu 1880, bls. 143

Landakortin úr bókinni eru birt með leyfi Octopus Publishing Group (nr. 5 í breyttu formi) | Landakort - heimildir: nr. 1 (forsíða) © akg-images/North Wind Picture Archives; nr. 2, 4-5, 7 © Bibliothèque Nationale de France; nr. 3 © akg-images/British Library



föstudagur, 20. janúar 2017

Kaffiborðsbækur | Bitten by Witch Fever

Kaffiborðsbækur | Bitten by Witch Fever · Lísa Stefan


Nýverið nefndi ég að ég væri með nokkrar kaffiborðsbækur í augsýn. Sumar eru þegar fáanlegar, aðrar koma fljótlega eða í vor, eins og Hokusai: Beyond the Great Wave. Á listanum er ein sem ég er þegar byrjuð að lesa með miklum áhuga, Bitten by Witch Fever: Wallpaper & Arsenic in the Victorian Home eftir Lucinda Hawksley, sem var jólagjöf frá vinkonu. Í bókinni eru kynntar 275 prufur af veggfóðri sem voru rannsakaðar og reyndust innihalda arsenik.

Mig hefur langað að bæta við nýrri listabók á kaffiborðið mitt og ég held að ég hafi fundið þá réttu, Hokusai: Beyond the Great Wave. Í bókinni eru 300 myndir af verkum japanska listamannsins Katsushika Hokusai (1760–1849), sem hann skapaði á síðustu þrjátíu árum ævi sinnar. Útgáfa bókarinnar (snemma í maí) á sér stað samhliða sýningu sem opnar í British Museum þann 25. maí, og lýkur í ágúst. Það sem mig langar að komast til London til að sjá sýninguna og eyða nokkrum dögum í Bloomsbury-hverfinu.

Listaverk: Katsushika Hokusai
Katsushika Hokusai, Clear day with a southern breeze (Red Fuji), 1831

Við skulum kíkja á listann yfir kaffiborðsbækurnar, í handahófskenndri röð með stuttum athugasemdum við hverja (kannski hafið þið séð einhverjar hér til hliðar á blogginu):


· The Japanese House: Architecture and Life: 1945 to 2017  eftir Pippo Ciorra og Florence Ostende (Marsilio). Ef arkitektúr er ástríða ykkar þá tekur þessi yfirgripsmikla bók fyrir japanskan arkitektúr frá tímum síðari heimsstyrjaldarinnar til nútímans.
· The Long Life of Design in Italy: B&B Italia. 50 Years and Beyond  eftir Stefano Casciani (Skira). Árið 1966 stofnaði Piero Ambrogio Busnelli ítalska húsgagnafyrirtækið B&B Italia og núna getum við notið sögu þess í fallegu riti (sjá stutt myndband á vefsíðu þeirra).
· Blumarine: Anna Molinari eftir Elena Loewenthal, í ritstjórn Maria Luisa Frisa (Rizzoli). Drottning rósarinnar, hönnuðurinn Anna Molinari, hjá ítalska tískuhúsinu Blumarine á marga aðdáendur. Ég held að margt áhugafólk um tísku bíði eftir útgáfu þessarar bókar, sem inniheldur ljósmyndir eftir menn eins og Helmut Newton, Tim Walker, Albert Watson og Craig McDean. Ég myndi kaupa hana bara vegna bókarkápunnar!
· Adobe Houses: House of Sun and Earth  eftir Kathryn Masson (Rizzoli). Mig langar að komast yfir þessa sem sýnir 23 heimili í Kaliforníu, innan- og utandyra. Adobe-hús með hvítþvegnum veggjum og sýnilegum bjálkum ... já takk.
· Art House: The Collaboration of Chara Schreyer & Gary Hutton  eftir Alisa Carroll (Assouline). Myndræn veisla: fimm heimili hönnuð með það að markmiði að rúma 600 listaverk, samstarf listaverkasafnarans Schreyer og innanhússhönnuðarins Hutton.
· Flourish: Stunning Arrangements with Flowers and Foliage  eftir Willow Crossley (Kyle Books). Ef ykkur langar að endurskreyta heimilið með blómum þá er ég viss um að þið getið sótt innblástur í bók Willow Crossley, sem Emma Mitchell ljósmyndaði fallega.
· Around That Time: Horst at Home in Vogue  eftir Valentine Lawford og Ivan Shaw (Abrams Books). Ég hef ekki enn fundið þessa í bókabúð, bara séð umfjöllun í tímaritum (það glittir í eina á neðstu myndinni). Bókin inniheldur, meðal annars, ljósmyndir eftir Horst P. Horst sem birtust í Vogue's Book of Houses, Gardens, People frá árinu 1968 (lífsförunautur hans Valentine Lawford skrifaði textann). Formála bókarinnar skrifar Hamish Bowles hjá Vogue. Sjá meira hér.
· Bitten by Witch Fever: Wallpaper & Arsenic in the Victorian Home  eftir Lucinda Hawksley (Thames & Hudson, gefin út í samstarfi við The National Archives). Fyrrnefnd bók sem sýnir 275 prufur af veggfóðri eftir hönnuði eins og Corbière, Son & Brindle, Christopher Dresser og Morris & Co. (Sjá meira hér að neðan.)
· Hokusai: Beyond the Great Wave  eftir Timothy Clark, Shugo Asano og Roger Keyes (Thames & Hudson). Fyrrnefnd bók um japanska listamanninn Katsushika Hokusai sem inniheldur verk sem hann skapaði á síðustu þrjátíu æviárunum. Í bókinni fær dóttir hans Eijo (Ōi) löngu tímabæra athygli, en hún telst til listamanna Edo-tímabilsins, á síðari hluta 19. aldar. Útgáfa bókarinnar á sér stað samhliða sýningu í British Museum sem opnar í maí.

Listaverk: brot af verki eftir Hokusai
Brot af verki Hokusai, The poet Rihaku lost in wonder at the majesty of the great waterfall

Ég varð að birta hér myndir af tveimur verkum Hokusai í því sem líklega útleggst á íslensku sem viðarprent (e. woodblock printing). Ferill hans spannaði sjö áratugi en flestir þekkja til verkanna sem hann skapaði á síðari hluta ævinnar. Blái liturinn, hinn prússneski blái, eins og hann kallast, hefur alltaf heillað mig og laðað mig að verkum Hokusai.

Fyrir þá sem hafa áhuga á skoða fleiri verk eftir Hokusai (eða annað listafólk) þá má finna gott yfirlit verka hans á vefsíðu Artsy og ritstjórnargrein með skemmtilegum staðreyndum. Artsy er vefsíða sem ég bætti bara nýlega á listann minn og varð strax í uppáhaldi (þau eru líka með hlaðvarp). Stefna Artsy er að gera alla list heimsins aðgengilega þeim sem hafa netaðgang.

„Blue Bird Amongst the Strawberries“, mynstur eftir Charles F. A. Voysey, minnir á hið þekkta
„Strawberry Thief“ frá 1883 eftir William Morris. Úr bókinni Bitten by Witch Fever, bls. 131

Við lestur Bitten by Witch Fever: Wallpaper & Arsenic in the Victorian Home, sem ég er enn að lesa, hef ég gert mér grein fyrir því að ég hafði ekki hugmynd um að eitraðir litir hefðu verið notaðir til að hanna veggfóður án þess að það teldist hættulegt (það var Carl Wilhelm Scheele sem árið 1775 notaði arsenik til að búa til grænan lit, Scheele's Green, sem varð vinsæll og var t.d. notaður til að búa til skæran grænan lit fyrir veggfóður):
Many dismissed as ludicrous the doctors who held that the wallpapers were poisonous, including English wallpaper designer William Morris, who stated that they 'were bitten as people were bitten by the witch fever'. (bls. 7)
Ég varð að fletta upp í síðasta kaflanum til að komast að því að veggfóður laus við arsenik voru ekki framleidd í Bretlandi fyrr en 1859, án þess að almenningur veitti því sérstaka eftirtekt. Þar var ekki fyrr en upp úr 1870 að Morris & Co. „létu loksins undan þrýstingi almennings“ og þá varð það „stórfrétt“ (bls. 226). Þessi bók er svo sannarlega áhugaverð svo ekki sé minnst á fallega hönnun: Það eru sjö stuttir kaflar - í útliti eins og bæklingar - á milli kafla með mynstrum í litaröð, sem sýna veggfóðrin sem voru rannsökuð.

Kaffiborðsbækur | Bitten by Witch Fever, veggfóður · Lísa Stefan
Ljósgrænn. Corbière, Son & Brindle, London, UK, 1879. Bitten by Witch Fever,
Mynsturkafli V, bls. 141

Katsushika Hokusai listaverk af vefsíðum: 1. The British Museum, 2. Thames & Hudson Útgáfulisti vor 2017



föstudagur, 28. október 2016

Lestrarstund með persanum mínum

Lestrarstund með persanum mínum · Lísa Stefan


Ég hef komið mér upp föstudagsrútínu sem mér er farið að þykja vænt um. Á ákveðnum tíma skelli ég mér í þægileg föt og snyrti heimilið fyrir helgina og tek svo kaffipásu. Á þessum punkti birtist yfirleitt persakötturinn okkar, hoppar upp á borðið, treður sér á milli bókanna og tekur sér góðan tíma að finna rétta staðinn. Hann liggur og fylgist með mér á meðan ég les og drekk kaffi og við „spjöllum“ saman. Hann byrjar að mala og ég strýk honum, svo rís hann upp, snýst í hringi þar til hann finnur rétta staðinn aftur og sofnar; sefur í nokkrar klukkustundir á sama stað. Ég tók myndina af honum um hádegisbilið í dag og klukkan er um hálftíu um kvöld og hann sefur þarna enn! Eftir að börnin komu heim úr skólanum voru þau að horfa á Netflix í stofunni og það hafði engin áhrif á hann, hann lætur ekkert trufla sig. Dásamlegur.

Í dag var ég að lesa tvær bækur: Pósturinn kom loksins með Avid Reader: A Life, æviminningar ritstjórans Robert Gottlieb sem ég setti á nýjasta bókalistann (№ 5). Síðasta föstudag, klukkutíma eða svo eftir að ég deildi listanum á blogginu, hringdi bjallan og póstmaðurinn færði mér pakka: gjöf frá höfundinum Francisca Mattéoli, eintak af nýjustu bók hennar: Map Stories: The Art of Discovery - svo falleg bók með gömlum landakortum og skemmtilegum sögum. Það er virkilega gaman að lesa hana; ég ætla að fjalla um hana á blogginu síðar.

Góða helgi!